Dægurmet í kulda í Reykjavík

Ég fæ ekki betur séð en dagurinn í gær, 5. desember, sé að meðaltali um það bil kaldasti 5.desember í Reykjavík síðan mælingar hófust með sæmilegu nútímasniði. Meðalhiti sólarhringsins var -10,6 stig. Til eru áreiðanlegar tölur, eða hátt upp í það með góðum vilja, fyrir daglegan meðalhita til 1935, og enginn dagur þann tíma virðist örugglega slá þennan út í kulda, en þar á undan má ýmislegt ráða um sólarhringsmeðaltal daga af hámarks-og lágmarksmælingum. 

Og þó ótrúlegt sé get ég ekki fundið líklegan jafningja þessa dags í kulda í Reykjavík hvað meðalhita snertir allar götur til 1880 nema árin 1936 og 1885, en ég held þó 5. desember þessi ár  hafi verið heldur mildari en nú.  Þá miða ég við þær skráðu tölur sem fyrir liggja en sleppi þá öllum fyrirvara og vangaveltum um ólíka mælihætti gegnum tíðina. En þetta er samt ekki alveg víst heldur sennilegt að mínu áliti. Og í það minnsta hefur alveg örugglega ekki komið kaldari 5. desember síðan 1949 og mjög líklega frá 1935 en ég vil sem sagt þó meina miklu lengur. 

Þetta kemur manni eiginlega á óvart. Og þetta gildir aðeins um sólarhringsmeðaltalið en ekki mesta frostið sem mælst hefur. Þessi dagur setti ekki met í Reykjavík hvað það varðar. En aðeins einn dagur hefur þó slegið hann út að því leyti, 5. desember 1885, þegar mældust -13,4 kuldabolastig en núna -12,6 eða -12,5 á kvikasilfrinu en -12,9 á sjálfvirka mælinum. Og þetta gildir bara um 5. desember. Kaldari dagar svo um munar hafa komið síðar í desember og í öðrum vetrarmánuðum í ýmsum árum. 

Desember er á Veðurstofunni talinn fyrsti vetrarmánuðurinn. Við skulum nú vona að þessi kaldi dagur sé ekki fyrirboði um harðindi og óárán.

Viðbót:  Í gær, 6. desember, var kaldasti sólarhringur að meðaltali sem mælst hefur þann dag á Akureyri frá a.m.k. 1949 og lágmarkshitinn í dag, 7. er lægsti lágmarkshiti sem þar hefur mælst 7. desember frá sama tíma. Sjá fylgiskjalið. Þetta var sem sé alvöru kuldakast.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vituð ér enn, eða hvat?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 6.12.2013 kl. 14:57

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Njet!

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.12.2013 kl. 15:13

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Fróðlegt - takk fyrir Sigurður.

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.12.2013 kl. 09:45

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Desember í ár er að að verða ansi svalur, svona á heildina litið, ekki satt? Ansi má nú blota og hlá það sem eftir lifir mánaðar, til að ekki falli fleiri met, eða hvað?

Áramótakveðjur og þakkir fyrir sérdelis fróðlegt blogg og elju.

Halldór Egill Guðnason, 17.12.2013 kl. 03:30

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Desember er um eitt og hálft stig undir meðallagi í Reykjavík en tvö og hálft fyrir norðan. Ef mánuðurinn héldi því fráviki yrði hann aðeins mildari í Reykjvík en 2001 en aðeins kaldari á Akureyri en þá. En langt er frá öllum metum enn sem komi er.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.12.2013 kl. 18:47

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

2011 á þetta að vera en ekki 2001.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.12.2013 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband