Júní kominn af sólarleysisbotninum

Eftir fáeina sólardaga eru sólskinsstundir þessa júnímánaðar komnar upp í 90 í Reykjavík. Mánuðurinn er þá ekki lengur á botninum miðað við það sem liðið er af honum eins og hann var lengi framan af. Ellefu júnímánuðir hafa verið sólarminni að 23 dögum liðnum. Mánuðurinn í heild getur þó enn orðið nálægt botninum. Ef ekki bætast við fleiri sólskinsstundir yrði hann fjórði sólarminnsti júni frá 1911. 

Sólskinsdagar með 10 klukkustunda sól eða meira eru nú orðnir þrír. Þeir urðu ekki fleiri í öllum júní 1940, 1958, 1959, 1960, 1962 og 1999. Að lokum urðu þó sumrin 1958 og 1960 mikil sólskins og gæðasumur í Reykjavík. Árið 1988 voru tíu stunda sólskinsdagar aðeins einn í júní en tveir 1988.

Nokkrir mjög sólríkir júnímánuðir hafa komið undanfarin ár. Í fyrra var júní sá næst sólríkasti og 2008 sá fjórði. Sólarminnsti júní á þessari öld var 2006 með 143 sólarstundir en meðaltal aldarinnar er 209 stundir en þær voru 161 árin 1961-1990 en oftast er miðað við það meðallag. Það er kannski ekki síst í ljósi þessara óvenjulegu staðreynda sem mönnum bregður við þegar sólskin í júní er af skornum skammti. En slíkt gerist. Og það gerist líka að koma heilu sumrin þar sem varla sér til sólar. 

En eigum við ekki að vona að þessari miklu sólarleysisskorpu sé nú lokið. Það sem eftir lifi sumars komi nokkrir sólardagar innan um sólaleysisdagana eins og venjulega en ekki verði bara sólarleysi! 

Það er enn býsna hlýtt. Í Reykjavík er hitinn nokkuð yfir meðallagi hlýju áranna 1931-1960 og langt yfir því á Akureyri. Þetta og margt fleira má sjá í fylgiskjalinu. 

Nú er alls staðar talin alauð jörð á veðurstöðvum nema á Tjörn í Svarfaðardal.

Viðbót 25.6.: Í morgun var í fyrsta skipti á þessu sumri talin alauð jörð á öllum veðurstöðvum.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband