Sumarkoma

Sumarið byrjar með bjartviðri á öllu suður og vesturlandi, alveg frá Hornafirði vestur um að Ísafjarðardjúpi. Hins vegar hefur verið að kólna síðustu daga. Síðustu tveir dagarnir hafa verið þeir einu sem hafa verið undir dagsmeðalhita í Reykjavík það sem af er mánaðar. En þeir voru reyndar sólríkustu dagar ársins það sem af er í höfuðstaðnum.

Eftir helgi mun víst lítillega hlýna. Engin stórhlýindi eru þó framundan. 

Meðalhitinn í Reykajvík er nú 4,1 stig eða 2,2 stig yfir meðallagi. Á Akureyri er hann 1,6 stig og er það 1,1 stig yfir meðallagi.

Í nótt snjóaði sums staðar á austurlandi og var snjódýpt í morgun 15 cm á Gilsá í Breiðdal, 14 á Hánefsstöðum í Seyðisfirði og 10 cm á Skjaldingsstöðum í Vopnafirði. Snjólítið eða snjólaust er annars staðar á landinu nema helst sums staðar við Eyjafjörð, þar sem hefur verið dálítill snjór, en þó er alautt á Akureyri. Snjór er samt meiri en hann var eftir mestu hlýindin í lok mars. 

Á nokkrum stöðum á norður og norðausturlandi er úrkoma þegar komin yfir meðallag. Á suðausturlandi hefur aftur á móti verið sérlega þurrviðrasamt miðað við það sem venjan er. En það er enn heilmikið eftir af mánuðinum.

Dægursveifla hitans hefur verið óvenjulega mikil undanfarið eins og  hér má sjá. Þurrkar þessir og hitabrigði eru ekkert sérlega hagstæð fyrir gróðurinn sem þó er í Reykajvík á góðu róli. Tré farin að blómgast heilmikið og vorlegt um að litast í görðum.

Ekki fer víst að rigna fyrr en eftir helgi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband