Hægir á kólnuninni

Meðalhitinn í ágúst hefur nú alveg hrunið í kuldakastinu úr þeim hæðum sem hann var í. Hann mun ekki slá nein met. En nú hægir á kólnuninni og mánuðurinn verður eigi að síður í hópi hlýjustu ágústmánaða.

Þó þetta kuldakast sé leiðinlegt er það á engan hátt með þeim verstu sem geta komið eftir árstíma.

Það geta menn séð svart á hvítu í tveimur nýjum dálkum sem nú eru komnir inn á fylgiskjalið, blað eitt. Annar sýnir lægsta hámarkshita hvers dags sem komið hefur í ágúst í Reykjavík frá því seint á 19. öld og hinn lægsta hámarkshita hvers dags á landinu frá 1949. Þetta eru ansi kuldalegar tölur. Menn geta svo borið þær saman við dálkana um mesta kulda hvers dags í Reykjavík og á landinu. Reynt hefur verið að forðast svonefnd tvöföld hámörk sem eru þegar hiti einhvers dags klukkan 18 er látinn gilda fyrir næsta dag. Þessir dálkar eru komnir fyrir ágúst en verða settir  inn fyrir alla mánuði ársins á næstunni.

Villur geta þarna verið á sveimi en vonandi fer enginn af hjörunum yfir því. 

Þetta er líka bara hugsað sem alveg einstaklega saklaust skemmtiefni fyrir veðurfana... æ, æ, guð minn almáttugur í hæstu hæðum! Sagði ég þá ekki bannorðið ógurlega, skemmtiefni! 

Ég meinti auðvitað að þetta væri bara til fróðleiks. 

Fróðleiks og smávegis undirholdningar. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband