Fjöldadauði

Það deyr sprautufíkill á þriggja vikna fresti.

Þættirnir í Kastljósi um læknadóp" vöktu athygli og hafa vafið nokkuð upp á sig. Ekki er þess að vænta að nein slík umfjöllun fari  fram án þess að um hana verði skiptar skoðanir. Engin umræða er það eina sem ekki mun valda neinum deilum. Og sumir vilja kannski helst hafa engar umræður.

Ýmsar staðreyndir um notkun á rítalíni, sem er einna mest notaða „læknadópið',' eru sláandi.   

Þeim sem taka lyf í þeim lyfjaflokki sem rítalín tilheyrir fjölgaði um næstum því um helming frá árinu 2006 til 2010 en á sama tíma fjölgaði ávísunum á þessi lyf  um 70%. Níutíu prósent sprautufíkla sem voru í meðferð hjá SÁA í fyrra höfðu sprautað sig með þessum lyfjum og segja sjúklingsarnir að fíknin  í  það sé sterkari en í flest önnur vímuefni. Þetta er lyfið sem þeir nota mest eða næst mest. Eftir að hömlum á ávísun lækna á þessi lyf var létt hefur sala þeirra aukist stórkostlega. Nú er svo komið neysla þeirra hefur unnið upp þá minnkun sem orðið hefur á neyslu á kókaíni og e-pillum. Þessi lyf eru sem sagt líka ógurleg fíkniefni og eru orðin hættulegustu lyfin sem sprautufíklar nota.

Einn þeirra deyr á þriggja vikna fresti. Flest fólk í blóma lífsins.

Frétt um þetta kom nýlega í sjónvarpinu. Hún hefur ekki vakið minnstu viðbrögð  og alls engar umræður hafa orðið um hana. Miklar og heitar umræður hafa hins vegar orðið um það að í Kastljósi voru birt nöfn þeirra lækna sem mestu hafa ávísað af þessum lyfjum.

Ef mönnum er einhver alvara með það að binda enda á þennan fjöldadauða sprautufíkla er alveg óhjákvæmilegt að gefa þeirri staðreynd gaum að öll koma þessi lyf upphaflega frá læknum. Þeim er ekki smyglað til landsins. Einn læknir hefur ávísað einum fjórða af öllu því rítalíni sem  ávísað hefur verið til fullorðinna. Og miðað við þær staðreyndir sem komið hafa fram um aukningu þessara lyfja og að þau eru orðin helsta fíkniefnið er það varla nein goðgá þó menn álykti að hugsanlega megi læknar gæta vel að sér í þessu sambandi. Þeir séu hluti af þessum banvæna vanda. Formaður Læknafélags Íslands sagði reyndar í Kastljósi um daginn eitthvað á þá leið að þeir sem ávísa mest af þessum lyfjum verði að sýna fram á það að allt það athæfi sé byggt á traustum læknisfræðilegum grunni og bættri reyndar við að engar sannanir væru fyrir því að ritalín kæmi  fullorðnum að gagni sem haldnir væru ofvirkni með athyglisbresti. Hún var sem sagt með alvarlegan efa og hann hlýtur að kvikna upp í huga hvers manns, sem lætur sig málefni fólks í fíkniefnavanda einhverju skipta, ef hann beitir sjálfan sig hreinlega ekki andlegu ofbeldi.

En nú er ekki lengur á þessa ábendingu formanns Læknafélagins minnst. Enginn talar um að skýra verði með rökum þessa gífurlegu notkun á lyfi sem er  að deyða fólk í stórum stíl. Nú er bara verið að slá því föstu í blaðagrein eftir blaðagrein að alls ekkert sé athugavert við allar þessa lyfjaávísanir. Þær séu allar með tölu byggðar á réttlætanlegum læknisfræðilegum grunni. Þetta er ekki orðað alveg svona en þannig er tóninn.

Komið hefur fram í fréttum frá SÁÁ að  fyrir enga muni  eigi að ávísa þessum lyfjum til fíkla. En það hefur líka komið mjög skýrt fram frá SÁÁ að geðlæknar leita næstum því aldrei eftir upplýsingum frá meðferðarstofnunum um þá sjúklinga sem þeir eru að ávísa þessum lyfjum til. Eru það öfgar eða ærumeiðandi aðdróttanir að álykta að slíkt sé óafsakanlegt hirðuleysi og kæruleysi um líf samborgaranna í ljósi þess að einn sprautufíkill deyr á þriggja vikna fresti og þeirra uppáhaldslyf eru einmitt rítalín og skyld lyf?

Er virkilega hægt að yppta bara öxlum yfir þessu eins og ekkert sé?

Líta verður á nafnbirtingu Kastljóss á læknum og einnig afdráttarlausar vangaveltur formanns SÁÁ um gagnsleysi rítalíns til lækninga á ofvirkni á fullorðnum (sama hugsun og hjá formanni Læknafélagsins), sem hugsanlega standast ekki í öllum smáatriðum, sem ábendingu um það að ef menn vilja í alvöru leysa þann  vanda sem getur fylgt notkun rítalíns sem fíkniefnis sé  nauðsynlegt að  beina athyglinni undabragðalaust að þætti lækna í ávísun þessara lyfja.

En hvað gerist? Reynt er að kveða alla þessa umræðu harðlega í kútinn með því að kalla hana nornaveiðar, mannorðsmorð, fordóma og árás á sjúklinga. Allt reyndar mjög gamalkunnug viðbrögð. 

Það sem er núna að gerast er einfaldlega þetta: Þrátt fyrir það að allt það rítalín sem er í umferð sé frá læknum komið er verið að byggja upp rammgerðan varnarmúr utan um læknaheiminn, bæði í heild og þá einstaklinga sem nefndir hafa verið, og nánast staðhæft að þar sé alls ekkert misjafn eða athugunarvert, allt sé í sjaldgæfum sóma, þar sé orsaka vandans á engan hátt að leita. Sá læknir sem mest hefur ávísað af því lyfi sem fíklar eru að deyja út af, meira ein einn í mánuði hverjum, er jafnvel sleginn til riddara og kallaður frumkvöðull. Leiðari Morgunblaðsins krefst þess að Kastljós biðjist afsökunar á því að hafa birt nafnalistann yfir þá lækna sem mest hafa ávísað á lyfin. Enginn leiðari er skrifaður um þá æpandi staðreynd á einn fíkill deyr á þriggja vikna fresti og flestir þeirra eða allir hafa notað „læknadóp". Vel á minnst það má ekki kalla þetta dauðalyf „læknadóp" þó það sé eingöngu frá læknum komið því það er víst dónaleg móðgun við sjúklinga.

Jafnframt þessu er verið að búa til þá mynd af orsök þessa vanda og öllu eðli hans og umfangi að hans sé eingöngu að leita í heimi fíkla í undirheimunum. Átakanlegasti vitnisburður um þetta er ályktun stjórnar ADHD sem segir þetta nánast berum orðum.  Fíklar iðka það vissulega að ganga frá lækni til læknis til að láta þá skrifa upp á fyrir sig. En þegar læknar trassa það algjörlega að tékka á sögu þessara sjúklinga eins og SÁÁ staðhæfir er ekki hægt að kenna fíklum eingöngu um þetta. Læknarnir eiga líka hlut að máli.  

En það er einmitt í gangi feiknarleg og krampakennd afneitun á því að læknar eigi nokkurn minnsta hlut í þeim fjöldadauða sem nú geisar meðal fíkla. Þess í stað er öll áhersla á það lög að glæpavæða vandann, láta sem hann sé ekkert annað en sé undirheimassukk og spilling og tengist ekki á neinn hátt hinni virðulegu og valdamiklu læknastétt.

Ef þetta sjónarmið verður ofan á, með hjálp ofurþunga læknastéttarinnar, sjúklingafélaga og sumra fjölmiðla, er enginn von til þess að sporna megi  við þeim hryllingi og dauða sem er fylgifiskur fíkniefna sem er sprautað í  æð og hefur verið kallað „læknadóp."

Og á meðan menn iðka þessi ómerkilegu undanbrögð  fellur einhver ung manneskja í valinn á þriggja vikna fresti.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Waage

Siggi ég er þér ósammála í flestum atriðum.

Af hverju endar læknadóp á götunni, sem dæmi þá fara fíklar í heimsóknir þar sem þeir vita að verið er með ofvirkt barn, fara á klósettið og í eldhússkápana meðan húsráðandi fer á klósettið. Fíklar fá ritalin skrifuð á börn og nota það sjálf.

Sem gamall amfetamín-fíkill þá get ég nú sagt mína skoðun og hún er sú að menn verða ekki spítt-hausar af þeim skömmtum sem læknir ávísar. Fíknin byrjar annars staðar og fólk gerir sér síðan upp einkenni.

Þessi viska hjá þeim í Kastljósi með að ritalin þurfi að sprauta að meðaltali hva 12-2 sinnum á sólarhring, þetta á bara við um allt spítt sem er meth. Heroín markaðurinn er sniðugur bransi, þar fær fólk sér fix 2-3 á sólarhring, alltaf á sama tíma.

Spítt-frík eru með dæluna stanslaust á lofti og kemur það ávísunum lækna ekkert við. Auðvitað er Íslenskur amfetamín-markaður fyrst og fremst smyglað efni, hér er einnig framleiðsla. Enda er ritalin nú ekkert gæðastöff í þessum flokki, raunar bölvað drasl.

Hvað varðar sambandsleysi SÁÁ við umheiminn þá veist þú vel Siggi hver á upptökin að því. SÁÁ vill enga samvinnu á því sviði enda er það almenn regla út um allan heim að ekki sé gefið upp neitt um vistmenn af öryggisástæðum. Það gekk nú næturvörður um með haglabyssu um á nóttunni þegar ég var á Hazelden og ekki var vanþörf á :).

Það sem hefur komið út úr þessu er að menn eru farnir að tala um þörfina á að samkeyra gagngrunna, það er á ábyrgð landlæknis og hefur hann valið í krafti síns embættis að hafa enga samkeyrslur, ekki einu sinni á milli lyfjaverslanna !!!!

Formaður læknafélagsins sagði að sínpersónulega skoðun væri að ritalin hjálpaði ekki fólki með ADHD, en hún bætti við að hún gæti ekki rökstutt þessa skoðun sína, til þess hefði hún ekki læknisfræðileg rök.

Það hlustar engin á Gunnar Smára enda á maður nú eftir að sjá hvort hann tollir í stjórnarformannsjobbinu eftir þetta, mér finnst hann ætti að láta sig hverfa enda búin að' drulla upp á bak.

Það er svona fíkla-drama, alka-drama, lykt af þessu. Við' eigum svo bágt og við lifum í heimi sem gerir okkur svona, eigum ekkert val, sem sagt hallærislegt fíkladrama.

Allt í lagi, það á bara ekki við þegar kemur að meðferð ADHD sjúklinga enda ekki sama dramað þar á ferðinni. Grétar Sigurbergsson er okkar helsti sérfræðingur á þessu sviði. Ef að menn vilja leiða að því líkur að hann hafi farið offari í ritalinávísunum, þá hefur bara ekkert komið fram í þessu hörmungaratriði Sigmars og Jóhannesar, sem leiðir neinar líkir að því. Til þess þyrftu mun fleiri forsendur að liggja fyrir þeirra aðdróttunum.

Fleiri tölur, samsetning á sjúklingum og sú staðreynd að Grétar S. vinnur alfarið á stofu, ekki á neinni deild sem býður upp á mikla sérhæfingu. 

Nei, niðurstöður þeirra í Kastljósi eru hroði, yfirferðin stendur ekki undir eðlilegum kröfum.

Gunnar Waage, 10.6.2011 kl. 18:23

2 Smámynd: Gunnar Waage

já eða meða húsráðandi fer á hitt klósettið væri það líklegast :)

Gunnar Waage, 10.6.2011 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband