28.1.2011 | 04:09
Hlýjustu janúarmánuðir
Innan sviga við hvert ár er meðalhiti mánaðarins fyrir allar níu stöðvarnar sem miðað er við. Í fylgiskjalinu má hins vegar að sjá hita hverrar stöðvar um sig og auk þess úrkomu og sólskin. Sjá skýringar.
Óvenjulega hlýir hávetrarmánuðir stafa vitaskuld oft af miklu aðstreymi af suðrænu loft. Oft eru þá hæðir yfir Norðurlöndum, Bretlandi eða Norður-Evrópu en lægðir suðvestur og suður í hafi.
Meðalhiti stöðvanna níu var -0,8 stig árin 1961-1990.
1847 (3,8) Hlýjasti janúar síðan mælingar hófust virðist vera 1847. Þá voru gerðar mælingar í Stykkishólmi, Akureyri og í Reykjavík. Í Reykjavík og Stykkishólmi hefur síðan ekki komið jafn hlýr janúar en janúar 1947 var svipaður á Akureyri. Svo segir Þorvaldur Thoroddsen um þessi hlýindi í riti sínu Árferði á Íslandi í þúsund ár: "Framan af árinu voru frostleysur og blíðviðri, svo sóley og baldursbrá voru sums staðar syðra komnar í blóm á þorra. Yfirleitt mundu menn eigi jafngóða vetrarveðráttu.'' Alla morgna var frostlaust í Stykkishólmi nema þá síðustu tvo. Á nýársdag sveiflaðist hitinn í Reykjavík kringum frostmarkið en síðan voru nær látlaus hlýindi þar til síðustu dagana að kólnaði nokkuð og voru tveir síðustu dagarnir í Reykjavík þeir einu sem hitinn fór ekki yfir frostmark. Mest frost mældist þar -5,0 stig þ. 31. Einna hlýjast var í annarri vikunni og fór hitinn í 8,8 stig bæði þ. 8. og 10. Úrkoma var 162 mm og kemst auðveldlega inn á lista yfir tíu úrkomusömustu janúarmánuði sem einhverjarw tölur eru um í Reykjavík.
1947 (3,4) Næst hlýjasti janúar á landinu kom nákvæmlega hundrað árum síðar. Í Veðráttunni segir: "Tíðarfarið var óvenju milt um allt land. Blóm sprungu út sem á vori væri og grænum lit sló á tún. Umhleypingasamt og stormasamt var með köflum." Meðalhitinn var mestur í Vík í Mýrdal, 4,7 stig og er það mesti meðalhiti á veðurstöð á Íslandi í janúar. Kaldast var -0,5 stig á Möðrudal. Á Grímsstöðum var meðalhitinn 0,2 stig og er þetta eini janúar sem þar hefur verið yfir frostmarki. Þetta er alls staðar hlýjasti janúar sem mælst hefur eftir 1847 nema á Reykjavíkursvæðinu og Reykjanesi, vesturlandi, Vestfjörðum og inni i Skagafirði. Áberandi er hvað hitinn var jafn um allt land. Sjá kort. Lágmarkshiti mánaðarins í Reykjavik, -3,7 stig, hefur aldrei verið hærri í janúar en í Vestmannaeyjum varð aldrei kaldara en -1,3 stig. Kaldast á landinu varð -12,4 stig þ. 18. á Skriðulandi í Kolbeinsdal í Skagafirði í kjölfar skammvinnrar norðanáttar, þeirrar einu í mánuðinum. Mesti hiti mánaðarins var furðu lágur miðað við meðalhitann, 11, 4 stig á Kjörvogi á Ströndum sem er vægast sagt einkennilegur staður til að hrifsa til sín landshámark í janúar. Þetta var hinn 20. en sama dag mældust 10,5 stig á Akureyri. Að morgni hins 24. mældist hitinn 8,0 stig i Stykkishólmi sem er mesti morgunhitinn sem þar hefur mælst þann mánaðardag. Alla dagana 19.-25 mældist tíu stiga hiti eða meira einhvers staðar á landinu. Daganrnir 19.-21. mældust þeir hlýjusteu í Reykjavík að meðaltali þá mánaðardaga, 7,5; 8,4, og 7.7 stig og dagshitamet að meðalhita var einnig þ.25, 8.0 stig. Þetta er einn snjóléttasti janúar sem komið hefur á landinu síðan farið var að mæla snjólag árið 1924. Snjóhula í byggð var aðeins 37% en var að meðaltali 67% 1924 til 2007. Ekki var þetta þó hinn snjóléttasti af öllum janúarmánuðum. Það var janúar 1998, 30 %. Snjóléttara var líka árin 2001 og 2002. Í Reykjavík var snjólagið 27% og alhvítt í 6 daga en í janúar 1940 var alauð jörð allan mánuðinn. Snjódýpt í borginni var mest 15 cm. þ. 7. og var það reyndar einhver mesta snjódýpt sem mæld var í mánuðinum en fáar stöðvar mældu snjódýpt á þessum tíma. Í Papey var alautt í 30 daga en alhvítt í einn en flestir voru alhvítir dagar 17 í Bolungarvík en jafnvel á norðurlandi voru alhvítir dagar alls staðar færri en 15 og innan við tíu annars staðar.
Kort af meðalhita í mánuðinum.
Úrkoma var mikil, yfir 50 prósent meiri en meðalúrkoman 1931 til 2000. Í Reykjavík var þetta þriðji úrkomusamasti janúar frá því mælingar hófust 1885 (eyða 1908-1920) en tuttugasti í Stykkishólmi frá 1857. Á Hamraendum í Dölum var úrkoman sú mesta sem þar var mæld í janúar 1937-1999, 164,5 mm, og einnig á Þingvöllum 1935-1983, 256,0 mm Mest var úrkoman 302,1 mm á Ljósafossi en minnst 8,2 mm á Siglunesi og er það fremur óvenjulegur staður til að hafa minnsta úrkomu í janúar. Úrkoman var mest sunnan og vestanlands og á suðausturlandi en lítil um miðbik norðurlands og á norðausturlandi. Mest sólarhringsúrkoma mældist 107,5 mm á Eyrarbakka sem er þar met fyrir janúar.
Veðurlag mánaðarins einkenndist af þrálátum fyrirstöðuhæðum yfir Norðurlöndum eða Bretlandseyjum en lægðir voru oft fyrir vestan og sunnan land en einstaka sinnum komu þær nær. Suðrænt loft átti því greiðan aðgang að landinu og allt norður til Svalbarða þar sem ekki hefur mælst hlýrri janúar. Mjög kalt var í Norður- og Mið-Evrópu sem voru kuldamegin við fyrirstöðuhæðirnar. Enn kaldara varð þar í febrúar og mars. Þeir mánuðir voru einnig mjög sérstakir á Íslandi þó ekki væru þeir hlýir en einkenndust af stillum og voru bæði febrúar og mars þeir sólríkustu sem mælst hafa í Reykajvík og febrúar með mesta meðallloftvægi sem mælst hefur í honum.
Guðmundur S. Guðmundsson var þriðji á jólaskákmótinu í Hastings. Glæpaforinginn alræmdi Al Capone dó þ. 25.
1973 (2,7) Sunnanlands var umhleypingasamt og votviðrasamt en alls staðar var hlýtt. Ekki hefur komið hlýrri janúar á Hveravöllum síðan mælingar hófust þar 1965. Í Vestmannaeyjum varð aldrei kaldara en -1,2 stig og er það hæsti lágmarkshiti nokkurrar veðurstöðvar í janúar á Íslandi. Fyrstu tveir dagarnir voru fremur kaldir en síðan voru nær því látlaus hlýindi næstu þrjár vikurnar en þó mest dagana 3.-12. þegar hiti komst í tíu stig eða meira alla dagana einhvers staðar á landinu. Sá sjötti var að mealhita hlýjasti sá dagur á landinu frá a.m.k. 1949, 7,2°. Aftur komu landsdagshitamet dagana 8.-10. 6,6°;8,0° og 8,0°. Aðeins einn dagur í öllum janúarmánuðum frá 1949 hefur verið hlýrri en síðast töldu tveir dagarnir. Það er 4. janúar 2006 þegar landsmeðalhitinn var 8,3°. Þann 9. var meðalhiti sólarhringsins í Reykjavík 9,0 stig, sá mesti frá og með a.m.k. 1936. Hlýjast varð á landinu 15,7 stig þ. 5. á Dalatanga. Sama dag mældist sólarhringsúrkoman á Reykhólum 45,2 mm og varð aldrei meiri meðan mælt var 1950-2000. Á Lambavatni á Rauðasandi sló mánaðarúrkoman hins vegar met fyrir mánuðinn, 179,1 mm. Síðustu vikuna kólnaði nokkuð, einkum norðanlands, án þess að um nokkrar hörkur væri að ræða. Mesta frost í byggð mældist -14,5 stig þ. 27. á Brú á Jökuldal. Snjólag var 41%. Sérstaklega var snjólétt á austanverðu landinu og alautt var alla daga á Seyðisfirði. Þetta var enda næst hlýjasti janúar á Grímsstöðum, Hallormsstað, Teigarhorni og í Hornafirði. Mánuðurinn kemst annars fyrst og fremst á spjöld Íslandssögunnar fyrir það að aðfaranótt hins 23. hófst eldgosið á Heimaey. en daginn áður dó Johnson, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Sunnanátt var langtíðust en suðaustanátt var einnig algeng. Lægðir voru á Grænlandshafi en hæðarsvæði yfir A-Evrópu.
1987 (2,6) Þessi mánuður er sá hlýjasti sem mælst hefur í Borgarfirði, við norðvestanverðan Breiðafjörð, syðst á Vestfjörðum og á Nautabúi í Skagafirði. Fyrstu fimm dagana voru væg frost norðanlands og þ. 5 fór frostið í Möðrudal í -19,1 stig, en froslítið eða frostlaust var annars staðar en eftir þetta ríktu hlýindi nema dag og dag fyrir norðan og austan. Hlýjast varð 13,9 stig á Dalatanga þ. 23. Sá dagur er og með dagshitamet á landinu frá 1949, 6,9 stig. Loftvægi var óvenjulega hátt 13,1 hPa yfir meðallaginu, en ekki alveg í topp tíu metaflokki en samt nærri því. Úrkoma var líka af skornum skammti, aðeins um helmingur af meðalúrkomu á landsvísu og nálgaðist hvergi meðallag nema á Lambavatni á Rauðasandi. Úrkoman var einstaklega lítil alveg frá Ísafjarðardjúpi austur og suður um til Reyðarfjarðar. Á Blönduósi var hún aðeins 2,4 mm og aldrei verið jafn lítil í janúar. Snjólag á landinu var þó 43%, tíunda minnsta (2010 ekki talið með). Þykktin yfir landinu var sérlega mikil, um 533 dekametrar yfir Keflavík og nokkru meiri heldur en 1973. Um miðnætti aðfaranótt þ. 18. náði vindur 11 vindstigum í Reykjavik í vestanátt en slík ofsaveður eru nú orðin næsta fátíð í borginni. En dagana 16.-18. gengu hvassviðri yfir landið. Þá brotnaði elsta tré Reykjavíkur í Fógetagarðinum. Í heild var mánuðurinn samt ekki illviðrasamur. Háloftahæð var ríkjandi um Bretland og suður undan og teygði oft anga sína hingað til lands eða milli Íslands og Noregs. Þetta má sjá á kortinu sem stækkar við smellingar. Hin hliðin á þessu ástandi voru fádæma kuldar í Evrópu. Það snjóaði jafnvel á Majorku. Í Finnlandi var þetta þeirra 1918. Meðalhitinn í Helsinki var -17,9 stig eða 11,1 stig undir meðallaginu 1931-1960. Í Kanada voru svo enn aðrir öfgar. Þar var meðalhiti allt upp í 10 stig yfir meðallagi. Sem sagt: Mjög afbrigðilegur janúar.
Kortið er úr yfirliti Die Witterung in Ubersee fyrir janúar 1987.
1946 (2,6) Nýjársdagurinn er sá hlýjasti sem mælset hefur að meðalhita í Reykjavík,7.7 stig og einnig hámarkshitinn. 9.5 stig. Dögum saman ríktu hvassar suðlægar áttir í þessum mánuði með mikilli úrkomu, einkum á suður og vesturlandi. Þetta er enda blautasti mánuðurinn meðal þeirra tíu hlýjustu. Ég tel hann reyndar vera sjöunda úrkomusamasta janúar frá upphafi mælinga svo langt sem sá samanburður nær út frá örfáum stöðvum (sjá skýringar). Úrkomutíðni var líka mikil, víða um eða yfir 25 dagar á suður-og vesturlandi. Að morgni þ. 14. mældist mesta sólarhringsúrkoma í janúar í Reykjavík frá stofnun Veðurstofunnar, 42,4 mm. Einnig var janúarmet á rafstöðinni við Elliðaár (frá 1923) bæði hvað varðar mánaðarúrkomu og sólarhringsúrkomu, 224,6 og 41,0 mm. Aldrei hefur fallið eins mikil sólarhringsúrkoma í Stykkishólmi, 68,0 mm sama dag og Reykjavíkurmetið var sett. Vegna mikilla rigninga féllu skriður beggja vegna Hvalfjarar þ. 13. og var vegurinn ófær í nokkra daga. Sums staðar fyrir norðan og austan var þetta næst hlýjasti janúar sem mælingar ná yfir, t.d. við Mývatn og á Dalatanga, austast á landinu. Nýársdagur var einstaklega hlýr, sá hlýjasti sem komið hefur í Reykjavík í sögu mælinga, meðalhitinn var 7.7 stig en hámarkshitinn fór i 9,5 stig en sums staðar tíu á vesturlandi. Var þá hæð yfir sunnanverðum Norðurlöndum en lægðir bæði vestan við land og suður í hafi sem beindu suðrænum loftstraumum yfir landið. Þann 15, var einnig dagshitamet í Reykjavík að meðahita, 6.5 stig. Mestur hiti á landinu í mánuðinum mældist hins vegar 11,5 stig þ. 16. á Akureyri en mestur kuldi, -13,0 stig í Núpsdalstungu í Miðfirði þ. 7. Snjólag var 44%. Hvergi var alautt en hvítir dagar voru undir tíu á suðaustur, suður og vesturlandi en 10-15 annars staðar nema á stöku stað fyrir norðan þar sem þeir voru fleiri en tuttugu. Hæðir voru oft yfir N-Evrópu þennan mánuð eins og í janúar árið eftir.
Fyrsta þing Sameinuðu þjóðanna var haldið þann 10. og Öryggisráið hélt sinn fyrsta fund þ. 17.
1972 (2,6) Nýársdagurinn var sá hlýjasti á landsvísu sem mælst hefur frá og með 1949, 5,8 stig en mesti hiti á landinu var 10.2 stig. Stormasamt var með köflum í mánuðinum, einkum á vesturlandi og við suðurströndina. Þetta er hlýjasti janúar í Stykkishólmi frá 1947, 0,1° hlýrri en 1973. Hlýindi mikil voru nær óslitin fyrri hluta mánaðarins. Síðari hluta mánaðarins var tíðin blandaðri og mældist í stuttu og fremur vægu kuldakasti mesti kuldi mánaðarins, -18,5 stig á Hveravöllum þ. 26. en daginn eftir mesta frost í byggð -16,6 stig á Brú í Jökuldal. Eftir kuldakastið hlýnaði á ný og þ. 29. mældist hitinn á Seyðisfirði 12,0 stig þ. 29. Þann 19. gekk sjór á land á austfjörðum og urðu þar mestu flóð síðan 1930. Stórtjón varð á hafnarmannvirkjum og verksmiðjum. Snjólag var 41% eins og í janúar 1973. Og þessir mánuðir voru glettilega líkir að loftvægi, hitafari og úrkomu, komandi hver á eftir öðrum rétt eins og hinir hlýju janúarmánuðir 1946 og 1947. Hæð var ríkjandi þennan mánuð yfir Norður-Evrópu en lægðir voru suðuastur af Grænlandi eða gengu austur fyrir sunnan land. Fyrir neðan má sjá gang hitans yfir Keflavík í 500 og 1500 metra hæð í janúar 1972 og 1973.
Þann 12. varð ríkið Bangladess til. Fyrsta nýrnaígræðsla í heiminum var gerð þ. 25. en þ. 30. var svonefndur Blóðsunnudagur í Belfast í N-Írlandi.
1950 (2,4) Mjög stormasamt og mikil úrkoma en þó heldur minni en 1946 yfir allt landið. En sums staðar á austurlandi, suður og vesturlandi sló úrkoman öll met fyrir mánuðinn. Á Dalatanga hefur aldrei mælst meiri úrkoma í janúar (frá 1938), 341,2 mm og heldur ekki sólarhringsúrkoman 69,6 mm þ. 27. Mánaðaramet úrkomu voru einnig sett í Stóra-Botni í Hvalfirði, 430,5 mm, Kirkjubæjarklaustri, 359,0 mm (mælingar frá 1931), Vík í Mýrdal, 395,3 mm (1926), Ljósafossi, 310,3 mm (1938-1972,) og Eyrarbakka með sína löngu en þó ekki alveg samfelldu mælingasögu, 247,3 mm ((1881-1991, frá 1926). Eins og að líkum lætur voru austan og suðaustanáttir algengastar. Loftþrýstingur var oft hár norðan við landið en lægðir voru sunnan við það, uppi í landsteinum eða á Grænlandshafi. Mjög stormasamt var og getið um storm í 25 daga einhvers staðar á landinu. Aftakaveður af austri var við suðurströndina dagana 7.-8. Fyrri daginn fórst vélbáturinn Helgi við Faxasker við Vestmannaeyjar milli klukkan tvö og þrjú síðdegis og með honum tíu manns. Komust tveir menn lifandi upp á skerið en urðu úti af vosbúð en enginn möguleiki var til að koma þeim til bjargar og ekkert skipsbrotsmannaskýli var á skerinu. Næstu nótt varð stórbruni í fárviðrinu í hraðfrystistöðinni í bænum og var þá vindhraði á Stórhöfða kringum 50 m/s. Ekki var þetta hlý austanátt, hiti um frostmark í Eyjum þegar Helgi fórst og daginn eftir mældist mesti kuldi mánaðarins -17,5 stig á Möðrudal. Snjólag var 46%. Í Reykjavík var alautt í 26 daga og 29 í Vestmannaeyjum en á norðausturlandi, þar sem mestur var snjórinn, voru alhvítir dagar óvíða fleiri en 15. Austan og suðaustanátt voru algengastar vindátta sem áður segir en stundum snérist til sunnanátta og í einni slíkri mældist mesti hiti mánaðarins, 12,7 stig á Seyðisfirði þ. 19 og dagshitamet að landsmeðalhita var þá sett,6,7°. Á Raufarhöfn var þetta næst hlýjasti janúar.
1964 (2,4) Þessi mánuður var hluti af hlýjasta vetri (des-mars) sem mælst hefur á landinu og hefur þá sérstöðu að vera hlýjasti janúarmánuður á Reykjavíkursvæðinu og Reykjanesi og einnig á Eyrarbakka. Á suður og vesturlandi má segja að aldrei hafi verið kalt, nema þ. 23., næstum því til mánaðarloka en kringum miðjan mánuð komu fáeinir kaldir og bjartir dagar fyrir norðan. Hiti fór tíu daga yfir 10 stig einhvers staðar á landinu og hlýjast varð 14,9 á Seyðisfirði þ. 7. og 10. Dagana 5. og 7. kom landshitameta í meðalhita,6,6 og 6,5 stig og einngig þ. 18, 6,2 stig. Alla dagana 16.-18 kom daggamet fyrir meðalhita í Reykjavik, 7,7, 8,0 og 9,0 stig. Síðast talda daginn var einnig dagshita meða að landameðalhita, 6,4 stig. Loks kólnaði rækilega síðustu tvo dagana og síðasta daginn komst frostið í -27,1 stig á Grímsstöðum. Úrkoman var um 44% umfram meðallag en lítil á norðausturlandi. Á Kvískerjum mældist úrkoman 676,9 mm og er það mesta mánaðarúrkoma sem mælst hefur á veðurstöð í janúar og að morgni þ. 6. mældist sólarhringsúrkoman þar 104,8 mm. Á Skaftafelli í Öræfum var einnig met mánaðarúrkoma og síðast en ekki síst á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Þar mældist líka met sólarhringsúrkoma fyrir janúar, 60,6 mm þ. 26. Þetta er næst snjóléttasti janúar og lengst af var snjólaust í byggð og allir vegir færir sem að sumri. Snjólag var aðeins 33%. Á Bjólu í Djúpárhreppi var alautt allan mánuðinn og nokkuð víða á suður-og vesturlandi var aldrei alhvítt en um helmingur daga var hvítur þar sem mest var á norður og austurlandi. Í Reykjavík voru tveir dagar alhvítir en fimm á Akureyri. Þrumur voru óvenjulega tíðar og hlaust tjón af í miklum útsynningi þ. 7. Sunnanátt var algengasta vindáttin. Loftþrýstingur var hár yfir Bretlandseyjum og Mið-Evrópu en lægðir voru oft sunnan við Grænland úti á Atlantshafi en komu stundum nær landi og einstaka sinnum fór þær norður um Grænlandshaf og ollu skammvinnum útsynningi. Loftvægi var fremur hátt. Á kortinu er meðallag loftvægis dregið með heilun línum en frávik hitans frá meðallaginu 1931-1960 með strikalínum. Tekið úr Veðrinu 1964.
Þann 12. lýsti landlæknir Bandaríkjanna yfir skaðsemi reykinga. Fyrsta Reykjavíkurskákmótið hófst þ. 14. og lauk því með sigri Mikaels Tal.
1992 (2,3) Fyrsta vikan var köld og komst frostið í 23,0 stig þ. 4. á Möðrudal en eftir þ. 9. voru hlýindi. Og þegar upp var staðið reyndist þetta næst hlýjasti janúar á Akureyri (mælingar frá 1882) og var hitinn þar 2,9 stig. Og þetta var einmitt mánuðurinn þegar mældist mesti hiti á landinu á mannaðri veðurstöð í janúar, 18,8 stig á Dalatanga þ. 14. og sama dag 17,5 stig á Akureyri. Meðalhitinn á Akureyri var þennan sólarhring sá hæsti sem mælst hefur síðan a.m.k. eftir 1948, 11,6 stig. Dagshitamet að meðalhita kom einnig í Reykjavik þennan dag, 7.2 stig. Í 500 hPa fletinumn, nokkurn vegin í miðjum veðurlofthjúpinum, sem þá var í 5530 m hæð en þykktin var 5502 m, var frostið aðeins 14,9 stig kl. 00 þ. 13. en er þar vanalega kringum 31-32 stig í janúar. Frostlaut var upp fyrir 2000 m hæð. Þessi hiti var meðan ríkti samfelld suðvestanátt dagana 12.-14. með metúrkomu víða sunnanlands og vestan og einnig austur eftir norðurlandi og var hitinn þessa daga 7-9 stig yfir meðallagi á landinu. Á Skógum undir Eyjafjöllum mældist sólarhringsúrkoman 141,2 mm þ. 13 og var þá Íslandsmet fyrir janúar en hefur síðan verið slegið. Sama dag mældust 90,0 mm í Vík í Mýrdal sem er þar janúarmet (frá 1926) og önnur met voru sett á Hæli, 44,5 mm (1928), Sámsstöðum 79,1 mm (1929) mm og Hellu, 68,8, mm (1958-2005). Daginn eftir kom svo sólarhringsmet fyrir janúar á Hlaðhamri í Hrútafirði, 57,2 mm (1941). Fleiri sólarhringsmet voru sett. Talsverð flóð voru um þetta leyti í Hvítá í Borgarfirði. Og mánuðurinn gerði það heldur ekki endasleppt í hitamálunum. Sautján daga fór hiti yfir tíu stig á landinu sem er einsdæmi. Á Sandi í Aðaldal mældust 16,0 stig þ. 19. og á Seyðisfirði 17,5 stig þ. 26. sem mun vera þriðji mesti hiti á landinu í janúar. Dagshitamet að landsmeðalhita komu dagana 13. og 14., 8,1 og 7,6 stig og enn þann 17. 6,9 stig og þann 29. 7.4 stig. Enginn janúar frá 1949 á fleiri dagshitamet að meðalhita, fjóra daga.Í úrkomunni voru sett mánaðarmet sums staðar á úrkomusvæðinu, t.d. á Lambavatni 169,1 mm mælingar frá 1939),Kvígindisdal við Patreksfjörð, 403,9 mm (1928-2004), Þórustöðum í Önundarfirði, 423,4 mm (1955-1996) og á Hlaðhamri, 157,1 mm (1941). Var úrkoman á þessu svæði gríðarlega mikið yfir meðallagi. Snjólag var 43% en snjólaust var að mestu eftir þ. 9. Ekki var sólinni fyrir að fara. Í Reykjavík mældist sólskin í kringum 20 mínútur og hefur aldrei verið minna í janúar og ekki heldur á Sámsstöðum í Fljótshlíð þar sem sólin skein i tvær og hálfa klukkustund.
Fríða Á. Sigurðardóttir hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs þ. 24. en síðasta daginn kom dagblaðið Þjóðviljinn út í síðasta sinn.
2010 (1,9) Janúar þessi er einstakur fyrir það hve lítil úrkoma var fyrir norðan. Hún var aðeins 0,8 mm á Akureyri og hefur ekki verið jafn lítil í þessum mánuði frá því mælingar þar hófust 1928. Mánaðar þurrkamet voru sett alveg frá Ströndum í vestri til Vopnafjarðar í austri á stöðvum með mislanga mælingasögu. Má þar nefna Hraun á Skaga 7,4 mm (frá 1949), Mýri í Bárðardal 0,7 mm (1957), Grímsstaði 1,6 mm (1936), Mánárbakka 6,0 mm (1957) og líklega einnig Raufarhöfn (1934-2009) en þar var mannaða stöðin nýlega aflögð en sjálfvirk tekin við. Á suðurlandi var hins vegar úrkomusamt. Í Reykjavík er þetta samt sólríkasti janúar af þeim tíu hlýjustu. Einstaklega veðragott var og er þetta hægviðrasamasti janúar síðan 1963. Tiltölulega hlýjast var á vesturlandi. Í Reykjavík fór hitinn ekki niður fyrir frostmark 21 dag í röð, frá þeim 8. til þess 28. og er þetta met fyrir frostlausa daga þar i janúar. Mesti hiti á mannaðri stöð mældist 16,9 stig þ. 26. á Skjaldþingsstöðum en sama dag 17,6 á sjálfvirku stöðinni þar. Snjór var lítill á landinu. Snjóalag á öllu landinu var 36%, sú sjötta minnsta frá 1924. Í Reykjavík varð jörð aldrei alhvít en flekkótt í sex daga. Þetta er því einn allra snjóléttasti janúar í borginni. Í Stykkishólmi og á Eyrarbakka var alautt allan mánuðinn. Á suðurlandsundirlendi og í Borgarfirði var lítill sem enginn snjór. Aldrei snjóaði á Akureyri en þar var þó alhvítt í 19 daga vegna snjóalaga frá fyrra mánuði. Óvíða var reyndar meiri snjór á landinu en einmitt á Akureyri. Á kortinu sést þykktin yfir landinu sem var um 534 dekametrar yfir Keflavík eða kringum 90 metrum þykkari en venjulega. Enginn janúar frá 1949 á eins mörg dagshitamet að mealhita fyir landið, sex daga, 19.-21 og 24.-26, 6,7, 6,8, 6,1,6.4, 7,6 og 7,4 stig. Þann 25. fór hitinn í Reykjavík í 10,1 stig.
Forsetinn hafnaði að skrifa undir lög um Icesavemálið þ. 5. en þ. 13. varð jarðskjálfinn skæði á Haiti og síðasta daginn fengu Íslendinga brons á Evrópumóti karlaliða í handbolta.
Á nítjándu öld komst enginn janúar í hálfkvisti við undramánuðinn 1847. Hlýjastur virðist hafa verið janúar 1805, kannski eitthvað svipaður og 1950 ef dæma má eftir nokkuð ófullkomnum mælingum í Sveins Pálssonar í Fljótshlíð sem snúið hefur verið upp á Stykkishólm og janúar 1830 sem eftir mælingum Jóns Þorsteinssonar í Reykjavík að dæma var svipaður og 1992 eða 2010.
Í fylgiskjalinu má sjá tölur um 22 hlýjustu mánuði. Gat ekki hætt nema taka 1960 með!
Ásgeir Sigurðsson, Hinn hlýi vetur 1963-1964 og baksvið hans, Veðrið II, 1964, Jónas Jakobsson: Lofthiti yfir Reykjanesskaga, Veðrið I, 1972, I, 1973, Janúar 2010.
Meginflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir | Aukaflokkar: Bloggar, Veðurfar | Breytt 27.4.2019 kl. 22:24 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.