6.3.2007 | 18:59
Týnda frændfólkið
Á bókamarkaðnum í Perlunni um daginn keypti ég Ljóðasafn Hannesar Sigfússonar og seinna bindið af endurminningum hans, Framhaldslíf förumans, en hið fyrra, Flökkulíf, hafði ég þegar eignast. Ég hafði þó lengi þekkt þessar bækur.
Í febrúar 1989 sat ég við hliðina á Hannesi í samkvæmi rithöfunda en þá hafði ég aldrei séð hann áður. Hann var einstaklega viðkunnanlegur, hlédrægur, eðlilegur, samt ræðinn, vingjarnlegur og yfirlætislaus. Ég kunni svo vel við hann að mér fannst ég alltaf hafa þekkt hann. Og ég hafði á tilfinningunni að honum væri vel til mín. Ég er næmur á slíkt.
Ég sá Hannes aldrei aftur.
Í ágúst 1997 lést móðurbróður minn. Hann var jarðsettur í Vestmannaeyjum og fór ég til Eyja með flugvél til að vera við útförina. Í flugvélinni fletti ég Morgunblaði dagsins og þar var mynd af því þegar kista Hannesar Sigfússonar var borinn af þekktum rithöfundum út úr Dómkirkjunni, þeirra á meðal var Gyrðir Elíasson, kunningi minn og Jón Kalmann Stefánsson náfrændi Hannesar. Hann þekkti ég þá ekkert. Daginn áður hafði ég lesið minningargreinar um Hannes í Morgunblaðinu og var ein þeirra skrifuð af einni allra nánustu vinkonu minni til margra ára.
Ég vissi að móðurafi minn hafði átt mörg systkini. En faðir þeirra dó frá öllum börnunum þegar þau voru ung að árum, rétt eftir aldamótin 1900, og tvístraðist þá fjölskyldan eins og oft gerðist á þessum árum þegar fyrirvinnan féll frá. Móðir hans afa fluttist þá til Vestmanneyja og sonur hennar kom þangað nokkru seinna og settist þar að. Hann kynntist þar henni ömmu, sem var tíu árum eldri en hann, og þau giftust og áttu nokkur börn. Þeirra á meðal var hún mamma og þessi bróðir hennar sem ég fylgdi til grafar þennan síðsumarsdag árið 1997. Afi minn var aðeins 29 ára gamall þegar hann fórst á bát sínum svo mikið uppi í landssteinum við Heimaey að líkast til er þar nú hraun sem áður var saltur sær. Þá var mamma þriggja mánaða. Mér var sagt að afi hafi ort ljóð og verið góður smiður en maður hugsaði ekkert um það frekar. Og ekkert af skáldskap hans hefur varðveist. Öll mín móðurætt hefur það á tilfinningunni að ég líkist honum afa mínum voða mikið. Hér að ofan er mynd af honum.
Mamma vissi svo sem ekkert um systkini föður síns. En við dauða bróður hennar vaknaði hjá mér löngun til að komast að því hver þau hefðu nú eiginlega verið og hverjir væru afkomendur þeirra, náfrændur mínir og frænkur. Nokkrum árum áður hafði Jón Valur Jensson, sá ágæti maður, tekið saman fyrir mig framætt mína nokkra liði svo ég vissi vel hver var langamma mín og afi, foreldrar Sigurðar Jónssonar afa míns. Eftirleikurinn var því auðveldur að finna systkini hans og börn þeirra.
Þegar ég var barn og unglingur lá ég í bókum og tónlist. Á bítlaárunum setti ég ekki upp myndir af Bítlunum heldur íslenskum skáldum og gömlu tónsnillingunum, Bach og Beethoven og þeim gaurum. Svona var ég nú skrýtinn. Á mínu heimili var enginn sérstakur áhugi fyrir bókmenntum eða músik. Mér fannst ég því vera ansi einn á báti og hugsaði oft um það hvaðan í skollanum ég eiginlega hefði skotist inn í þessa ætt. Mikið hefði ég orðið hissa og glaður á þessum skáldlegu umglinsárum ef ég hefði fundið svo sem eitt smáskáld meðal skyldmenna minna. Um stórskáld lét maður sig aldrei dreyma.
Þegar ég byrjaði að leita að systkinum hans afa kom þar fljótlega upp nafnið Kristín Jónsdóttir. Hún bjó í Reykjavík kringum árið 1930 og átti með Sigfúsi manni sínum nokkur börn, hét eitt þeirra Hannes og annað hét Lára Margrét.
Þannig varð það mér ljóst í grúski mínu 19. desember 1997 að Hannes Sigfússon skáld, Gréta systir hans og skáldkona og móðir mín væru systkinabörn. Ég hef aldrei á æfinni orðið jafn forviða. Mamma varð ekki minna undrandi og ég held líka dálítið upp með sér. Þó hún væri ekki sérstök bókmenntamanneskja las hún talsvert og vissi vel að Hannes var frægt skáld. Og nú fór hún að lesa bæði systkinin. Henni féll betur við Grétu.
Ég missti af Hannesi. Mikið hefði ég viljað kynnast honum og spyrja hann um móður hans og jafnvel afa hans og ömmu. Þau bjuggu lengi í Hraunholti í Hnappadal eins og forfeður þeirra margir á undan þeim. Ég held þó að skáldskapargrein ættarinnar megi rekja til Dalasýslu frá því upp úr 1750 og eru af þeim meiði, auk Hannesar og Grétu, líka Snorri Hjartarson og Guðbergur Bergsson. En svo eru líka ættlerarnir! Ég nefni nú engin nöfn!
Til hægri má hér sjá mynd af Hannesi Sigfússyni tíu eða ellefu ára gömlum með móður sinni. Myndin var tekin fyrir framan Nýlendugötu 9 í Reykjavík þar sem þau bjuggu þá en ég ólst upp á Vesturgötunni og blasti þetta hús við úr eldhúsglugganum heima hjá okkur.
Það er enn ein kaldhæðni örlaganna hvað mig varðar að eftir að Hannes fluttist til Íslands eftir langa dvöl i Noregi bjó hann í íbúð á Akranesi þar sem ég hafði verið eins og grár köttur á þeim árum þegar ég bjó á staðnum, um og upp úr 1970. Þá bjó vinur minn í þessari íbúð.
Já, ég missti sem sagt bæði af Hannesi og Grétu. Ég talaði hins vegar við Hrefnu systur þeirra. Hún hafði á orði að ég væri líkur móður þeirra. Það fannst mér vægast sagt undarlegt að heyra.
Krstín, móðir Hannesar og Grétu, dó ekki fyrr en árið 1970. Nokkur önnur systkini hennar lifðu í nokkur ár eftir það. Ég missti af þeim öllum alveg eins og honum afa mínum. En ég man vel eftir ömmu minni enda var ég orðinn tólf ára þegar hún dó. Ef afi hefði lifað jafn lengi óg hún hefði hann ekki dáið fyrr en árið 1969.
Mér finnst það ganga glæpi næst hvað fólk er oft ómeðvitað og skeytingarlaust um nánustu skyldmenni sín. Ég hef svo sannarlega bætt úr því hvað mig varðar. Ég er búinn að rekja afkomendur allra langalangömmu- og langalangafa minna, samtals 8 frændgarða.
Og Hannes Sigfússon er þar mesta sörpræsið.
Meginflokkur: Ég | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 19:46 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Athugasemdir
Sæll frændi og þökk fyrir samtalið í morgunn. Var búinn að gleyma að þú hafðir frætt mig á, að Hannes og Gréta væru frændsystkyni okkar. Skrítið að eiga slíkt frænfólk á skáldasviði í minni föðurætt og að auki stórskáldið Þorstein Erlingsson í móðurætt og vera alveg án skáldskapargáfunar. Allavega finnst mér það, en nóg um það. Heyri í þér á föstudaginn. Þ. Sig.
Þorkell Sigurjónsson (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 23:31
"Skáldskapargáfan" svokallaða er ekki gáfa heldur ónáttúra!
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.3.2007 kl. 23:47
Mikill gæðabloggari ertu Sigurður. Það var unun að fara í þessa ferð með þér. Ég þori ekki að vera þér sammála um að skáldskapargáfan sé ónáttúra. Ég tel hana vera fyrir utan og ofan okkur og í raun tilviljunum háð, hverja hún snertir. Þetta er rödd allrar reynslu sem hvíslar að manni útkomunni úr dæminu eins og hjálpsamur skólafélagi í prófskrekk.
Kostulegt að bera æskumyndina af Hannesi saman við þig, svona hugsuður með grallarasvip.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.3.2007 kl. 00:37
Blessaður Siggi og til hamingju með frændsemina við Hannes Sigfússon og raunar einnig Grétu systur hans. Ég er ekki frá því, að hún sé vanmetin sem rithöfundur. Ég minnist þess að hafa hlustað á útvarpssögu eftir hana fyrir mörgum árum. Sagan fjallaði um konu í Noregi á hernámsárunum og var ágæt.
Persónuleg kynni okkar beggja af Hannesi eru svipuð. Ég hitti hann aðeins tvisvar, fyrst á skrifstofu rithöfundasambandsins, sem þá var á Skólavörðustíg. Þá bjó hann enn í Norgegi. Síðar hitti ég hann í fjörunni vestur á Ægissíðu. Hann var þá fluttur heim og átti skammt eftir ólifað.
Árið 1988 gaf Hannes út ljóðabókina Lágt muldur þrumunnar. Þar er m.a. að finna ljóðið Ungviðið (bls. 28). Þannig hljóðar það:
Ungviðið svignar þokkafullt í vindinum
Fjaðurmagnað
Lauflétt
Greinar og armar spretta upp
jafnharðan og það svignar: Ekkert
íþyngir því til lengdar
Tággrannt
teinrétt og fjaðrandi
varpar það fuglum og skærlitum hnöttum
upp í heiðríkjuna
Það ves og dafnar
safnar eirhringum og laufi
árhringum og perlufestum
verður prúðbúið
fagurlimar
fjölgreint
með burðarlegar greinar
fyrir þunga ávexti húsmuni bíla
vangoldnar íbúðir. Allt
sem íþyngir fólki í hlutveruleikanum
Ungviðið varpar því ekki frá sér
Það varpar engu framar
nema öndinni.
Þannig hljóðar það nú. Þarna notar Hanner orðið „hlutveruleiki". Það varð mér kveikja að eftirfarandi ljóði, sem ég birti í bókinni Innhöf, árið 1991. (bls. 15) Ljóðið kalla ég „Kveðja til skáldbróður.
-Hlutveruleiki-
Hversu hagkvæmt er okkur ekki þetta orð
okkur sem það veitir réttinn
til að með góðri samvisku
segjast lifa í hugveruleika
þótt ef til vill
vörpum við engu frá okkur
öðru en öndinni.
Það er þó alltént mildara atgangs
en að varpa sér yfir næsta mann.
Þannig er það nú og mundu mig um að lifa heill og sæll.
Pjetur Hafstein Lárusson, 8.3.2007 kl. 11:56
Voðalegt ljóðaklám er þetta hjá honum Hannesi. Og mundu eitt Pjetur minn: Skáldskapargáfa ER ónáttúra! Þú ert þrætugjarn en þrættu ekki við mig um það! Þú mátt þræta við mig um allt annað. Og hafa síðasta orðið! Svo finnst mér svo leiðinlegt að blogga orðið og allur bloggheimurin að ég er bara að hugsa um að hengja mig þannig að hausinn fari af. Þá verð ég nú ekki "heill" heldur partaður og búinn að varpa ærlega öndinni og verð alsæll eins og segir í gamla dægurlagatextanum: Syngjandi sæll og glaður til helvítis nú ég held.
Sigurður Þór Guðjónsson, 8.3.2007 kl. 14:34
Og hana nú! (Hænurnar mínar eru farnar að verpa aftur. Hélt kannski að þig langaði að vita það.)
gerður rósa gunnarsdóttir, 8.3.2007 kl. 21:40
Hvort kemur annars á undan eggið eða hænan? Var það kannski haninn sem kom fyrstur? Ég sé á netinu, þar sem allt sést, að á Iraklion á Krít var sól og 16 stiga hiti í dag. Hér er alltaf sami helvtítis kuldinn og rosinn. Enda er ástandið rosalegt og nýtt klámhneyksli ríður húsum, fermingaklám allsvæsið. Bráðum breytist fermingarathöfnin sjálf í argasta klám fyrir altarinu ef þessu heldur áfram. Það geturðu hengt þig upp á.
Sigurður Þór Guðjónsson, 8.3.2007 kl. 22:50
Tóta p. (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 02:10
Skemmtilegt grúsk. Ég hef gaman að því að safna saman ýmsu um mína ættingja, ekki síst sögum sem hvergi eru skráðar. Ég gerði vef fyrir ættarmót 2001 sjá hér http://www.simnet.is/annalar/hvassahraun/
Ég hef sérstaklega gaman af að spá í einn forföður minn Hannes smið á Eiðsstöðum og hvernig hæfileikar hans hafa brotist fram með ýmsu móti hjá afkomendum - einhver ástríða í að skipuleggja og smíða og sjá eitthvað fyrir eftir vinnuplönum.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.3.2007 kl. 13:20
Ég hef komist að niðurstöðu: Hænan kom fyrst. Síðan eggið. Og ekki orð um það meir - málið afgreitt.
Þessar veðurspár og -lýsingar eru allar haugalygi, ég hélt þú vissir það. Hér er skítakuldi og ég fer aldrei úr lopapeysunni. Ekki einusinni þegar ég fer í bað.
Pæliðí öllu þessu dauða fólki! Stórfurðulegt alveg. Og öllu fólkinu á undan því líka! Og bráðum verðum við öll í þessum hópi. Ég skilettekkalveg. Mér finnst við svo lifandi eitthvað en svo erum við bara tilvonandi dauð. Skil ekki alveg pojntið. Fæðumst við bara til að deyja? Og til að geta af okkur fleira fólk, bara til að það geti dáið líka? Sveimérþá. Hvílíkt rugl.
En þú ert nú alveg kominn með klám á heilann held ég. Og það tekur því ekki að hengja sig; maður drepst alveg örugglega hvort eð er. ÞAÐ er allavega eitthvað sem maður getur hengt sig upp á! (hm?)
gerður rósa gunnarsdóttir, 9.3.2007 kl. 22:32
Og svo hefur Sartre rangt fyrir sér. Komst að því í gær. Hélt kannski að þig langaði að vita það.
gerður rósa gunnarsdóttir, 9.3.2007 kl. 22:33
Hvaða rugl var þetta í Sartre? Það er ekki nema von að maður sé með klám á heilanum. Allir Íslendingar eru það núna. Það er m.a.s. litið niður á þá sem eru það EKKI.
Sigurður Þór Guðjónsson, 9.3.2007 kl. 23:57
Sartre sagði að snillingar væru aðeins snillingar vegna snilliverka sinna. En það er náttúrlega algert bull.
gerður rósa gunnarsdóttir, 10.3.2007 kl. 10:12
Eru menn þá aðeins heimskingar vegnar heimskupara sinna? En ekki fremjandi heimskupör vegna þess að þeir eru heimskingar. Gaman væri að menn (og konur, hvernig læt ég, jafnrétti er hér í heiðri haft) íhuguðu þetta spursmál hér á kommentakerfinu. Og ekki heimskulega takk! En var ekki Sartre bara erkifífl? Var hann ekki líka helvítis klámhundur ofan á allt annað?
Sigurður Þór Guðjónsson, 10.3.2007 kl. 10:59
Samkvæmt Sartre skilst mér að menn verði ekki heimskingjar fyrr en þeir fremja heimskupör. En svo veit ég ekki alveg hvað fyrningartíminn er langur eiginlega; hve langt má líða á milli heimskupara til þess að maður megi hætta að kallast heimskingi inn á milli.
Einhverjar hugmyndir?
Annars sýnist mér samt Sartre ekkert heimskari en margur annar merkismaðurinn ...
(PS Varðandi jafnréttið: Ég var alltaf kölluð ´strákar (það er híf)´ á sjónum. Það fannst mér ágætis jafnrétti. Hef ég eitthvað misskilið?
Afturámóti varð ég brjáluð yfir að kennara nokkrum fannst ekkert athugavert við það að hafa uppröðunina í málfræði svona: karlkyn, kvenkyn, hvorugkyn. ÞAÐ finnst mér STÓRhættulegt! Ég fór næstum því að grenja þegar hann fattaði ekki hvað þetta græfi undan jafnrétti kynjanna (þ.e. að láta kk standa á undan kvk).)
gerður rósa gunnarsdóttir, 10.3.2007 kl. 21:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.