Var Schubert hommi?

Fyrir nokkrum árum færði Raymond Solomon rök að því í frægri grein að tónskáldið ástsæla Franz Schubert hafi verið hommi.  Solomon er virtur tónlistarfræðingur en þó mjög umdeildur. Hann hefur skrifað merkilegar bækur um Händel og Mozart og bók hans um Beethoven er af sumum talin besta bókin um hann.

schubert111Solomon telur ýmis atriði í heimildum benda til að Schubert hafi ef til vill verið samkynhneigður. Nefnir hann endurteknar lýsingar náinna vina hans og einnig manna er minna þekktu hann á einhvers konar kynferðislegum ólifnaði, skort á heimildum um ástarsambönd af nokkru tagi, Schubert hafi alla tíð verið  einhleypur, hann hafi eindregið hafnað föðurhlutverkinu, átt tilfinningaþrungin vinasambönd við karlmenn, heimilishald hans hafi verið óvenjulegt, samskipti hinna ungu manna í vinahópi hans hafi verið undarlega tilfinningahlaðin og loks séu víða tvíræðar og torskildar athugasemdir í bréfum, minningum og dagbókum vinahóps Schuberts. Solomon viðurkennir að sum þessara atriða, einkanlega hinar tvíræðu athugasemdir, megi túlka á fleiri en einn veg og sumt í röksemdafærslu sinni standast kannski ekki út af fyrir sig, en þegar öll rök sín séu skoðuð í samhengi kalli þau á heildarskýringu á þeim atriðum er þau vísi til.

Hér fyrir neðan verður gerð nánari grein fyrir kenningu Solomons.

Megin röksemafærsla Solomons beinist reyndar að því að vekja athygli á nautnafýsn Schuberts og kynþorsta með því að tíunda um hann ýmis dæmi. Anton Ottenwalt, vinur Schuberts, skrifaði til annars vinar þeirra Jósefs Spauns 27. nóvember 1825 að Schubert væri haldinn "brennheitri lostasemi". Jóhann Mayrhofer, fyrrum sambýlismaður Schuberts, tók í sama streng í minningargrein um hann og sagði að Schubert hafi verið "sambland af viðkvæmni og hrjúfleika, nautnafíkn og hreinskilni, félagslyndi og þunglyndi". Í bók sinni um Beethoven árið 1857 gat Alexander Oulibicheff þess á einum stað að Schubert hafi verið "á valdi passions mauvaises" (illra ástríðna). Sama ár skrifaði skáldið Eduard Bauernfeld, enn einn náinn vinur Schuberts,  í bréfi til Ferdninands Luibs, sem var að safana drögum að ævisögu Schuberts: "Hann var skáld hið innra en að nokkru leyti nautnaseggur hið ytra". Á öðrum stað gat Bauernfeld um hina "grófu og lostafullu" hlið á skapgerð Schuberts. En það var Jósef Kenner sem kvað fastast að orði í bréfi til Luibs: "En þó hann hafi verið líkamlega vel á sig kominn, varð klofningurinn í sálarlífinu honum að fótakefli, eins og ég vil komast að orði, þar sem annar hlutinn stefndi til himins en hinn svamlaði í sora." Og í bréfi þar sem hann skýrði mál sitt frekar skrifaði Kenner: "Allir sem þekktu Schubert vissu að hann hafði tvær ólíkar skapgerðarhliðar, hve nautnafýsnin dró sál hans af miklu afli niður í sorann."   

Þessi vitnisburður manna sem þekktu Schubert náið bendi til þess að menn hafi ekki áttað sig fyllilega á kynlífi hans. Sumir ævisöguritarar hafa að vísu gert ráð fyrir því að hann hafi lagt lag sitt við vændiskonur með hryggilegum afleiðingum. En fáum mönnum af kynslóð Schuberts í Vín hafi fundist slíkt verulega ámælisvert enda þreifst vændi vel í borginni, kynsjúkdómar voru algengir og sjálfur sýktist Schubert af sárasótt. Franz Schober sagði beinlínis að það hefði stafað af "hóflausu kynferðislífi og afleiðingum þess", sem er býsna afdráttarlaus lýsing. Wilhelm von Chezy tók í svipaðan streng en þó af meiri varkárni: "Nautnafíkn Schuberts leiddi hann á þá villustigu þaðan sem yfirleitt er ekki aftur snúið, að minnsta kosti ekki heill heilsu." Í ljósi ríkjandi umbyrðarlyndis í Vín um kynlíf utan hjónabands sé ástæða til að íhuga þann möguleika að vinir Schuberts hafi ekki aðeins verið að gefa kynferðislegt lauslæti hans í skyn heldur ekki síður að það hafi verið af óvenjulegu tagi.  

Hvað varðar frásagnir tveggja vina Schuberts, Antons Holzapfels og Anselms Hüttenbrenners, þrjátíu árum eftir dauða Schuberts, um ástarhug hans til Theresu Grob á árunum 1814 til 1816, veltur Solomon vöngum yfir því hvort hann hafi verið raunverulegur eða einungis látalæti til að blekkja fjölskylduna. Neikvæð endalok þessara kynna á milli þeirra hafi hins vegar afdráttarlaust verið sögð fyrir í dagbók Schuberts 8. september 1816. Fyrst leiki hann sér þar að áhyggjulausum orðskviðum en bæti svo við: "Hjónabandið er hræðileg tilhugsun nú á dögum fyrir frían og frjálsan mann [það er einhleypan mann, eins og Solomon vill skilja þessi orð]. Hann skiptir  á því [frelsi] fyrir annað hvort depurð eða  grófa lostasemi." Í söngvabókininni sem Schubert gaf Theresu  séu engin lög yngri en frá haustinu 1814 sem komi vel heim og saman við neikvætt vðhorf Schuberts til hjónabands sem lýst er í dagbókinni og við tímann þegar hann dró sig í hlé gagnvart Theresu en það var einmitt haustið 1816. Hann hafi ekki kært sig um hana sem eiginkonu enda hafi aðeins verið um vináttu að ræða á milli þeirra.  Þegar Theresa ræddi við Kreißle, fyrsta ævisöguritara Schuberts, gaf hún á engan hátt í skyn að nokkurt sérstakt samband hafi verið á milli hennar og Schuberts. 

Engar heimildir eru fyrir því, segir Solomon, að Schubert hafi nokkru sinni hugsað um hjónaband eftir þetta. Aðeins ein kona önnur er nefnd sem hann á að sumra sögn að hafa verið ástfanginn af, Karólína greifadóttir frá Zeléz. Erfitt sé þó að leggja trúnað á söguna sem sé óstaðfest af samtíma heimildum en kom fyrst fram löngu eftir lát Schuberts . Og hún komi ekki heim og saman við orð Schuberts í bréfi frá Zeléz 1824  einmitt þegar hann á að hafa verið ástfanginn af Karolínu, þegar  hann kvartar yfir því að vera inni í miðju Ungverjalandi - "án þess að geta talað viti borið orð við nokkra sál." Aðrir vitnisburðir um einhvers konar erótísk samskipti Schuberts við konur séu afskaplega fátíðir og sagðir líkt og í vörn, sennilega vegna þess að sumum samtíðarmönnum hans hafi verið umhugað að hreinsa hann af ásökunum um ósiðlegt líferni. Þannig andmælti Jósef Spaun, elsti og besti vinur Schuberts, harðlega því sem honum fannst vera óeðlilegur áhugi Kreißle á ástalífi Schuberts, einkanlega því að hann hafi verið Karólínu ótrúr eins og Kreißle lét að liggja og jafnvel "á laun haft áhuga á einhverri annarri" eins og Bauernfeld gerir skóna í vísunni: "Schubert var ástanginn af nemanda sínum, einni af þessum ungu greifynjum, en til þess að gleyma henni gaf hann sig á vald annarri, sem var henni gerólík". En Bauernfeld lét lesandanum eftir að geta sér til um hver þessi hin hafi verið. Aðrir fóru vægar í sakirnar um afskiptaleysi Schuberts af konum, ef til vill til þess að flækja málið. Anton Stadler, einn af skólafélögum Schuberts, sagði að hann "hafi alltaf verið mjög dulur í þessum efnum,"en Bauernfeld skrifaði að þó hann "hafi verið mjög jarðbundinn í sumum greinum var Schubert ekki laus við ástarhrifningu." Leopold Sonnleithner, einn af kunningjum Schuberts og máttarstólpi tónlistarlífsins í Vínarborg,  viðurkenndi að hann vissi lítið um samskipti Schuberts við konur en segir þó að "hann hafi ekki verið alveg ósnortinn af þeim", en bætir því við að "þessi eiginleiki hafi ekki verið nærri því eins áberandi í honum og venjulega sé raunin í mönnum með frjótt hugmyndaflug". Ástarjátningu Schuberts á Theresu Grob fyrir Anselm Hüttenbrenner, sem Anselm er einn til frásagnar um þrjátíu árum eftir dauða Schuberts, og skýringar Schuberts á því að hann hafi ekki getað kvænst henni vegna fátæktar segir Solomon að verði að líta á sem undanbrögð og hálfgert grín. Af öllu þessu telur Solomon að lítið sem ekkert sé að byggja á frásögnum vina Schuberts um meinta ást hans á nafngreindum konum.

schwindGreinilegar vísbendingar um samkynhneigðar eða tvíkynhneigðar kenndir komi aftur á móti fram í vinahópi Schuberts, Schobers og myndlistarmannsins Moritz Schwind.  Vitnar Solomon í nokkur bréf  þeirra á milli og segir að í þeim mori af hreinskilnum ástarjátningum sem ekki sé eingöngu hægt að skýra með hinum tilfiningasama og ofhlaðna stíl sem á þessum tíma einkenndi skrif karlmanna sín á milli um vináttu. Schwind skrifaði Schober 12. desember 1823: "Ég elska með hinni dýpstu ást í heiminum, ég lifi í þér. Ég veit að þú gleðst í mér og ef ég fengi ekki lengur að þekkja þig, þá yrði miklu betra að deyja." Og enn fremur: "Elsku Schober! Elskaði að eilífu! Líkt og hljóð berst um loftið svo mun nærvera þín umvefja mig og hlýja mér." Og 6. apríl 1824 skrifar Schwind dæmigert bréf til Schobers: "Ég sé þig fyrir mér í ást hjarta þíns sem engil er tengir okkur saman og ég gleðst yfir því að þú talir til mín, til mín sem hvíli kyrr í örmum þér í fulkominni ást ... . Ég vil dansa nakinn fyrir allra augum en í hinum æðsta skilningi. ... Ó, ef ég gæti enn einu sinni verið með þér, þá myndi ég vita allt og geta allt." Ýmis bréf milli Schuberts og Schobers sýni einnig afar náin kynni, að dómi Solomons. Í öllum þessum lýsingum telur Solomon að komi greinilega fram erótískar kenndir. Myndin er af Schwind.  

Schubert deildi herbergi með Mayrhofer, sem margir telja að hafi verið samkynhenigður, frá því október 1818 og fram í janúar 1821. Þegar Schubert yfirgaf Mayrhofer bjó hann einn í fyrsta sinn. Mayrhofer orti um aðskilnað þeirra ljóðið "Til Franz" sem mjög líklega er ástarjátning til Schuberts, að hyggju Solomons, þó sumir telji að átt sé við Franz von Schober.     

Sagnfræðirannsóknir hafa sýnt, segir Solomon, að menningarkimar samkynhneigðra karla hafi þrifist nær samfellt í helstu borgum Evrópu allt frá endurreisnartímanum. Hommarnir leituðu sálufélaga og sæmilegs öryggis í fjölmenni stórborganna. Og var ekki vanþörf á. Þótt refsingar við kynferðislegum frávikum á dögum Schuberts hafi mildast vegna áhrifa frá upplýsingunni og Napóleonstímunum hafi lagaleg og félagsleg fordæming vofað yfir samkynhneigðum ef upp um þá komst þó ritaðar skýrslur séu yfirleitt fáorðar um þetta. Sagnfræðingum hafi samt tekist að gera grein fyrir sumum þessara menningarkima og hafi þeir oft verið sláandi líkir sín á milli. Þeir tóku á sig blæ eins konar leynireglu með sérstöku málfari og dulnefnum félaganna. Vegna þess hve leynt þessi samfélög fóru hafi dulmál þeirra ekki komist inn í slangorðabækur og sé því erfitt að ráða í það. Það sé þó ómaksins vert að leita að dulmálsbendingum í bréfaskiftum Schuberts og vina hans og endurminningum þeirra.

Solomon telur að "sambiðillinn", sem Schubert nefnir í bréfi til Schobers 8. september 1818, meðan hann dvaldist í Zeléz og talar um einhvers konar kynni við stofustúlku, hafi ekki verið um hylli stofustúlkunnar, eins og almennt hefur verið skilið, heldur félaga greifans. (Schubert var þá kennari á greifasetri í Zeléz sem þá var í Ungverjaland). "Bústjórinn er blátt áfram og ágætur maður. Hann er lagsbróðir greifans, roskinn maður og gamansamur og góður múskikant og heldur mér oft félagsskap. ... stofustúlkan mjög lagleg og er oft í slagtogi með mér ... brytinn er sambiðill minn", skrifar Schubert  

volgscubÍ sama bréfi kemst hann svo að orði um vin sinn Vogl, söngvara sem einna helst stóð fyrir því að kynna lög hans fyrir almenningi, "að gríski fuglinn flögri um í Efra-Austurríki." Þó Schubertfræðimaðurinn Otto Erich Deutsch túlki orðalagið svo að átt sé við klassíska menntun Vogls og hann hafi verið kunnur fyrir túlkun sína á grískum goðsagnahetjum í óperum, komi hin samkynhneigða merking orðalagsins "gríski fuglinn" alveg upp á yfirborðið, segir Solomon. Slík orðanotkun hafi þekkst síðan á átjándu öld. (Samkynhneigðar ástir voru viðurkenndar og afar algengar í Grikklandi á 6. öld fyrir Krist. Oft var um að ræða kvænta menn er nutu einnig kynlífs með konum en heitustu tilfinningarnar geymdu þeir ungum sveinum). Ósjaldan sé í heimildum minnst á dándismennsku Vogls og óvenjulegt kynferðislíf gefið í skyn.

Skopmyndin er af Schubert og Vogl.  

Sundum geta Schubertheimildir um ókunna menn meðal vina Schuberts sem oft eru ónafngreindir en sumir nefndir. Solomon getur um stúdentinn Kahl sem Schubert bað Mayrhofer um að ljá rúmið sitt í bréfi 19. ágúst 1819. Nefnir Solomon fleiri dæmi og telur að þarna sé ýjað að rekkjunautum. Bréf frá Schwind til Schuberts 14. ágúst 1825 gefi hins vegar vísbendingar af öðru tagi. Schwind segir að vinur þeirra, Rieder málari, hafi fengið kennslustöðu, "en fyrir vikið sé hann grunaður um að ætla að ganga í hjónaband." Og Schwind stingur upp á því við Schubert að gera slíkt hið sama og tryggja sér stöðu hirðorganista. "Ef þú sækir af alvöru um stöðu hriðorganista gæti heppnin alveg eins orðið  með þér. Þú þarft ekkert að gera nema lifa venjubundu lífi, en að öðrum kosti, í ljósi algjörrar örbirgðar vina þinna, verður þú að svala líkamlegum og andlegum þörfum þínum- eða réttara sagt fíkn þinni í fasana og púns, í einsemd sem mun ekkert gefa eftir lífi á eyðieyju í stíl Robinson Krúsó." Hagkvæmnishjónabönd homma á þessum tíma til að dylja raunverulega kynhneigð sína hafi verið algeng og skilur Solomon þessa ábendingu Schwindz í því ljósi.

Í beinu framhaldi kvartar Schwind um það að fátt sé til skemmtunar um þessar mundir í Vín: "Um leikhúsið sýnist nú ekki meira um að tala, í það minnsta um óperur, og þar eð enginn hornablástur [Harmonie] er á Wasserburger yfir vetrarmánuðina, verðum við að blístra við okkur sjálfa." Deutsch vissi að engin hornamúsik var á Wasserburgerkaffihúsinu  og getur þess að orðið "Harmonie" og athugasemd Schwind sem á eftir því kemur kunni að hafa tvíræða merkingu, en nefni ekki það sem virðist þó liggja í augum uppi. Orðalagið um hornablástur hafi lengi verið notað um kynlíf. Það sé sem sagt ekkert um slíkan samdrátt lengur að ræða á kaffihúsinu, meinar Solomon.  

Solomon eyðir löngu máli í það að rökstyðja að einkennilegt orðalag í dagbók Schobers lúti að samkynhneigð Schuberts. Í ágúst 1826 skrifaði Bauernfeld í dagbókina:"Schubert er slappur (hann þarfnast "ungra páfugla" eins og Benevenuto Cellini)." [Schubert halbkrank (er bedarf "junger Pfauen" wie Benv. Cellini)]. Segir Solomon að orðalag sem það að vera á "fasanaveiðum" hafi verið alþekkt rósamál um kynlíf. Hér sé vikið að einhverjum frægasta listamanni meðal samkynhneigðra en Cellini hafi formlega verið ákærður og tvisvar dæmdur fyrir "kynvillu" og oftar sakaður um hana. Í minningum sínum víki hann að hrifningu sinni á ungum piltum, fyrst jafnöldrum, en síðar lærisveinum sínum á unglingsaldri, svo sem Paulino en til hans bar Cellini "sterkustu hrifningu ... sem bærst getur í mannlegu brjósti." Cellini bjó yfir orðsnilld og var meistari tvíræðra lýsinga. Það verði menn að hafa í huga þegar lesnar séu lýsingar hans á veiðiferðum. Nefnir Solomon um þetta nokkur dæmi úr ævisögu Cellinis. Þeirra á meðal er frásögn í 24. kafla þar sem Cellini segir "sanna sögu" af "dúfu" sem veitt var eftirför en aldrei veidd af keppinaut Cellinis, gullsmiðnum Giovanni Fransisco della Tacca frá Mílanó. "Veslings fuglinn er svo hræddur og var um sig, að hann þorir varla að sýna á sér höfuðið." Cellini hlóð veiðibyssu sína og veðjaði við menn í verslun hans að hann "gæti hæft þetta litla höfuðkríli er gægðist út úr þessari holu". Og það tókst honum. Líkt og til að eyða öllum vafa um hverrar náttúru þessar dúfur og páfuglar voru segir Cellini frá því er hann færði sextán ára svein, Diego að nafni, í kvenmannsföt og skreytti hann með gimsteinum og kynnti hann síðan sem ástmey sína í samkvæmi með Giulio Romano, Giovanni Francesco og myndhöggvaranum Michelagnoli frá Siena. Þeir urðu allir gagnteknir af fegurð sveinsins. Giulio Romano varð að orði að aðrar konur í veislunni væru aðeins eins og krákur "samanbornar við einhvern fegursta páfugl sem nokkru sinni hafi sést."

250px-CelliniBustÞannig telur Solomon að minningar Cellinis séu lykillinn að merkingu orðsins "páfugl" í dulmáli samkynhneigðra. Orðið standi fyrir fagra sveina í skrautlegum klæðum eða í kvennaklæðum. Og veiðar á páfuglum eða öðrum villifuglum í "órækt" eða "mýrlendi", sé dulyrðing Cellinis fyrir leit hans að ungum mönnum til að sofa hjá. Solomon minnir á það að á einum stað í skrifum Macchiavellis sé tekinn af allur vafi um það að jafnaðarmerki sé á milli "veiða" og leitar samkynhneigðra karla að rekkjunautum og einnig sé jafnaðarmerki á milli "fuglaveiða" og ungra bólfélaga. Það blasir því við, segir Solomon, að hinir ungu menn í hópi Schuberts hafi elskað hverja aðra. Solomon ýjar að því að ef til vill hafi samband Schuberts og Mayrhofers og Schuberts og Vogl verið samband eldri manns og yngri elskhuga upp á "grískan máta". Fíkn Schuberts í unga pilta, er hafi þá síðar komið til, hafi kannski einmitt valdið hinni miklu fordæmingu á honum meðal þeirra sem fannst hann svamla í soranum, jafn sterk hneykslun hefði ekki einu sinni komið upp ef um venjulega samkynhneigð hefði verið að ræða á öld þegar dándismennska og svonefnt staðfast piparsveinslíf var mjög algengt. Það sem valdið hafi þessari miklu hneykslan hafi einmitt verið fíkn Schuberts í unga pilta.

Ekki munu allir fallast á þessi rök, segir Solomon. Margir munu halda áfram að trúa sögunum um Theresu og Karólínu. Aðrir munu telja að hneykslunin hafi beinst að samskiptum Schuberts við vændiskonur.

Solomon telur að Schubert og vinir hans hafi lifað leynilífi sem var þrungið ótta við eftirlit, handtökur og ofsóknir, stimplun og útlegð. Sá ótti hafi ekki verið nein ímyndun því einræðisstjórn Metternichs greindi ekki milli pólitískra glæpa og siðferðisglæpa: trúvillu, pólitísks andófs og "kynferðisvillu". Við getum nú betur skilið, ef gert er ráð fyrir samkynhneigðs Schuberts, segir Solomon, hvers vegna Schubert hélt sig aðeins í sínum hópi, hvers vegna hann kynntist ekki Beethoven og hvers vegna Karl frændi Beethovens skrifaði eitt sinn í samtalsbók frænda síns að Schubert sé í felum. En þetta áhættusama leynilíf meðal samkynheigðra átti einnig sínar bjartari hliðar. Með því öðlaðist Schubert í það minnsta tímabundið frelsi frá fjötrum fjölskyldu og borgaralegra siðvenja, spennutreyju gagnkynhneigðar, kröfunni um að stofna fjölskyldu, gegna föstu starfi og lifa venjubundnu lífi;- í stuttu máli frelsi til að hafna hefðbundnum lífsvenjum með því að sækjast eftir fegurð og nautnum. Með því að lifa á jaðri þjóðfélagsins tókst Schubert að lifa bærilegu lífi sem þó var ekki fullnægjandi er til lengdar lét. Nú sé hægt að skilja ýmis ummæli Schuberts, til dæmis í dagbókinni 1816: "Tökum fólk eins og það er en ekki eins og það ætti að vera", og tilvitnunina í nóvember 1822 í ljóðið Beherzigung eftir Goethe, er vitnar um það að maður megi vera maður sjálfur og ýmislegt fleira týnir Solomon til. Og hann segir við séum nú betur í stakk búin til að skilja sveiflur Schuberts milli gleði og sorgar og dálæti hans á þjáningunni.

Maðurinn Schubert hefur of lengi verið sveipaður þoku og mistri, segir Solomon. Vera má að aldrei verði hægt að skilja skapgerð Schuberts af tónlist hans. En það liggur í augum uppi að nautnalíf var hluti af eðli hans og ef til vill var það hliðstaða við hina sívirku og óviðráðanlegu sköpunargáfu. Hafi óhóf verið sterkasti þátturinn í skapgerð Schuberts var það ekki aðeins óhóf í mat og drykk, sókn eftir nautnum og sællífi, heldur einnig í fegurð og tónlist. Sé þetta rétt, gæti það vel verið skýrasta dæmið um frjálsan vilja Schuberts - ákvörðun hans um að lifa og deyja eftir sínu eigin höfði; óheftur, stoltur og skapandi. Þá sé jafnvel mögulegt að í óhefðbundnu kynlífi hans og andófi gegn hvers kyns þvingun getum við greint hetjulega drætti í skapgerð Schuberts.

Þetta var ófullkomin og stytt endursögn á grein Solomons. - Franz Schubert and the Peacocks of Benevenuto Cellini", 19. century music, 12, 3,1989, bls.193-206.

Kenningar Solomons hafa fengið talsverðan stuðning, einkum í Bandaríkjunum, en líka mætt öflugri mótstöðu eins og vænta má um jafn "viðkvæmt" efni. Rita Steblin hefur verið fremst í flokki andmælenda. Hún sakar Solomon um  að hafa ekki skýrgreint hvernig samkynhneigð ætti að hafa birst á dögum Schuberts, en gera því skóna að ýmislegt sem á okkar dögum er talið geta bent til hennar, svo sem það að kvænast ekki eða deila húsnæði með öðrum, séu merki um hið sama í því umhverfi sem Schubert bjó við. Þá ásakar hún Solomon um það að hagræða heimildum á ýmsa lund til að renna stoðum undir kenningar sínar, en fyrst og fremst um það að mistúlka atburði, orð og aðstæður snemma á nítjándu öld með skilningi og dómum nútímamanna. Hún hefur andmælt rökum Solomons nánast lið fyrir lið en hann skotið fast til baka.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar ég bjó í Vín, heyrði ég alls konar sögur um Schubert; hann hafi aldrei baðað sig, sofið með gleraugun (oftar en ekki blindhaugadrukkinn af ódýru víni), líf hans var eilíft basl og hann var svo hlédrægur að hann fór nánast aldrei út fyrir úthverfið í  Vín sem hann bjó í - Auðvitað fylgdi svo hlédrægninni, að sögn þessara gróusagnaspekinga, að hann hafði sig aldrei í að hitta poppaðasta poppara þessara tíma, sem hann dáði þó einna mest, og bjó í miðbænum: Beethoven .. 

Man þó  ekki eftir vangaveltum á borð við Salómons. En þegar ég bjó á Akureyri, heyrði ég þess konar sögur af Davíð Stefánssyni - Þetta átti að vera ,,altalað" um rómantískasta skáld 20. aldarinnar, og var allt tínt til sem gæti hugsanlega rennt stoðum undir kenninguna: Einvera Davíðs, kassinn með bréfunum hans sem er á Amtsbókasafninu og má ekki opna fyrr en eftir nokkra áratugi ..  Ljóð hans um flárátt eðli kvenna - og jafnvel Krummakvæðið - áttu að sannfæra mann um hommaeðli Davíðs.  Það er til rannsóknaraðferð sem byggir á því að komast að niðurstöðu í byrjun og tína svo allt til sem smellpassar við hana. Þessi aðferð er skotheld en helsti galli hennar er að maður hunsar það sem ekki passar ..

Hc (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 14:34

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það sem Solomon er að segja á ekkert skylt við þess konar gróusögur sem þú ert að tala um. Hvergi er andstaðan við þessar vangaveltur Solomons, sem allar eru tökstuddar vandlega reyndar meiri en einmitt í Vínarborg. Solomon er ekki kjaftagangsforðusnakkur. Það er öðru nær. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.9.2007 kl. 16:59

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Var hann líka gay? Þessu gæti ég trúað, en lestu þetta: 

http://www.nybooks.com/articles/2116

Ég trúi engu fyrr en ég fæ sannanir! Er ekki eitthvað til úr Schúberti í formalíni?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 2.9.2007 kl. 10:24

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Takk fyrir þetta Vilhjálmur. Charles Rosen er þekktur píanóleikari og hefur skrifað mikið um músik. Tóntegundakenning Ritu Stelbin, sem hún segist hafa sett fram í hálfkæringi, er ekki hægt að taka alvarlega þó hún sé alltaf að ota henni fram. Aðeins ein samtímaheimild er til um hrifningu Schuberts á Karólínu greifadóttur eða konum yfirleitt. Hún er ekki alveg afdráttarlaus heldur en hún túlkun Bauernfelds á einhverju sem hann hefur heyrt eða séð og er svona í dagbók hans í febrúar 1828: “Schubert scheint im Ernst in die Comtesse E. Verliebt. Mir gefällt das von ihm. Er gibt ihr Lection”.

 

Hvað sem um hommakenninguna má segja þá hefur hún a.m.k. opnað ýmsar gáttir sem menn þorðu ekki að opna áður í lífi Schuberts. Meginmarkmið Solomons var ekki að sanna hommaskap upp á Schubert heldur að benda á marga vísbendingar um „saurlifnað” hans í heimildum. Enginn þorði að sjá þetta í marga áratugi þó það stæði þarna skýrum stöfum. Það var tabú. En nú sjá það allir eftir að Solomon tók af skarið og kenning hans hefur hleypt af stað líflegum deilum og rannsóknum á ýmsum þáttum í lífi Schuberts sem áður voru lítt kannaðir.  Menn nefndu heldur aldrei áður fyrr að Schubert var með sýfilis. Aldrei á það minnst. Nú er ekki um það deilt.  Hommar voru til áður fyrr. En vegna hættu á ofsóknum er ekki hægt að búast við því að hægt sé að finna samtímaheimildir (þó ekki útilokað, t.d. í dagbókum og bréfum) sem eru skýrar og afdráttarlausar. “Sannanir” liggja ekki á lausu. En þar með er ekki sagt að það sé á nokkurn hátt ósiðlegt að reyna að átta sig á þessu, eins oghommahatar segja en í þeirra augum má bara ekki minnast á eitt né neitt um hommaskap, þá séu menn að níða níður látin stórmenni. Það er sjálfsat mál að gera þetta ef það er gert með sæmilega bitastæðum rökum og heimildum og það verður að segjast með Solomon svona í heildina. Það er mjögt ósanngjarnt að afgreiða hann sem einhvern slúðurbera eða mannorðsmorðingja eða hvað sem mönnum dettur í hug.

 Steblin nefnir þarna í greininni sem Vilhjálmur sendi svargrein sína við grein Solomons – “The Peacock´s tale: Schubert's Sexuality Reconsidered", 19th- Century Music 17, 1993, bls. 5-33 – en Solomon svaraði fullum hálsi - "Some Consequences of Nostalgia", 19th-Century Music, 17, 1, 1993, bls. 34-46. - Þetta 17. hefti af 19. Century Music 1993 var reyndar allt helgað Schubert og þar eru margar mjög fróðlegar og vekjandi greinar um hann frá mörgum hliðum.  Aðrar greinar Ritu Steblins sem taka á hommavandamálinu eru t.d. ?Schubert's "Nina" and the true peacocks", The Musical times, mars-1997, bls. 13-19; ?Schubert's relationship with women: an historical account?, í Schubert Studies,ritstjóri Brian Newboult, Ashgate, 1998, bls. 220-39 og ?In defence of Scholarship and archival research: Why Schubert´s brothers were allowed to marry", Current Musicology, 1998, bls. 7-17.  Hvað varðar leifar af Schubert sem hægt væri að rannsaka get ég upplýst þetta: Hárlokkur af honum er geymdur á Schubertsafninu í Vín. Andreas Schubert, hálfbróðir hans , tók hann úr kistu Schuberts þegar hún var tekin upp árið 1863 og gaf síðar söngfélaginu í Leopoldstadt lokkinn. Tveir aðrir lokkar, sem munu hafa verið teknir úr hári Schuberts á líkbörunum, hafa verið til í einkaeign og eru kannski enn. Árið 1928 var ennfremur vitað að María, dóttir Ferdinands bróður Schuberts, átti einnig lokk úr hári Schuberts.  Þótt ótrúlegt sé varðveitir Schubertbund í Vínarborg eitt af rifbeinum Schuberts. Beinið var í eigu Benedikts Randhartingers sem hnuplaði því þegar líkamsleifar Schuberts voru fluttar úr kirkjugarðinum í Währing í heiðursgrafreitinn í Zentralfriedhof.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.9.2007 kl. 11:52

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þarna hafa komið inn spuringamerki í stað tvípunkts og semikommu í greinaupptalningunni. Og meðan ég er að skrifa þetta er Ríkisútvarpip að spila brot úr Rósamundumúsikinni eftir Sjúbba. Tilviljun?  

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.9.2007 kl. 11:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband