Hlýjustu ágústmánuðir

Meðalhiti stöðvanna níu sem miðað er við var 9,5 stig árin 1961-1990.

2003 (12,20) Þetta er ekki aðeins hlýjasti ágústmánuður sem mælst hefur á landinu í heild heldur blátt áfram hlýjasti mánuður allra mánaða ársins síðan áreiðanlegar mælingar hófust. Hann er jafnframt hlýjasti ágúst sem komið hefur alls staðar á landinu nema víða á svæðinu frá Eyjafirði til Seyðisfjarðar. Auk þess er hann hlýjasti mánuður sem yfirleitt hefur mælst á svæðinu frá Borgarfirði norður og austur um til Skagafjarðar nema sums staðar á Vestfjörðum og hann var líka allra mánaða hlýjastur í Vestmannaeyjum og í Mýrdal. Meðalhitinn var 3,5 stig fyrir ofan meðallagið 1961-1990 á Mývatnssvæðinu og í A-Húnavatnssýslu en 2-3 stig annars staðar. Í Vík í Mýrdal var meðalhitinn 13,2 stig og sama á Írafossi en þetta voru hlýjustu staðirnir. Á landsvísu voru allir dagar mánaðarins yfir meðallagi og líka í Reykjavík út af fyrir sig. Þar hefur aldrei mælst meiri meðalhiti í ágúst síðan mælingar urðu sæmilega góðar. Meðaltal lágmarkshita var þar 10,4 stig og hefur aldrei verið hærra. Á Vatnsskarðshólum í Mýrdal var þetta meðaltal 10,8 stig. Það sýnir hlýindin að fyrstu 6 dagana og síðustu 9 dagana, auk nokkurra annarra daga, fór hitinn aldrei niður fyrir 10 stig allan sólarhringinn í borginni.

2003_8_thick_an.pngSunnanátt var algengust en þó ekki af drungalegasta tagi. Sólskin mátti heita í meðallagi í Reykjavík en örlítið yfir því á Akureyri. Sólríkast var hins vegar við Mývatn og á miðhálendinu. Úrkoma var víðast hvar í minna lagi en náði þó meðallagi á Reykjanesi, við Mývatn, á Hornafirði og stöku öðrum stöðum. Hiti var í hærra lagi allan mánuðinn en þó komu engar raunverulegar hitabylgjur. Mesti hiti sem mældist á landinu var ekki óskaplega mikill miðað við hvað mánuðurinn var hlýr, 24,6 stig á mönnuðu stöðinni á Raufarhöfn og þeirri sjálfvirku á Húsavík þ. 9. Að morgni þessa sama dags mældist mest sólarhringsúrkoma í mánuðinum, 58,3 mm á Snæbýli í Skaftártungu. Í Reykjavík komst hitinn í 20,0 stig þ. 1. Í Álftaverinu mældist mesti hiti sem þá hafði mælst þar í ágúst frá 1959, 23,6 stig þ. 25. á Norðuhjáleigu. Þennan dag var meðalhitinn á Kirkjubæjarklaustri 17,2 stig sem er með því mesta sem gerist á Íslandi svo seint á sumri. Þrátt fyrir hlýindin mældust næturfrost á sex stöðvum í byggð í mánuðinum. Kortið sýnir frávik þykktar upp í 500 hPa flötin miðað við árin 1981-2100. Því meiri sem þessi þykkt er því hlýrra er loftið í sínu eðli en að jafnaði liggur 5450 m þykktarlínan yfir miðju landsins í ágúst.Kortin stækka ef smellt er á þau.

Herra Idi Amin, fyrrverandi snarbrjálaður einræðisherra Uganda, geispaði golunni um miðjan mánuðinn. 

Meðalhiti á veðurstöðvum í þessum hlýjasta mánuði mælingaögunnar.

ag_2003_1105803.gif

Næst hlýjasti ágúst var svo árið eftir, 2004 (11,77). Það sem mestu olli um það var fádæma hitabylgja dagana 9.-14. Þá kom hitamet í Reykjavík, 24,8 stig þ. 11.  sem slegið var í júlí 2008. 20040811.gifMeðalhitinn í Reykjavík þennan dag var 20,1 og er það í eini dagurinn síðan mælingar hófust að sólarhringsmeðaltalið þar nær 20 stigum. Kortið sýnir hlýju hæðina í háloftunum sem var yfir landinu þessa daga. En þ. 11. voru teknar tunglmyndir af landinu sem oft hafa birst hér og hvar. Fjóra daga í röð fór hitinn í Reykjavík (og víðar á vesturlandi) í 20 stig eða meira og er það met. Á sjálfvirka mælinum á Egilsstaðaflugvelli fór hitinn í 29,2 stig þ. 11. en daginn áður í 29,1 í Skaftafelli í Öræfum en hlýjast á mannaðri stöð varð 28,5 stig á Hjarðarlandi þ. 10. Meðaltal hámarkshita á Staðarhóli í Aðaldal í mánuðinum var 18,5 stig og 18,4 á Torfum í Eyjafirði og gerist varla hærra á Íslandi en þess ber að gæta að þessar tölur fást þegar skipt er milli sólarhringa kl. 18 sem þýðir að mikil hlýindi á þeim tíma einn daginn er  skráður sem hámarkshiti næsta dag þó miklu kaldari sé. Úrkoman var rétt undir meðallagi á öllu landinu en þó yfir því á suðausturlandi. Óvenjulega sólríkt var og á Akureyri er þetta sólríkasti ágúst sem þar hefur mælst, 209 klukkustundir, en sólríkara varð þó í Reykjavík, 248 stundir og þar er þetta fjórði sólríkasti ágúst og sá sólarmesti síðan 1960. Seinni helmingur mánaðarins var talsvert svalari en fyrri hlutinn og ekkert sérstakur, en fyrri hlutinn var svo hlýr að hann tryggði mánuðinum silfrið meðal ágústmánaða.

Í síðustu vikunni kom Bill Clinton til landsins og fékk sér  eina pulsu með öllu. James Brown hélt tónleika í Reykjavík.  Klassíski stórsöngvarinn Gerard Souzay lést  þ. 17. og daginn eftir tónskáldið og tónlistarvinurinn Gylfi Þ. Gíslason.

Bronsið hlýtur sá sögufrægi ágúst 1880 (11,76) sem var hluti af undrasumrinu mikla 1880, langhlýjasta sumri á Íslandi frá því sæmilega áreiðanlegar mælingar hófust og þar til fór verulega að hlýna á tuttugustu öld. Þetta var hægviðrasamur ágústmánuður og úrkoma ekki langt frá núverandi meðallagi en var þó umkvörtunarefni sunnanlands og vestan. 1880_8_1000_1105401.pngMánuðurinn skartar svo hlýjasta mánuði sem nokkru sinni hefur mælst á íslenskri veðurstöð, 13,97 stigum á Valþjófsstað. Ef sá hiti yrði hér settur í stað Akureyrar, sem mældi ekki þetta ár, myndi þessi ágúst verða sá næst hlýjasti. Þetta minnir reyndar á að röð hlýjustu   mánaðana er langt í  frá einhlít. Á seinni áratugum eru veðurstöðvar til dæmis miklu fleiri en þær 9 sem hér er miðað við og yrði innbyrðis röð mánaðana kannski eitthvað öðruvísi síðustu áratugina ef fleiri veðurstöðvar væru undir heldur en þessar 9 sem lengst hafa starfað. Mjög úrkomusamt var sunnan-lands og vestan þegar fór að líða á mánuðinn og síðustu vikuna rigndi eiginlega alveg stöðugt sums staðar. Mjög hlýtt var þó og í Stykkishólmi má t.d. segja að hiti hafi varla farið niður fyrir tíu stig allan sólarhringinn dagana 16.-27. Lágmarkshiti var líka alloft yfir tíu stigum í Grímsey, t.d. 25.-29. Þann 25. komst hitinn þar í 19,4 stig en 17,4 í Stykkishólmi. Mestur hiti sem mældist á þessum fáu veðurstöðvum sem mældu hámark var 20,4 á Eyrarbakka en áreiðanlega hefur hitinn á landinu komist einhvers staðar hærra. Kortið sýnir hæð 1000 hPa flatarins við sjávarmáli eða með öðrum orðum loftþýstinginn. Hæð var oft yfir Bretlandseyjum í þessum mánuði en lægðir vestur af landinu. Jónas Jónassen lýsti  þessum ágústmánuði svo í Þjóðólfi 11. september 1880:

Fyrstu viku mánaðarins var optast logn og bjart veður en úr því hefir verið mesta óþurkatíð, því síðan 7. þ. m. hefir ýmist verið landsunnanátt eða útsynningur með mikilli úrkomu, stundum mátt heita ofsaveður með aftaka rigningu t. d. 27.

1939_8_500.pngHér er ágúst 1939 (11,39) sá  fjórði í röðinni og hann var hluti af hlýjasta sumri (júní-sept.) sem stöðvarnar 9 hafa mælt. Hann var hins vegar sá úrkomusamasti sem mælst hefur í Reykjavík, 164,8 mm. Á Hólum í Hornafirði hefur heldur aldrei rignt meira í ágúst, 242,1 mm og í Grímsnesinu var úrkoman líka með allra mesta móti. Í Stykkishólmi er þetta níundi úrkomusamasti ágúst, frá 1857. Út frá þeimi fáu stöðvum sem ég miða úrkomu lauslega við hafa ágúst árin 1884 og 1981 aðeins verið úrkomusamari á landinu en 1969 var svipaður. Það var sem sagt  mjög úrkomusamt, einkum sunnanlands- og vestan, en á norður og austurlandi voru góðir þurrkar og ágæt heyskapartíð. Þrátt fyrir þetta voru sólskinsstundir 5 klukkustundum fleiri í Reykjavík en á Akureyri. Það rigndi líka talsvert fyrir norðan suma daga en stórrigningar gerði á suðurlandi á síðasta þriðjungi mánaðarins. Og reyndar víðar! Á Horni í Hornvík mældist sólarhringsúrkoman 106 mm að morgni þ. 25. sem þá var næst mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hafði á landinu í ágúst. Tiltölulega hlýjast varð næst síðasta og síðasta daginn en þá komst hitinn í Reykjavík í 21,4 stig sem var mesti hiti sem mældist þar í ágúst alla tuttugustu öldina og fram til 2004. Þennan dag var víða um og yfir 20 stiga hiti á suðvesturlandi. Sterkari hitabylgju gerði þó fyrir norðan og austan dagana 2.-4. en þá komst hitinn í 27,1 stig á Sandi í Aðaldal og 27,0 á Hallormsstað.  Í þessum mánuði voru oft lægðir vestan við landið en hæðarsvæði var yfir Rússlandi. Eftir þessum ágúst kom svo næst hlýjasti eða hlýjasti september sem mælst hefur á landinu.

Seint í mánuðinum undirrituðu Hitler og Stalín hinn illlræmda griðasáttmála milli Þýskalands og Sovétríkjanna.   

1947_8_500.png1947 (11,20) Þessi mánuður er víða hlýjasti ágúst sem mælst hefur á svæðinu frá Eyjafirði til Seyðisfjarðar en þó ekki við Mývatn og á Hólsfjöllum. Fyrir norðan og austan ver enda talin einmuna tíð. Á Akureyri hefur aldrei orðið jafn hlýtt í ágúst, 13,2 stig og sömu sögu er að segja um Sand í Aðaldal og síðast en ekki síst Húsavík þar sem meðalhitinn var 13,9 stig sem er mesti meðalhiti á nokkurri veðurstöð á landinu í nokkrum mánuði fyrir utan Valþjófsstað í ágúst 1880. Meðaltal lágmarkshita á Akureyri var 10,0 stig og hefur aldrei verið jafn hátt í ágúst. Þetta var mikill rigningarmánuður á suðurlandi og vesturlandi en tiltölulega var þó votast á sunnanverðum Vestfjörðum. Úrkomumagnið var að vísu víða minna en 1939 en úrkomudagar aftur á móti fleiri og í Reykjavík hafa þeir aldrei verið fleiri í ágúst, 27. Þetta var einnig sólarminnsti ágúst í Reykjavík sem þá hafði verið mældur en það met var slegið 1983 og er þetta því næst sólarminnsti ágúst í höfuðborginni. Hann lá í sunnan og suðvestanáttum svo að segja allan mánuðinn og fremur var vindasamt miðað við árstíma. Hitinn gerði aldrei neinar rósir sunnanlands en á norður og austurlandi voru miklir hitar fyrir og um þ. 25. Komst hitinn í 27,2 stig á Sandi og 25,0 á Hallormsstað þ. 22. Veðurlag var ekki ósvipað og 1939, lægðafar vestan við land en hæðin var yfir Bretlandseyjum og þar í grennd, mun vestar en 1939. Líkindi eru með öllum hlýju ágústmánuðunum 1880, 1939 og 1947.

Um miðjan mánuð varð Indland sjálfstætt ríki og Pakistan varð til. Í mánaðarlok var gjaldeyrisvaraforði Íslendinga uppurinn.

2010 (11,06) Þetta er sjötti hlýjasti ágúst. Hæstur var meðalhitinn á Garðskagavita 12,3 stig en lægstur 3,0 stig á Brúarjökli. Fyrstu 19 dagarnir voru allir yfir meðallagi í Reykjavík og hámarkshiti fór í 20 stig eða meira einhvers staðar á landinu alla dagana nema þrjá. Hlýjast varð 23,0 stig þ. 12. í Skaftafelli en á mannaðri stöð 21,8 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þ. 15. Þann 20. kólnaði all nokkuð þó engir sérstakir kuldar væru. Kaldast varð í Möðrudal, -3,7 þ. 29. og sama daga mældist minnsti hiti á mannaðri stöð, -3,0 stig á Staðarhóli í Aðaladal. Síðustu dagana hlýnaði á ný og var það upphafði á óvenjulegri hitabylgju sem varð mest í september en sá mánuður krækti reyndar í fimmta sætið yfir hlýjustu septembermánuði. Mjög þurrt var um vestanvert landið svo til vandræða horfði sums staðar með vatn. Nokkuð sólríkt var í Reykjavík en fremur sólarlítið á Akureyri. 

Mánuðurnir júní til ágúst hafa aldrei verið jafn hlýir og þetta ár í Reykajvík frá upphafi sæmilega traustra mælinga.

1931081318.gifÍ ágúst 1931 (11,04) var tíð talin mjög góð og hagstæð til lands og sjávar, hlýtt lengst af og góðir þurrkar. Á Kirkjubæjarklaustri var þetta annar hlýjasti ágúst sem þar hefur mælst, 12,3 stig (hlýjast 13,0, 2003) enda var vindurinn oft vestanstæður. Mánuðurinn var líka vel sólríkur, bæði fyrir sunnan og norðan. Í Reykjavík var einstök sólskinstíð dagana 8.-23. Þessi ágúst  var líka mjög þurr, einkum á austurlandi. Úrkomudagar voru næstum því alls staðar færri en 15 og víða undir 10. Á Akureyri rigndi einn dag. Dagana 11.-16. var talið óslitið góðviðri og hitabylgja var 12.-14. með 24-26 stiga hita víða. Á Hlíð í Hrunamannahreppi mældist hitinn 26,0 þ. 14. og var það mesti hiti sem mældist í ágúst á suðurlandsundirlendi allt fram í ágúst 2004. Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa fletinum meðan hitabygljan stóð einna hæst. Hlýtt loft úr suðaustri var yfir landinu. Heildarstaðan í mánuðinum var ekki mjög ósvipuð en auðvitað ekki eins sterk í hlýindunum en áttirnar vor oft austlægar eða suðaustlægar.

Fyrstu dagana tefldi Aljekín heimeistari í skák fjöltefli í Reykjavík.  

2006 (10,79)  Bæði í Reykjavík og á Aureyri var sólskin nærri meðallagi.  Úrkoman var það líka í Reykjavík en hún var heldur meiri en í meðallagi á Akureyri. Mjög hlýtt var fyrstu dagana og fór hitinn í 24,7 stig í Ásbyrgi þ. 3. og 24,4 stig daginn eftir á Húsavík. Hlýtt var einnig upp úr miðjum mánuði þegar hitinn fór í 23,5 stig á Reykjum í Fnjóskadal þ. 18. og daginn eftir í 23,3 stig á Hallormsstað. Meðaltal hámarkshita á landinu var 20,1 stig sem telst ansi gott. Næturfrost komu þó í mánuðinum, mest -1,5 stig á Torfum þ. 16.

Í síðustu vikunni slapp austuríska stúlkan Natascha Kampusch úr haldi eftir átta ára vist í haldi mannræningja. Öðlaðist hún heimsfræg eftir lausnina. 

1978_8_500t.gif1978 (10,71) Þessi hlýi ágúst kom eiginlega eins og skrattinn úr sauðarleggnum á árum kaldra sumarmánaða. Hann krækir í níunda sæti yfir hlýjustu ágústmánuði út frá stöðvunum níu sem hér er alltaf miðað við. Veður voru stillt en þungbúin og fremur úrkomusamt var á suður og vesturlandi. Einna minnst hlýtt að tiltölu, fyrir utan austurströndina, var kringum Reykjavík. Þar sást lítið til sólar og þó milt væri vantaði almennilega hlýja daga. Á norður og austurlandi komu hins vegar nokkrar góðar hlýindagusur. Mjög hlýtt var fyrstu dagana og fór þá hiti víða í um og yfir tuttugu stig fyrir norðan, mest  25, 7 stig þ. 2. á Barkarstöðum í Miðfirði og er þetta reyndar mesti hiti sem nokkurn tíma hefur mælst í þeirri sveit. Dagana 11.og 12. kom önnur hlýindaskorpa og mældist seinni daginn 23,8 stig á Akureyri en þessi hlýindi náðu ekki almennilega austur á land. Loks var mjög hlýtt dagana 18.-20. og komu þau hlýindi við í Skaftafellssýslum og fór hitinn þ. 18. í 22,5 stig á Mýrum í Álftaveri. Nokkuð kólnaði síðustu dagana og þ. 25. mældist frostið -1,4 stig á Vöglum í Fnjóskadal. Úrkoman var undir meðallagi en á vesturlandi, frá Borgarfirði til Barðastrandar var hún í meira lagi og einnig á Fljótsdalshéraði og við suðurströndina. Kortið sýnir hlýja tungu yfir landinu í 500 hPa fletinum þar sem sem frostið í ágúst er yfirleitt um 19-20 stig. 

2008 (10,71) Þessi mánuður, sem  kom á eftir fimmta hlýjasta júlí, er í tíunda sæti. Hlýjast var fyrsta daginn, 24,3 stig á Þyrli í Hvalfirði, en sama dag mældist mesti hiti á mannaðri stöð, 23,8 stig á Torfum í Eyjafirði.  Í Reykjavík mældist hitinn 23,6 stig þ. 1. en sólarhringsmeðaltalið var 17,5 stig og var þetta framhald hitabygjunnar miklu sem kom í júlílok. Kaldast var -3,2 stig á Brú á Jökuldal þ. 10. en á mannaðri stöð -0,5 stig þ. 12 á Torfum. Sólskin var í kringum meðallag í Reykjavík en í rösku meðallagi á Akureyri. Þar var líka óvenjulega þurrt en nokkuð vott syðra.

Rússneska nóbelskáldið Alexander Solsjenítsín dó. þ. 3. en á ólympíuleikunum í Peking hlutu Íslendingar silfrið í handbolta undir lok mánaðarins. - Hrunið lúrði svo  handan við hornið.  

Nú verður lauslega vikið að næstu  tíu hlýjustu mánuðum. Umsögnin verður þó stundum næsta snautleg og aðeins er svo sem bara verið  að minnna á þessa mánuði.

1945_8_850t.gifÁrið 1945 (10,83) naut ágúst sín einkar vel inn til landsins fyrir norðan og austan eins og júlí sama ár og var þar tiltölulega hlýjast. Þetta er hlýjasti ágúst sem mælst hefur á Hólsfjöllum og hlýrri en 2003. Á suður-og vesturlandi var hins vegar úrkomusamt, einkum á suðausturlandi. Þurrast var á austurlandi. Fádæma rigningar voru á suðurlandi dagana 12.-14. með allt að 78 mm sólarhringsúrkomu þ. 12. á Ljósafossi. Olli þetta flóði í ám og flæddu Varmá í Ölfusi og Norðurá í Borgarfirði yfir bakka sína. Í Reykjavík var mjög þungbúið og er þetta þar sjötti sólarminnsti ágúst, en fyrir norðan var sæmilega sólríkt og meira sólskin en 1947. Þetta var tíundi úrkomusamasti ágúst í Reykjavík. Hlýjast varð á Hallormsstað  24,5 þ. 6., daginn sem kjarnorkusprengjunni var varpað á Hírosíma. Kaldast var -1,1 stig á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði þ. 30. Kortið sýnir mánaðarhitann í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m hæð sem að jafnaði er 2-3 stig í ágúst.    

1932 (10,64) Á suður- og vesturlandi gengu rigningar í þessum ágúst. Það rigndi líka mikið norðanlands nema vestan til en þurrara var á austurlandi. Tíðin var þó alls staðar hlý og hægviðrasöm. Meðalhiti var óvenjulega jafn um land allt. En mestur hámarkshiti varð á Eiðum 23,8 stig þ. 23. en minnstur  -2,2 stig á Grímsstöðum þ. 20. Hollenskir vísindamenn komu til landsins í þessum mánuði til þess að rannsaka veðurfar. 

1899 (10,64) Votviðrasamur mánuður víðast hvar og versnaði er á leið. Á Eyrarbakka var úrkoman 218 mm sem er með mesta móti. Í Reykjavík er þetta fjórði úrkomusamasti ágúst. Möðrudalur krækti í mesta hitann, 24,8 stig en Holt í Önundarfirði tók til sín mesta kuldann, - 1,9 stig.

Í ágúst 1991 féll 18 mm úrkoma Reykjavík milli klukkan 21.30 og 22.30 þ. 16. og varð miljónatjón af völdum vatnselgs. Þessi annars ágæti mánuður var svo auðvitað beint framhald af hinum sögufræga júlí 1991. Hlýjast varð í Reykjahlíð 26,8 stig þ. 3. Það var á laugardeginum um verslunarmannahelgina og er þetta mesti hiti sem mælst hefur á veðurstöð á nokkrum degi um veslunarmannahelgi frá því a.m.k. um miðja tuttugustu öld. Kaldast á landinu varð  -2,1 á Brú þ. 24.

Harðlínumenn í Rússlandi gerðu misheppnaða valdaránstilraun þ. 17. og seint í mánuðinum viðurkenndu Íslendingar sjálfstæði Esystrasaltsríkjanna. Enginn annar en Pele, knattspyrnumaðurinn heimsfrægi, kom til landsins í fyrstu vikunnu.  

1953 (10,58) Fremur hægviðrasamt og líka nokkuð úrkomusamt, einkum á austurlandi. Hlýjast var á Raufarhöfn 21,2 þ. 3. en kaldast -0,4 stig á Þingvöllum þ.19.

Friðrik Ólafsson varð norðurlandameistari í skák og Elly Vilhjálms söngkona kom fyrst fram opinberlega. 

1969 (10,53) Þessi mánuður er sá 16. hlýjasti ágúst á landinu í heild. Hann var þó talinn mjög óhagstæður vegna mikilla votvirða á miklu rigningarsumri um allt land. Hann var svipaður ágúst 1939 að þessu leyti en sá mánuður var þó talsvert hlýrri.  Í þessum ágúst 1969 mældist mesta úrkoma í ágústmánuði á veðurstöð, 552,6 mm á Kvískerjum í Öræfum. Í Stykkishomi er þetta áttundi úrkomusamasti ágúst, frá 1857. En í þessum mánuði mældist mesti hiti sem kom í Reykjavík á svölu sumrunum 1961-1975, 19,9, stig þ. 5. En mesti hiti á landinu varð 22,5 stig þ. 10. á Akureyri en kaldast -1,5 stig á Dratthalastöðum á Úthéraði þ. 22.

Woodstockhátíðin fór fram þ. 17. og skömmu síðar komu breskir hermenn til Norður-Írlands þar sem róstursamt var næstu árin.   

Í að öðru leyti hægviðrasömum ágúst  árið 1933 (10,53) gerði sunnan stórviðri vestanlands þ. 27.  með mikilli úrkomu. Þá fórst bátur með fimm mönnum á leiðinni frá Hrísey til Ísafjarðar. Hlýjast varð á Kollsá 21,4 stig  þ. 4. og 5. og  þar varð einnig kaldast,  0,1 stig þ. 17. Sumarið 1933 er hið hlýjasta sem komið hefur á norðurlandi og þess var getið í sumarlok að þá hafi ýmsar fannir horfið úr fjöllum sem ekki höfðu áður horfið í manna minnum. Hér má taka fram að í sumum heimildum er sagt að þ. 11. hafi hitinn mælst 58 stig í San Luis Potosi í Mexikó og sé það heimsmet en ekki mun það þó vera viðurkennt almennt sem hitamet á jörðunni. Öll þau met sem gera tilkall til þess að vera heimsmet í hita eru umdeilt og er mesta furða að gróðurhúsaáhrifin ógurlegu skuli ekki hafa bætt þar um í eitt skipti fyrir öll.   

1950_8_850.png1950 (10,53) Ágúst árið 1950 var alræmdur rigningarmánuður á austurlandi. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma á Dalatanga (frá 1938), 407 mm. Á Seyðisfirði biðu sex manns bana af völdum skriðufalla þ. 19. er skriða gereyddi tvílyftu steinhúsi. Á suður- og vesturlandi var þetta óvenjulega hlýr mánuður. Í Reykjavík er hann fjórði hlýjasti ágúst frá 1866, á eftir 2003, 2004 og 1880. Hlýjast á landinu varð 20, 5 stig á Hamraendum í Dölum þ. 3. en kaldast 1,2 stig á Bolungarvík þ. 30. Júli var einnig hlýr í höfuðstaðnum og þess má geta að 17. júlí mældist hitinn þar 23,4 stig sem var þá mesti hiti sem mælst hafði í Reykjavík í nútímaskýli en metið var slegið 1976 og síðan  nokkrum sinnum enn frekar. Í þessum ágúst munað litlu að hitimn kæmist í tuttugu stig í bænum, varð mestur 19,7 stig þ. 21. en á rafstöðinni við Elliðaáar komst hann í nákvæmlega tuttugu stig þennan dag. Þess má  og geta að þann 15. mældist mesti jarðskjálfti sem þá hafði mælst í heiminum, 8,6 stig og fannst hann á mælum í Reykjavík. Upptökin voru í Assam. Austanáttinn var nær ófrávíkjanleg í mánuði þessum eins kortið sýnir sem er frá 850 hæðafletinum í um 1400 m hæð en mikið lægðarsvæði var suður af landinu.

Í síðustu vikunni fór fram evrópumótið í frjálsum íþróttum í Brussel og urðu Gunnar Huseby og Torfi Bryngeirsson þar evrópumeistarar.  

1999 (10,50) Þetta var sólríkur mánuður nema á suður og suðvesturlandi. Hlýjast varð  23,7 stig þ. 4. í Lerkihlíð í Vaglaskógi. Á Hjarðarlandi fór hitinn þennan dag í 23,6 stig og mjög víða fór hitinn yfir tuttugu stig inn til landsins. Kaldast varð -2,5 stig í Möðrudal þ. 9.

Mick Jagger kom til Ísafjarðar þann fyrsta og kvikmyndaleikarinn Kevin Costner nokkrum dögum síðar og fékk hitabygjuna í ferð sinni um suðurland.     

1934 (10,49)  Votviðrasamt var í þessum mánum og einkum fyrir norðan og austan. Þetta er kringum sjötti votviðrasamasti ágúst að mínu tali. En það var hlýtt. Hlýjast varð 22,0 stig á Kirkjubæjarklaustri þ. 10. en kaldast 0,8 stig á Grímsstöðum þ. 23.

Þann annan dó Hindenburg og Adolf Hitler gjörðist allsráðandi í Þyskalandi að formi jafnt sem í reynd.   

Hér verður nú að drepa á ágúst 1960. Hann er sá sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík og voru sólarstundir 278,3 klst og 16 dagar voru með sól í 10 stundir eða meira. Það var líka sæmilega  hlýtt. Í Reykjavík hafa 26 ágústmánuðir verið hlýrri frá 1866 en á landinu 48. Fyrir norðan var sólarlítið, aðeins 65 klst á Akureyri. Hins vegar var alls staðar þurrt og er þetta þurrasti ágúst sem ég finn miðað við þær fáu stöðvar sem ég miða við. Mánuðurinn var og sá þurrasti á ýmsum einstöku veðurstöðvum. Skal þar fyrsta telja Teigarhorn sem mælt hefur frá 1873 en einnig Akureyri. Í Stykkishólmi er þetta sjötti þurrasti ágúst. Þann 9. komst hitinn á Hæli í Hreppum í 22,6 stig en hvergi annars staðar á suðurlandi náði hitinn að komast í 20 stig.
 
Þann 7. í sól og blíðu (17 stig mest) stökk Vilhjálmur Einarsson 16,70 metra í þrístökki á Laugardalsvellinum. Það var þá jöfnun á áður settu heimsmeti Pólverjans Schimdt sem hann þurfti þó endilega að bæta fáum dögum fyrr. En sá sem hér bloggar var sjálfur á vellinum þegar þetta íslandsmet sem enn stendur var sett. Já, bloggarinn er heldur betur lífreyndur í metunum, jafnt íþróttametunum sem veðurmetunum!   
 
Fyrir 1873 komu nokkrir hlýir ágústmánuðir sem vert er að gefa gætur. Árið 1870 mældist meðalhitinn í Reykjavík 11,9 stig en 11,1 á Stykkishólmi en aðeins var þá athugað á þessum tveimur stöðum. Og 1872 var meðalhitinn á þessum stöðum 11,3 og 11,2 stig. Meðalhitinn í Stykkishólmi árið 1856 var 11,1 stig og 11,0 árið eftir en aðeins var þessi ár mælt í Stykkishólmi og einnig voru 11,0 stig í ágúst 1846, fyrsta ágústmánuðinum sem þar var mældur.

Í Reykjavík voru mælingar frá 1820 til 1853. Athyglin beinist þá einkum að fjórum mánuðum. Árið 1828 er með töluna 13,2 stig. Sumarið í heild var reyndar eitt það allra hlýjasta sem mælst hefur en þess bera að gæta að þessar tölur eru óvissar. Ágúst árið 1829 kemur út með 13,6 stig og er ekki hægt að finna hærri tölu fyrir meðalhita í Reykjavík í ágúst. Þó þessi tala sé ónákvæm og mjög líklega fremur of há en hitt er víst af ýmsum heimildum að mikið góðæri ríkti á landinu þetta ár. "Grasvöxtur varð góður um sumarið og nýting eins og hún getur best orðið", segir Árbók Reykjavíkur. Úrkoman var mæld 47 mm í Reykjavík í þessum fyrsta ágúst sem þar var nokkru sinni mæld úrkoma. Árið 1838 var svo meðalhitinn 13 stig í ágúst í bænum en úrkoman 34 mm. Brandstaðaannáll segir: "Í ágúst besta veðurátt og oft sterkir hitar, þó ei breiskjur til lengdar og aldrei rigningar til skemmda." Þorvaldur Thoroddsen skrifar um sumarið 1838 í Árferði á Íslandi í þúsund ár: "Sumarið var svo fagurt og blítt, að fáir mundu annað eins, og kom það að kalla jafnt yfir alt land. Var löngum hægviðri og hitar, stundum dumbingur og smáleiðingar, en þó oftar bjart og heiðskírt, einkum sunnanlands." Árið 1842 var ágúst í Reykjavík talinn 12,7 stig en úrkoman var nokkuð mikil, 89 mm. Og loks er svo ágúst 1847 í Reykjavík með 12,3 stig en úrkoman 81 mm. Þá var byrjað að mæla í Stykkishólmi og var mánuðurinn þar 11,9 stig en úrkomumælingar voru þar þá ekki byrjaðar.

Það var ekki alltaf kalt á Íslandi í gamla daga!

Og þá er orðið ljóst hvaða mánuðir eru þeir hlýjustu á Íslandi frá 1866. Top twenty five!

Ágúst 2003, 12,20

Júlí 1933, 11,92

Ágúst 2004, 11,77

Júlí 1880, 11,74

Ágúst 1880, 11,67

Júlí 1991, 11,53

Júlí 1894, 11,45

Ágúst 1939,11,39

Júlí 2008, 11,39

Júlí 1917, 11,38

 

Júlí 1908, 11,31

Júlí 2010, 11,29          

Júlí 1936, 11,25

Júlí 1929, 11,24

Ágúst 1947, 11,20

Júlí 1927, 11,15

Júlí 1934, 11,15

Júlí 1926, 11,12

Júlí 2004,11,09

Júlí 1945, 11,08

Ágúst 2010, 11,06

Ágúst 2010, 11,06

Júlí 1941, 11,05

Ágúst 1931, 11,04

Júlí 1939, 11,02

Þetta eru 25 mánuðir. Og þar hættum við!

Í fyrra fylgiskjalinu má sjá hita og úrkomu stöðvanna 9 sem miðað er við en í hinu síðara hita, sól og úrkomu í Reykjvík í ágúst 2003 og 2004 og mesta hita hvers dags á landinu í þeim mánuðum.

Skýringar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Á 8. og 9. áratugi 20. aldarinnar voru fremur svöl sumur eins og veðurminnið segir mér. Nema kannski 1974.

Sigurbjörn Sveinsson, 28.8.2011 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband