Sólríkustu júnímánuðir

Sólríkasti mánuður sem nokkru sinni hefur mælst á íslenskri veðurstöð var í Reykjavík í júní 1928. Þá mældust sólskinsstundirnar 338,2. Meðaltalið 1961-1990 er 161 klukkustund og er furðu klént. Athuganir eru frá 1911 (ef Vífilsstaðir eru taldir með fyrstu árin). Tuttugu daga skein sólin í tíu stundir eða meira sem er met í nokkrum mánuði, ásamt maí 1958. Á suðurlandsundirlendi og víða á vesturlandi var skýjahula metin minni en í Reykjavík en svipuð á Vestfjörðum. En það skipti um við Hornstrandir og alveg austur og suður um að Mýrdalsjökli. Á því svæði var ekkert sérstaklega bjart yfir og reyndar kafskýjað á norðaustur- og austurlandi. Sólarstundirnar voru ekki fleiri en 168 á Akureyri sem er raunar hátt upp í núgildandi meðallag. Þetta var þurrviðrasamur mánuður. Úrkoman um 30% af meðallagi 1931-2000, sem hér er alltaf miðað við, og telst nimbusi hann vera 6. þurrasti júní á landinu miðað við þær örfáu stöðvar sem lengst hafa athugað úrkomu. Á Hæli í Hreppum og í Vestmannaeyjum hefur ekki mælst þurrari júní. Hiti var lítillega undir núverandi 30 ára meðaltali á landinu. Fremur hlýtt var þó á sólskinssvæðinu en kalt annars staðar. Oftast var norðanátt og næturfrost voru tíð inn til landsins.

Sumrin 1927 til 1929 eru í heild þau þrjú sólríkustu sem mælst hafa í Reykjavík og er merkilegt að þau skuli hafa komið svona þrjú í röð. Árið 1927 var júní svo út af fyrir sig sá áttundi sólríkasti í borginni með 268 sólarstundir. Þessi mánuður var talsvert mildari 1928 og ekki eins þurr þó hann hafi a vísu verið þurrviðrasamur.

Júní 1924 og 2008 skarta næst sólríkustu júnímánuðum í höfuðborginni með 313 stundir og hefur 1924 þó vinninginn upp á um 20 mínútur. Hann var bæði þurr og fremur kaldur. Árið 2008 var júní  hins vegar með þeim hlýjustu á suðuvesturlandi og víðast hvar í meðallagi (1961-1990) eða yfir því. Mjög þurrt var þó. Úrkoma í báðum þessum mánuðum var aðeins um helmingur af meðalúrkomunni. 

dv176911326_1159812.jpgÞurrkar og mikið sólfar að sumarlagi fylgjast nokkuð að og kemur það auðvitað ekki á óvart. Júní árið 1991 er dæmi um þetta. Hann er fjórði sólríkasti júní í Reykjavík með 295 stunda sólskin. Á Akureyri (frá 1928) er hann sá fimmti sólríkasti en þar skein sólin í 250 stundir og 15 daga tíu stundir eða meira sem er met þar í júní (reyndar líka 15 daga í Reykjavík). Á Hveravöllum hefur enginn mánuður ársins verið eins sólríkur, 308 stundir og er þetta eini mánuðurinn sem þar rauf 300 stunda múrinn (1966-2003).  Þá er þetta sólríkasti júní á Sámsstöðum í Fljótshlíð, 284,5 klst (frá 1964). Alls staðar var þetta mjög sólríkur mánuður og mig langar til að krýna hann sem sólkonung Íslands, ekki bara yfir júnímánuði heldur yfir alla mánuði. Þetta er svo þriðji þurrrasti júní á landinu miðað við þær stöðvar sem  lengst hafa athugað. Úrkoman var aðeins 22% af meðaltali þeirra. Keppir mánuðurinn um þurrk víða við júní 1971. Á suðausturlandi var hann enn þá þurrari en þá, sums staðar einnig á Vestfjörum og í Skagafirði og jafnvel á austfjörðum. Á Teigarhorni var úrkoman aðeins 2,9 mm og hefur aðeins verið minni í júní 1916, 0,0 mm en það var einmitt úrkomutalan á Hólum í Dýrafirði í júní 1991. Hitinn var næstum því nákvæmlega i meðallagi. Þjóðhátíðardagurinn þetta ár er líklega sá sólbjartasti á landinu síðan lýðveldið var stofnað og reyndar einhver sólbjartasti dagur yfirleitt sem mælingar ná yfir á þeim fáu stöðvum sem mælt hafa blessaða sólina. Nimbus var þá reyndar fjarri glöðu og björtu gamni því hann var í Róm þennan  mánuð þar sem hann hitti náttúrlega sjálfan páfann. Til er mynd af þeim saman og má ekki á milli sjá hvor nimbusinn er skærari! En tunglmyndin af Íslandi hér til vinstri er frá móttökustöðinni i Dundee í Skotlandi og er tekin kl. 1345 á þjóðhátíðardaginn 1991.  

Næst þurrasti júní á landinu var 1971 (1916 tel ég hins vegar þurrastan). Og hann er þriðji sólríkasti júní á Akureyri, 257 stundir, og næst sólríkasti á Sámsstöðum. En í Reykjavík er hann níundi sólríkasti júní með 264,5 sólskinsstundir. Alls staðar var sólríkt og af því hann er nú í sólskinsskapi langar Nimbusi til að telja þetta næst sólríkasta júní á landinu sem mælingar ná yfir en ekki skulum við taka þennan metarembing alltof hátíðlega. Úrkoman á landinu var einungis 12% af meðallaginu. Ekki hefur mælst þurrari júní í Reykajvík, 2,1 mm eða Stykkishólmi 2,2 mm. Sömu sögu er reyndar að segja af mörgum stöðvum með mislanga mælingasömu á suður og vesturlandi og allt að Ísafjarðardjúpi, Hrútafirði og sums staðar í Skagafirði. Á Gufuskálum á Snæfellsnesi var úrkoman aðeins 0,2 mm. Hitinn var í kringum meðallag. Bæði 1971 og 1991 var hæðarhryggur í háloftunum vestan við landið.

Næsti júní á undan, 1970, krækti í að vera sjötti sólríkasti á Akureyri, 246,5 klst. Þar var ágætlega hlýtt en svalt var á suðurlandi og úrkomusamt enda var þetta sunnanáttamánuður mikill. Á Hallormsstað er þetta þriðji sólríkasti júní með 261 stund. Á Sandi í Aðaldal, Brú á Jökuldal og Dalatanga hefur ekki mælst þurrari júní.

Að  mínu tali er sá ískaldi júní 1952 sá tíundi þurrasti á landinu. Þá var sólargæðunum æði misskipt því mánuðurinn er fimmi sólríkasti júní í Reykjavík, 286 klst, en sá tíundi sólarminnsti á Akureyri. Hitagæðunum var ekki síður misskipt því þar sem sólin var mest náði hitinn að vera í meðallagi (1961-1990) eða yfir því en fyrir norðan er þetta með allra köldustu júnímánuðum. Frá 1882 hafa aðeins júní 1882 og 1907 verið kaldari á Akureyri.  Þetta er þurrasti júní á Sámsstöðum í Fljótshlíð þar sem veðrið var einna skást.  

Þessi mánuður á sér svo bróðir sem er júní 2011. Hann er sá sjöundi sólríkasti í Reykjavík með 268 klst. Hann marði þar meðallagið í hita en fyrir norðan var hann sá kaldasti síðan 1952 og þar með fjórði kaldasti á Akureyri frá 1882. Og er þessi júní víst mörgum norðlendingum minnisstæður fyrir kulda og var enda mikið kvartað. En flestir eru kannski farnir að gleyma 1952 sem öllu leyti var samt enn þá fantastískari í ömurleika sínum með snjó í Vestmanneyjum og allt hvað þetta hefur! En 2011 lumar á einu trompi. Hann er sá sólríkasti sem mælst hefur á Hólum í Hornafirði með 237 sólarstundir (frá 1958). Í báðum þessum mánuðum var norðanáttin mjög eindregin.   

Næsti júní á undan, 2010,  var hins vegar miklu sólarbetri fyrir norðan en hann er sá þriðji sólríkasti á Akureyri, 256 klst, og reyndar sá næst þurrasti, 2,0 mm. Í Reykjavík var þá sól undir meðallagi. En það var bætt upp með því að þar (og í Stykkishólmi, Hreppunum og á Hveravöllum) er hann hlýjasti júní sem mælst hefur og á landsvísu er hann líka með allra hlýjustu júnímánuðum. Á Akureyri sá sjöundi hlýjasti.   

Tveir mjög sólríkir júnímánuðir komu í röð í höfuðstaðnum árin 1997 og 1998. Sá fyrrnefndi er tíundi sólríkasti með 240 sólarstundir en sá síðarnefndi er sá sjötti sólríkasti með 272 stundir. Báðir voru mánuðurnir kaldir, sá fyrrnenefndi alls staðar, en hlýtt var á suðvesturlandi í þeim síðarnefnda og reyndar var þetta þá hlýjasti júní í Reykjavík síðan 1966. Á hálendinu var þetta með úrkomumestu júnímánuðum. Snemma í júní 1997 skall á rétt ofan í hitabylgju hastarlegt kuldakast og mældist þá mesta frost sem mælst hefur í júní í Vestmannaeyjum. Þurrviðrsamt var víðast hvar í báðum þessum mánuðum.   

Á Akureyri er sólríkasti júní árið 2000 með 285 klukkustundir af  sól en meðaltalið 1961-1990 er 177 stundir. Við Mývatn var þó enn meiri sólskin, 288 klukkustundir. Við Mývatn er á sumrin greinilega meira sólfar, a.m.k. sem mælist, heldur en á Akureyri. Hitinn á landinu var rétt aðeins undir meðallagi og úrkoman líka víðast hvar. Minnisstæðastur er þessi mánuður þó fyrir það að þá riðu yfir stóru suðurlandskjálftarnir, fyrst á þjóðhátíðardaginn og síðan þann 21.  

Næst sólríkasti júní  á Akureyri er 1982, 264 stundir og hann var sá annar sólríkasti á Hallormsstað, 270,5 stundir. Mjög sólríkt virðist hafa verið á öllu norður og austurlandi því þetta er sólríkasti júní sem mældur hefur verið á Melrakkasléttu, 247,5 stundir. Ekki er það nú svo sem mikið á þessu svæði miðnætursólarinnar þar sem ekkert skyggir á! Veður voru hæglát og þurr og á austurlandi var alveg einstaklega þurrt. Á Grímsstöðum á Fjöllum og á Fljótsdalshéraði hefur ekki mælst þurrari júní. Hiti var í meðallagi.  

Á Hallormsstað er júní 1986 sá sólríkasti, eins og skrattinn úr sauðarleggum, með 280 stundir en meðallagið 1961-1989 er 188 stundir og virðist Hallormsstaður vera sólríkasti staður landsins í júní þar sem mælt hefur verið á annað borð nema ef vera skyldi að Mývatnssvæðið skáki honum en þar hafa mælingar ekki staðið lengi yfir. Mismunanndi mælingatími skiptir þarna þó eflaust máli og ekki gott að segja hvort sólrikara er yfirleitt á Hallormsstað en annars staðar í júní þó svo hafi verið þetta tímabil. Átján daga skein sólin á Hallormsstað þennan mánuð meira en 10 stundir og þar af alla daga nema einn frá og með þeim 18. Hann lá í suðvestan og sunnanáttum og er þetta þriðji sólarminnsti júní í Reykjavík með 88 klst en á Reykjum i Ölfusi voru sólarstundirnar svo margar eða réttar sagt svo fáar sem 62. Svalt og drungalegt var sem sagt á suður og vesturlandi en að sama skapi hlýtt og notalegt fyrir norðan og austan.     

Viðbót: Eftir að þessi pistill var skrifaður kom í ljós að júní 2012 er næst sólríkasti júní sem mælst hefur í Reykjavík með 320,6 sólarstundir. Röð sólríkustu sumarmánaða í borginni hinkast því til og er tíundi sólríkasti júní sem hér er tilgreindur því hinn ellefti í röðinni. Á Akureyri er júní 2012 sá þriðji sólríkasti með 258,4 stundir. Mjög þurrt var víða og í Stykkishólmi hefur aldrei mælst eins lítil úrkoma frá því mælingar hófust 1857, 0,6 m, og féll hún á einum degi.  Mjög líklegt er að mánuðurinn sé meðal tíu þurrustu júnímánaða á landinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband