29.8.2012 | 20:07
Sólríkustu ágústmánuðir
Sólríkasti ágúst sem mælst hefur í Reykjavík var 1960 en þá voru sólskinsstundirnar 278 en meðaltalið 1961-1990 er 155 stundir. Dagana 3. til 23. skein sólin hvorki meira né minna en 16 daga meira heldur enn 10 stundir og hina fimm dagana á þessu þriggja vikna tímabili skein hún aldrei minna en sex stundir og allt upp í næstum því tíu. Mánuðurinn var einnig hlýr á suðurlandi. Var hann hluti af gæðasumrinu 1960 sunnanlands hvert ekki átti sinn líka fyrir sól og hita í nokkra áratugi þar á eftir. Júlí var t.d. sá fimmti sólríkasti í höfuðborginni. Á landinu var hitinn 0,4 stig yfir því meðallagi sem nú er miðað við, 1961-1990. Mánuðurinn var allra ágústmánaða þurrastur. Á Teigarhorni við Berufjörð var úrkoman aðeins 0,6 mm og hefur aldrei mælst minni úrkoma í ágúst þar alveg frá því mælingar hófust 1873. Úrkomudagar voru þrír. Ekki hefur heldur mælst minni úrkoma í Vestmannaeyjum frá 1881, 4,1 mm, sem féll á tveimur dögum, og Eyrarbakka, 2,7 mm (1880-1910, frá 1926) en þar voru 6 úrkomudagar. Á Akureyri var ekki sérlega mikið sólskin en þar er þetta líka þurrasti ágúst sem mælst hefur, 4,7 mm og úrkomudagarnir voru 5. Einnig mældist minni úrkoma en í nokkrum öðrum ágúst á suðausturlandi, í Vík í Mýrdal og á Hæli í Hreppum og reyndar líka í Hrútafirði. Þetta má kannski kallast þurrasti ágúst sem mælst hefur á landinu.
Þetta var sem sagt enginn venjulegur ágústmánuður. Og þá var sólríkasti ágúst á Akureyri, 2004, ekki síður óvenjulegur með sinni glæsilegustu hitabylgju í nokkrum mánuði síðustu áratugi. Mældist þá mesti hiti á landinu í ágúst, 29,2 stig þ. 11. á Egilsstöðum. Sólin skein á Akureyri í 209 stundir en meðaltalið 1961-1990 er 135,7 stundir. Á Hólum í Hornafirði er þetta einnig sólríkasti ágúst, 213,5 klst, frá 1958, svo á Sámsstöðum í Fljótshlíð, 229 klst frá 1962. Þá er þetta sólríkasti ágúst sem mælst hefur við Mývatn í stuttri mælingasögu. Loks er þetta fjórði sólríkasti ágúst í höfuðstaðnum með 248 sólarstundir. Og eigum við metafíklarnir þá ekki að slá því föstu að þetta sé sólríkasti ágúst á landinu sem við höfum gögn um! Samkvæmt mínu tali er þetta svo næst hlýjasti ágúst sem komið hefur síðan nútímamælingar hófust og langhlýjasti ágúst sem hér verður fjallað um.
Ágúst 1929 er sá næst sólríkasti í Reykjavík með 273 stundir og 16 daga með tíu stunda sól eða meira, líkt og 1960. Þetta sumar í heild, júní til september, er reyndar það sólríkasta sem mælst hefur í höfuðborginni. Fyrir norðan voru þokur og rigningar og mánuðurinn var þar ansi svalur og alls staðar í kaldara lagi, 0,4 stig undir núverandi meðallagi þeirra stöðva sem lengst hafa athugað. Það var þó ekki mikið í samanburði við þriðja sólríkasta ágúst í Reykjavík sem var árið 1943 og sólskinsstundirnar voru þá 251 en hann er áttundi kaldasti ágúst á landinu í heild frá 1866, 1,7 stig undir meðallaginu. Hann var einnig afskaplega þurr og er líklega einn af fimm þurrustu ágústmánuðum á landinu síðustu 140 ár miðað við þær fáu stöðvar sem lengst hafa athugað og sá næst þurrasti eftir stofnun Veðurstofunnar. Í Stykkishólmi hefur ekki mælst minni ágústúrkoma, 0,8 mm, allar götur frá upphafi mælinga þar, 1857, en úrkomudagarnir voru tveir. Á Lambavatni, Kvígndisdal við Patreksfjörð og á Blönduósi mældist heldur aldrei minni úrkoma í ágúst. Á landinu var úrkoman rétt aðeins undir rmeðallagi.
Ágúst 1956 er fimmti sólríkasti í Reykjavík með 243,5 stundir. Þetta var líka kaldur norðanáttamánuður eins og 1943, en þó 0,8 stigum hlýrri, en hefur það sér til þess vafasama heiðurs að vera eini ágúst sem frost hefur verið mælt í Reykjavík í einhverju mesta kuldakasti sem komið hefur í ágúst seinni áratugi, -0,4 þann 27. Og sama dag mældist mesta frost sem mælst hefur í byggð á landinu í ágúst, -6,1 stig á Barkarstöðum í Miðfirði. Úrkoman var aðeins um 30 % af meðallaginu 1931-2000 sem við miðum hér við í úrkomumálunum og líklega er þetta einn af tíu þurrustu ágústmánuðum á landinu.
Næstur að sólríki í Reykjavík er ágúst 1927 með 241 sólskinsstund. Fyrir norðan voru óþurrkar. Hitinn á landinu var rétt aðeins yfir meðallaginu en úrkoman þrír fjórðu af því. Lægsta loftvægi á landinu í ágúst, 960,9 hPa mældist þann 27. á Hólum í Hornafirði. Fylgdi þessu norðanhvassviðri og stórflóð af sjávargangi á Siglufirði.
Sjöundi sólríkasti er ágúst 1964 en þá skein sól í 237 stundir. Mánuðurinn var sæmilegur framan af á landinu en í seinni hluti hans var einhver sá svalasti fyrir þann hluta, en allur mánuðurinn var 0,8 stig undir meðallaginu að hita. Á Grímsstöðum á Fjöllum voru fimm alhvítir dagar. Mjög úrkomusamt var fyrir norðan en að sama skapi þurrviðri sunnanlands. Á Kvískerjum hefur ekki mælst minni ágústúrkoma frá því mælingar þar hófust, 49 mm. Úrkoman var ananrs svipuð á landinu og 1956. Mesta loftvægi í ágúst á landinu mældist þann 12. í Grímsey 1034,8 hPa kl. 24. Næsti ágúst, 1965, er sá níundi sólarmesti í Reykjavík með 220 stundir. Í síðustu vikunni kom eitthvert mesta kuldakast eftir árstíma og á Grímsstöðum voru fjórir dagar alhvítir. Næturfrost komu víða um land. Í heild var mánuðurinn þó 0,6 stigum mildari en árið áður. Landsúrkoman stóð í réttu meðallagi.
Áttundi sólarmesti ágúst í höfuðstaðnum er svo 1917. Þá voru sólskinsmælingarnar reyndar á Vífilsstöðum og mældust 230. Hitinn var rétt aðeins yfir meðallagi á landnu og úrkoman var aðeins undir því.
Loks er svo tíundi sólríkasti ágúst árið 1987 en þá voru sólskinsstundirnar 219. Enn sólríkara var þó á Reykhólum 241 stund. Þetta var síðasti ágúst sem þar var mælt sólskin, frá 1957, og mældist það aldrei meira. Á Hveravöllum mældist heldur aldrei meiri ágústsól (1965-2003), 235,4 stundir. Á Sámsstöðum í Fljótshlíð hefur aðeins mælst meiri sól í ágúst 2004. Hitinn á landinu var 0,5 stig yfir meðallaginu 1961-1990 en úrkoman náði ekki helmingi af meðallaginu.
Fimm júlímánuður eru sameiginlegir fyrir Reykjavik og Akureyri á topp tíu sólarlistanum en aðeins einn ágústmánuður, 2004, sem var sá sólríkasti á Akureyri en fjórði í Reykajvík og hefur verið fjallað um hann hér að framan.
Næst sólarmesti ágúst í höfuðstað norðurlands er hins vegar 1975 en þá skein þar sólin í 193 stundir. Æði var þá sólinni misskipt því þetta er tíundi sólarminnsti ágúst í Reykjavík. Fyrir norðan var hlýtt en svalt syðra. Úrkomusamt var sunnanlands og vestan og á landinu tel ég þetta vera fimmta úrkomusamasta ágúst. Ekki gildir það samt um norðaustanvert landið því ekki hefur mælst þurrari ágúst á Raufarhöfn, 5,6 mm (1934-2008) og í Vopnafirði.
Árið 1994 er ágúst í þriðja sæti á Akureyri með 187 sólskinsstundir. Alls staðar var sól í meðallagi eða nærri því eða meiri og þurrvirðasamt var og vel hlýtt var á landinu, 0,8 stig yfir meðallagi. Úrkoman var aðeins um helmingur af meðallaginu.
Ágúst 1977 var líka mánuður þar sem sólin lék nokkuð glatt við alla landsmenn. Á Akureyri er þetta fjórði sólríkasti ágúst með 178 sólarstundir og 11 dagar voru með tíu klukkustunda sólskin eða meira sem þar er ágústmet. Um miðjan mánuð kom væn hitabylgja en óþyrmilegt kuldakast í mánaðarlok með hvassviðri og flóðum. Næsti ágúst, 1978, sem er sá áttundi sólríkasti á Akureyri, 163,9 stundir, var alls staðar hlýr, um 1,2 stig fyrir meðallaginu 1961-1990 og er þetta níundi hlýjasti ágúst á landinu en úrkoman var lítið eitt yfir sínu meðallagi. Veður voru stillt en nokkuð úrkomusamt á suður og vesturlandi og sólarlítið og í Reykjavík er þetta sjöundi sólarminnsti ágúst.
Sólskinssumarið 1971 krækti í fimmta sólríkasta ágúst á Akureyri og 174 stunda sólskin. Alls staðar lék reyndar sólin við landsmenn. Hitinn var lítið eitt undir meðallagi og einnig úrkoman. Mikið hret gerði seint í mánuðinum og mesta snjódýpt á veðurstöð í byggð mældist þann 27. og 28. á Grímsstöðum á Fjöllum 10 cm. Miklir skaðar urðu á norðausturlandi í þessu veðri.
Ágúst 1931 er eini ágústmánuðurinn á Akureyri fyrir 1971 sem kemst inn á topp tíu listann fyrir sólargæði og er það óneitanlega nokkuð einkennilegt. Undarlega lítið sólskin mældist reyndar á Akureyri á fjórða og fimmta áratugnum þegar hlýindi voru í algleymingi. En ágúst 1931 var mikill og stilltur góðviðrismánuður með ágætri hitabylgju dagana 12.-14. þegar meiri hiti mældist á suðurlandi í ágúst fyrir utan árið 2004 og er þetta sjöundi hlýjasti ágúst á landinu en sólin á Akureyri mældist 174 stundir en 207 í Reykjavík. Úrkoman var aðeins um 32% af meðallaginu 1931-2000 sem gerir mánuðinn nálægt því að ná inn á topp tíu listann fyrir þurrk. Stórrigningar gengu hins vegar á suðurlandi lengi fram eftir ágúst 1984 og þá mældist þann 10. mesta sólarhringsúrrkoma í Reykjavík í ágúst, 42,4 mm. Svalt var syðra og sólarlítið en mjög hlýtt nyðra og sólin á Akureyri skein í 172 stundir. Sólskinsmet fyrir mánuðinn komu á Hallormsstað (1953-1989), 229 klst og á Melrakkasléttu (1957-1999), 212 klst. Úrkoman var vel yfir meðallagi og hitinn um hálft stig yfir því. Hlýtt sem sagt og votvirðasamt.
Sólargæðunum var einnig æði misskipt í ágúst 1995 sem var um 0,8 stig yfir meðallagi að hita á landinu. Hann er sá níundi sólríkasti á Akureyri, 163,8 stundir, en fjórði sólarminnsti í höfuðstaðnum. Á Akureyri var meðalhitinn yfir 12 stigum eins og 1984 og 1978 en aðeins 10,5 í Reykjavík. Úrkoman á landinu var um 20 % yfir meðallaginu.
Loks er ágúst 2008. Hann náði tíunda sæti á Akureyri með 163 sólarstundir. Úrkoman á landinu var í tæpu meðallagi en hitinn var um það bil 1,2 stig yfir því sem gerir mánuðinn tíunda hlýjasta ágúst á landinu frá 1866.
Meginflokkur: Veðurfar | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 20.4.2013 kl. 16:26 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.