Þurrviðrasamt það sem af er

Nú þegar 20 dagar eru liðnir af október er meðalhitinn í Reykjavík 5,3 stig sem er 0,4 stig yfir meðallaginu 1961-1990 fyrir þá daga. Október er sá mánuður sem minnst hefur hlýnað síðustu árin og er meðalhitinn á þessari öld fyrir allan mánuðinn 4,9 stig eða sama og hlýindaárin 1931-1960, en flestir aðrir mánuðir ársins á þessari öld eru komnir vel upp fyrir það meðaltal.

Á Akureyri er meðalhitinn 3,5 stig sem er aðeins 0,1 stig yfir meðallaginu 1961-1990. 

Ekki er hægt að segja að þessi hiti sé neitt sérstakur, einir 17 mánuðir hafa verið hlýrri í Reykjavík fyrstu 20 dagana frá 1949, sá síðasti 2010. Hlýjast var 1959, 7,7, stig og líklega einnig árið 1946 en 1965 var meðalhitinn 7,2 stig. Kaldast var 1981, 0,6 stig, og sennilega mjög svipað 1926 og 1917.

Sólskinsstundir í höfuðborginni eru orðnar 54 sem 6 stundum minna en meðaltalið 1961-1990 en 13 stundum minna en meðaltal þessarar aldar fyrir fyrstu 20 daga mánaðarins.

Úrkoman er aðeins 11,8 mm í Reykjavík. Hún hefur aðeins verið minni árin 1993 og 1966 síðan Veðurstofan var stofnuð 1920 fyrir þessa daga. En heildar úkomumagn mánaðar getur gjörbreyst á jafnvel einum degi ef svo vill verkast og sólarstundirnar geta líka tekið stakkaskiptum á fáum dögum.  

Á Akureyri er úrkoman 21,8 mm.

Fyrir utan fjögurra daga hlýindi hefur þessi mánuður ekki verið á neinn hátt merkilegur hvað hita og sól varðar en úrkoman er enn mjög lítil víðast hvar. Og afar hægviðrasamt virðist hafa verið og loftþrýstingur mikill, ekki ósvipað og í fyrra, en um þetta hef ég þó ekki nákvæmar upplýsingar. Að þessu leyti er mánuðurinn óvenjulegur enn sem komið er.   

Nú er spáð kuldakasti sem virðist ætla að standa til mánaðarloka, ef marka má spárnar, og er þá næsta víst að hitinn mun fara niður fyrir öll meðallög í Reykjavík.

Og kannski fáum við aftur snjó í borginni að ég tali nú ekki um fyrir norðan. Í gær mátti heita snjólaust á veðurstöðvum en í morgun var flekkótt jörð á Ströndum

Þegar upp verður staðið mun þetta líklega teljast skítamánuður!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Their eru nu ad verda bara allnokkrir skitamanudirnir, her fyrir sunnan, thannig lagad sed, thetta arid.

Halldór Egill Guðnason, 22.10.2013 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband