Veðurstöðvar á austurlandi

Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Austurlands vill meina í þessari frétt  að þriðjungs fækkun ferðamanna sums staðar á austurlandi stafi af því að Veðurstofan hafi spáð svakalegra veðri en svo varð. Er þó veðrið oft allsvakalegt á austurlandi og drungalega Dalatangi syngur.

Hún er reyndar að tala um sjálfvirkar vélrænar spár. Þær eru auðvitað gagnlegar en alltaf er nú Veðurstofan að brýna fyrir fólki að gæta líka að nýjustu spám í útvarpi, sjónvarpi og netmiðlum sem bæta við þær sjálfvirku.

Ekki hef ég fylgst svo glöggt með spám eða hvernig þær hafa ræst en man þó vel hve spáin var góð fyrir austurlannd um veslunarmannahelgina. Enda þusti fólk á þetta skrall á Egilsstöðum og þetta eistnaflug -eða var það neistaflug- á Neskaupstað.

Nú er reyndar verið að kanna gæði veðurspáa fyrir Ísland, bæði innlendra og erlendra. 

En þessi markaðsstjóri hefur eflaust gert sjálf sína góðu könnun. Ég trúi því ekki að hún hlaupi með kvartanir í fjölmiðla nema hafa þetta allt á hreinu. Í Morgunblaðinu segir hún að kuldapollur sé á Egilsstaðaflugvelli sem ekki sé inni í Egilsstaðabæ og stafi hann af framkvæmdum á Kárahnjúkum sem hafi kælt vatnið. Oft muni tveimur eða þremur stigum á hita á flugvellinum og í bænum. 

Það er reyndar merkilegt athugunarefni hvort breyting á vatninu í Lagarfljóti hafi breytt veðurfari á svæðinu. 

Ég styð markaðsstjóra austurlands annars eindregið í því að þörf sé á  fleiri veðurstöðvum á austurlandi, þar með talið einni í Egilsstaðabæ - sem lengst frá leginum svala.

Það vantar líka sjálfvirkar stöðvar á Úthéraði. Eina vil ég fá á Eiðum, aðra á svæðinu kringum Hjaltastað.

Ég heimta líka sjálfvirka stöð á Skriðuklaustri.

Já og í Skriðdal, til dæmis þar sem einu sinni var mönnuð veðurstöð, í Birkihlíð. 

Nú, þá væri ekki úr vegi að fá veðurstöð á Sleðbrjót í Jökulsárhlið og aðra á Jökuldal, einhvers staðar á milli Fossvalla og Brúar. 

Niðri á fjörðum krefst ég þess skilyrðislaust að fá öfluga veðurvél í Borgarfirði eystra og aðra ekki lakari inni í Seyðisfjarðarbæ, en ekki þarna uppi í fjallinu þar sem nú er alltaf verið að mæla tveimur til þremur stigum lægra en í bænum. Ég vil líka flytja þokubrælustöðina í Neskaupstað lengra inn í bæinn þar sem hitarnir koma almennilega. Auk þess fer ég fram á að fá veðurstöð við Kirkjuból inni í dalnum. Það gæti jafnvel orðið talsvert hitamál fyrir mér!

Loks heimta ég veðurstöð, jafnvel mannaða með einvalaliði, á Ásunarstöðum í Breiðdal þar sem 35 stiga hitinn lofar að koma í fyllingu tímans þegar 1939 bylgjan snýr aftur. 

Hof i Álftafirði og Stafafell í Lóni mættu svo alveg fylgja með.

Ef þetta verður allt að veruleika efast ég ekki um að einmuna veðurblíða mun ríkja eftir það um gjörvallt austurland. Og tala ferðamanna mun rjúka upp úr öllu valdi. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is „Ekki eins svakalegt“ og veðurspá gefur til kynna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þá vantar auðvitað líka inn í dæmið að sagt sé frá þessari einmunablíðu í veðurfréttum Sjónvarps. Þar er aldrei almennilega sagt frá veðrinu eins og það hefur verið yfir daginn nema í algerri mýflugumynd, ef það er þá gert.

Emil Hannes Valgeirsson, 9.8.2011 kl. 20:03

2 identicon

Þakka þér fyrir ágæta grein Sigurður. Mér þætti líka gott að fá eina stöð á pallinn hjá mér þar sem oft ríkir mallorcablíða.

Kristinn V. jóhannsson (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband