Mesti kuldi í febrúar

Frost hefur aðeins mælst 30 stig  í tveimur febrúarmánuðum á Íslandi en hins vegar í 11 janúarmánuðum, 6 marsmánuðum, 5 desembermánuðum og einum aprílmánuði. Meðaltal minnsta hita í febrúarmánuði er 22 stiga frost. 

Mesta  frost á landinu í febrúar mældist í Möðrudal á Fjöllum aðfaranótt þess 4. árið 1980, -30,7 stig (daginn áður voru -30,6 stig). Hæð var yfir Grænlandi og lægð við Lófót. Hæg norðan og  norðaustanátt var á landinu. Víða annars staðar var þá einnig mjög kalt, t.d. -26,3 daginn áður í Reykjahlíð við Mývatn. Sá dagur er kaldasti 3. febrúar á landinu að meðaltali frá og með 1949 og var meðalhitinn -9,33 stig eða um átta og hálft stig undir meðallagi. Næstu nótt mældist svo þessi metkuldi. Hvergi á öðrum stöðvum en Möðrdudal kom þó metfrost nema á Staðarhóli í Aðaldal, -24,7 stig. 

Þetta er þó engan veginn kaldasti febrúardagurinn að meðaltal frá 1949. Sá vafasami heiður fellur í skaut 6. febrúar 1969 þegar hafísárin voru í algleymingi. Hann er að meðaltali ekki aðeins kaldasti febrúardagur frá 1949 heldur er hann næst kaldasti dagur ársins (8. mars 1969 var kaldari). Meðalhitinn var -16 stig, um 15 stig undir meðallaginu frá 1949. Í þessari kuldahrinu mældist mesta febrúarfrost í Reykjavík eftir að Veðurstofan var stofnuð, -17,6 stig en á Hólmi rétt utan við borgina mældust -20,7 stig. Í Búðardal voru -23,9 stig, -22,6 á Þórustöðum í Önundarfirði, -20,3 á Hornbjargsvita, -27,2 á Hveravöllum, -23,0 á Barkarstöðum í Miðfirði, -20,5 á Nautabúi í Skagafirði, -17,3 á Mánárbakka, -20,2 á Skriðuklaustri, -16,9 á Dalatanga, -19,2 á Seyðisfirði, -17,4 á Hólum í Hornafirði, -18,4 á Fagurhólsmýri, -19,1 á Kirkjubæjarklaustri, -15,9 í Vík í Mýrdal, -16,7 á Loftssölum, -16, 3 á Stórhöfða, -19,1 á Sámsstöðum, -20,6 á Hæli í Hreppum, -23,8 á Jaðri, -19,3 á Eyrarbakka, -16,8 á Reykjanesvita og -17,0 stig á Keflavíkurflugvelli. Eru þetta febrúarkuldamet á öllum þessum stöðvum en þær hafa mislanga mælingasögu en alltaf nokkra áratugi og allt upp í heila öld og meira. Tölurnar frá Dalatanga, suðausturlandi, Mýrdal og Vestmannaeyjum er sérlega geggjaðar fyrir þá staði. Það var eitthvað hamfaralegt við þennan dag og allmarga aðra daga á hafísaárunum. Lægð hafði farið austur með landinu og olli hún fyrst víða norðaustan hvassviðri og snjókomu en næsta dag lyngdi, bjart var vestanlands en  snjókoma á norðurlandi. Sá sjöundi 1969 er svo reyndar næst næst kaldasti febrúardagur á landinu að meðaltali frá 1949.   

Árið 1905 mældust slétt 30 stig í Möðrudal, þann 11. Þann dag var frostið 23 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal og 22 á Akureyri. Stöðvar voru fáar. Mikil hæð var yfir landinu í kjölfar norðanáttar. 

Þriðji minnsti lágmarkshiti í febrúar er -29,5 stig þ. 10. í Möðrudal árið 1955. Þá var veður heiðskírt og miklir kuldar höfðu verið vikum saman á landinu. Þá kom og kuldametið í febrúar við Mývatn, -27,4 stig í Reykjahlíð. Á Grímsstöðum hans Nubo (þar var ekki mælt 1955) kom kuldametið hins vegar á hlýindaskeiði 20. aldar, -26,0 stig þ. 26. árið 1941 í gríðarlegu kuldakasti og þá mældust t.d. -18,9 stig á Kirkjubæjarklaustri. Álitlegt kuldakast á hlýindakskeiðinu fyrra kom einnig í febrúar 1950. Þá fór frostið þ. 24. í -24,7 stig á Hvanneyri og -21,3 á Þingvöllum. Mikil kuldaköst á hlýindaárunum komu  líka 1931 með -15,6 stigum í Reykjavík þ. 21. og þ. 24. -23,9 á Grimsstöðum og 1935 með -19,3 stigum þ. 26. á Eyrarbakka. Mesta frost í febrúar á suðurlandi hefur annars  mælst mest -25,0 stig á Þingvöllum þ. 2. 1968. 

Mesta frost í Reykjavík mældist -18,3 stig þ. 15. árið 1886. Á köldu árunum á 19. öld, þegar fáar veðurathugunarstöðvar voru í gangi, komu nokkur stór kuldaköst í febrúar, en þó öllu minni en í janúar og mars, líkt og á síðari árum. Kuldaveturinn mikla 1881 mældist mesta febrúarfrost í Stykkishólmi, - 22,5 stig þ. 3.  og í Grímsey kom metið þ. 11. sama mánuð,-25,0 stig. Ekki var mælt á Akureyri þennan vetur en í næsta febrúar, 1882, mældist þar mesta febrúarfrostið, -24,0 stig. Teigarhorn mældi mest -19,3 stig þ. 14. 1888, nokkuð svipaður kuldi og var í febrúar 1969. Í sömu hrinu mældust -15,2 í Vestmannaeyjakaupstað þann 13.

Hér sést kort frá hádegi 7. febrúar 1969 og frá 850 hPa fletinum. 

1969-02-06_12_1192406.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

rea_1969_0207_1192438.gif

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband