Allt fer víst á versta veg

Ekkert stórkostlegt gerðist í hitamálunum í gær. Þó komu dagshitamet að meðalhita bæði í Reykjavík og  á Akureyri eins og sést í fylgiskjalinu. Hámarkshiti varð mestur 15,0 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði sem ekki er þar marsmet og ekki heldur dagshitamet á landinu að hámarkshita.

Á hádegi í dag var þykktin yfir Egilsstöðum 5480 metrar sem er hásumarástand og ætti að duga í ein 20 stig eða meira ef allt færi á allra hugsanlega besta veg. Á Vatnsskarði, fjallveginum til Borgarfjarðar eystra var 12 stiga hiti í 430 metra hæð á hádegi en slíkur hiti sést þar varla um hásumarið því þetta er skítaveðursheiði mikil. En á láglendi hefur hitinn ekki náð sér neitt á strik enn þá miðað við þær glæstu vonir sem til hans eru gerðar. Þó hafa komið 16 stig niðri á austfjörðum. En hvað er það!

Allt virðist ætla fara á versta veg.

Ekki kom háloftaathugun frá Keflavík á hádegi en þær eru orðnar æði stopular þar í seinni tíð en þar munu þó ekki vera jafn sérstök hlýindi í háloftunum og yfir austurlandi.

Í Reykjavík hefur hitinn enn ekki náð 10 stigum í þessum mánuði. Slíkur hiti er þar enda fremur sjaldgæfur í mars. Frá 1872 hefur hann aðeins komið í 18 mánuðum, þar af fimm frá 2001, en einstaka sinnum oftar en einu sinni í þeim mánuðum sem hann kom.

Andstyggilegu kuldakasti með frosti allan sólarhringinn er svo spáð í mánaðarlok!    

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Merkilegt með Ljósaland í Fáskrúðsfirði. Þar fór hitinn niður í 0,9 stig í nótt og svo í 17,5 stig í dag.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.3.2012 kl. 17:46

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og í dag fór hitinn í 18,2 stig á kvikasilfursmælinum á Skjaldþingsstöðum, aðeins 0,1° undir metinu á Sandi í Aðaldal 1948. Óvenjulega ánægjulegt að éta ofan í sig að allt hafi farið á versta veg. Það er ekki hægt að segja þó súrt sé í broti að íslandsmetið í mars hafi ekki verið slegið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.3.2012 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband