Febrúarhitamet á Teigarhorni - Snjór í Alsír

Í nótt milli klukkan eitt og tvö fór hitinn í 14,8 stig á sjálfvirku stöðinni á Teigarhorni við Berufjörð á Austfjörðum. Þarna var mönnuð veðurarhugunarstöð alveg frá því 1873 og þar til fyrir skemmstu. Á kvikasilfursmæli mældist þar hæst í febrúar 13,8 stig þann fyrsta árið 1934.

Þetta verður því að teljast nýtt og glæsilegt  hitamet í febrúar á þessari fornfrægu veðurstöð.

Ekki hafa önnur mánaðarhitamet komið á stöðvum sem lengi hafa athugað.

En sums staðar annars en á Teigarhorni, jafnvel á óvæntum stöðum, hefur líka mikill hiti mælst. Á Fáskrúðsfirði hefur hann farið í 14,1 stig og á Grundarfirði í 13,6 stig sem er þar febrúarmet en stöðin er ekki gömul. En þetta er reyndar hærri hiti en nokkru sinni hefur mælst á öllu Snæfellsnei í febrúar, bæði norður og suður nesinu en á Snæfellsnesi er reyndar elsta veðurstöð landsins, Stykkishólmur en mælingarsagan þar fer að nálgast 170 ár.

Um ástæður þessa hita geta menn lesið í tveimur síðustu færslum meistara Trausta.  

Snjó hefur mikið tekið upp á landinu. Snjólaust er á suðaustur, suður og suðvesturlandi, meðfram sjó á austfjörðum og við Eyjafjörð og sums staðar annars staðar. Alhvítt er aðeins talið í Hnífsdal, Bolungvarvík og Ólafsfirði. Líklega er einnig alhvítt við Skeiðsfossvirkjum  í Fljótum en þaðan hafa engar upplýsingar borist í nokkra daga. 

Meðalhitinn það sem af er mánaðar er 3,4 stig yfir meðallagi í Reykajvík en 6,0 stig yfir því á Akureyri! Enn hlýrra, bæði í beinum tölum og að tiltölu,  er þó á Egilsstöðum. Og á Teigarhorni er meðalhitinn nú í beinum tölum 4,6 stig en hlýjasti allur febrúar þar hingað til var 3,5 stig árin 1932 og 1948. 

En brátt fer að kólna og má þá búast við meðaltölin hrynji niður úr öllu valdi. Febrúar 1932 var hins vegar í toppformi alla dagana og hélt sínum fimm stiga meðalhita víða á landinu til síðasta dags. 

Úrkoman í Reykjavík vantar herslumuninn upp á vera kominn upp í meðaltal alls febrúarmánaðar. Á sumum stöðvum er hún þegar kominn yfir meðallagið.

Í lokin eru hér sýnishorn af snjóakasti í febrúarbyrjun í Alsír á norðurströnd Afríku.

Getum við nokkuð kvartað! 

Viðbót í kvöld: Hitinn á Teigarhorni er dagshitamet fyrir landið frá a.m. k. 1949. Og bæði meðalhitinn og hámarkshitinn á Akureyri er líka dagshitamet þar frá sama tíma. Sjá nánar í fylgiskjalinu, heitasta fylgiskjalinu á blogginu!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband