12.5.2011 | 14:11
Köldustu maímánuðir
1979 (0,9) Þetta er ef til vill kaldasti maí sem mælst hefur á landinu og var 4,3 stig undir meðallaginu 1961-1990. Hann var svo kaldur að hann verður að teljast viðundur. Á einhverjum vorbesta stað á landinu, Akureyri, var meðalhitinn undir frostmarki, -0,3 stig. Reyndar var meðalhitinn undir frostmarki á öllum stöðvum frá Ísafjarðardjúpi að Neskaupstað og auk þess á Galtarvita, Búðardal og Reykhólum. Á Raufarhöfn var hann -1,9 stig og er það lægsti meðalhiti sem mælst hefur á Íslandi í maí á láglendi. Enn kaldara var þó í Möðrudal, -4,3 stig (7 og hálft stig undir meðallagi) og -4,1 á Grímsstöðum en á Hveravöllum var meðalhitinn -4,7 stig. Á nokkrum stöðum, jafnvel á suðvesturlandi, komst hitinn aldrei í tíu stig. Byrjaði mánuðurinn reyndar á því að setja maíkuldamet fyrir lágmarkshita í Vík í Myrdal, -6,2 stig (frá 1926). Auk þess sólarhringskuldamet á Akureyri, -6,0 stig og er það næst kaldasti maídagur þar frá 1949 (metið er -6,2 þ. 3. 1982 í einhverju mesta kuldakasti sem komið hefur í maí). Fyrstu viku mánaðarins var meðalhiti hvers dags undir frostmarki í Reykjavík en fyrstu þrjár vikurnar á Hallormsstað! Ekki hlánaði allan sólarhringinn í höfuðborginni fyrstu tvo dagana og heldur ekki þ. 4. þó þann dag hafi sólin skinið allan liðlangan daginn og þ. 3. var hámarkshitinn 0,2 stig. Hins vegar var alveg glampandi sólskin fyrstu tíu dagana.
Fyrstu þrjár vikur mánaðarins eða meira mátti sem sagt heita eitt samfellt hret. En inni í þessu langa hreti komu svo ýmis aukahret. Þann 12. kom slæmt kast með snjókomu fyrir norðan en slyddu fyrir sunnan. Hitinn á landinu var næstu tvo daga 5 ½ stig undir meðallaginu sem þá var miðað við en síðan fór enn kólnandi þó veðrið gengi niður. Hinn 18. var hitinn hvorki meira né minna en 8 ½ stig undir meðallagi og var það kaldasti dagur mánaðarins. Næstu nótt mældust mestu kuldarnir í mánuðinum, -17,0 á Brú á Jökuldal, -16,4 stig á Grímsstöðum, sem er maíkuldamet þar (frá 1907) og -16,3 stig á Möðrudal. (Þess má geta að tveimur dögum fyrr mældist mesta frost sem mælst hefur nokkru sinni á Hawai, -11 stig á Mána Kea eldfjallinu). Aldrei hefur mælst jafn mikið frost á landinu svo seint að vori. Meðalhitinn í Reykavík var -0,4 stig þ. 18. og er það síðasta dagsetning að vori sem meðalhiti þar hefur verið undir frostmarki a.m.k. síðan Veðurstofan var stofnuð.
Annað hret kom 22.-24. og króknuðu þá lömb í Skagafirði. Frost var alls 17 daga í Reykjavík og hafa aldrei verið fleiri í maí en þeir voru 30 á Mýri í Bárðardal, Brú á Jökuldal og Hveravöllum. Fæstir voru frostdagar 14 í Vík í Mýrdal og á Reykjanesvita. Hæsti lágmarkshiti var -5,3 stig á Keflavíkurflugvelli og -5,4 á Reykjanesvita. Á Akureyri setti mánuðurinn hvorki meira né minna en 8 kuldamet fyirr sólarhringsmeðalhita, þar af fjóra daga í röð, 17.-21. Snjólag var 42 % á öllu landinu og hefur aldrei verið meira nema 1949. Snjór var annars í meðallagi á sunnanverðu landinu en mun meiri annars staðar. Aldrei hefur verið talin alhvít jörð kl. 9 að morgni jafn seint að vori í Reykjavík sem þennan mánuð, 2 cm þ. 16. Reyndar var alhvítt aðeins þennan eina dag í borginni en á norðausturlandi var víða alhvítt í kringum 25 daga en 28 á Dalatanga. Éljagangur var meira og minna mest allan mánuðinn á norðaustanverðu landinu. Meðalsnjódýpt á Raufarhöfn var 80 cm og þar var alhvítt í 26 daga. Mesta snjódýptarmæling var hins vegar á Hveravöllum 107 cm að morgni hins 7. Annað kortið sýnir frávik þykktar yfir landinu sem var að tiltölu það mesta í mínus á norðurhveli og er þetta ugglaust þunnasti maí sem þekktur er yfir landinu! Meðalþykktin milli 1000 og 500 hPa flatanna á viðmiðunartímabilinu var kringum 5350 metrar. Því meiri sem þessi þykkt er því hlýrra er loftlagið á milli flatanna að meðaltali og samsvara 100 þykktarmetrar um það bil 5 stigum. Hitt kortið sýnir kuldaloppuna í 500 hPa fletinum, kringum 5 km hæð yfir landinu.
Eins og af líkum lætur var úrkomusamt á norðausturlandi en þurrt á vesturlandi og einkum á Vestfjörðum. Á Stóra-Botni i Hvalfirði mældist aldrei minni úrkoma í maí þau ár sem þar var mælt (1948-1982) og ekki heldur á Andakílsárvirkjun (frá 1950) eða á Reykhólum þar sem úrkoman var aðeins 0,3 mm og 0,5 á Mjólkárvirkjun inn af Arnarfirði (frá 1960). Allra minnst var úrkoman þó í Forsæludal í Húnvatnsssýslu, 0,2 mm. Víðar á vesturlandi voru met þurrkar. Í Stykkishólmi er þetta sjötti þurrasti maí frá 1857. Úrkoma í heild á landinu var dálítið undir meðallagi. Norðan og norðaustanáttir voru ríkjandi í mánuðinum en austanátt var einnig algeng. Stundum var hvasst. Hafís var talsverður úti fyrir og kom að landi við Tjörnes og í Þistilfirði svo höfnin á Raufarhöfn lokaðist alveg og að mestu leyti á Þórshöfn á Langanesi um miðjan mánuð í nokkra daga. Þann 25. voru þó allar hafnir orðnar íslausar. Ekki vantaði að sólríkt væri syðra en það var til lítils í kuldanum og á Akureyri skein sólin líka meira en í meðalári þó mánuðurinn væri undir frostmarki að meðalhita. Eftir þessa martröð hlýnaði loks mjög snögglega næstsíðasta daginn. Og þann 31. fór hitinn víðast hvar yfir 10 stig og mældist þá mesti hiti mánaðarins, 14,6 stig á Akureyri.
Margrét Thatcher varð forsætisráðherra Bretlands snemma í þessum ólánsmánuði. Kortið sýnir meðalhita mánaðarins.
1866 (1,1, 0,6) Maí 1866 er sá næst kaldasti ef aðeins er miðað við Reykjavík og Stykkishólm en ef líka er miðað við Akureyri og þessar þrjár stöðvar vegnar saman er þetta einfaldlega kaldasti mældi maí á landinu. Og auðvitað sá kaldasti á Akureyri. Þar hefur hitinn verið áætlaður -0,8 stig eftir mælingum á Siglufirði sem voru -1,3 stig. Þess kuldi kom í kjölfar næst kaldasta vetrar (des.-mars) í Stykkishólmi síðan mælingar hófust þó apríl hafi verið þokkalegur að hita.
Hvert kuldakastið kom eftir annað, segir Árbók Reykjavíkur. Að kvöldi hins annars gerði gríðarlega harðan frostakafla af norðaustri, líklega þann mesta sem komið hefur á landinu í maí síðan farið var að mæla í Stykkishólmi laust fyrir miðja 19. öld. Þann þriðja var frostið þar 7-14 stig, 5-14 stig daginn eftir og 1-10 þann fimmta. Þetta eru mestu frost sem komið hafa í Stykkishólmi í maí. Ekki snjóaði í Stykkishólmi meðan mestir voru kuldarnir, en þá var fremur bjart yfir, en hins vegar nokkuð þegar kuldakastið var að skella á og aftur þegar því lauk. Tuttugu stiga frost hefur aldrei mælst á Íslandi í maí. En mér finnst líklegt að hefðu mælingar verið þessa daga á öllum þeim stöðvum sem nú mæla hefði mælst tuttugu stiga frost einhvers staðar á stöðvum þar sem mestan kulda gerir í maí, svo sem á Möðrudal og Hólsfjöllum, í Miðfirði, dölum í Þingeyjarsýslum og jafnvel á útskögum eins og Raufarhöfn. Kuldakast þetta kom á auða jörð í uppsveitum í Árness-og Rangárvallasýslum og olli miklum fjársköðum. Kastið leið hjá þann 6. Eftir það var hiti þolanlegur um hádaginn í Stykkishólmi, 6-9 stig dagana 13.-16., en sífelld næturfrost. Annað mikið norðaustanveður skall á rétt fyrir hvítasunnu, þann 18. Kom þá blindbylur syðra með svo miklu fannfergi að skaflar tóku víða í klyftir í Reykjavík. Í Mýrdal voru skaflar sums staðar jafnháir húsum. Miklir fjárskaðar urðu einnig í þessu veðri. Í Stykkishólmi hlánaði ekki dagana 18. og 19. og þar snjóaði líka nokkra daga um þetta leyti. Enginn dagur var alveg frostlaus í Stykkishólmi en síðasta daginn komst hitinn þar að deginum i 10,3 stig og varð ekki meiri í mánuðinum. Var þá komin hæg suðvestanátt. Síðasta dag mánaðarins segir Þjóðólfur að mestur hiti í mánuðinum við Landakot í Reykjavík hafi verið 4,7° R (5,8 C) þ. 16. en mesta frost -8,7° R ( -10,9 C ) þ. 4. Meðaltal allan mánuðinn hafi verið 0,3° R (0,4 C). Veturinn hafði verið með mestu ísavetrum. Skip komst loks inn á Eyjafjörð 22. maí eftir mánaðarhrakninga í ísnum og annað skip komst inn á Siglufjörð.
1888 (1,9) Hafís var við allt norður og austurland þennan mánuð og náði hann reyndar í júní byrjun til Vestmannaeyja þar sem hann fyllti höfnina og var þá íshella við Dyrhólaey. Ekki kom annar eins hafís við landið fyrr en 1968 en náði þá ekki lengra vestur en að Skeiðarárósi. Norðankuldar voru í byrjun mánaðar og snjóaði víða þó nokkuð bjart væri yfir syðst á landinu. Komst frostið í 12,2 stig á Stóranúpi og hefur aldrei orðið meira í maí í Hreppunum. Kafaldsbylur var af norðri þ. 7. og var talinn einhver sá mesti sem dæmi voru um á þeim árstíma sunnanlands. Þann 9. dró til sunnanáttar með sæmilegum hlýindum sem spilltust aftur þ. 14. með norðaustanátt í um vikutíma og snjóaði þá nokkuð á austurlandi en rigndi eða snjóaði syðra og vestra. Alvöru hlýindi með sunnanátt komu loks þ. 21. og mældist mesti hiti á landinu 20,1 stig einhvern tíma síðdegis þ. 24. á Teigarhorni. Hellirigning var í höfuðstaðnum dagana 21. og 22., 11-14 mm. Síðustu sex dagana kólnaði á ný með norðaustanátt og var frost meira og minna á landinu nema á suður og vesturlandi þar sem var frostlaust að degi en næturfrost hverja nótt. Stundum snjóaði. Úrkoma var annars fremur lítil í þessum maí nema í Reykjavík þar sem hún var í kringum meðallag.
Jónassen afgreiddi veðurfarið í nokkrum Ísafoldarblöðum:
... Í dag 1. mai er vestanhroði með snjóhryðjum og kaldur. (2. maí) - Alla þessa viku hefur verið norðanvindur, stundum all-hvass, stundum hægur að minnsta kosti að kveldi; snjór hefur fallið talsverður einkum h. 7.; gekk hann til vesturs-útnorðurs og var ofanhríð rjett allan daginn með kulda rjett sem væri á miðþorra. Í dag 8. hægur á norðan bjart og fagurt veður og bræðir sólin nú óðum aptur allan snjóinn. (9. maí) - Framan af vikunni var hæg sunnanátt með talsverðri hlýju, gekk síðan til vesturs - útsuðurs og var hvass til djúpa, þótt hjer væri logn innfjarðar; hefur síðan verið sama veðurátt, snjóað við og við í fjöll og mikill kalsi. Í dag 15. hjer logn en útifyrir hvass á norðan; hefur snjóað talsvert í fjöll í nótt. (16. maí). - Framan af þessari viku hjelzt við norðanáttin optast hvass og kaldur og snjó ýrði úr lopti við og við; um 20. gekk veður til austurs-landsuðurs með dimmviðri og regni og hefir sú veðurátt haldizt síðan; bæði í gær og í dag (22.) talsverð hlýindi, svo grænkað hefir þessa tvo dagana. Í dag 22. rok-hvass á landsunnan um og eptir hádegið. Þessa vikuna í fyrra var hjer norðanbál með miklum kulda; 19. maí í fyrra var tjörnin hjer frosin og 2 stiga frost um hádegi. (23. maí). - Fyrsta dag vikunnar var hjer hvasst sunnanveður fram að kveldi, síðan logn næsta dag; síðan hefir verið rjett að kalla logn en einlægt við norður, kuldar og snjójel við og við úr lopti. Í dag 29. hægur á norðan með snjóýring við og við, bjartur að öðru leyti. (30. maí). - Framan af vikunni hjelzt sama norðanveðrið með kulda og var hvasst einkum til djúpa og snjór til fjalla. ... (6. júní.
1906 (2,2) Norðlægar og norðaustlægar áttir voru ákaflega þrálátar í þessum mánuði. Hæð var yfir Grænlandi en lágur loftþrýstingur yfir Bretlandseyjum. Sjá kortið. Fyrstu átta dagana var sérstaklega kalt. Ekki hlánaði þá í Stykkishólmi allan sólarhringinn og jafnvel ekki í Reykjavík einn daginn. Næstu daga skreið hitinn oftast yfir frostmark en næturfrost voru stöðug. Í Grímsey má reyndar segja að ekki hafi hlánað fyrstu 17 dagana. Í Vestmannaeyjum var hitinn hins vegar oftast yfir frostmarki og alveg sæmilegur suma dagana er á leið. Sömu sögu er að segja frá Reykjavik. Það var loks hinn 18. að mestu kuldarnir létu undan síga, en þó fáum dögum fyrr á suðvesturlandi, en á útkjálkum fyrir norðan þráuðust kuldarnir við þangað til síðustu vikuna. Mestur varð kuldinn -10,0 stig á Holti í Önundarfirði. Hríðar voru fyrir norðan þennan kuldatíma og stundum einnig á vesturlandi en lítil úrkoma var á austfjörðum og suðurlandi. Til marks um fannferngið var hnédjúpur snjór við Grenivík þ. 3. Á suðurlandi og stundum líka vestanlands voru bjartviðri í eina tíu daga frá miðjum mánuðinum. Hýjast á landinu varð 13,7 stig og var það í Reykjavík síðasta daginn. Engin úrkoma féll fyrstu tólf dagana í Reykjavík, þá í þrjá daga og svo ekki aftur fyrr en þ. 30. Úrkomudagar voru því aðeins fjórir. Alls staðar var lítil úrkoma, kringum helmingur af meðallaginu.
Eftir íslítinn vetur var töluverður íshroði fyrir norðurlandi. Hann fór inn í Húnaflóa og að Ströndum og rak svo austur eftir framhjá Skaga, Siglufirði og Melrakkasléttu, en varð hvergi hafa orðið landfastur nema á Ströndum.
Norska leikskáldið Henrik Ibsen dó 23. maí og nokkrum dögum síðar stjórnaði Gustav Mahler frumflutningi á sjöttu sinfóníu sinni í Essen.
1914 (2,4) Þessi maí var engu skárri en 1906 hvað veðurlag snerti þó hann eigi að heita ofurlítið hlýrri. Mánuðurnir voru samt ekki líkir. Landið var algjölega í maí 1914 undir áhrifum kaldra loftstrauma úr vestri og norðri. Kortið sýnir áætlað ástand í kringum 1400 metra hæð. Mesti hiti í Reykjavík var sá lægsti í nokkrum maí, 9,7 stig (þ. 28.). Þetta er eini maí í mælingasögu borgarinnar sem hiti hefur ekki náð tíu stigum. Mikil snjókoma var á landinu fyrstu vikuna og aftur kringum þann 20. Krapahryðjur voru viðloðandi svo að segja út mánuðinn vestanlands. Þess á milli voru stórrigningar. Eftir þokkalegan fyrsta maí kom frostakafli í viku með norðaustanátt þó frostlaust væri á daginn syðst á landinu. Norðan hvassviðri og 6-8 stig frost var fyrir norðan að morgni hins 7. og svipað næstu tvo daga. Snjór var í Reykjavík þ. 9. Tóku síðan við suðvestlægar áttir í tíu daga og var það besti kafli mánðarins. Hiti fór í 14,5 stig á Teigarhorni þ. 12. Hörkunorðanveður skall á þ. 21. sem stóð í tvo til þrjá daga með snjókomu fyrir norðan. Austri á Seyðisfirði greindi frá því þ. 21. að hafi gjört þar stórhríð og þar sé kominn töluveðrur snjór og á heiðum nái snjórinn hestum í kvið. Ísafold segir hinn 23. að þá sé alhvít jörð í Reykjavík og hafi snjóað drjúgum um morguninn og frameftir degi. Sé þetta óefað algert einsdæmi á þessum tíma árs, bætir blaðið við. Eftir þetta snérist til suðvestlægra og vestlægra átta út mánuðinn. Var þá sæmilega hlýtt stundum og komst hitinn í 14,8 stig þ. 26. á Möðruvöllum í Hörgárdal. Mjög hvessti af norðvestri á sunnanverðum austfjörðum næst síðasta daginn en þá voru hryðjur á vesturlandi í útsynningnum.
Í byrjun mánaðar kom hafísinn einu sinni sem oftar þetta árið upp að Horni og var hann þá 45 vikur sjávar undan landi frá Siglufirði en varð landfastur við Langanes og allt suður að Vopnafirði. Hann dreifðist þó við Langanes þ. 6. svo skip komust leiðar sinnar. Upp að Grímsey kom ísinn í byrjun maí stutta stund og svo aftur 21. og lagðist þá upp að eyjunni og fór smátt að smátt að mjakast nær norðurlandi. Var ís að flækjast við Grímsey og aðra útskaga fram undir miðjan júní. Hvítabjörn var felldur á Melrakkasléttu.
Sá merkismaður, Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi dó um miðjan mánuðinn. Mikill og mannskæður jarðskjálfti varð á Sikiley.
1883 (2,5) Mánuðurinn byrjaði fremur vel með hægri vestlægri átt og og þ. 4. komst hitinn í 14,7 stig á Teigarhorni og mældist aldrei hærri hiti á landinu. En þann 5. hófust norðanhríðir á norðurlandi með frostum. Hélst þetta veðurlag allan mánuðinn á norðurlandi. Dagana 7.-12. gerði allmikið frost í Reykjavík, mest -6,4 stig þ. 12. Lagði þá Tjörnina en allur gróður hvarf sem kominn var. Versta tíð var svo í bænum til mánaðarloka þó nokkuð mildaðist fáeina daga upp úr miðjum mánuðinum en kólnaði svo aftur í lokin og voru þá snjókomur á vesturlandi. Mestur kuldi á landinu var -9,1 stig á Grímsstöðum. Í lok maí rak hafís að Langanesi og Hornströndum en um veturinn hafði verið lítill ís. Úrkoma var kringum meðallag í Stykkishólmi og á Teigarhorni en í minna lagi í Vestmannaeyjum. Jónassen var erlendis og frá honum komu því engar æsispennandi veðursögur þennan mánuð!
1892 (2,5) Fyrstu tvo dagana var köld norðanátt með 5-7 stiga næturfrosti í Reykjavík. Í Grímsey fór frostið í -12,2 stig þ. 1 sem er þar kuldamet í maí (frá 1872) Næstu daga hlýnaði með vestanátt. En hinn 7. færðist yfir óvenjulega köld og hvöss norðanátt og snjóaði þá norðanlands og austan en léttskýjað var á suður-og vesturandi. Frostið í Reykjavík fór í -8,2 stig (eða -9,1) þ. 9. og er það mesta frost sem þar hefur mælst í maí. Á Gilsbakka í Hvítársíðu fór frostið í 14,2 stig. Ísafold segir að um þetta leyti hafi höfnina lagt á einni nóttu á Ísafirði og Dýrafirði en frostið hafi verið 12-14 stig á Celsíus. Dagsetningar á þessum atburði er ekki getið en líklega hefur það verið áttunda eða níunda. Eftir að kuldarnir gengu niður var sæmilega hlýtt á landinu í um það bil viku en í Grímsey voru þó kuldar flesta daga til mánaðarloka. Hitinn í Reykjavík fór í 12-13,8 stig dagana 12.-14. og var hlýjast þ. 13. og mældist hvergi meiri hiti í þessum mánuði á landinu, en líka var þó fremur hlýtt á suðurlandi. Annað kuldakast, en þó vægara en hið fyrra, var dagana 18.-20. Var þá bjart yfir nokkra daga syðra og sæmilegur dagshiti en stundum næturfrost. Síðustu tvo dagana kólnaði enn á ný með hvassri norðanátt. Snjóaði þá enn fyrir norðan og austan, þar sem snjókomur voru reyndar tíðar allan mánuðinn og jafnvel í Vestmanaeyjum varð snjókomu vart. Austri á Seyðisfirði segir í mánaðarlok að þar snjói nær daglega. Annars var þetta afar þurrviðrasamur maí. Bæði í Reykjavík og Stykkishólmi féll úrkoma aðeins fjóra daga og alltaf minna en einn mm í Stykkishólmi. Frá þeim 13. féll þar engin úrkoma. Þetta er enda þurrasti maí í Hólminum frá 1857. Hæð var yfir Grænlandi í mánuðinum en lægðasvæði austur við Noreg og eindreginn norðanstrengur um landið og hlýtt loft oftast víðsfjarri. Á kortinu á að vera L í staðinn fyrir H þarna suður í hafi! Jónassen gerði tíðarfarinu skil í Ísafold:
Hvass á norðan til djúpa bæði 30. [apríl] og 1. hægur og bjartur hjer; hinn 2. rjett logn og dimmur austankaldi, síðan útnorðankæla um kveldið h. 3. Suðvestangola, dimmur og ýrði suddi úr lopti síðari part dags. Í morgun (4.) hægur á útnorðan, dimmur. (4. maí) - Hinn 4. á vestan-útnorðan, hægur; logn og dimmt veður h. 5. með útsynnings-sudda síðari part dags; hægur á vestan h. 6., bjartur. Í morgun (7.) bjart sólskin og logn; norðangola, fyrir utan.(7. maí). - Hægur á norðan h. 7., en hvass á norðan hínn 8. með miklum gaddi; kl. 9 um morguninn var 8 stiga frost og frusu gluggar um miðjan dag; logn eða hæg útræna h. 9. Landnorðan, hvass og kaldur h. 10. Hægur á austan og dimmur í morgun (11.) og ýrir regn úr lopti. (11. maí). - Undanfarna daga hefir verið austanátt hæg og hlýnað mikið í veðri. Enn þá er hjer mikill klaki í jörðu. (14. maí). - Hægur á austan og bjartur h. 14. gekk svo til norðurs, hægur hjer en hvass útifyrir; logn og regn úr lopti h. 16. bjartur á landnorðan að morgni h. 17., landsunnan hægur síðari part dags. Í morgun (18.) rjett logn, bjartur. (17. maí). - Undanfarna daga á norðan, kaldur og við og við snjór úr lopti, hvítt hjer snemma morguns h. 20. Ekkert útlit enn að breytast muni veður. (21. maí). - Hægur á norðan al!a undanfarna daga, optast logn á kvöldin; Einlægt sami kuldinn á nóttu. (25. maí). - Undanfarna daga rjett logn og bezta veður; loksins regn úr lopti h. 27. Í morgun (28.) hæg útræna, bjart og fagurt veður. (28. maí). - Alla undanfarna daga norðanveður, þó eigi mjög hvass nema 30. og 31. rokhvass með köflum. Ekkert útlit enn til breytingar á veðri. (1. júní).
Við Hornbjarg og Melrakkasléttu var hafís langt fram í maí. Um miðjan mánuðinn var engin sigling enn kominn til hafna milli Ísafjarðar og Akureyrar og héldust hafþök af ís fyrir norðurlandi milli nyrstu útkjálka og var ísinn landfastur beggja megin og hindraði þannig allar siglingar. Við austfirði var einnig mikill ís og fór hann ekki af Seyðisfirði fyrr en um Jónsmessu og um svipað leyti af Eskifirði og Berufirði. Skip komust hins vegar til hafna vestanlands og norðan um miðjan maí.
1949 (2,6) Þessi mánuður var lengi alveg alræmdur í minni fólks. Það hjálpaði líka til að muna hann að þetta var vorið sem landið gekk í NATÓ með tilheyrandi þjóðfélagsátökum. Í skáldsögu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar Drekar og smáfuglar, sem fjallar um þessi átök, eru vorkuldarnir stundum notaðir sem bakgrunnur atburða. Kom þessi maí í kjölfar næst kaldasta apríl á 20.öld. Norðanlands og í innsveitum syðra voru fádæma snjóþyngsli og víða horfði til vandræða vegna heyleysis. Jafnvel var gripið til þeirra ráða að varpa heyi úr flugvél því samgöngur voru allar úr skorðum gengnar vegna fannkynngi. Snjólag var 48%, það mesta í maí sem snjóalgstölur ná yfir frá 1924. Alls staðar var mjög snjóþungt miðað við maí nema á sjávarstöðvum við suðurströndina. Alautt var á Loftssölum við Dyrhólahey, Reykjanesvita og Sámsstöðum en hvergi annars staðar. Í Reykjavík voru alauðir dagar 30. Á suðurlandi voru reyndar engir dagar heldur alhvítir nema einn á Kirkjubæjarklaustri og sá 25. í Vestmannaeyjum þar sem snjódýptin var 25 cm. Snjór hefur reyndar einu sinni verið meiri í maí á Stórhöfða og þar hefur jafnvel mælst snjór í júni. Á Hólsfjöllum, við Mývatn og á Möðrudal, var alhvítt í eina tuttugu daga. Alhvítt á láglendi var allvíða kringum 15 dagar á Vestfjörðum og á norðurlandi en sums staðar þó minna, t.d. þrír dagar á Akureyri. Í mánaðarlok var enn mikill snjór sums staðar, t.d. 55 cm á Sandi í Aðaldal og 85 cm á Siglunesi. Sama snjóþekjan á Siglunesi átti svo eftir að setja Íslandsmet í snjódýpt í júní þegar sá mánuður rann upp. Það er til marks um fannfergið að þ. 30. lét þak á nýju húsi á Siglufirði undan vegna snjóþyngsla! Aldrei hefur mælst eins úrkomusamur maí á Sandi, 84,9 mm (1934-2004) og sólarhringsúrkoman þar 29,2 mm þann 30. er líka met og var hún snjór! Á Húsavik mældist einnig meiri mánaðarúrkoma en í nokkrum maí, 105 5 mm (1927-2004) og í Reykjahlíð við Mývatn 79,0 mm (frá 1938). Í Fagradal í Vopnafirði var sólarhringsúrkoman 20,2 mm þ. 28. og varð aldrei meiri meðan mælt var (1932-1964). Þann morgun var úrkoman 34,8 mm á Raufarhöfn sem þar er einnig maímet.
Mánuðurinn hófst reyndar með sæmilegum hlýindum með mikilli rigningu fyrstu tvo dagana. Síðan gekk hann í norðanátt og kulda og þ. 4. mældist metkuldi í maí á Suðureyri við Súgandafjörð, -7,4 stig (1923-1989). Linnti norðanáttinni varla allan mánuðinn nema dagana 8.-12. þegar vindátt var breytileg og ekki kalt í veðri. Hitinn komst í 17,5 stig þ. 9. á Hallormsstað og 17 á Akureyri sem er reyndar mesti hiti sem þar hefur mælst 9. maí frá 1949. Héldu nú kannski sumir að vorið væri að koma. En það var öðru nær. Aðfaranótt hins 13. fór lægð norður með austurströndinni og bar með sér kalt loft yfir landið sem gerði sig heimakomið. Blindhríð var á Siglufirði. Síðustu viku mánaðarins mátti heita vetrrarríki um allt land", segir Veðráttan. Fyrir norðan var linnulaust hríðarveður og suma dagana snjóaði einnig sunnanlands. Oft var hvasst. Vindhraði fór í 11 vindstig í Reykjavík þ. 28. Þetta var nokkru áður en Sigurður Þórarinsson orti ekkert er fegurrra en vorkvöld í Reykjavík". Kuldamet fyrir sólarhringsmeðalhita viðkomandi daga í maí komu á Akureyri dagana 24.-26. og aftur 29.-30. Tvo síðustu dagana hlýnaði reyndar talsvert þó ekki væri hægt að tala um nein alvöru hlýindi. Sólríkt var fyrir sunnan þennan mánuð enda var norðanátt mjög algeng. Dagana 15.-25, var t.d. mikil sól í Reykjavík og á suðurlandi en oft næturfrost og svalt um daga nema 20.-22 þegar fremur hlýtt var um hádaginn. Á Kirkjubæjarklastri hefur ekki mælst minni úrkoma í maí, 22,1 mm (frá 1931). Á landinu öllu var úrkoman talsvert minni en í meðallagi. Kortið sýnir þyktina þennan mánuð. Yfir Keflavík er þyktinn að meðaltali margra ára um 5350 m í maí.
Snemma í mánuðinum lést belgíska nóbelsskáldið Maurice Maeterlinck. Hann er víst flestum gleymdur en Debussy samdi frábæra óperu sína Pelleas og Melisande við leikrit eftir hann.
1882 (2,7) Sífelldir næðingar einkenndu þennan maí auk kuldanna. Og mánuður þessi var eins konar upptaktur að hraklegasta sumri sem komið hefur á norðurlandi síðan sæmilega nákvæmar veðurskráningar með mælitækjum hófust. Gróður var nær enginn í mánaðarlok. Fyrstu vikuna voru látlaus frost en um miðjan mánuð kom viku kafli með þokkalegum hita. Komst hitinn í Stykkishólmi í 14,2 stig þ. 20. Klukkan 14 þann dag var hitinn 13 stig í Grímsey og næsta morgun 13,7 stig á Teigarhorni. Það hlýtur að hafa verið um þetta leyti sem sagt er í prentuðum skýrslum að hitinn hafi farið í 16,3 stig í Reykjavík, 19,8 á Akureyri og mest í 20,7 stig á Hrísum í Eyjafjarðardal. En þessi dýrð stóð ekki lengi. Norðanbál gerði dagana 23.-26, með miklu sandfoki á suðurlandi en stórhríð fyrir norðan. Þann 24. júní lýsti Þjóðólfur svo veðrinu í Reykjavík og víðar þessa daga: Stormur þessi stóð hér í tvo daga, enn síðan lægri þann 25. enn hélzt þó við næstu daga á eptir. Frost var hér nokkurt og fjúkslitringur með köflum, enn festi aldrei hér, enn upp til sveita kom snjór nokkur. Svo mun verið hafa víðast um land, því úr Skagafirði er oss ritað þann 28., að þá væri þar alstaðar alsnjóa niður í sjó. Ur Borgarfirði hefir frétzt, að þá hafi komið slíkur snjór og óveður, að sauði marga hafi fent til bana i Hvítársíðu og Norðurárdal.
Var síðan kuldatíð til mánaðarloka. En í apríllok hafði norðan illvirði fyllt firði fyrir norðan og austan með hafís sem náði langt frá landi. Komst ísinn allt að Breiðamerkursandi og Ingólfshöfða en á Vestfjörðum fór hann ekki suður fyrir Ísafjarðardjúp en lagðist upp að Straumnesi. Sums staðar losnaði ísinn við og við og var hann að koma og fara, t.d. á Eyjafirði og Vopnafirði. Úrkoman var mikil á austurlandi, kringum meðallag í Stykkishólmi en í minna lagi í Vestmannaeyjum.
Engar veðurlýsingar eru til frá Jónansen þennan mánuð en 20. febrúar 1883 birti Norðanfari á Akureyri yfirlit yfir veður hvers mánaðar árið 1882 eins og það var framarlega í Eyjafirði''. Svo segir um maí:
1.-2. norðan hvass með snjófjúki og þokulopti. 3. kyrr og bjartur. 4.-5. norðan hægur; loptbert. 6,-7. kyrrt og heiðríkt. 8. suðvestan hvass; loptbert. 9. kyrr og þykkt lopt. 10.-12. norðan hægur með þokulopti; smáskúrir. 13. -15. suðvestan hægur með þykku lopti og smáskúrum. 16.-18. suðvestan hvass; þykkt lopt. 19.-20. suðaustan hægur; skýjað. 21.-25. norðaustan þjetthvass; þokufullt og snjófjúk stundum. 26. kyrrt og þokufullt. 27.-30. norðan hægur með þokulopti. 31. suðvestan hægur með skúrum. 11. daga af mánuðinum var frost, en 20 daga hiti. Mest var frost að morgni hins 1. 10° C. Mestur hiti um hádegi hins 20. 21° C.
1886 (2,9) Mildar suðaustlægar og suðlægar áttir voru fyrstu dagana og úrkomusamt syðra. Hitinn komst t.d. í tíu stig þann fyrsta í Reykjavík og svipað næstu þrjá daga. Síðan gekk í norðlægar áttir og austlægar og var oft bjart syðra seinni helming mánaðarins. Hæð var þá yfir Grænlandi en tiltölulega lágur loftþrýstingur yfir vestanverðum Bretlandseyjum. Þó kalt væri framan af voru frost þó aldrei afskaplega hörð miðað það sem oft er í mjög köldum maímánuðum, aldrei meira en eitt stig að morgni í Stykkishólmi. Kaldast varð -7,1 stig á Raufarhöfn. Kaldasti tíminn var frá þeim 6. til hins 17. en þá hlánaði ekki í Grímsey. Hríðar voru viðloðandi á vesturlandi fram yfir miðjan mánuð. Aldrei varð almennilega hlýtt en þó komu örfáir sæmilega hlýir dagar upp úr þeim 20. og komst hitinn mest í 14,1 stig á Teigarhorni þ. 24. Fróði á Akureyri segir frá því hinn 31. að síðastliðna viku hafi verið mjög kalt, frost á hverri nóttu og alveg gróðurlaust. Úrkoma var lítil á lanidnu í mánuðinum. Á þessum tíma birti Jón Á. Hjaltalín á Möðruvöllum í Hörgárdal eins konar veðuruppgjör í Fróða á Akureyri um hvern mánuð. Hvað sem um áreiðanleika þeirra má segja greinir hann frá því 6. júlí í blaðinu að í maí hafi snjóað sjö daga í mánuðinum en þurrrir dagar verið 23 og hvassir dagar 6. Mesta hita mældi hann 14,2 °C þ. 2. en mesta kulda -2,0° þ. 11. Meðaltal allan mánuðinn gefur hann upp sem 3,75° C sem er miklu miera en reiknaður meðalhiti fyrir Akureyri sem sjá má í fylgiskjalinu vinsæla, eftirlæti blogglesenda! Svo lýsir Jónassen veðrinu í Ísafold:
Mestalla vikuna hefir verið sunnanátt eða landsunnan með hlýindum, og hefir við og við rignt nokkuð. 3. var hjer landsunnanrok fyrri part dags, hægur á sunnan að kveldi. Í dag 4. hæg austanátt, dimmur. Jörð grænkar óðum. (5. maí). - Umliðna viku hefir viðrað óvenjulega vel bæði til lands og sjávar, rigningaskúrir og sólskin hafa skiptzt á, svo nú er jörð hjer eins græn eins og um miðbik júnímánaðar í fyrra; stöku nótt hefir snjóað lítið eitt í fjöll. Í dag h 11. hæg útnorðanátt, bjart sólskin. - í fyrra var hér norðanbál um þetta leyti með talsverðu frosti, svo alla glugga lagði móti norðri; 8. mai snjóaði hjer í bænum og gjörði alhvítt. (12. maí) - Alla umliðna viku hefir hjer verið norðanátt með talsverðum kulda; þótt eigi hafi hann verið mjög hvass hjer; hefir verið að sjá rok til djúpa á hverjum degi; við og við hefir snjó ýrt úr lopti; í Esjuna hefir snjóað, svo alhvít hefir orðið alveg niður sjávarbakka. Ekkert útlit er fyrir, enn að hann sje að ganga niður veðrið. Í dag 18. vægari með veður, bjartur og með hlýasta móti. (19. maí) - Mestalla vikuna hefir verið hjer sama norðanáttin sem fyrri vikuna, opt hvass mjög til djúpanna; 22. og 23. var vestanútnorðanátt með dimmviðri, og gekk aðfaranótt h. 24. til hánorðurs með bjartviðri; kuldi hefir verið talsverður í lopti og sama helzt við enn; í dag 25. hægur á norðan, bjartur. (26. maí). - Framan af vikunni hjelzt sama norðanáttin sem að undanförnu (síðan 12. maí). Síðan hefir verið hæg veðurátt; 30. rigndi lítið eitt síðari part dags; jörð skrælþurr. Á hverri nóttu hefir legið við frosti hjer niður við sjó. Alla vikuna hefir loptþyngdarmælir staðið mjög hátt og varla hreyft sig. Í dag 1. júní er hægur vestan kaldi, bjart veður. (2. júní).
Ís var við Grísmey þennan mánuð. Íshroði komst einnig inn á Ísafjarðardjúp en 2. maí hvarf hins vegar síðasti íshroði af Eyjafirði. Ís lónaði úti fyrir norðurlandi en í lok mánaðarins rak hann að landi á útskögum og hélst þar við viku af júní. Allan mánuðinn voru kuldar og næðingar og stundum hretviðri, einkum þó vestanlands og norðan. Lagnaðarís var riðinn yfir Hrútafjörð frá Þóroddsstöðum að Borðeyri þ. 20 og snemma í júní var enn ís á vötnum í norðlenskum sveitum
Snemma á 19. öld komu nokkrir ótrúlega kaldir maímánuðir samkvæmt mælingum sem gerðar voru hér og hvar á landinu, en hafa verið reiknaðar til meðalhita í Stykkishólmi. Árið 1812 var meðalhitinn þar talinn 1,5 stig, 1,6 árið 1820 og 1,7 árin 1811 og 1803. Eftir þessu virðist sem maímánuðir af svipuðum kuldaflokki og 1979 og 1866 hafi verið furðu algengir á landinu í upphafi 19. aldar ofan á harða vetur og rysjótt sumur sem þá ríktu. Árin 1811 og 1812 voru mælingarnar gerðar á Akureyri og var þar aðeins lítillega kaldara en reiknað er yfir til Stykkishólms. Mæliaðstæður voru aðrar en nú gerist en mælt þrisvar á dag: á morgnana, um miðjan dag og seint á kvöldin. Þess má geta að feikilegt kuldakast var 2.-4. maí 1811 á Akureyri. Frostið á athugunartímum var þá aldrei minna en -5 stig en mest -13,8 stig að kvöldi annars maí. Mesta frost á seinni áratugum í maí á Akureyri er tíu stig. Í maí 1812 var líka mikið kuldakast á Akureyri 3.-5. maí. Tólf stiga frost var þar að kvöldi hins fimmta.
Árbók Reykjavíkur; Ísafold 9, maí 1888; 16. maí; 19. maí 1906; Ísafold 1. júní 1892; Austri 30. maí 1892; Fróði 1. júní 1882.
Fyrra fylgiskjalið sýnir ýmsa veðurþætti á stöðvunum eins og venjulega en hið síðar er dálítill vorglaðningur um maí 1979 og 1949.
Meginflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir | Aukaflokkar: Bloggar, Veðurfar | Breytt 7.12.2011 kl. 20:26 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.