Ísland og óspillta náttúran

Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifar í dag grein í Morgunblaðið sem heitir ,,Hjó sú er hlífa skyldi.'' Hann leggur út af þeim orðum fyrrverandi umhverfisráðherra (af öllum mönnum!) að vitað hafi verið að Kárahjúkavirkjun myndi skaða lífríki Lagarfljóts en það væri bara viðunandi vegna efnalegs ábata. Tekur Þröstur þetta hugarfar aldeilis á beinið. Greinin er eins og töluð út úr mínu hjarta og þar er líka ýmislegt merkilegt skrifað almennt um ástandið á íslenskri náttúru. Þar segir m.a.: ,,Erlendir ferðamenn eru lokkaðir hingað með slagorðinu „njótið óspilltrar náttúru“. Hvar er svo þessi „óspillta“ íslensk náttúra? Jú, hún birtist okkur í nær algjöru skógleysi, víðáttumiklum uppblæstri, rótnöguðum úthaga, framræstu votlendi, ofveiddum fiskimiðum og útdauðum geirfugli. Að jöklum, hæstu fjallstindum og nýrunnum hraunum undanskildum, er fátt eitt eftir sem minnir á „óspillta“ náttúru. Þó endurtökum við þennan spuna í sífellu.''

Þröstur hefði mátt bæta við að búið er að eyðileggja flesta aðgengilega gjallgíga með efnistöku.

En margir trúa þessari þjóðsögu um óspilltu náttúruna. Í kosningaumræðum á RUV um umhverfismál nýlega sagði Róbert Marshall að ,,ósnortin náttúra'' væri okkar helsta söluvara. Þetta sagði hann eins og ekkert væri. Virðist trúa því eins og nýju neti. Er hann þó fremur umhverfissinni en virkjanasinni. 

Í Náttúrufræðingnum 1.-4. hefti 2012 er greinin: ,,Landið var fagurt og frítt. -Um verndun jarðminja''. Þá grein ættu menn nú að lesa. Þar er farið yfir þessi mál og komist að svipaðri niðurstöðu um ,,óspilltu'' náttúruna og Þröstur Ólafsson í sinni grein enda hefur þetta lengi legið í augum uppi. Ísland er eitthvert spilltasta land að náttúrufari á byggðu bóli. Ekki er í greininni í Náttúrufræðingum horft fram hjá þeirri miklu röskun sem virkjanir hafa haft á náttúru landsins. Og þar er hvatt til skipulagðra aðgerða til verndunar jarðminja á Íslandi, eins og það er nefnt.   

Umhverfismálin ættu að vera meginmálið fyrir Íslendinga í þessum kosningum og á öllum tímum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í ofanálag er síbyljan sem við höldum að okkur og öllum umheiminum um  "hreina og endurnýjanlega orku" á sama tíma ekki er gerð meiri krafa til endingar gufuaflsvirkjana en 50 ár og láta barnabörn okkar fást við kólnuð og eyðilögð háhitasvæði.

Ómar Ragnarsson, 19.4.2013 kl. 19:28

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nú velti ég fyrir mér hvort hin uppblásna náttúra geti öðlast þegnrétt sem óspillt náttúra ef hún hefur verið uppblásin nógu lengi. Einhverjir gætu sagt að slíkt gæti aldrei gerst ef upplásturinn hafi upphaflega verið vegna búsetu en ég er hinsvegar ekki svo viss og get alveg tekið undir með Marshallnum að hið skóghöggna land og uppblásnu sandarnir gætu kallast ósnortin náttúra enda hafi hún fyrir löngu öðlast þann sess. Öðru máli gegnir hins vegar um land sem er raskað af mannvirkjum, s.s. skurðum, uppistöðulónum o.fl. en einnig framandi og ágengum plöntum sem sáldrað er út um allt til að reyna að endurheimta einhverja græna náttúru sem einhverntíma var hér að finna.

Annars er ég líka á því að gróðurlausar auðnir séu verðmæti sem við eigum að fara varlega með. Hvort sem landið hafi einu sinni verið gróið eða ekki.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.4.2013 kl. 20:13

3 identicon

Tilheyrir maðurinn ekki lífríkinu? 'Mitt næsta trix er að kenna Norðurlandabúum hvernig þeir geti grætt á félagslegu leiguhúsnæði' lét Þröstur Ólafsson eitt sinn hafa eftir sér í dagblaði. Hvernig hugarfar lestu úr þessum ummælum? Markaðsvæðing félagsbústaða skrifast alfarið á þáverandi vinstri stjórn. Hjó sú er hlífa skyldi.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 19.4.2013 kl. 20:28

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Það mætti halda að menn sem hafa aldrei komið út fyrir malbikið geti gefið sannverðuga lýsingu á landsháttum en það er aldeilis ekki svo.

Ég fullyrði og stend við það hvar og hvenær sem er að ósnortin íslensk náttúra og stórkostleg og fögur. Ég geng á Esjuna og upplifi hana þar. Ég geng inn í Marardal eða upp á Keili. Ég ek vestur á Ísafjörð og sé hvernig búseta landsins hefur orðið til í náttúrunni. Hún er ekki minna virði þó bújarðir séu hér og þar eða þéttbýli hafi náð að vaxa. Ég sé ósnortna náttúru uppi í Naustahvilft,.

Mér skiptir litlu þó eitt sinn hafi verið jarðvegur og jafnvel gróskumikill gróður á Skógaheiði, hún er jafnósnortin fyrir mér og þó nokkrar rolluskjátur skjótist þar um.

Grein Þrastar Ólafssonar segir miklu meira um þann síðarnefnda en náttúru landsins.

Þjóðin sem lifað hefur í landinu hefur vissulega gert mistök og samkvæmt þeirri visku sem við nútímamenn höfum yfir að ráða þá hefði átt að gera margt á annan veg hér áður fyrr. Það dregur hins vegar ekki úr gildi náttúru landsins. Hún hefur hjarnað við eftir ofbeit, eldgos, hraunrennsli, göngur og ferðalög.

Það sem hún á hins vegar erfitt með er að jafna út þann skaða sem óafturkræf mannvirki hafa valdið beint og óbeint. Í því er sú vá fólgin sem skilningur okkar á að ná yfir og varast.

Þessi tilvitnuðu orð Þrastar Ólafssonar eru honum til háborinnar skammar enda langt í frá að ásýnd landsins sé eins og hann lýsir. Hann hefur ekki farið víða.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.4.2013 kl. 21:23

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ef Þöstur hefur orðið sér til skammar hefur Halldór Laxness líka orðið sér til háborinnar skammar og allir nátttúfræðingarnir, fyrr og siðar, sem hafa fjallað um þetta á svipuðum nótum en ekki með eins hörðum orðum og Þröstur sem eflaust vill ná einhvejrum áhrifum og er að rísa upp gegn virkjanamaníu. Ég tek undir orð Þrastar í meginatriðum þó hann hefði mátt sleppa þessu með geirfulginn sem er ansi fjarlægt. Það er engin að segja að íslensk náttúra sé ekki falleg en ásýnd landsins er samt mjög spillt frá því sem nátturfarslegar aðstæður bjóða upp á. Það er ekki hægt að neita því neitt. Vel á minnst: Ég hef farið eiginlega í hvern dal og hvern fjörð í landinu og nokkuð um hálendið og er að pæla í landinu alla daga, er hálfpartinn með það á heilanum, furðulegustu nástrandir og krumaskuð þar sem ekkert kvikt þrífst, hef það þó nokkuð mikið á tilfinningunni hvernig landið er í sínum vafasama karakter! Og ég er svo innilega sammála Þresti, þó harður sé, og finnst nú alveg óþarfi að gera lítið ur honum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.4.2013 kl. 00:35

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og ég hef þá víst ekkert smáræði orðið mér til skammar með því vera sammála Þresti! Andskotans verkun er þetta nafni minn!

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.4.2013 kl. 00:39

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ég er algjörlega ósammála þér. Og hafi Halldór hinn eini og sanni Laxnes hallmælt landinu á sama hátt þá er það jafnvitlaust og hjá Þresti þessum. Ég er ekkert að gera lítið úr þessum mönnum. Ég hef bara allt aðra reynslu af landinu og upplifið það allt öðru vísi. Um virkjanamaníu er það svo allt annar handleggur. Þessi málstaður er svo ómögulegur að verja að það mætti búast við því að landið sé í ónýtt vegna 11 alda búsetu manna hér. Það er hins vegar langt í frá að það sé svo. Af hvaða ástæðum heldur fólk þessu fram er mér hulin ráðgáta.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.4.2013 kl. 00:40

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Halldór var ekki að hallmæla landinu heldur umgengni manna við það. Og það er Þröstur líka að gera.

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.4.2013 kl. 00:58

9 identicon

Siðaðir menn semja, hinir slást - sagði maðurinn sem vildi koma skuldum einkabanka yfir á þjóðina. Það er engu líkara en að honum sé meinilla við þjóðina þessum manni.

http://www.visir.is/heilagra-manna-sogur/article/2011110339919

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 20.4.2013 kl. 08:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband