23.10.2011 | 18:13
Köldustu októbermánuðir
Eins og áður er miðað við þær 9 veðurstöðvar sem lengst hafa athugað. Meðalhiti þeirra er í sviga aftan við hvert ár en nánari tölulegar upplýsingar eru í fylgiskjalinu. Meðalhiti stöðvanna 1961-1990 er 3,9 stig.
1917 (-0,1) Þetta er greinilega kaldasti október á öllu landinu eftir 1865 þó það hafi ekki gilt um Reykjavík. En í Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey og á Akureyri er þetta kaldasti mældi október. Það einkenndi mánuðinn auk kuldanna að mörg aftakaveður gerði, flest af norðri eða norðaustri. Eftir hlýindi fyrstu tvo dagana skall á norðan ofsaveður og kuldar þ. 3. Á Ólafsfirði brotnuðu og sukku 4 bátar og tvö skip sleit upp á Siglufirði og ýmsir fleiri skaðar urðu. Í kjölfarið voru stórhríðar víða og kom mikill snjór. Þann 7. var þvílíkur hríðarylur á Hellisheiði að hún var tæplega fær. Þann 12. kom annað illviðri af norðaustri með hörkufrosti um land allt. Sunnanóveður skall hins vegar á þ. 19. og komst þá hitinn á Seyðisfirði í 11,0 stig, en síðasta illviðrið var þ. 25. og var af norðri. Mjög kalt var alla síðustu vikuna og var þá mikið frost allan sólarhringinn nær alls staðar og talsverður snjór. Meðalhitinn á Grímstöðum í mánuðinum var -4,1 stig, sá lægsti sem þar hefur mælst í október. Fyrstu tvo dagana og aftur 16. til 20. var þar dálítil hláka en annars voru stöðug frost, mest -17,0 stig þ. 28. Flesta frostdagana snjóaði á Grímsstöðum. Snjór þó nokkur var á landinu seinni hluta mánaðarins. Þetta haust, október til nóvember, er hið kaldasta sem mælst hefur á landinu fyrir utan haustin 1824 og 1841 og var þetta kalda haust 1917 reyndar undanfari frostavetrarins 1918. Kortið sýnir ætlað frávik hitans frá meðallagi í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð.
Njósnarinn frægi, Mata Hari, var tekin af lífi þ. 15.
1926 (0,4) Þetta er kaldasti október sem mælst hefur á Teigarhorni, Fagurhólsmýri og á Hæli í Hreppum. Snemma settist að með frosti og snjó, kringum þ 8.-9. víða. Mánuðurinn byrjaði þó ekki kuldalega því þann þriðja komst hitinn i 15,7 stig á Hvanneyri sem er reyndar mesti októberhiti sem þar hefur mælst í nokkuð slitrótti mælingarsögu. En þessi mildi stóð ekki lengi. Dagana 7. til 13. var víðast hvar snjór en hann lág þó ekki lengi á sunnanverðu landinu. Síðustu vikuna var hins vegar sannkallað vetrarríki nær alls staðar og síðasta daginn fór frostið á Grímsstöðum niður í -19,3 stig. Sólríkt var í Reykjavík eins og verða vill í mjög köldum októbermánuðum þegar norðanátt er þrálát og er þetta þar fjórði sólarmesti október. Mánuðurinn var þurr á landinu og úrkoma aðeins um helmingur meðalúrkomu. Alls staðar var þurrviðrasamt og kannski nær mánuðirnn inn á topp tíu listann yfir þurrustu októbermánuði. Fyrir norðan var víðast hvar alhvítt í meira en 20 daga. Mest var snjódýpt 70 cm í Fagradal í Vopnafirði þ. 31. Snjóhula á landinu var hin næst mesta í október, 51%, á landinu en meðaltalið frá 1924 er 17%, og enginn október hefur haft eins fáa alauða daga í Reykjavík, 21 dag, en alhvítt var þar í fimm daga. Loftvægi var óvenjulega hátt, 1016,7 hPa í Reykjavík en 1018,4 á Ísafirði. Hæst stóð loftvog 1033,6 hPa á Teigarhorni síðdegis þ. 18. Kortið sýnir ætlað frávik hitans í 850 hPa fletinum i um 1400 m hæð. Mikill jarðskjálfti varð á Reykjanesi þ. 25. og slokknaði á vitanum.
Um miðjan mánuð kom fyrst út sagan um Bangsímon eftir A. A. Milne.
1896 (0,5) Fremur var þurrviðrasamt á landinu en tíðin þótti óstillt. Mánuðurinn hófst með hlýindum og komst hitinn þann fyrsta í 12,8 stig á Teigarhorni. Norðan ofsaveður var dagana 2. til 7. sem þótti eitt hið hvassasta í manna minnum. Mikil snjókoma fylgdi veðrinu fyrir norðan og austan og urðu af allmiklir fjárskaðar, einkum á austurlandi. Í Reykjavík var alveg þurrt fyrstu tíu dagana en suma daga úrkomusamt eftir það. Í mánaðarlok var þar auð jörð. Kuldatíð ríkti þó eftir miðjan mánuð. Fyrir austan fjall var hnésnjór síðast í mánuðinum og þótti þetta ekki góð veðrátta ofan í landskjálftana miklu sem komu síðla sumars. Mest frost varð í Möðrudal, -15,7 stig. Meðalloftvægi var hátt, 1017,5 hPa í Stykkishólmi. Hæðir voru oft vestan við land en lægðir suðaustan við það og norðanstrengur yfir landinu. Kortið sýnir stöðuna í 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð. Jónas Jónassen lýsti svo tíðrfarinu í Reykjavík í nokkrum blöðum Ísafoldar:
Hefir verið útnorðanátt, opt hvass, hlaupið í útnorðrið og aptur í norður, optast bjart veður. Snjóað mikið í fjöll h. 2. (3.okt.). - Afspyrnu-norðanrok hefir verið hjer síðan 3. og kafaldshríð um tíma snemma morguns h. 7. gekk ofan að kvöldi þessa dags (7.) og hefir mátt heita blægjalogn og fagurt veður síðan. Í morgun (10.) hægur, austan bjartur. (10. okt). - Undanfarna viku veðurhægð, optast við suðausturátt með nokkurri vætu, síðari part dags h. 16. gekk hann allt í einu til norðurs upp úr lognrigningu mikilli. í morgun (17.) hvass á norðan, bjartur; loptþyngdarmælirinn kominn afar-hátt. (17. okt.). - Laugardaginn 17. var norðanveður, hvasst fram yfir miðjan, var svo hægviðri, opt logn næstu dagana, gekk svo til norðurs aptur, hvass, aðfaranótt hins 23. hefir fallið hjer óvenjulega mikill snjór um þetta leyti; síðari part dags h. 22. fór að rigna og var úrhellisrigning að kveldi; fór svo að frysta og allt varð að klaka. Í morgun (24.) bál-hvass af norðan, bjartur. (24.okt.). - Hvass á norðan h. 24. Síðan veðurhægð, rjett logn daglega með sudda-þoku. Í morgun (31.) þoka og logn. (31. okt.).
1981 (0,6) Þetta er kaldasti október í Reykjavík síðan sæmilega áreiðanlegar hitamælingar hófust en á landinu öllu er þetta fjórði kaldasti október. Síðan veðurstöðvar urðu verulega margar er þetta kaldasti október sem komið hefur. Sjá kortið yfir meðalhita á landinu hér fyrir neðan. Og þetta er annar sóríkasti október í borginni en norðanáttin var linnulaus svo að segja. Veðrið var talið mjög óhagstætt frá Breiðafirði til austfjarða en á suðurlandi var talin góð tíð þrátt fyrir kuldann. Úrkoma var um helmingur af meðalúrkomu. Hún var þó mikil austanlands og sums staðar sitt hvoru megin við Eyjafjörð en mjög lítil á öllu suður og vesturlandi. Óvenjulega þurrt var á Hveravöllum, 11,5 mm og er það minnsta úrkoma í október sem veðurstöðin þar mældi. Á Kvískerjum, úrkomusamasta stað landsins, er þetta þurrasti október sem mælst hefur, 144,2 mm, frá 1962. Á ýmsum stöðum á vesturlandi með mislanga mælingasögu er þetta einnig þurrasti október sem mælst hefur. Snjóalög voru óvenju mikil fyrir norðan. Á Akureyri var hún hálfur metri þ. 12. og hefur aldrei verið meiri þar í október. Á Vestfjörðum voru skráð 24 snjóflóð og um miðbik norðurlands 33. Í Reykjavík lá snjór á jörð tvo daga seint í mánuðinum. Hvergi var jörð talin alauð allan mánuðinn. Snjólagsprósenta er sú hæsta sem finnst í október á landinu, 53%. Á Hólum í Hjaltadal var alhvítt allan mánuðinn og einnig á hálendisstöðvunum á norðausturlandi en hins vegar aðeins 15 daga á Hveravöllum þó aldrei væri þar talin alauð jörð. Þar varð og kaldast í mánuðinum, -15,5 stig þ. 16. en í byggð -13,7 stig þ. 4. í Möðrudal sem er mesti kuldi sem finna má á veðurstöð þann dag í a.m.k. 60 ár. Einstaklega kalt var framan af mánuðinum, oft 6-8 stig undir meðallagi. Fyrstu tveir dagarnir voru þeir köldustu eftir dagsetningum í Reykjavík í a.m.k. 75 ár. Dagana 12.-13. hlánaði ekki allan sólarhringinn þar í sólríku veðri og þeir dagar eru líka þeir köldustu í borginni eftir dagsetningum. Síðasti þriðjungur mánaðarins var tiltölulega mildastur. Þegar sá kafli hófst komst hitinn víða í 8-10 stig en mest seinna í mánuðinum í 12,2 stig þ. 22. á Seyðisfirði. Kortið sýnir frávik þykktar yfir landinu en því minni sem hún verður því kaldara.
Forseti Egyptalands, Anwar Sadat, var myrtur þ. 6. Þann 14. varð Halldóra Bjarnadóttir 108 og varð ekki eldri. Hún lifði lengst allra Íslendinga sem vitað er um.
1873 (0,8) Hryssingslegur mánuður. Fyrsti þriðjungur hans var ekki kaldur en þó engan veginn hlýr en eftir það var yfirleitt kalt. Hæð var þá oftast yfir Grænlandi en lægðir austan við landið. Undir lokin voru mikil frost og stórhríðar um nánast land allt. Hlánaði þá varla eða ekki allan sólarhringinn í Stykkishólmi. Fyrir norðan og austan var meira fannfergi en elstu menn mundu eftir árstíma. Aðeins þrjár stöðvar voru að athuga veðrið ef Reykjavík er talin með (hinar stöðvarnar voru Stykkishólmur og Teigarhorn) og í höfuðstaðnum mældist bæði mesti og lægsti hitinn á þessum þremur stöðvum, 8,1 stig þ. 9. og -3,7 stig þ. 28. Athugunarmaður í Reykjavík á þessu tíma var víst enginn annar en Jón Árnason þjóðsagnasafnari. Blaðið Víkverji birti yfirlit yfir tíðarfarið í bænum í nokkrum tölublöðum sem hér fer á eftir allmikið lagfært.
1. Landsynningur með hægum skúrum. 2. Landnyrðingur, þegar á daginn leið austan og landsunnangola, rigning um kveldið. 3. hvass útsynningur með skúrahriðjum 4. Landsynningsrigning. 5. Hvass á útnorðan með krapaskúrum. 6. Hæg norðangola. 7. Hvassviðri af norðri. 8. Landnyrðingsgola. 9, 10. og 11. rokviðri af austri síðar af landnorðri. 12. og 13. norðangola, 14. hægviðri af austri, hafði snjóað ofan í sjó um nóttina. 15. hvassviðri af austri með suddarigning. 16. útsynningstormr og rigning, 17. og 18. lygn útsynningur með éljadrögum, 19. snjóaði fyrri hluta dags. Hvassviðri af norðri, þegar á daginn leið, 20 austangola, 21. logn, síðan norðangola, 22., 23. og 24. norðanrok, lygndi um miðjan dag 24. og var komið logn um miðaftan. 25. austankæla, 26. austangola með regnskúrrum, 27. norðangola, síðan mikil austanrigning, 28. rigning af landsuðri og norðri, 29. hafði snjóað um nóttina, logn, heiðríkt, síðan hæg austanátt, 30 mikil landsunnan og útsunnan rigning, 31. hafði snjóað um nóttina, sunnankaldi heiðrikt lopt.
1880 (1,4) Í kjölfar hlýjasta sumars á seinni helmingi 19. aldarinnar, 1880, var október einn af þeim köldustu en þá voru 12 stöðvar að fylgjast með veðrinu. Meðal loftþrýstingur hefur aldrei verið hærri í október, 1023,5 hPa í Stykkishólmi. Fyrirstöðu hæðir voru oft í námunda við landið, iðulega vestan við það. Sjá kortið af hæð 500 hPa flatarins í um 5 km hæð. Svalt var fyrstu dagana í norðanátt og snjóaði þá fyrir austan en síðan hlýnaði fram yfir miðjan mánuð en þá var hæðin sunnan og suðaustan við landið. Mesti hiti, 12,4 stig, og mesti kuldi, -14,3 stig, mældist á sama staðnum, Valþjófsstað í Fljótsdal en ekki var athugað á Hólsfjöllum. Tveir slæmir kuldakaflar komu í mánuðinum, 17.-20. og frá þeim 25. til mánaðarloka. Snjóaði þá nokkuð fyrir norðan. Síðustu tvo dagana var mikill kuldi og framundan var þriðji kaldasti nóvember og síðan mesti harðindavetur sem mælst hefur á landinu í rúm 200 ár.
Franska tónskáldið Jacques Offenbach, sem samdi óperuna Ævintýri Hoffmanns, lést þ. 5.
1929 (1,6) Tíðin var umhleypingasöm af ýmsum áttum en oftast köld. Mikil snjókoma var norðanlands eftir miðjan mánuðinn en sunnanlands fraus á auða jörð. Strax þ. 4. var jörð reyndar alhvít í Reykjavík en það var næu samt eini dagurinn sem þar var alhvítur í mánuðinum. Þann 7. var norðanhvassvirði um land land og sums staðar stormur og í lok mánaðarins gengu nokkur fleiri hríðarveður yfir norðurland. Í óveðri þann 19. fórst vélbáturinn Gissur hvíti frá Ísafirði með ellefu mönnum. Á norðurlandi var stórhríð með brimi og sjávarflóði þ. 24. og töldu þá 11 veðurstöðvar storm. Flæddi sjór yfir eyrina á Siglufirði og inn í mörg hús en næsta dag brotnuðu þar bátar og bryggja. Síðustu dagana var hvasst mjög syðst á landinu. Mesti hiti mánaðarins á landinu var aðeins 10,8 stig, í Vík í Mýrdal, þ. 19. sem er með því lægsta sem gerist í október enda náði almennilega hlýtt loft aldrei til landsins. Á Grímsstöðum var jörð aldrei talin auðauð en alhvít í 28 daga og þar mældist mesta frostið, -17,1 stig þ. 28. Feiknalegur kuldi var yfir landinu um það leyti í nokkra daga. Snjólag á landinu var 34% sem er með því mesta.
Kreppan mikla skall á í lok mánaðarins.
1895 (1,3) Mjög snarpa kafaldshríð gerði fyrstu dagana um allt land í norðvestanáhlaupi. Þann þriðja var hríðin allan daginn í Reykjavík með ofsaveðri og brimi og hámarkshiti um frostmark. Mikið tjón varð á landinu af þessum sjávaragangi sem stóð dagana 2.-3., mest við Ísafjarðardjúp, á Ströndum, Siglufirði, Eyjafirði og á Húsavík. Fjártjón varð einnig nokkuð. Þetta er einn af allra þurrustu októbermánuðurm. Aðeins fjórir októbermánuðir hafa þurrari verið í Stykkishólmi og einn í Reykjavík. Síðasta þriðjung mánaðarins var oft bjart syðra í látlausri norðaustanátt og úrkoma þar hverfandi eftir mánuðinn miðjan. Í Reykjavík voru þá oft talsverð næturfrost en frostlaust um hádaginn. Frost voru þó aldrei afskaplega hörð á landinu þrátt fyrir kuldatíð, mest þó -14,7 stig í Möðrudal. Hlýjast varð 10,5 stig þ. 15. á Teigarhorni. Kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins. Jónassen fjallaði um tíðarfarið í Reykjavík í Ísafoldaarblöðum:
Fyrri part vikunnar sunnan-útsunnan með mikilli úrkomu og hagljeljum, snjóaði mikið í öll fjöll aðfaranótt h. 1.; hvass á norðan h. 2. og rokhvass á vestan útnorðan með blindbyl fram á kvöld h. 3., hægur af austri og bjart veður h. 4. Í morgun (5.) rjett logn, bezta veður. (5. okt.).- Umliðna viku hefir optast verið rjett logn, þar til hann gekk til útsuðurs. h. 11. hvass með jeljum og regnskúrum. Í morgun (12.). sunnan, dimmur. (12. okt.) - Fyrri part vikunnar var hægð á veðri, en h. 15. gekk hann til vesturs útsuðurs með brimhroða og regnskúrum miklum við og við; foráttubrim í sjónum af útsuðri h. 18. og þá með haghriðjum, dimmur síðari part dags. Í morgun (19.) genginn til norðurs, hvass, bjartur. (19. okt.) - Alla vikuna bjart og fagurt veður, optast logn með vægu frosti. (26. okt.) - Framan af vikunni fagurt veður og logn með vægu frosti; gekk svo h. 29 til útsuðurs með regnskúrum þann dag; 30. aptur bjart og fagurt veður, hægur norðanvari; h. 31. sunnansvækja, koldimmur og fór að hvessa að kveldi með regni; 1, hvass á landsunnan fram á kveld með regni; gekk svo til útsuðurs. (2. nóv.).
1909 (1,7) Úrkomusamt, einkum framan af, og aldrei vel hlýtt enda virðist kuldapollur hafa verið þaulsætin yfir landinu og nágrenni þess. Mikil úrkoma var á austfjörðum 5.-6. og í Vestmanaeyjum næstu daga þar á eftir í austlægum áttum. Verulega kalt var síðustu vikuna í norðaustanáttum og sjóaði víða um land, jafnvel í Vestmannaeyjum. Þar varð hlýjast í mánuðinum, 10,7 stig þ. 17. en kaldast varð -16,0 í Möðrudal.
1885 (1,7) Þetta var fremur þurrviðrasamur október. Mjög kalt var í fyrstu vikunni en nokkrir hlýir dagar komu kringum miðjan mánuðinn vegna hæðar suður undan er fór svo vestur fyrir og kólnaði þá aftur en þó voru engar stórkostlegar frosthörkur en samt kalt og nöturlegt. Hlýjast var 11, 3 stig á Akureyri en þar varð einnig kaldast, -10,0 stig. Jónassen stóð veðurvaktina í Ísafold:
Umliðna viku hefir verið optast fagurt og bjart veður og síðan fyrir miðja viku hefir verið norðanátt, þó ekki kaldur, hjer hefir ekki verið mjög hvasst, en til djúpa hefir verið stormur á norðan og er enn í dag 6. með björtu sólskini. Talsvert snjóað i fjöll þessa vikuna. (7. okt.). - Allan fyrri part vikunnar hefir verið norðanveður, hvasst til djúpanna, hjer hægur eða logn, síðari hluta vikunnar hefir hann verið við hæga austanátt; að kveldi h. 12. fór að rigna og hjelst rigning næstu nótt. í dag 13. hvass á austan í morgun, hægur á austan eptir miðjan dag, dimmur. (14. okt.). - Umliðna viku hefir verið óvenjuleg stilling á veðri og veðurbliða; loptþyngdarmælir hefir alla vikuna staðið mjög hátt og lítið haggazt. Má svo segja, að logn hafi verið á hverjum degi; 16. var hjer logn, en hvass að sjá til djúpanna á norðan, sem aldrei náði hingað heim og gekk strax niður, því daginn eptir (17.) var hjer blíða logn frá morgni til kvölds. Í dag (20.) logn, þoka og rigning. (21. okt). - Þessa vikuna hefir ókyrrð verið á veðrinu og síðustu dagana verið við hátt; síðari hluta h. 24. var hjer húðarigning af austri; aðfaranótt sunnudags (25.) frysti og gjörði alhvítt af snjó; gekk til norðurs síðari part dags og gjörði kopar yfir alla jörð. Þessa viku hefir snjóað mikið í öll fjöll og er Esjan hjeðan að sjá, eins og væri um hávetur; h. 26. var vestanútnyrðingur, mjög hvass til djúpanna, en í dag 27. er hann genginn úr norðanátt með þýðu og hægri rigningu, hægur austankaldi, dimmur. (28. okt.). - Fyrstu daga þessarar viku var hjer rjett að kalla logn og rigndi talsvert, einkum 30. er rigndi allan daginn til kvelds kl. 7, að hann allt í einu gekk til vesturs með krapasletting. Síðan hefir verið útsynningur með jeljagangi og að sjá snjóað mikið til fjalla. (4. nóv.).
Árið 1782 voru gerðar hitamælingar á Bessastöðum á Álftanesi en þeim var ekki síður ábótavant en 1824. Þær sýna ámóta kulda og 1824. Frost var um hádaginn fyrstu tvo dagana og sýnist reyndarekki hafa hlánað síðustu tvo dagana að auki í september sem er nú eiginlega ótrúlegt. Hvað sem um þetta má segja er ljóst að mjög kalt var þessa daga. Síðan kom þrettán daga hlýindakafli en frá þeim 16. voru aftur kuldar miklir til mánaðarloka svo ekki virðist hafa hlánað um hádaginn. Næsti október, 1783, var einnig mjög kaldur.
Árin 1835 og 1841 var meðalhitinn í október í Reykjavík svipaður og 1917 og 1926 en ekki voru þá annars staðar gerðar hitamælingar á landinu.
Í fylgiskránni eru tíu hlýjustu og köldustu októbermánuðir á landinu fyrir þær stöðvar sem lengst hafa athugað, ásamt úrkomu og sól eftir atvikum.
Víkverji 1., 9., 15., 22., -29. okt, 1. nóv. 1873.
Meginflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir | Aukaflokkar: Bloggar, Veðurfar | Breytt 11.12.2011 kl. 16:12 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.