Lítur vel út með maí

Í gær mældist mesti hiti sem enn hefur komið í vor í Reykjavík, 16,3 stig. Þetta gerðist seint að deginum, um kl. 18 eftir að vindur hafði snúist í norður úr vestri, en þremur tímum fyrr var hitinn aðeins tólf stig. Hitinn hélst vel fram eftir kvöldi, var enn 14 stig kl. 21. Meðalhiti sólarhringsins var einnig sá mesti sem enn hefur komið, 11,0 stig, 3,6 stig yfir dagsmeðaltali. Ekki dró úr blíðunni að sólin skein lengur en verið hefur, sem sagt allan guðslangan daginn, í 17 klukkustundir. Hámarkshitinn er sá mesti sem mælst hefur í Reykjavík þennan dag en það segir kannski ekki mikið því meiri hiti, jafnvel yfir 20 stig, hefur mælst allmarga daga fyrr í mánuðinum eins og sjá mér hér.  Þá hefur hiti enn ekki náð 20 stigum neins staðar á landinu á kvikasilfursmæli.

Mesti hiti sem mælst hefur þannig á landinu þennan dag er 23 stig og um þetta leyti 26 stig.

Maí lítur annars vel út í höfuðborginni. Meðalhitinn er kominn upp í 7,8 stig eða 1,6 stig yfir meðallagi. Fyrstu vikuna var sól af skornum skammti en síðan hefur mikið ræst úr og eru þær orðnar um 142 og eiga mjög líklega eftir að fara upp fyrir mánaðarmeðaltalið áður en yfir lýkur. Úrkoma hefur lítil verið hingað til. 

Við Breiðafjörð og á Vestfjörðum virðist hitinn vera um  tvö stig yfir meðallagi þar sem af er. En kringum þrjú stig yfir meðallagi á Kirkjubæjarklaustri þar sem meðalhitinn er nú 9,2 stig. Svo hár meðalhiti er sjaldgæfur í maí á landinu og hefur ekki verið á Kirkjubæjarklaustri síðan 1946 en mögulega heldur stöðin níu stigunum til mánaðarloka 

Næstu daga verður enn hlýtt á suðurlandi en síðan rysjóttara. Meðalhiti í Reykjavík gæti þó mjakast upp í 8 stig en varla mikið meira en það.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er annars sérkennilegt hvað hitafar í einstökum mánuðum virðist stundum breytast snögglega frá því sem verið hefur árin á undan. Þar til 2008 hafði maí eiginlega "setið eftir" hvað hlýnun snertir í Reykjavík en hinsvegar höfðu komið margir afar hlýir apríl- og júnímánuðir árin á undan. En 2008 kom skyndilega fyrsti virkilega hlýi maí í Reykjavík síðan 1974. Og það var ekki að sökum að spyrja: 2009 og 2010 urðu líka hlýir, þ.e. 3. og 2. hlýjasti maí í Reykjavík eftir 1974 þannig að nú eru loksins eftir langa bið farnir að koma virkilega hlýir maímánuðir í Reykjavík, ekki bara hlýir apríl- og júnímánuðir.

Svipað hefur gerst áður með aðra mánuði, t.d. var nóvember 1987 fyrsti virkilega hlýi nóvember í Reykjavík í mörg ár. Í kjölfarið var síðan líka verulega hlýtt í nóv. 1988 og 1990. Mars 2003 er líka dæmi um þetta.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 28.5.2010 kl. 00:11

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Október er enn ekki búinn að taka við sér. Það hefur ekki komið einstaklega hlýr október síðan 1965.

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.5.2010 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband