Snjólaust í Fljótum

Í gær  var loks talið snjólaust við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum. Þó alautt sé talið á stöðinni geta samt verið skaflar í skorningum og skvompum í sveitinni.

Á ýmsum þeim stöðvum þar sem snjór var einna mestur og þrálátastur í vetur hefur verið snjólaust í nokkra daga svo sem á Grímsstöðum á Fjöllum, Lerkihlíð í Vaglaskógi og Þverá í Dalsmynni. Hins vegar er enn ekki alautt við Mývatn, Tjörn í Svarfaðardal og á Bassastöðum í Steingrímsfirði. Ekki hafa nýlega komið upplýsingar frá Svartárkoti og ekki frá Ólafsfirði í margar vikur. Þar er líklega allt enn á kafi í snjó! 

Það er reyndar komin 18. júní svo varla er hægt að hrópa sérstakt húrra fyrir því að snjólaust sé orðið.  En miðað við ástandið í lok maí megum við happi hrósa yfir því hvað hlýtt hefur verið það sem af  er júní. Eindæma blíða alveg! Það gæti hafa verið þrálát norðanátt  allan tímann með næturfrostum og lítill leysingu. 

Þegar talað er um það hvort sumarið sé komið við hvað á þá að miða? Norðausturhornið eða suðvesturhornið? Eða hvað eiginlega?

Víðast hvar á landinu hefur verið ágæt tíð í mánuðinum en einkanlega þó fyrir norðan og austan. Og þó sólarlítið hafi verið á suðurlandi hefur alls ekki verið kalt. Það gæti hafa verið suðvestanhryðjur með meðalthita undir átta stigum í stað um tíu stiga. Slíkt veðurlag var nánast regla í júní þegar ég var upp á mitt besta! 

En sólarleysið er samt sem áður að verða næstum því hamfaralegt hér í höfuðborginni svo við borgarbúar megum nú líka taka upp hamfarahjal eins og tíðkast víða annars staðar á landinu.

Verst finnst mér að hafa ekki ljósar nætur þó eigi að heita bjartasti tími ársins.

Skammdegið hefur tekið völdin.

Það eru engar smávegis hamfarir í júní!

En veðurlag er hverfult fyrirbæri. Það getur vel komið sólríkur júlí og ágúst á suðurlandi með linnulausum norðaustanáttum og tilheyrandi hamförum á norðurlandi.   

Við lifum á hamfarakenndum tímum! 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband