Eini 20 stiga septemberdagurinn í Reykjavík

Þennan dag, 3. september, árið 1939 mældist mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í september, 20,1 stig. Og er þetta í eina skiptið sem hiti í höfuðstaðnum hefur mælst 20 stig eða meira í september. Lágmarkshiti næturinnar fór ekki lægra en í 14,4 stig. En sólarstundir voru aðeins tvær.  

Á þessum degi mældist svo hitinn á Hvanneyri 22,7 stig og 22,3 í Síðumúla og er það mesti septemberhiti sem mælst hefur í Borgarfirði fram á þennan dag. Á suðurlandi fór hitinn í 20,9 stig á Þingvöllum og 20,0 á Hæli í Hreppum.

Mesti hiti á landinu mældist hins vegar á Sandi í Aðaldal, 23,0 stig en á Akureyri mældust 21,0 stig. Tuttugu stiga hiti eða meiri mældist á 11 veðurstöðvum af 31 sem voru með hámarksmæla eða um 35% sem er ansi gott á septemberdegi. Vandræðastöðinni Lambavatni á Rauðsandi er hér sleppt en hún skráði 25,0 stig sem ekki er hægt að taka alvarlega.

Lægð var suðvestur af landinu en hæð yfir norðurlöndum sem beindi hlýju lofti til landsins. Fremur hæg austan eða suðaustanátt var, þurrt eða úrkomulítið vestan til og nokkuð bjart yfir norðvestanlands og í innsveitum fyrir norðan en mikil rigning á suðusturlandi og austfjörðum. Næsta morgun mældist úrkoman t.d. 34,3 mm á Teigarhorni við Berufjörð, 31,3 mm á Fagurhólsmýri og 11,6 á Seyðisfirði.  

Þessi hlýi dagur var hluti af mjög hlýrri syrpu sem hafði byrjað 31. ágúst og hélst í svo sem viku.

September 1939 er svo í heild sá hlýjasti sem mælst hefur í Reykjavík og annar af þeim tveimur hlýjustu á landinu. Meðalhitinn í Reykjavík var 11,4 stig eða jafn þeim ágúst sem nú var að líða, 2014.

Varla þarf svo að minna á það að þennan dag lýstu Bretar og Frakkar Þjóðverjum stríð á hendur en þeir höfðu ráðist inn í Pólland 1. september. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband