Loksins alveg snjólaust á veðurstöðvum

Í morgun var loks talin alauð jörð á Bassastöðum í Steingrímsfirði. Það er síðasta veðurathugunarstöðin sem gefur upp alauða jörð á þessu sumri.

Í fyrra varð alautt á öllum snjóaathugunarstöðvum 18. júní. Sá júní var þó afburða hlýr.

Snjór er þó auðvitað enn víða til fjalla. Haft var í útvarpsfréttum eftir fjallaleiðsögumanni að ekki hafi verið meiri snjór en nú á heiðum sunnanlands í áratugi. Og alloft heyrast svipaðar fullyrðingar um snjóalög hér og þar. Ég tek samt varlega mark á slikum fullyrðingum sem ekki er hægt að styðja með öðru en einhverri tilfinningu. Og hvað marga áratugi er átt við? Ég trúi því ekki að nú sé meiri snjór á hálendinu eða í byggð í vetur en var á árunum kringum 1990 fyrir aðeins um tveimur og hálfum áratug, að ekki sé minnst á snjólaögin um og upp úr 1970.

Meðalhitinn það sem af er mánaðar er nú kominn í 8,3 stig í Reykjavík, 0,6 stig undir meðallaginu 1961-1990 en 1,8 stigum undir meðallagi þessarar aldar sömu daga. Frá stofnun Veðurslofunar, 1920, hefur verið kaldara þessa daga í Reykjavík í eftirtöldum árum: 1992 8,2 stig, 1997 8,0, 1994 7,6, 1992 7,7, 1988 8,2, 1983 7,8, 1979 8,0, 1977 8,1, 1973 7,9, 1959 8,2, 1956 7,8, 1952 8,0. Hlýjast hefur verið: 11,3 stig 2010, 11,2 stig 2014 og 2003, 11,0 stig 2002, um 10,9 1941 og 10,6 stig 2008. Okkar öld er þarna eiginlega alveg sér á parti í hlýindunum.     

Á Akureyri er meðalhitinn núna 8,1 stig eða eitt stig undir meðallaginu 1961-1990.

Á landinu er meðalhitinn kringum 7,2 og eða um 1,7 stig undir meðallagi okkar aldar. Strax í júní 2011 var um hálfu stigi kaldara en en nú en sá mánuður var tiltölulega mildastur á suðvesturlandi (8,9 stig í Reykjavík fyrstu 24 dagana).  

Sólarstundir það sem af er í Reykjavík eru um 12 stundum undir meðallagi þessarar aldar. 

Úrkoman í Reykjavík er aðeins rúmir 17 mm eða kringum 100 millimetrum minni en í júní í fyrra! Ef sá úrkomumikli mánuður er ekki tekinn með er úrkoman það sem af er júní í borginni aðeins ríflegur helmingur af úrkomumagni sömu daga árin 2001 til 2013. 

Sem sagt kaldur, þurr og fremur sólarlítill júnímánuður.Ekki sérlega geðslegur!

Hlýna á næstu daga. Það er jafnvel ekki óhugsandi að meðalhtinn í ReykjAvík merji níu stigin þegar mánuðurinn er allur.  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband