Sólarminnstu ágústmánuðir

Sólarlitlir sumarmánuðir í Reykjavík hafa gjarnan verið hluti af miklum rigningasumrum  á suðurlandi meðan þau voru og hétu og þau komu stundum hvert á eftir öðru. Síðustu alvöru rigningarsumrin sunnanlands voru 1983 og 1984.
 
Og 1983, sem hluti af alræmdu kulda og rigningarsumri syðra, mældist sólarminnsti ágúst í Reykjavík með 63 sólskinsstundir. Mánuðurinn er einnig einhver  kaldasti ágúst  sem mælst hefur á suður og suðvesturlandi og í  Vestmannaeyjum reyndar sá allra kaldasti og einnig úrkomusamasti, 270,4 mm. Á landinu öllu var hitinn næstum því heilt stig undir meðallaginu 1961-1990 sem hér er alltaf miðað við af því það er meðaltalið sem okkur er handgengnast, Hitinn var sæmilegur norðaustanlands. Sámsstaðir í Fljótshlíð setti sólarleysismet fyrir ágúst með 80 klukkustundum.  

Sumrin 1975 og 1976 voru einnig fræg óþurrkasumur syðra. Og ágústmánuði þessara ára tel ég vera fimmta og sjöunda úrkomumestu á landinu. Árið 1976 var ágúst sá áttundi sólarminnsti í höfuðborginni með 88 stunda sólskini og aldrei hafa verið jafn margir úrkomudagar þar í ágúst, 27, ásamt öðrum ágúst, 1947.  Mánuðurinn var þó talsvert hlýrri en 1983 og því ekki eins hábölvaður og var reyndar afar hlýr á norðurlandi, miklu hlýrri en 1983, og einnig sólríkur. Hitinn á landsvísu var um hálft stig yfir meðallagi. Á Melrakkasléttu var þetta næst sólríkasti ágúst og einnig næst sólríkasta sumarið í heild. Á Hallormsstað er þetta þriðji sólríkasti ágúst en hann nær ekki inn á topp tíu listann á Akureyri fyrir ágúst en sumarið í heild var þar  reyndar það næst sólríkasta, á eftir sumrinu árið 2000. Mjög úrkomusamt var sunnanlands og vestan og er þetta úrkomusamasti ágúst í Stykkishólmi, 142,8 mm, Eyrarbakka 260,2 mm, í Mýrdal, undir Eyjafjöllum, víða á suðurlandsundirlendi og syðst Vestfjarðarkjálkanum og á Hveravöllum.  Næsti ágúst á undan, 1975 var sá tíundi sólarminnsti í Reykjavík, 93 stundir, en sá allra sólarminnsti á Reykhólum, 93 klukkustundir. Á Akureyri er þetta hins vegar næst sólríkasti ágúst. Óvenjulega votviðrasamt var sunnanlands en þó ekki sem árið eftir en landshitinn rétt aðeins kaldari en 1976.  

Á þessum árum var svo ekki langt í sjöunda sólarminnsta ágúst í höfuðstaðnum, árið 1978,  með 86 sólarstundir en hann er sá áttundi  sólríkasti á Akureyri. Ekki þurfti þó að kvarta um kulda því þetta er níundi hlýjasti ágúst á landinu og hitinn meira en heilt stig yfir meðallagi. 

Níundi sólarminnsti ágúst í Reykjavík var hins vegar  1912 með 92 stundir. Og þá var sannarlega hægt að kvarta um kulda og þurrkatíð því hann er sjötti kaldasti ágúst á landinu og heil tvö stig undir meðallaginu og úrkoman lítið meira en einn fjórði af meðallaginu 1931-2000  sem hér er miðað við í úrkomumálunum. Árið eftir, 1913, mældist fimmti sólarminnsti ágúst en sólarstundirnar voru þá 78. Sumarið í heild var það sólarminnsta sem mælst hefur í Reykjavík ef Vífilsstaðir eru taldir til Reykjavíkur en þessi tvö sumur voru sólskinsmælingarnar þar. Hitinn var í réttu meðallagi og þar með tveimur stigum hlýrri en 1912. Árið 1913 voru mikil votviðri sunnanlands.

Eitthvert alræmdasta rigningarsumar tuttugustu aldar sunnanlands var árið 1955 og mældist þá þriðji sólarminnsti ágúst í Reykjavík, 73 stundir. Verulega hlýtt var fyrir norðan en fremur svalt syðra en á landsvísu var hitinn hálft stig yfir meðallaginu.

Sjötti sólarminnsti ágúst var árið 1945 og voru sólarstundir þá 79. Hlýtt  var og er þetta ellefti hlýjasti ágúst á landinu með hita 1,3 stig yfir meðallagi. Úrkoman á landinu var undir meðallagi. Annar sólarminnsti  ágúst í höfuðstaðnum var 1947. Þetta var mikill rigningarmánuður þar með 101 mm úrkomu og úrkomudagarnir voru 27 og hafa aldrei verið fleiri í ágúst en voru jafn margir 1976. Fyrir norðan var þetta víða hlýjasti ágúst sem mælst hefur og á landinu öllu sá fimmti hlýjasti. Úrkoman var þá um 25 % yfir meðallagi á landinu.   

Síðasti ágúst á topp tíu listanum fyrir sólarlitla ágústmánuði í Reykjavík var árið 1995 en sólskinsstundirnar voru þá 75. Við Hveragerði mældist aldrei minni ágústsól meðan mælt var (1972-2000), 70 klukkustundir. Hitinn var um 0,7 stig yfir meðallagi á landinu, kringum meðallag syðra en langt yfir því nyðra þar sem var líka ágætlega sólríkt. Úrkoman á landinu var svipuð og 1947 en þó minni vestanlands. Á Fagurhólsmýri mældist metúrkoma í ágúst, 337,8 mm.    

Akureyri og Reykjavík eiga enga mánuði sameiginlega á topp tíu listanum fyrir sólarlitla ágústmánuði enda mun ekkert samband vera á milli sólskins á þessum stöðum. 

Minnsta sólskin á Akureyri í ágúst var 1958, 53,3 stundir. Á Hallormsstað mældist heldur aldrei minna sólskin í ágúst, 53 stundir. En Melrakkaslétta trompaði þetta algjörlega með því að slá út sólarminnsta ágústmánuði sem mælst hefur  á nokkurri veðurstöð, svo fáar sem 35,7 klukkustundir. Varla hefur þó verið meira sólskin á Kjörvogi á Ströndum en þar voru gerðar 124 skýjaathuganir í mánuðinum og var talið alskýjað í 122 athugunum en tvisvar var skýjahula talin 7/8! Ekki hefur heldur mælst meiri úrkoma á Kjörvogi í ágúst, 257,7 mm eða nyrst á Tröllaskaga, 200,9 mm, Raufarhöfn 146,8 mm og á Húsavík, 204,6 mm. Þetta var sem sagt mjög votviðrasamur mánuður fyrir norðan og svalur en bjartur og hiti um meðallag syðra en um 0,7 stig undir meðallagi á landinu. Mjög þurrt var þennan mánuð og var úrkoman aðeins um helmingur af meðallagi.      

Áttundi kaldasti ágúst á landinu (1,7 undir meðallagi) og þriðji sólríkasti í höfuðborginni, 1943, er sá næst sólarminnsti á Akureyri, 95 klst.  Á Grímsstöðum á Fjöllum hefur aldrei verið mældur kaldari ágúst. Þennan ágúst tel ég ná inn á topp tíu þurrkalistann og var úkoman aðeins um 18% af meðallaginu. Í Stykkishólmi hefur ekki mælst þurrari ágúst, 0,8 mm.     

Þriðji sólarmnnsti ágúst á Akureyri er 1930 og hann var víðast hvar votviðrasamur en þó einkum fyrir norðan og austan. Ekki hefur mælst meiri úrkoma á Teigarhorni við Berufjörð í ágúst, 279,8 mm. Sólin á Akureyri var 57 stundir. Í Reykjavík  var sólskin nærri meðallagi. Hitinn á landinu var í sléttu meðallagi en úrkoman næstum því 50% meiri en venjulega. Árið 1935 var einnig mikill óþurrkamánuður og bauð upp á sjöunda sólarminnsta ágúst á Akureyri en þá skein sólin þar 67 stundir. Hitinn var í rösku meðallagi og úrkoman líka. 

Áttundi sólarminnsti ágúst á Akureyri var 1951 með 76 stundir. Mánuðurinn var ágætlega hlýr og sólríkur fyrir sunnan en fremur svalur fyrir norðan og mjög úrkomusamur á útnesjum. Ekki hefur mælst meiri úrkoma í ágúst í Grímsey 142,4 mm og Hrauni á Skaga, 107,6 mm.  Hitinn var 0,4 stig yfir meðallagi en úrkoman um þrír fjórðu af meðallaginu. 

Sumarið 1969 var rigningarsumar um allt land og tel ég ágúst vera þann fjórða úrkomusamasta á landinu og hann var einnig fjórði sólarminnsti á Akureyri með 75 stundir og í Reykjavík voru þær raunar litlu fleiri, 93 stundir. Á Hallormsstað voru þær hins vegar 158 og 142 á Melrakkasléttu, hvort tveggja vel yfir meðallagi. Þrátt fyrir votviðrin var svo hlýtt að einungis 15 ágústmánuðir hafa verið hlýrri á landinu og var hitinn heilt stig yfir meðallagi. Á Kirkjubæjarklaustri hefur ekki mælst meiri úrkoma í ágúst, 320,4 mm.  

Annar mjög úrkomusamur ágúst, 1959, var með fimmta sólarminnsta ágúst á Akureyri, 65 stundir. Landshitinn var í kringum meðallag en úrkoman um einn fjórða yfr meðallagi. Á Nautabúi í Skagafirði kom metúrkoma í ágúst, 92,3 mm.   

Ágúst 1962 krækti í  sjötta  sætið  hvað sólarminnstu ágústmánuði á Akureyri varðar með 63 sólarstundir. Hitinn mátti heita í meðallagi á landinu. Úrkoman náði ekki helmingi af meðallaginu og í Æðey hefur ekki mælst minni ágústúrkoma, 6,3 mm.    

Árið 2005 voru sólarstundir á Akureyri 86 og er þetta þar níundi sólarminnsti ágúst. Hitinn á landinu rétt marði það að ná meðallagi og er þetta kaldasti ágúst á landinu síðan 1993 og úrkoman nálgaðist að vera 50% umfram meðallagið.  

Tíundi sólarminnsti ágúst á Akureyri var svo 1941 með 90 klukkustundir af sólskini. Þá var votviðrasamt fyrr norðan og austan, met úrkoma á Hallormsstað 112,7 mm, og ekki hlýtt á þessum slóðum, en sólríkt og fremur hlýtt vestanlands og landshitinn rétt fyrir ofan meðallag en úrkoman var minni en helmingur af  meðallagi og rétt aðeins minni en 1962.  Það bar annars helst  til tíðinda í þessum mánuði að enginn annar en Winston Churchill kom til Reykjavíkur þann 16. í glaða sólskini auðvitað og 17,8 stiga hita. Ekki voru það svo minni tíðindi og í það minnsta skringilegri að þann 2. rigndi 23 síldum við Eyjar í Kjós. Frá þessu skýrir Veðráttan eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég hef oft hugsað um hvað þarna var eiginlega á ferðinni. Kannski tákn og stórmerki sem boðuðu komu Churchill!      

Loks skal þess getið að á Hólum í Hornafirði mældist sólarminnsti ágúst árið 2001 þegar sólin skein í 60 klukkustundir og á Hveravöllum var ágúst 1992 sólarminnstur með 79 stundir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband