3.2.2011 | 20:48
Köldustu janúarmánuðir
Janúar 1918 (-9,6) er langkaldasti janúar síðan hitamælingar hófust hér á landi. Um þennan mánuð er fjallað á öðrum stað hér á bloggsíðunni. En hér verður drepið á þá janúarmánuði sem næstir eru í röðinni hvað lágan meðalhita varðar.
1881 (-8,2) Næst kaldasti janúar virðist vera árið 1881. Hann var hluti af kaldasta vetri sem um getur í sögu mælinga, frá desember 1880 til mars 1881, en síðast taldi mánuðurinn var aðeins lítillega hlýrri en janúar 1918 en enginn mánuður ársins hefur nokkru sinni verið kaldari en hann. Janúar 1881 var hins vegar einni gráðu mildari að meðaltali en 1918 á þeim sex stöðvum sem mældu bæði árin, Reykjavík, Stykkishólmi, Grímsey, Teigarhorni, Hreppunum og Vestmannaeyjum. Á Teigarhorni var þessi mánuður hins vegar kaldari en 1918 og kaldasti janúar sem þar hefur mælst frá 1873. Einnig í Hreppunum er þetta kaldasti janúarmánuðurinn en þetta ár var þar mælt á Hrepphólum en 1918 á Stóranúpi. Í Grímsey var lítill munur á mánuðunum en á vesturlandi var janúar 1881 til muna mildari en 1918.
Veðurathuganastöðvar í janúar 1881 voru aðeins í Reykjavík, Hafnarfirði, Stykkishólmi, Siglufirði, Grímsey, Saurbæ í Eyjafjarðardal, Valþjófsstað á Fljótsdalshéraði, Teigarhorni, Papey, Vestmannakaupstað, Hrepphólum og Eyrarbakka. Lægstur var meðalhitinn í Grímsey -13,1 stig en ekki var þetta ár mælt á þeim stöðvum sem vetrarkaldastir eru í byggð á Íslandi, Grímsstöðum og Möðrudal.
Mánuðurinn byrjaði vel og var víðast hvar frostlaust fyrstu níu dagana og á þrettándanum komst hitinn í 8,2 stig á Teigarhorni þegar hæð var suðaustur af landinu og dró yfir það milda sunnan og suðvestanátt. Eftir þetta kólnaði mjög og var 10-20 stiga frost næstu vikuna nema syðst á landinu. Kuldakastið byrjaði með mikilli hríð fyrir norðan að kvöldi hins 9. Þegar hana lægði var oft stillt og gott veður nema hvað á austfjörðum voru stundum hríðar. Háloftahæð mjakaðist vestur fyrir land og hreiðraði um sig yfir suður Grænlandi. Það er einna verst staða fyrir slíkar hæðir fyrir okkur og draga þær þá yfir landið loft frá því norðan og norðvestan við Grænland. Gefur kortið kannski einhverja hugmynd um ástand mála. Loftþrýstingur í mánuðinum yfir landinu var líka nokkuð hár. Þann. 19. gerði vestanátt en nokkrum dögum síðar var veðrið undir áhrifum lægðasvæða sem þokaðist í átt að Bretlandseyjum en hæð var yfir Grænlandi. Heldur betur dró svo til tíðinda þann 28. Þá hvessti af norðaustri og fór að snjóa á suðuaustur og austurlandi. Daginn eftir var ofviðri og sums staðar var snjókoma og frostið var 20-30 stig. Næsta dag hvessti enn þó frostið mildaðist ofurlítið og var þá snjókoma víðast hvar. Mikil hæð var yfir austanverðu Grænlandi en lægð beint suður af landinu. Um kvöldið hlýnaði upp undir frostmark suðaustanlands með suðaustanátt og var hláka syðst á landinu síðasta dag mánaðarins og veðrið að ganga niður. Veður þetta er talið með þeim verstu sem yfirleitt gerast hér á landi og urðu víða miklir skaðar, ekki síst á Vestfjörðum. Kirkjan á Núpi í Dýrafirði fauk til dæmis út í hafsauga. Frægast er veðrið þó fyrir það að þá fórst póstskipið Phönix við Skógarnes á Snæfellsnesi vegna vinds og ísíngar en flestir sem um borð voru björguðust. Er veðrið oft kennt við þennan skaða og nefnt Fönixarbylur. Mesta frostið í þessu kasti mældist slétt 30 stig þ. 29. í Grímsey en -29,8 á Hrepphólum -29,4 á Siglufirði og -28,6 á Valþjófsstað í Fljótsdal. Í Reykjavík fór frostið niður í 20-21 stig alla dagana frá þeim 26.til 29. Fyrir norðan var ekki mikill snjór fyrr en undir lok mánaðarins. Allur Eyjafjörður var lagður út undir Hrísey og mátti aka og ríða eftir honum endilöngum. Jónas Jónassen, sem þá hafði með höndum veðurathuganir í Reykjavik, lýsti tíðarfarinu í þessum eftirminnalega mánuði svo í Þjóðólfi 12. mars 1881. Mánaðarlegar veðurlýsingar Jónasar Jónassen fyrir Reykajvík í blöðunum ná alveg frá 1880 til 1907 og eru hinar merkustu veðurheimildir
Bati sá, sem kom hinn síðasta dag hins umliðna árs stóð eigi lengi, því brátt hófst norðanrok það, sem hélst við nálega allan mánuðinn með þeirri grimmdarhörku, að elztu núlifandi muna eigi slíkt. 3 fyrstu dagana var hægur útsynningur og síðan í 2 daga hægur landsynningur með nokkurri rigningu, en upp frá því og til hins 21. stöðugt norðanrok til djúpanna, þótt hér væri optastnær logn í bænum; 21.-23. var hér logn með talsverðri þoku og nokkrum brimsúg; 24. útnorðanhroði og uppfrá því stórvirði á norðan, það sem eptir var mánaðarins með aftaka frosthörku; opt var hér logn i bænum þótt rokið næði heim að eyrum; aðfaranótt sunnudagsins, hins 30. var fjarskalegt ofsaveður á norðan með blindbyl; 30. nokkuð vægari en dimmur og gekk alt í einu um kveldið til austurs með frostleysu, en daginn eptir genginn í sama illviðrahaminn. Hinn 9. fór sjóinn hér að leggja og 18. var hann lagður langt út í flóa; 20. fór hann að losna og var að mestu horfinn 23. en 25. lagði sjóinn þegar aptur með helluís hér á milli allra eyja og lands og hélzt það út mánuðinn, svo síðasta dag mánaðarins sást eigi út fyrir ísinn hér í flóanum. Svo að kalla engin snjór hefir fallið.
1874 (-8,0) Í Árferði á Íslandi í þúsund ár, og er mest haft eftir Fréttum frá Íslandi 1874, segir um tíðarfarið: "Hina fyrstu viku ársins var skaplegt veður, þó býsna hart væri, en svo brá til hríða og illviðra og kyngdi niður miklum snjó víða og voru frosthörkurnar ákaflega miklar, og var vetur þessi einn hinn kaldasti og harðasti. Voru í janúarmánuði ofsalegar stórhríðir víða um land. Um miðjan janúar lagðist hafís að landinu og varð brátt samfrosta við lagnaðarísa á fjörðum; þegar ísinn var að reka að landi, 11.-12. janúar gerði stórhríðar nálega um alt land með ofsalegum stormum, einkum á Norðulandi og Austfjörðum; á Austurlandi var hríðin svo dimm og hörð, að menn á sumum bæjum komust ekki í fjárhús, sem í túninu voru, og reif stormurinn og skarinn heilar og hálfar þúfur, svo flögin voru eftir. Urðu þá víða skaðar á skipum, hjöllum og heyjum og 2 timburkirkjur (í Berunesi og Berufirði) tók upp og braut í spón. Þessa daga voru grimmdarfrost um allt land. 18° R (-22,5 C) í Reykjavík, 19° (-24 C) í Dalasýslu, 24-26° (-30 -32,5 C) víða norðanlands. Til mánaðarloka voru sífeldar kólgur og kafaldsbyljir, frost og fannkomur um alt land og jarðbönn fyrir hverja skepnu... Síðustu dagana í janúar og fyrstu dagana í febrúar gjörðu hláku ... '' Árbækur Reykjavíkur segja svo: ''Vetur frá nýári var einhver hinn harðasti og kaldasti. Var hann því af sumum kallaður "svellaveturinn mikli" en af öðrum "Hreggviður stóri". Viku af nýári brá til hríða og illviðra. Kyngdi niður miklum snjó og voru frosthörkur ákaflega miklar. Dagana 11.-12. janúar gengu stórhríðar með ofsalegum stormum og grimmdargaddi (-18° R. [-22.5°C] í Rvík!).'' Frost mátti heita samfellt á þeim stöðum þar sem athugað var fram að hinum 25. en þá gerði smáblota og aftur þann 27. og fór hitinn þá á Teigarhorni í 7,4 stig. Enginn sólarhringur var alveg frostlaus í Stykkishólmi, Grímsey og Teigarhorni. Þrisvar fór frostið yfir 20 stig í Stykkishólmi, -20,4 þ. 14., -22,4 þ. 19. og -20,4 þ. 24. Þann 3. og 11. fór frostið rétt undir 20 stig í Grímsey og 17.-24. var mesta frost sólarhringsins þar 18-19 stig. Ljóst er að mjög miklar frosthörkur hafa ríkt á landinu dagana 7.-23. Loftþrýstingur var lágur og stundum virðist sem háloftakuldapollur hafi beinlínis yfir landinu eða nálægt því. Oft snjóaði. Bjarndýr komu á land í mánaðarlok, bæði á Austfjörðum og fyrir norðan og vestur á Ströndum. Voru tvö unnin á Brekku í Mjóafirði og nokkur annarstaðar. Úrkoman í öllum mánuðinum var 86 mm í Stykkishólmi, 51 mm í Grímsey en aðeins 36 mm á Teigarhorni. Einungis á þessum stöðum var úrkoma athuguð þennan mánuð.
Konungur staðfesti stjórnarskrá fyrir Íslendinga þann fimmta janúar.
1866 (-6,0) Ef miðað er við Reykjavík og Stykkishólm, sem lengst hafa athugað, virðast janúar 1867 og 1866 koma næstir í röðinni hvað kulda varðar í janúar en þá var eingöngu athugað á þessum stöðum og var 1867 kannski ívið kaldari. Árið 1866 var talið eitt mesta harðindaár nítjándu aldarinnar. Lágu þá hafþök af ísi fyrir vestfjörðum, norðurlandi og austfjörðum, og kom ísinn þegar 14. janúar að Sléttu og Langanesi. Á Akureyri virðist meðalhitinn hafa verið -8,8 stig sem er þó heilu stigi mildara en 1886 sem telst næst kaldasti janúar á Akureyri frá og með 1882. Ekki hlánaði allan mánuðinn í Stykkishólmi en aðeins einu sinni fór frostið niður fyrir 20 stig, -20,3 þ. 29. Úrkoma var 38 mm sem er lítið en eitthvað kom þó úr loftinu í 14 daga. Veðurathuganir Jóns Þorsteinssonar voru löngu aflagðar á þessum tíma í Reykjavík en Þórður Jónassen dómsstjóri, faðir Jónasar, hafði um hönd einhvers konar athuganir. Í Þjóðólfi birtist 28. febrúar yfirlit yfir hitann að Landakoti í Reykjavík í mánuðinum. Hér er frá þessu sagt því ekki er svo sem um auðugan garð að gresja hvað veðurupplýsingar varðar frá þessum tíma í Reykjavík. Hitinn er tilgreindur í R gráðum í blaðinu en verður hér færður yfir í C stig eins og við erum vön. Fram kemur að mestur hiti hafi orðið 2,9 stig þ. 4. og 7. en mest frost -18,0 stig þ. 11. Hlýjasta vikan hafi verið 4.-10. að meðaltali 5 stiga frost en kaldasta vikan vae 17.-23. þegar frostið var að meðaltali -9,2 stig. Á suðurlandi voru stórhríðar og blotar í byrjun ársins að því er helst má ráða eftir Árferði á Íslandi í Þúsund ár eftir Þorvald Thoroddsen. Af þeirri merku bók er þó næsta lítið að græða oft og tíðum um veðurfar einstakra mánaða en meira hvað heilu árstíðirnar varðar. Árbækur Reykjavíkur segja að í ársbyrjun hafi verið meiri háttar snjókoma í bænum. Loftþrýstingur í Stykkishómi var lágur í þessum mánuði.
Ísafjörður fékk kaupstðaréttindi þ. 24.
1867 (-6,2) Úrkoman í Stykkishólmi var enn minni í janúar 1867 en janúar 1866, aðeins 12,5 mm. Ekki hlánaði þar nema dagana 25.-27. Kaldast varð -17,8 stig þ. 8. en hitinn fór í 2,8 stig þ. 27. Þann 22. janúar lýsti Þjóðólfur svo tíðarfarinu í Reykjavík: ''Síðan um jól hafa gengið einstök staðviðri hreinviðri (svo skrifað) og lignur fram á þennan dag; frosthart nokkuð fyrra helming mánaðarins, og þó aldrei meira hér en rúmar 14 R (-17,5 C). Varla munu elztu menn muna jafn lángar stillur og logn í Janúarmánuði eða jafnlítil ísskrið á sjó með slíku frosti, er þó hefir verið, eins og nú. Faxaflói fjær og nær hefir verið eins og rjómatrog, og varla nokkurn dag matað í fuglsbríngu, en himinn optast heiður og skýalaus; hafi skýagráða dregið upp, þá hefir hann verið farlaus og svo mildur og gagnsær einsog þegar bezt viðrar hér í Maí og Júní; loptþýngdarmælirinn hefir og haldizt stöðugt á ''fögru og og góðu veðri'' allan mánuðinn, fram til þessa dags. Eptir þessu hafa gæftirnar verið yfir allt, og fiskiaflinn einstakur hér syðra um Garðsjó og Miðnes.'' Þjóðólfur segir svo frá því 8. febrúar að hlýjast hafi orðið í mánuðinum 0,6 stig þ. 26. (hér breyti ég aftur R gráðum yfir í C stig) en kaldast -15 stig þ. 12. Hlýjast var vikuna 23.-29. -2,1 stig að meðaltali en kaldast vikuna 7.-13. -13,5 stig. Virðist þessi janúar hefur verið fremur hægviðrasamur frostamánuður með ríkjandi norðaustanátt yfir landinu.
1886 (-5,6) Á Akureyri er þetta næst kaldasti janúar frá því samfelldar athuganir hófust þar 1882 en á sama tímabili var kaldara í Grímsey í janúar 1902. Mesta frost mánaðarins mældist einnig á Akureyri, -22,0 stig. Á Hrísum inni í Eyjafjarðardal var meðalhitinn -10,3 stig og var hvergi kaldara á landinu en ekki var mælt í Möðrudal. Eyjafjörður var lagður út fyrir Hjalteyri. Snjór var mikill á Akureyri en þó enn meiri Skagafirði og Þingeyjarsýslum að sögn blaðanna. Þorvaldur Thoroddsen segir í Árferði á Íslandi: ''Þegar með nýári hófust harðindi með snjógangi og allmiklu frosti og hjelzt sú veðrátta allan janúar og mestan febrúar, og var þá farið að skera af heyjum sumstaðar á Suðurlandi. Hinn 3. og 4. janúar var mikil hríð um Norðurland og fórust þá nokkrir sauðir á fáeinum bæjum í Suður-Þingeyjarsýslu, er úti höfðu legið til þess tíma, en hinn 7. jan. tók út yfir, var þá snjóbylur með afspyrnuroki, sem einkum gerði skaða á Austurlandi, kirkja nýsmíðuð á Kálfafellsstað fauk og brotnaði, hjallar og skip skemdust víða og um þúsund fjár fórst þar i því veðri. Snjókoma var afarmikil i hríðum þessum, og i Húnavatns og Skagafjarðarsýslum var fannfergjan svo mikil, að sætti fádæmum.'' Eftir þennan illviðriskafla var veðurlag mjög óstöðugt og hljóp úr einni áttinni í aðra um um tíma. Upp úr miðjum mánuði kom hins vegar um það bil tíu daga kafli með lítilli úrkomu og háum loftþrýstingi og hægum vindum. Kuldar ríktu áfram en fóru þó minnkandi og var bjart yfir á suðvesturlandi enda var áttin oft austlæg eða norðaustlæg. Smá blotar komu syðst á landinu 9.-13. og 23.-24. en loks barst ofurlítið hlýrra loft að um land allt þ. 27. og nokkru síðar komsts hitinn í 6,7 stig á Sandfelli í Öræfum en um það leyti rigndi mikið í Reykjavík. Úrkoma var þar um meðallag en annars staðar vel undir því.
Jónassen lýsti tíðarfarinu svo í nokkrum tölublöðum Ísafoldar:
´´... Nýársdag snjóaði hjer talsvert að kveldi, og aðfaranótt h. 2. fjell hjer talsverðnr snjór og um kveldið h. 2. var hjer um tíma blindöskubylur af austri og það hvass; gekk svo sunnudaginn (3.) til norðurs, bráðhvass og snjóaði hjer talsvert; allan þann dag var hjer moldviðrisbylur. Aðfaranótt mánudags (4.) var hann bráðhvass á norðan, lygndi um miðjan dag Og varð rjett að kalla frostlaust, austanlandnyrðingsgola; í dag 5. nokkuð hvass á austan, bjart veður fyrir hádegi, síðan dimmur með byl. (6.jan.) - Umliðna viku hefir verið hin mesta óstilling á veðri, hlaupið úr einni áttinni í aðra sama sólarhringinn; h. 6. var hjer bráðviðri á úts. (Sv) að kveldi; rauk aðfaranótt h. 7. á norðan með moldöskubyl með gaddi. Snjór hefir fallið hjer mjög mikill þessa vikuna ; í gærkveldi (11.) fór að rigna hjer af landsuðri eptir undangangandi moldöskubyl af austri, frá því um miðjan dag, en um miðnætti var hann genginn til útsuðurs. Í dag (12.) hvass og dimmur á úts. (Sv.) með haglhryðjum og blindbyljum; allbjart þess á milli. Loptþyngdarmælir er á einlægu iði allan sólarhringinn. (13.jan) - Fyrra miðvikudag (13.) var hjer logn og fagurt veður fram yfir miðjan dag; síðan gekk hann til austurs með blindbyl og svo til landsuðurs seinna um kveldið og var hvass, gekk aðfaranótt h. 14. til úts. (Sv.) með byljum og miklu brimróti til sjáfarins; rauk svo á norðan og hefir síðan verið á þeirri átt, opt rokhvass; þessa síðustu dagana hefir hjeðan að sjá verið blindbylur allan daginn efra til sveita. Í fyrradag fór sjóinn að leggja hjer fram á víkina (hroði). í dag (19.) fagurt veður, logn, en hvass til djúpanna. Loptþyngdarmælir hefir alla vikuna staðið lágt, þangað til í fyrradag, að hann fór óðum að hækka og er nú mjög hátt í dag og sækir enn hærra, svo útlit er fyrir betra veður. 20.jan. Viku vantar hér inn í frá Jónassen. - En Ísafold segir þ 27.: ´´Enn er sama hellan yfir allt af snjókyngi og klaka; fær varla fugl í nefn sitt, hvað þá nokkur ferfætt skepna. Er sömu tíð að frétta af norðan með vermönnum. En staðvirðri hafa nú verið í vikutíma.´´ Jónassen aftur: Framan af þessari viku brá til landsynnings með talsverðri rigningu; hjer var húðarigning um kveldið h. 28., en aðfaranótt h. 29. fór að snjóa aptur og kyngdi hjer ákaflega miklum snjó niður þá nótt; síðan hefir verið hægviðri og má heita að verið hafi logn daglega og fagurt veður. ´´ (3. febr.)
Hilmar Finsen fyrrverandi landshöfðingi dó þann 15.
1902 (-4,2) Hafís var við Siglufjörð og víðar fyrir norðan og í mánaðarlokin varð vart við ís fyrir austurlandi. Í Grísmey er þetta fjórði kaldasti janúar eftir 1918, 1881 og 1874. Talsvert snjóaði fyrir norðan. Fyrstu dagana var norðanátt. Yfir suðurland gekk hins vegar suðvestan ofsaveður á þrettándanum og olli skemmdum í Reykjavík og Hafnarfirði. Var talsveður snjór í Reykjavík þegar veðrið skall á og framundir miðjan mánuð. Oftast var kalt en þó kom dágóð hláka í tvo til fjóra daga eftir landshlutum um miðjan mánuðinn. Á Teigarhorni fór hitinn 13,2 stig þ. 15. og var það reyndar mesti hiti sem þá hafði mælst á landinu í janúar þó það segi samt ekki mikið vegna fæðar athuganastöðva. Mikil rigning var þá sunnanlands. Tvö mikil kuldaköst komu. Það fyrra 9.-13. þegar lágmarkshitinn í Reykjavík var 11 til 16 stiga frost hvern dag en hið síðar var 25.-28. og var enn kaldara en hægviðrasamt var þá. Lágmarkshitinn var þá 10 til 18 stiga frost í bænum og tvo daga, 26. og 27., fór hámarkið ekki yfir -10 stig. Kaldast varð á aftur á móti á Möðrudal, -28,2 stig. Á Möðruvöllum fór frostið í -25 stig og -21 á Akureyri. Milli kastanna var oft útsynningur með éljum suðvestanlands. Síðustu tvo dagana var hláka í suðaustan átt með 7-8 stiga hita í Reykjavík. Úrkoma var um eða yfir meðallag nema á austfjörðum þar sem hún var aðeins um helmingur þess og á Eyrarbakka þar sem hún var nokkuð mikil. Jónassen segir um veðrið í Þjóðólfi 7. febr.: ´´Fyrstu daga mánaðarins var norðanátt, gekk svo til norðurs, hægur með miklu frosti frá 9. til 14., er hann gekk til sunnanáttar og svo til útsuðurs með éljum og var ofsaveður h. 22., hefur síðan verið við austan- sunnanátt með regni, svo hér er nú alauð jörð.´´
1979 (-4,1) Eftir 1918 er janúar 1979 sá kaldasti á öllu landinu. Og hann er hér talinn sá áttundi kaldasti frá 1866. Þó mönnum hafi þótt þessi mánuður erfiður var hann samt barnaleikur í samanburði við köldustu janúarmánuði á fyrri tíð. Hann var til dæmis um sex stigum mildari en janúar 1918. Hins vegar var hann á öllu landinu 3,7 stig undir meðallaginu 1931-1960 sem þá var miðað við. Meðalþykkt mánaðarins, milli 1000 og 500 hPa flatanna, sem mælir í raun meðalhitann í öllum lofhjúpnum þar á milli, var aðeins kringum 5180 metrar yfir Keflavik en er venjulega kringum 5250 metrar. Lægstur var meðalhitinn á veðurstöð -10,3 stig á Möðrudal en hæstur -1,9 stig í Vík í Mýrdal og á Stórhöfða. Hláka var dagana 17.-20 og smábloti þ. 5. og 23. en annars voru frostin linnulaus í stöðugri norðanátt. Ekki er algengt, þó um hávetur sé, að hiti fari hvergi yfir frostmark á landinu nokkra daga í röð. Það gerðist þó dagana 9.-12. Sex aðra staka daga komst hámarkshiti hvergi yfir frostmark. Kaldast var þ. 11. þegar dagsmeðalhiti var talinn 11 stig undir þágildandi meðallagi á öllu landinu en í sveitunum fyrir norðan var sums staðar 17-18 stiga frost að meðaltali. Þann 13. mældust hins vegar mestu einstöku frostin, -30,7 stig í Möðrudal (-30,4 daginn áður), -27,7 á Grímsstöðum og -26,6 stig á Brú á Jökuldal. Frost fór víða um land yfir 20 stig í mánuðinum. Síðasta daginn var t.d. 25 stiga frost á Búrfelli og 21-22 stiga frost í Borgarfirði, á Hellu og Þingvöllum. Meðaltal lægsta dagshita á landinu öllu var -17,3 stig. Bjart var oft yfir á suðurlandi og er þetta fjórði sólríkasti janúar í Reykjavík. Kortið sýnir stöðu sem ekki var óalgeng við jörð og hærra uppi, hæð yfir Grænlandi og hæðarhryggur um Ísland en lægðir austan við land. Úrkoman var aðeins rúmlega helmingur af meðalúrkomu á landinu. Hún var lítil á vesturlandi, aðeins 4,3 mm á Reykhólum, en mikil á norðausturlandi. Mest mánaðarúrkoma mældist 210 mm á Kvískerjum. Snjólag var 87%. Mátti víða heita vetrarríki. Á norðausturlandi og austurlandi var jörð yfirleitt alhvít og jafnvel sums staðar í uppsveitum sunnanlands. Alauðir dagar voru nokkrir sums staðar á vesturlandi en hvergi annars staðar. Þann 5. var vestan stormur og rok á suðvestur og vesturlandi og varð þar þá gífurlegt tjón á rafmagns og símalínum vegna ísingar. Víða varð rafmagnslaust.
Þann 16. var Íranskeisara steypt af stóli og Khómení æðsti klerkur tók við valdataumunum.
1936 (-3,9) Á hlýindatímabilinu sem hófst á þriðja áratug 20. aldar og stóð í 40 ár var enginn janúar eins kaldur og þessi. Norðan og norðaustanátt var nær óslitinn allan mánuðinn en yfirleitt ekki hvöss og logn voru algeng. Í Reykjavík hlánaði ekki samfleytt í tíu daga frá 4. -13. og tveir aðrir fjögurra daga samfelldir frostakaflar komu síðar. Það var ekki fyrr en allra síðustu dagana að hlýnaði að ráði þegar áttin varð austlægari og komst hitinn í 7,0 þ. 28. á Sámsstöðum í Fljótshlíð og daginn eftir á Kirkjubæjarklaustri. Rétt áður, í lok langvarandi norðanáttarinnar, varð kaldast á landinu, -25,0 stig á Grímsstöðum þ. 26. og 27. Merkilegastur er mánuðurinn fyrir það hve þurrviðrasamur hann var. Að mínu tali er hann þurrasti janúar á landinu, aðeins 24% af meðalúrkomunni 1931-2000. Á öllu svæðinu frá Fagurhólsmýri í austri og vestur og norður um allt til sunnanverðra Vestfjarða hefur aldrei mæst eins lítil úrkoma í janúar á stöðvum sem þá mældu og enn mæla, Reykjavík, Stykkishólmi, Vestmanneyjum, Hæli, Fagurhólsmýri, Kirkjubæjarklaustri (9,4 mm), Vík i Mýrdal (26,6), Sámsstöðum (1,6), Þingvöllum (3,8), Hvanneyri (1,5), Arnarstapa (7,6), Hellissandi (5,9), Lambavatni (3,1) og Kvígindisdal (4,8 mm). Úrkomudagar voru aðeins einn til tveir á suðurlandsundirlendi og alls staðar færri en tíu á suður og suðvesturlandi en á norðurlandi var einhver úrkoma kringum helming allra daga en yfir 20 við austurströndina. Á þurrkasvæðunum var vatnsskortur til vandræða og gerði sums staðar rafveitum erfitt fyrir. Hægt var að ganga yfir Skerjafjörð á ísi um miðjan mánuðinn. Snjólag var 79% á landinu. Á Fagurhólsmýri og Kirkjubæjarklaustri var alautt allan mánuðinn en víða var alhvítt alveg frá norðanverðum Vestfjörðum til norðausturlands og einnig sums staðar á vesturlandi. Á suðurlandsundirlendi var alhvítt þrjá til tíu daga. Mest snjódýpt mældist 109 cm á Grímsstöðum þ. 28. en 101 cm á Skriðulandi í Kolbeinsdal. Á þessum árum var svona mikil snjódýpt sjaldgæf þar sem hún var mæld á annað borð sem var reyndar óvíða. Á suður og vesturlandi var mest snjódýpt aðeins 1-5 cm.
Þann fjórða birtist fyrsti vinsældalistinn í ameríska poppmúsikblaðinu Billboard.
1892 (-3,7) Loftþrýstingur var óvenjulega lágur í þessum mánuði sem minnir reyndar nokkuð á janúar 1920. Veðráttan var mjög óstöðug, ýmist snjókoma með frosti eða blotar með hvassviðri. Hafís var að flækjast fyrir norðurlandi. Fyrri hluti mánaðarins var talsvert kaldari en sá síðari sem aftur var úrkomusamari og snjóaði þá iðulega á suðurlandi. Á nýársdag var útsynningur með brimróti suðvestanlands en daginn eftir gekk í bálhvassa norðanátt. Sérlega kalt var dagana 5.-7. og komst frostið í -25,2 á Möðrudal. Lagði Skerjafjörð allan og höfnina í Reykjavík í þessum kuldum. Veðráttan var síðan afar umhleypingasöm. Í landsynningi miklum og hvössum fór hitinn í 7,9 stig í Vestmannaeyjum þ. 26. og mældist ekki meiri á landinu. Sama morgun var úrkoman 55,7 mm í Reykjavík. Er það mesta sólarhringsúrkoma sem nokkurn tíma hefur mælst í höfuðstaðnum í janúar. Úrkoman var í meira lagi á landinu nema á austfjörum og sérstaklega var hún tiltölulega mikil i Reykjavík. Munaði þar mikið um metúrkomudaginn. Svo lýsir Jónassen tíðarfarinu í Ísafoldarblöðum:
... hljóp svo í útsuður með jeljum síðari hluta h. 1. með brimróti; í dag (2.) bálhvass á norðan með gaddi. (2.jan.) - Hinn 2. hvass allan daginn á norðan svo logn og bjart veður. 3. hægur austankaldi síðast um kveldið: útsynningur með slyddurigningu fram undir kveld h. 4., er hann gekk til útnorðurs og svo í norður, hvass og kaldur h. 5. Í dag (6.) bálhvass á norðan. 6. jan. - Norðanveður mikið h. 6. og 7. en gekk þá ofan síðari part dags og gekk til austurs með hægð, rjett logn; hinn 8. var hjer logn allan daginn og drö úr kuldanum og fór að snjóa lítið eitt að kveldi. Í dag (9.) logn og fagurt vcður. (9. jan.) - Hinn 9. var hjer bjart og fagurt veður, logn; svækjurigning en logn næsta dag (10.), gekk svo til norðurs, hvass útifyrir, en fjell úr áttinni fljótt aptur, hjer logn; aðfaranótt hins 12. gekk veður til landnorðurs með kafaldsbyl allan daginn. Í dag (13.) genginn aptur til norðurs, nokkuð hvass. (13. jan.) - Sama norðanveðrið með skafrenningsbyl h. 13. og 14. með miklum gaddi, að morgni hinn 15. hægur á norðan síðan hægur austankaldi fram yfir miðjan dag en svo genginn aptur til norðanáttar hvass um kveldið en frostvægur. Í morgun (17.) kominn á austan með slyddubyl (kl. 9 morgun 0°) koldimmur. (16. jan.) - Síðari part h. 16. fór að rigna rigndi mikið um kveldið; næsta dag hvass á austan-landsunnan með mikilli rigningu, logn að kveldi. hinn 18. hægur á sunnan og regn, gekk til útsuðurs með jeljum siðast um kveldið; rokhvass um tíma af útsuðri (Sv) aðfaranótt h. 19., en eigi hvass. í dag (20.) sami útsynningur með jeljum. (20. jan.) - Hinn 20. útsynningur, hvass í jeljunum; um kveldið gekk hann allt í einu til austurs með slyddubyl og gjörði ákaflegt öskurok, sem stóð fram undir morgun, er hann gekk í útsuður með jeljum; 22. hægur á útsunnan með ofanhríð. Í dag (23.) hægur á austan með snjókomu. Loptþyngdarmælir fjell óvanalega lágt síðari part nætur (aðfaranótt h. 21.) allt niður í 705 millimetra. (23. jan.) - Hægur á austan h. 23.; gekk svo til útsuðurs með jeljum h. 24. Hægur á austan fyrst um morguninn h. 25., en fór að hvessa fyrir hádegi á austan-landsunnan, hvass með úrhellis-rigningu og hjelt því þangað til kl. 4 5 e. m., er hann lygndi og gekk í útnorðrið. Síðan við útsynning annað veifið, á sama sðlarhringnum allar áttir. Í dag (27.) vestanhroði í morgun með ofanhríð. (27. jan.) - Hinn 27. var hjer svo að kalla logn allan daginn, gekk til útsuðurs um kvöldið hægur með jeljum, hægur austankaldi h. 28. Að morgni h. 29. var hjer austankafald, koldimmur, gekk svo fyrir hádegi til suðurs með krapaslettíng svo í útsuður og litla stund aptur til austurs og svo allt í einu i útnorður eptir miðjan dag hvass með brimhroða miklum í sjónum. Í dag (30.) logn og bjart veður í morgun. (30.jan.) - Hinn 30. var hjer logn og fagurt veður allan fyrri part dags, hægur austankaldi síðari partinn; h. 31. á landnorðan með moldviðrisbyl, gekk til norðus og birti upp eptir hádegið, nokkuð hvass ...) 3.febr.).
Tveir aðrir janúarmánuðir voru svipaðar að hita og 1892.
1959 (-3,7) Þetta var kaldasti janúar á landinu frá 1936 og kom ekki annar kaldari fyrr en 1979 og enginn jafn kaldur eftir það. Tíð var talin hagstæð um sunnanvert landið og um meginhluta vesturlands, en hörð á norður- og norðausturlandi. Hæð var þá yfir Grænlandi og var landið undir áhrifum hennar en lægðir voru yfirleitt langt í burtu, norðaustan við land eða yfir sunnanverðum Norðurlnöndum, þar til undir lok mánaðarins. Kuldaloppa var yfir landinu eins og sést á kortinu er sýnir frávik frá meðalhita 1968-1996. Fyrstu þrjár vikurnar var óvenju kalt. Hámarkshiti fór yfirleitt ekki yfir frostmark og nokkra daga um miðjan mánuðinn komst lágmarkshiti niður fyrir 20 stiga frost í innsveitum á Norðausturlandi, mest -28,0 stig í Reykjahlíð þ. 11. og daginn eftir á Grímsstöðum. Þar fór frostið svo í 20 stig eða meira hvern dag þ. 12.-17. Meðaltal lægsta dagshita á landinu var -14,7 stig. Sunnan lands var þurrt að mestu og oft heiðskírt en snjóaði fyrir norðan. Þetta er sólríkasti janúar sem mælst hefur í Hornafirði en þriðji sólríkasti í Reykjavík þar sem enginn úrkoma mældist fyrr en þ. 23. Þar hlánaði ekki frá þ. 3.-23. nema lítillega þ. 11. Síðustu vikuna hlýnaði mjög og fór hitinn í 12,3 í Fagradal þ. 27. og aftur 31. á Siglunesi. Urðu þá víða vatnavextir.
Fidel Castró hélt inn í Havana þ. 3. og tók völdin sama dag og Alaska varð 49. ríki Bandríkjanna. Þann 8. varð De Gaulle forseti Frakklands en þ. 10. var söngleikurinn geysisvinsæli Delirum Bubonis frumsýndur í Reykjavík.
1920 (-3,6) Veðurstofan tók formlega til starfa fyrsta dag þessa mánaðar en Þ. 17. var þar fyrsta veðurkortið teiknað. Umhleypinga og snjóasamt var. Í heild hefur þessi vetur verið talin allra vetra snjóamestur á suðurlandi þó snjóamælingar hafi ekki verið byrjaðar. Er þetta byggt á lýsingum samtíðarmanna á snjóalögum. Mesti snjórinn var þó í febrúar og mars þó mikill hafi hann líka verið í janúar. Svo segir i Búnaðarritinu Freyr um þennan vetur: ''Eftir nýár gerði harðindi, frost og hríðar. Var veturinn eftir það einn samfelldur harðindabálkur, og því meir, sem lengra leið fram á hann. Ýmist norðanhríðar og frost eða vestanátt og útsynningur með feiknar snjókomu''. Kuldi ættaður úr heimskautasvæðinum í vestri var oft yfir landinu. Ekki voru lágmarksmælingar á Grímsstöðum þennan mánuð en á athugunartímum varð þar aldrei frostlaust sem er sjaldgæft þó um vetur sé. Kaldast var þar lesið á mæli -19,9 stig kl. 21 að íslenskum miðtíma þ. 3. og varð hvergi kaldara á landinu. Daginn eftir á sama tíma mældist reyndar mesti hitinn á Grímsstöðum í mánuðinum -0,7 stig! Og næsta dag mældist svo mesti hiti mánaðarins á landinu, 8,2 stig á Teigarhorni.
Áfengisbann var sett í Bandaríkjunum þ. 16.
1956 (-3,2) Þetta er sextándi kaldasti janúar frá 1866 en sjöundi kaldasti frá aldamótunum 1900 og 1901. Hans er hér getið fyrir það hve lengi hiti fór ekki upp fyrir frostmarkið í Reykjavík en það var alveg frá 6.-25. eða í 21 dag og þekkjast ekki dæmi um annað eins. Fór frostið í bænum undir lok kuldakastsins niður í 17,1 stig. Reykjavíkurhöfn var farið að leggja. Á ftir þessum mánuði kom einn af hlýjustu febrúarmánuðum hér á landi en þá voru einhverjir mestu kuldar sem um getur á tuttugustu öld í Evrópu.
Friðrik Ólafsson sigraði á skákmótinu í Hastings þ. 6. ásamt Korsnoj og þ. 17. hófst sögufrægt einvígi milli hans og Bent Larsens í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Little Richard birtist fyrst á vinsældlagalista í Bandarikjunum.
Fram eftir nítjándu öldinni voru ýmsir mjög kaldir janúarmánuðir. Eftir mælingum hér og hvar á landinu sem áætlaðir hafi verið til Stykkishólms var 1814 kaldastur en 1808 var litlu mildari. Voru þessir mánuðir svipaðir og 1881, sem sagt kaldari eftir mælingunum en allir janúarmánuðir nema 1918. Og Það hafa þeir líklega verið þrátt fyrir ýmsa annmarka á mælingunum sem gera mælingarnar illa samanburðarhæfar við mælingar frá því um miðja 19. öld og síðar. Janúarmánuðirnir 1835 og 1856 voru í ætt við 1866 og 1867, en nokkru mildari, svipaðir og 1886 voru svo mánuðirnir 1809, 1816, 1817, 1839, 1840, 1843, og 1853. Allt eru þetta mánuðir sem voru kaldari eða þá svipaðir þeim allra köldustu sem við þekkjum frá hlýindaskeiði okkar aldar og þeirrar síðustu, að 1918 frátöldum sem er sér á paarti. Sýnir þetta vel hve miklu harðari veðráttan var á 19. öld en okkar tímum.
Á fylgiskjali má sjá hitann í köldustu janúarmánuðunum frá 1866 á þeim níu stöðvum sem lengst hafa athugað og einnig úrkomuna.Einnig er skjal þar sem sjá má lágmarkshita hvern sólarhring á landinu í janúar 1959 og 1979.
Trausti Jónsson: Frostaveturinn mikli 1880-1881, Náttúrufræðingurinn 46. 1977.
Meginflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir | Aukaflokkur: Veðurfar | Breytt 9.11.2017 kl. 18:29 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.