Sólskinsparadís og jólasnjór

Jæja, þá er jólasnjórinn kominn á höfuðborgarsvæðinu. Úrkoman síðdegis mældist 0,2 mm í Reykjavík og hún var snjór.

Það er mikill kuldi. Frostið hefur komist í 28,1 stig á sjálfvirka mælinum á Möðrudal. Það mun þá vera mesti kuldi sem mælst hefur á landinu þennan dag en meira frost hefur mælst  ýmsa aðra daga um þetta leyti, yfir þrjátíu stig. Gamla dagsmetið var -27,0 stig í Reykjahlíð við Mývatn á kvikasilfursmæli. 

Mesti hiti í dag á landinu var 2,0 stig á Sauðanesvita sem er all undarlegt. Þessi tala var þó kl. 18 við mælingu og líka á hámarksmælinum. Næst mesti hiti mældist -0,8 stig á Skagatá.

Meðalhiti desember í Reykjavík stendur nú á núlli og er í kringum meðallag. 

Eftir daginn í gær voru sólskinsstundir orðnar 29,5 í Reykjavík og vantar nú aðeins kringum 40 mínútur í að mánuðirinn slái sólskinsmetið fyrir desember, 30,2 stundir 1976. Kannski hefur það gerst í dag. En nokkrar mínútur af sól seint  í desember eru reyndar ekki auðfengnar.  Við getum fylgst með þessu í hinu óbugandi fylgiskjali sem fylgist nú með öllu! 

Þessi mánuður hefur sem sagt verið algjör sólskinspardís í höfuðstaðnum. Algjör óþarfi að rjúka til Kanríeyja!  

Loftþrýstingur mánaðarins er líka í hæstu hæðum. Ég veit ekki alveg töluna en  há er hún. Og   loftþrýstingur ársins verður líklega nærri meti. Auk þess sýnist árið ætla að verða eitt af þeim fimm hlýjustu. 

Þetta boðar áreiðanlega ísöldina sem ku vera framundan eftir því sem lesa má í ótrúlega mörgum bloggum og athugasemdum vegna vetrarkuldanna sem ríkja nú víða um heim! 

Já, það er einmitt vetur. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband