Trúrir þú á svartálfa?

Samkvæmt könnun félagsvísindadeildar Háskóla Íslands eru Íslendingar mun trúaðri á álfa, huldufólk, drauga og síðast en ekki síst blómálfa en aðrar þjóðir.

Gott og vel. Segjum að álfar séu til. En þá er eitt sem ég skil ekki. Úr hvers konar efni eru þeir?  Hvar búa þeir? Hvað borða þeir? Gras? Meðal annarra orða: Hvað verður um úrgangsefnin úr þeim? Eru þau náttúrulegur skítur eða yfirnáttúrulegur skítur?

Hvernig stendur á því að ég sé aldrei áfla þó ég sé með haukfrán augu? 

Jú, það er sagt að bara skyggnt fólk sjái álfa. Yfirleitt eru það mjög weird og hnöttóttar kellíngar en það er samt mark á þeim tekið af því að Íslandi er það hefð að sá sem efast um dulræn fyrirbrigði er sagður algjörlega ferkantaður og það þykir ekki par fínt.

Nú er eitt í þessu með skyggnina ég fæ ekki skilið fremur en svo margt annað enda er mér eigi gefin andlega spektin. Augað er mjög efnislegur hlutur sem nemur ljós frá fyrirbærum sem eru líka mjög efnislegt. Hvaða ljós er það sem skyggnu kellíngarnar sjá eiginlega en aðrir geta ekki séð? Hvernig gerist prósessinn í skynjuninni?  Hvaða líffæri nemur hvers konar ljósbylgjur til að framkalla sjón í auganu? Eða sjá þær kannski ekki með augunum? Með hvaða líffæri sjá þær þá? Heilanum? Það finnst mér ólíklegt því þegar þessar skyggnu kellíngar ljúka upp sínum munni um huldufólk og álfa og drauga kemur klárlega í ljós að þær eru gjörsamlega heilalausar. En það þykir samt ekki bara ókurteisi að efast um að það sem skyggnu kellíngarnar segjast sjá sé nákvæmlega það sem þær segjast sjá og ekki neitt rugl og bull heldur þykir sá sem efast vera svo ferkantaður að enginn þorir annað en að halda kjafti um efann. Nema ég!

Æ, já, ég er víst algjörlega ferkantaður á alla kanta.

Og þó! Nú dettur mér eitt frábært í hug: Getur ekki verið að huldufólk sé einmitt úr þessu hulduefni sem ku vera svo troðfullt af í alheiminum að það slær út allt annað efni að fyrirferð þó enginn sjái það? Huldufólk er náttúrlega úr hulduefni!   

En takið svo endilega þátt í skoðanakönnuninni á þessari bloggsíðu. Ég nenni ekkert að spyrja að  því sem þegar er búið að spyrja um, blómálfa og svoleiðis blúnduverk, ég spyr fullkomlega hnöttóttri spurningu:

Trúir þú á vonda svartálfa?

Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram að svartálfar eru svo svartir  og myrkir að þeir eru öllum fullkomlega ósýnilegir.     

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Sæll og blessaður Sigurður. Voðalega ertu eitthvað pirraður í dag, kannski þú hafir hitt einn eða tvo svartálfa i morgun

Ég er nefnilega ein af þessum "gersamlega, heilalausu, hnöttóttu kellingum" og veistu, það er miklu skemmtilegra en að vera ferkantaður og þver Málið er að það er ekki hægt að útskýra allt nákvæmlega. Geturðu til dæmis útskýrt ástartilfinningu? Eða kvíðahnút í maganum? Þetta nefnilega tilheyrir annari vídd og sést ekki með efnislegu augunum. En sést með hinum innri augum

Ég vona Sigurður að þú sjáir ljósálfa, í stað svartálfanna, þeir gera ekkert nema leiðinlegt þessir svörtu.  En þú veist þú dregur að þér það sem þú hugsar....   Fylgstu með kisunum þínum, ég er viss um að þú getur séð þær sjá blómálfa eða búálfa, þær hafa oft vel nothæf innri augu þessar kisur

Bestu kveðjur og óskir um bjartari dag handa þér

Ragnhildur Jónsdóttir, 24.9.2007 kl. 13:48

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er ekki að segjast sjá svartálfa og er ekki vitund pirraður heldur einmitt fullur af ferðatilhlökkun. Ég er bara að biðja um skýringar á sjónskynjun, að vísu nokkuð galgopalega, enda varla hægt að taka þetta alvarlega sem könnunin segir frá. Þú sérð álfana segðirðu, hvað sérðu og hvernig? Er ekki hægt að svara því' Það er alveg hægt að skýra út ástartilfinninguna og kvíahnútinn og hefur oft verið gert. Svo finnst mér, í góðu sagt, nánast ósvífið að gefa í skyn að ég dragi að mér ill öfl  og lifi dimma daga þó ég hugsi þetta. En eins og ég segi: Íslendingar eru svo skynsamir að það jaðrar við persónuleikabrest eða mannvonsku að draga í efa að skyggnisýnir, sem aðeins einstaka menn sjá,  séu einhver raunveruleiki annanar en sálarlegur.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.9.2007 kl. 15:18

3 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Nei nei nei, ég er alls ekkert að segja að þú sjáir svartálfa eða dragir þá að þér. Ég er bara að segja að ef við hugsum um jákvæðar verur er sennilegra að við sjáum þær frekar en neikvæðar, þó það sé ekki alltaf svo einfalt. 

Svo þetta með að útskýra hvernig maður sér, það er bara svolítið erfitt. Ég get ekki útskýrt hvernig ég sé tré með græn lauf bærast í vindinum, ég bara sé það. En svo eru önnur innri augu, sem sjá innri verur. Mér þykir það mjög leitt en ég get bara ekki útskýrt það nánar, nema með því að fara út í djúpa dulspeki fræðslu. En það má kannski reyna að tala um á einfaldan hátt: það eru mörg tilverusvið í heiminum og líkami okkar hefur líka mörg svið, þannig að við (hnöttóttar og gjörsamlega heilalausar konur... eins og þú orðaðir svo kurteislega...) sjáum út frá misjöfnum sviðum innan okkar líkama, inn á misjöfn svið., þar sem þessar verur búa .... ef þú skilur....

Margir draga tilvist svona innri vera í efa, það hlýtur að þýða að fólk (þessar hnöttóttu, heilalausu... )   séu ímyndunarveikar. Ef það er tilfellið, ja, þá er það bara þannig, mér líður mjög vel með að sjá eins og ég sé

Ég óska þér innilega góðrar ferðar og vona að þú, huhumm..... sjáir margt fallegt í ferðinni.

Ragnhildur Jónsdóttir, 24.9.2007 kl. 15:49

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég hef séð dverginn Rauðgrana, Dísu ljósálf og svartálfakerlingu og son hennar,   á myndum í bókum.      Og ég trúi alveg að þau séu til.

Já og ekki má gleyma Alfinni álfakóng sem Bjössi vinur minn vitnar oft i.

Svava frá Strandbergi , 24.9.2007 kl. 18:25

5 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

merkileg hugtök og orðbragð fólks þegar það talar um fólk sem er öðruvísi en feluur í þeirra hugaramma eða skilning. Orðanotkunin gæti alveg verið kurteisari og framkoman betri þó fólk sé ekki alveg á sömu nótum. Gæti hjálpað til betri samskipta og jafnvel viðræðna sem efla skilning á meðan svona neikvæð orðanotkun setur strax upp veggi og eins og fyrirfram gefna niðurstöðu. "Við skiljum ekki hvort annað og ætlum ekki að gera það"hægt að utskýra fyrir blindum Þó það sé næsta ómögulegt að útskýra fyrir blindum manni hvernig blár litur er á litinn þýðir það samt ekki að blár litur sé ekki til..er það nokkuð? Ef manneskja skynjar verur af annarri tíðni eða úr annarri vídd getur ekki útskýrt fyrir manneksju sem ekki skynjar slikt hvernig hún skynjar það þýðir það ekki heldur að álfar eða aðrar verur séu ekki til..bara að það geta ekki allir skynjað þær. Hvers vegna það er..er svo allt annað mál eða höfuðverkur.

Góða gleðiferð Sigurður minn!!! 

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.9.2007 kl. 21:25

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Hefði notað púkann til að yfirfara athugasemdina hjá mér og leiðrétta stafsetningavillur og ruglingslega færslu....ef ég tryði á púka.... Sorry!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.9.2007 kl. 21:27

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Heyrðu nú Katrín! Afhverju eigum við fremur að taka mark á þeim örfáu sem segjast sjá eitthvað sem aðrir sjá ekki heldur en þeim mörgu sem sjá það ekki? Afhverju er það gefið að þessir fáu hafi höndlað sannleikann en ekki hinir? Hvaða tilverusvið eru þetta? Er þau   efnisleg? Við svona sjálfsögðu spurningum koma aldrei nein svör. Bara talað um aðrar víddir.  Til hvers mundi það leiða fyrir heimsmynd okkar ef við tækjum þessar sýnir alvarlega og segðum: Já, einmitt, það er til einhver önnur vídd full af lifandi verum sem samt er ekki hægt að sjá né rannsaka! Hvers vegna er þeim sem vilja skynsamlegar skýringar alltaf ýtt út í horn þegar "dulræn" efni eru annars vegar. Þar á bak við finnst mér óskaplegur hroki. "Dulrænar" sýnir eiga víst bara  að vera sannleikur sem ekki þarf að deila um og ekki þarf að skýra og þeir sem biðja um skýringar eru illa séðir. Þegar ég talaði um heilalausar konur var ég nú ekki að tala um einstaklinga heldur hvað þessar dulrænu sýnir eru banal og verðskulda ekki annars konar tal fremur en þeir sem fullyrða að jörðin sé flöt. En samt er heimtað að þær séu teknar alvarlegar sem eitthvað annað en fjörugt ímyndunarfl sem auðvitað getur verið merkilegt. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.9.2007 kl. 21:48

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þó er ég ekki að útiloka að eitthvað sé til sem sumir skynja öðrum fremur en ég hef aldrei séð neins konar skýringar á álfadæminu sem hægt er að telja í átt við vitrænu. Lifandi verur þurfa mat. Á hverju lifa álfar til dæmis? Hvernig fjölga þeir sér? Og þar frameftir götunum. En fyrst og fremst? Hvers konar efni er í þeim?

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.9.2007 kl. 22:00

9 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Sigurður þú ÁTT ekki að taka mark á einu eða neinu..og þeir sem skynja öðruvísi en margur GETA ekki sannað það. Hvernig eiga þeir að fara af því?  Þess vegna verður þetta alltaf dilemma. Held að það sé ekkert auðvelt að skynja hluti sem fáir sjá eða skilja..en eru sannanlega hluti af reynsluheimi fólks. Það er alls ekkert verið að ýta einum eða neinum út í horn..kannski bara að fara fram á það að menn gefi pláss fyrir trú eða upplifanir annarra þó þær séu af öðrum meiði en þeirra eigin. Þú spyrð um efni og mat...kannski eru þeir ekki efnislegir og þurfa þá ekkert mat?

Vitrænu? Hvað er vitræna? Efnislegar sannanir? Og hvernig leggurðu að jöfnu að þeir sem sjá álfa og huldufólk séu af sama kaliberi og þeir sem segja að jörðin sé flöt? Annað er skynjun og hitt er staðreynd. Ekki hægt að bera saman. En...mér er alveg sama hverju fólk trúir. Og tel það svo sem ekki mitt hlutverk að sannfæra einn eða neinn um eitthvað sem hann vill eða getur ekki trúað. Það má alveg vera svoleiðis.  Ég hlýt að vera komin með svefngalsa að vera að þrasa þetta...sofðu vel Siggi minn

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.9.2007 kl. 23:06

10 Smámynd: halkatla

skemmtileg færsla! ég og Kassí erum búnar að taka þátt í könnuninni  

halkatla, 25.9.2007 kl. 21:02

11 Smámynd: halkatla

annars þá var ég að útskýra þetta með álfana um daginn; jörðin er hol að innan og þar er veröld huldufólksins, það er svotil alveg einsog við en það er með passa til þess að komast að undirheimunum og getur því horfið mjög auðveldlega, við höldum bara að það sé eitthvað óefniskennt en það er miskilningur. Ath að þetta með hola jörð er ekki mín kenning heldur einhverra tveggja feðga í Ástralíu, mér finnst hún bara útskýra þetta svo vel

halkatla, 25.9.2007 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband