Allt fór ekki á versta veg - en vonbrigði samt

Hitinn í dag fór í 18,2 stig á kvikasilfursmælinum á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Það er mesti hiti sem mælst hefur á Íslandi í mars á slíkum mæli í nútíma hitamælaskýli. Og þetta er aðeins 0,1 stigi lægra en mesti hiti sem mælst hefur í mars á kvikasilfursmæli, en í gamaldags skýli, á Sandi í Aðaldal þann 27. árið 1948. 

Ég verð því að éta ofan í mig, með glöðu geði, fyrri fullyrðingar um það að allt hafi farið á versta veg. Það er náttúrlega fjarri lagi en samt er ergilegt að marshitametið hafi ekki verið slegið, þetta elsta kvikasilfurshitamet að vetrarlagi á landinu. 

Hitinn í dag er marsmet fyrir Skjaldþingsstaði (frá 1994) og reyndar mesti hiti sem mælst hefur í mars í Vopnafjarðarhéraði öllu með kvikasilfri (frá 1930).

Þetta er líka dagshitamet fyrir hámarkshita á landinu en gamla metið var líka frá Skjaldþingsstööum, 16,2 stig frá 2005.    

Á Syðisfirði fór hitinn í dag sjálfvirkt í 17,6 stig og var mældur í 92 metra hæð. Gaman hefði verið ef hann hefði enn verið mældur skammt frá kirkjunni eins og lengi var á mannaðri stöð. Marsmetið á þeirri stöð (1958-2002) var 15,2 stig. 

Á Akureyri var dagshitametið frá 2005 jafnað, 14,4 stig. Aftur fór hitinn í dag á Torfum í Eyjafjarðardal í 15,1 stig eins og þann 24. og er það þá jöfnun á marsmeti þar en aðeins hefur verið athugað í  mars frá 1998.

Marsmet var hins vegar sett á Mýri í Bárðardal 12,2 stig (frá 1979).  

Á Kollaleiru í Reyðarfirði fór hitinn í dag alveg sjálfvirkt í 15,6 stig en metið á gömlu mönnuðu stöðinni (1977-2006) var 14,6 stig. Á Neskaupstað mældust 15,8 í dag  en metið á mönnuðu stöðinni (1976-2000 og eitthvað) var 14,0. Ekki man ég í bili hvað sjálfvirku stöðvarnar á þessum stöðum hafa mælt. 

Egilsstaðir og Hallormsstaður halda örugglega sínum gömlu og góðu metum.  Hins vegar fór Brú á Jökuldal sjálfvirkt í 11,3 stig en mest hefur hún mælt á kvikasilfur 10,5 stig (1970-1998).

Það eru mikil vonbrigði að metið frá 1948 hafi ekki verið slegið vafalaust í eitt skipti fyrir öll.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband