Slæðingur af minniháttar kuldametum

Í nótt voru næturfrost mjög víða um land. Mest var það í byggð -5,6 stig á Reykjum í Fnjóskadal en á reginfjöllum -9,1 á Brúarjökli. 

Nokkuð er í dagsmetið í byggð en aldrei hefur reyndar mælst meira frost þennan dag á reginfjöllum. En það segir kannski ekki mikið því mælingar á þeim hafa ekki staðið nema í nokkur ár og met á þeim eru því ekki góður mælikvarði á styrkleika kuldans miðað við fyrri tíð, jafnvel þegar þaðan koma lægri tölur en nokkru sinni hafa mælst á veðurstöð yfirleitt. En hvað hefðu þær sýnt í kuldaköstum fyrri ára?

Þrjú mánaðarkuldamet á láglendi fyrir júní voru reyndar sett í nótt en ekki á stöðvum sem ýkja lengi hafa athugað. Þessi met verða því að teljast minniháttar.

Í Stafholtsey mældust -3,6 stig en gamla metið var -3,1 stig frá þeim öðrum árið 2000. Mælingar frá 1988. Sjálfvirka stöðin á Hvanneyri átti nokkuð í það í nótt að mæla eins mikið frost eins og mannaða stöðin þar mældi í langri en nokkuð slitróttri mælingasögu, -3,7 stig þ. 11. 1973 í einhverju mesta kuldakasti eftir árstíma sem komið hefur. Á Húsafelli mældist frostið í nótt -4,3 stig.

Á Hjarðarlandi í Biskupstungum mældust -3,5 stig en gamla metið var -2,7 þ. 3. 2000. Mælt frá 1990.

Á Torfum inni í Eyjafjarðardal mældust -5,5 stig en þar höfðu áður mælst mest í júní -4,8 stig þ. 3. árið 2000. Mælingar í júní frá 1998.

Á stöðvum sem athugað hafa áratugum saman hafa engin kuldamet komið. Það er kalt þessa daga en ekki alveg eins og kaldast hefur orðið um þetta leyti, t.d. árin 1975 og 1973. Það leiðinlega við þetta kuldakast er það að slík hafa ekki verið að sumarlagi í háa herrans tíð og ekki hefur komið verulega kaldur sumarmánður yfir landið síðan júní 1997.  

Ekki hafa skeyti komið frá Staðarhóli það sem af er júní  en hann er alveg trúanlegur til að hafa sett kuldamet en þar hefur verið mælt síðan 1961. Það er segin saga  að ef mælingar á stöð falla niður gerast stórtíðindi sem þar með verða án skráningar. En ætli sé nokkuð búið að leggja Staðarhól niður sem mannaða veðurstöð?

Þær eru nú óðum að týna tölunni. 

Á Suðurlandsundirlendi var frost út um alllt, mest -4,4, stig í Þykkvbæ og -4,9 á sjálfvirku stöðinni á Hjarðarlandi en -3,5 á kvikasilfursmælinum. Mismunurinn sýnir vel að ekki er alltaf auðvelt að átta sig á hvort um raunverulegt hita- eða kuldamet er að ræða á stöðvum sem voru lengst af mannaðar en eru nú orðnar sjálfvirkar og þær eru ansi margar.  

Ekki mældist í nótt frost í Reykjavík en hins vegar í Straumsvík og á Hólmsheiði og jafnvel á Skrauthólum á Kjalarnesi.

   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á blaði 2, í viðhenginu, stendur Maí 2011 í haus, á þetta ekki að vera Júní 2011?

Erlendur (IP-tala skráð) 9.6.2011 kl. 10:46

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Jú, auðvitað. Verður leiðrétt snarlega. Takk fyrir ábendinguna.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.6.2011 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband