Minnst sólskin í febrúar

Febrúar er ekki skammdegismánuður eftir mínum skilningi en þá miða ég við að sólin sé á lofti minna en einn þriðja af sólarhringnum. Febrúar er aftur á móti að meðaltali sólarminnsti mánuður ársins sem ekki er skammdegismánuður og hann er vitaskuld hávetrarmánuður.

Meðaltal sólskinsstunda í febrúar voru 52 í Reykjavík árin 1961-1990. Sólarminnsti febrúar í Reykjavík er 1913 þegar sólarstundirnar voru aðeins 8. Að vísu voru mælingarnar þá á Vífilsstöðum en við teljum þær hér með Reykjavík. Hitinn var um hálft stig yfir meðallagi hitans 1961-1990 á þeim stöðvum sem er lengst hafa athugað og hitinn er hér miðaður við og úrkoman var vel yfir meðallagi sömu stöðva 1931-2000 sem úrkoman er við miðuð. Mánuðurinn var illviðrasamur mjög.

Febrúar 1921 er næstur með 12 sólskinsstundir. Hann var miklu hlýrri, reyndar 11. hlýjasti febrúar að mínu tali á landi, rúm tvö stig yfir meðallagi, og hann er líklega einn af þeim tíu úrkomumestu. Í Reykjavík er hann reyndar sá allra úrkomusamasti með 242,3 mm.

Í febrúar 1934 mældust 15,2 sólarstundir og er hann í þriðja sæti yfir þá sólarminnstu í Reykjavík. Ekki hefur mælst meiri febrúarúrkoma á Blönduóssvæðinu, 102,4 mm eða í Hreppunum, 329,8 mm. Árið 1992 voru sólarstundirnar 15,4 og er það fjórði sólarminnsti febrúar í borginni. Mánuður þessir voru næstum því jafnir að hita, rúmlega eitt stig yfir meðallagi en úrkoman í þeim fyrrnefnda var aðeins um helmingur af meðallaginu en sá síðarnefndi var í rétt rösku meðallagi.

Fimmti sólarminnsti febrúar í Reykjavík var 1975 þegar sólarstundirnar mældust 15,8. Þetta var hlýr mánuður, svipaður og 1921, en úrkoman var um 30% fram yfir meðallagið.

Undramánuðurinn febrúar 1932, sá allra hlýjasti á landinu, var með 16,4 stunda sólskin í Reykjavík sem gerir hann að sjötta sólarminnsta febrúar þar. Á Akureyri er hann hins vegar sá fimmti sólríkasti með 54,5 sólskinsstundir.

Tveir febrúarmánuðir í röð skipa sjöunda og áttunda sætið fyrir sólarleysi í Reykjavík. Febrúar 1983 er sá 8. með 19 sólarstundir en 1984 sá 7. með 18 stundir. Báðir voru hlýir, 1983 um eitt stig yfir meðallagi en 1984 um hálft sig. Sá mánuður var einstaklega votviðrasamur, einn af þeim tíu úrkomumestu, um 77% fram yfir meðallagið en 1983 var úrkoman vel innan við meðallag. Árið 1983 var óvenjulega snjóþungt vestanlands. Mesta sólarhringsúrkoma á Akureyri í febrúar mældist þ. 7., 36,9 mm. Þessi febrúar var sá sólarminnsti á Reykhólum, 6,7 stundir árin sem mælt var,  1958-1989. Aftur á móti er febrúar 1984 sá sólarminnsti á Sámsstöðum, 18,9 klukkustundir.  

Árið 1922 voru sólarstundir í febrúar í Reykjavík 22,4 sem gerir hann að þeim níunda sólarminnsta. Hitinn var næstum því heilt stig yfir meðallagi en úrkoman um helmingi meiri en í meðallagi. Loks er árið 1938 svo með tíunda sólarminnsta febrúar í Reykjavík, 22 stundir. Hitinn á landinu var um 1,3 stig yfir meðallagi en úrkoman í tæpu meðallagi.

Á Akureyri er sólarminnsti febrúar aftur á móti árið 1957 þegar sólarstundirnar voru aðeins 10,5 en voru 36 að meðaltali ári  1961-1990. Í Reykjavík er þetta tíundi sólarmesti febrúar með 98 stundir.  Hitinn var um hálft stig undir meðallagi á landinu og úrkoman var  um helmingur af meðallaginu. Þetta er sá febrúar sem mest hefur snjólag í Reykjavík en þar var alhvítt allan mánuðinn. Og er það eini mánuður ársins sem þar hefur verið talinn alhvítur. Í febrúar árið 2000 voru einnig 28 alhvítir dagar í Reykjavík  en þá var hlaupár og einn dagur var ekki alhvítur. Snjólag á landinu var hið fjórða  mesta í febrúar, 90%.  Mesti hiti á landinu varð aðeins 6 stig og hefur aðeins einu sinni mælst lægri í febrúar. Í Möðrudal og við Mývatn hlánaði ekki allan mánuðinn.

Næst sólarminnsti febrúar á Akureyri er 1943 en þá skein sólin í 12 stundir. Ekki hefur mælst meiri úrkoma í febrúar í Grímsey, 187,4  mm. Vélskipið Þormóður fórst þ. 18. nærri Garðskaga og fórust með honum 31 maður. Hitinn var tvö stig undir meðallagi á landinu og úrkoman aðeins meiri en í meðallagi. 

Febrúar 1946 er sá þriðji sólarminnsti á Akureyri með 14 sólarstundir. Hitinn var rétt  aðeins undir meðallagi en úrkoman aðeins röskur helmingur af meðallagi. Illviðrasamt var og þ. 9 fórust 18 manns á sjó og tveir í landi af völdum veðurs. Sama dag féll maður ofan í gjá í Aðaldalshrauni og var ekki bjargað fyrr en eftir fimma daga. 

Næstur er febrúar 1963 þegar sólskinsstundir voru 15 á Akureyri. Úrkoman var þá aðeins meiri en 1946 en hitinn var rúmlega hálft stig yfir meðallagi. Veðurlag var talið mjög hagstætt. Fimmti sólarminnsti febrúar á Akureyri er 1984 en þá voru sólarstundirnar þar 16. Í Reykjavík voru þær 18 og þar er þetta sjöundi sólarminnsti febrúar eins og að framan getur. Sjötti að sólarleysi á Akureyri er febrúar 2008 með 16,3 stundir. Hann var mjög úrkomusamur og líklega einn af tíu úrkomusömustu febrúarmánuðum á landinu. Hitinn mátti heita í meðallagi.

Úrkomumesti febrúar á landinu, 1959, er sjöundi sólarminnsti febrúar á Akureyri með 16 sólskinsstundir. Þetta er níundi hlýjasti febrúar á landinu að mínu tali og var hitinn um 2,3 stig yfir meðallagi. Í Stykkishólmi var úrkoma 219,5 mm, sú næst mesta í febrúar. Á Teigarhorni er þetta þriðji úrkomusamasti febrúar. Ég tel þetta næst úrkomusamasta febrúar yfir landið en úrkomusamastur er þá árið 2003. Bæði úrkomumagn og úrkomutíðni var mikil. Sums staðar á  suður og suðvesturlandi var úrkoma alla daga. Minnisstæðastur er þessi mánuður fyrir þá miklu mannskaða á sjó er þá urðu. Togarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst með allri áhöfn, 30 mönnum, á Nýfundnalandsmiðum þ. 8. eða 9. í stórviðri og mikilli ísingu en nokkrir aðrir togarar náðu til hafnar við illan leik. Aðfaranótt þ. 18.,  daginn eftir að Júlí var opinberlega talinn af, fórst vitaskipið Hermóður með allri áhöfn, 12 manns, undan Höfnum á Suðurnesjum í stormi og stórsjó og urðu ýmsar skemmdir á mannvirkjum í því veðri. Í þessum mánuði fórst einnig danska skipið Hans Hedtoft í jómfrúarför sinni  og var það þó talið ósökkvandi eins og Titanic. Enginn komst af.

Febrúar 1992 er sá áttundi  sólarminnsti á  Akureyri með 18 stundir af sólskini. Hann er einn af úrkomusömustu febrúarmánuðum  og fer sennilega inn á topp tíu listann að því leyti og hitinn var um hálft stig undir meðallagi.

Næstur er febrúar 1967 með 19,0 sólarstundir. Hitinn var um hálft annað stig fyrir meðallagi en úrkoman var tæplega í meðaðallagi. Tíundi sólarminnsti febrúar á Akureyri er svo 1937 með 19,1 sólskinsstund. Hann var meira en heilt stig undir meðallagi í hitanum en úrkoman var í tæpu meðallagi.     

Sólarminnsti febrúar á Hólum í Hornafirði er 1982 en þá skein  sólin 19,9 klukkustundir.    

Á Hveravöllum mældist minnst sólskin í febrúar 1993, 5,1 klukkustund og er það minnsta sólskin sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð í febrúarmánuði.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband