Þetta er ranglæti

Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur skilað skýrslu til nefndar sem hefur eftirlit með því hvernig samningi Sameinuðu þjóðanna gegn grimmilegri meðferð er framfylgt á Íslandi. Í dag skrifar framkvæmdastjóri skrifstofunnar grein í 24 stundir og segir meðal annars.

"Í skýrslunni vöktum við athygli á máli konu á Selfossi sem kærði það að lögregla tók með valdi þvagsýni úr henni með þvaglegg. Við teljum það áhyggjuefni að ríkissaksóknari taldi málið ekki gefa tilefni til opinberrar rannsóknar ... . "Þvagleggsmálið" hefur leitt í ljós að nauðsynlegt er að setja samræmdar reglur um sýnatöku lögreglu en ég er sammála þeim alþingismönnum sem telja að banna eigi alfarið að nota þvaglegg til að þvinga ökumenn sem grunaðir eru um ölvun til að gefa þvagsýni. Mér er til efs að það samræmist siðareglum heilbrigðisstarfsfólks að taka sýni úr skjólstæðingum gegn vilja þeirra til að ná fram gögnum vegna lagabrota. Með þessu er heilbrigðisstarfsfólki gert að ganga erinda ákæruvaldsins... ."

Mannréttindaskrifstofan telur að mannréttindi hafi freklega verið brotin á konunni og verknaðurinn geti jafnvel talist ómannleg og vanvirðandi meðferð. Í umræðum á Alþingi nýylega fordæmdu margir þingmenn þessa sýnatöku, þeirra á meðal einn læknir, og þingmenn væru ekki að semja reglur um sýnatökur ef þessar aðfarir á Selfossi hefðu ekki gengið fram af þeim

Orð Mannréttindaskrifstofunnar um heilbrigðisstarfsfólkið eru mjög í anda þess sem ég skrifaði um þetta mál á sínum tíma hér á síðunni. Ríkissaksóknari vísaði frá kæru konunnar um kynferðisofbeldi en hún átti vitanlega fremur að kæra lækninn fyrir rangt læknisverk, en sýslumaður fullyrti að læknir hafi verið viðstaddur en það merkir í raun að hann var læknisfræðilega ábyrgur fyrir sýnatökunni og þar með fyrir því að vanvirða sjúklinginn og ganga erinda ákæruvaldsins gegn honum í þeirri vanvirðu.

Það er með ólíkindum að nafn læknisins  skuli aldrei hafa verið gefið upp, ekki til að vanvirða hann (þó hann mætti alveg mæta afleiðingum gerða sinna) heldur til að gefa fullyrðingu sýslumannsins fótfestu. Það er satt að segja ekki hafið yfir allan vafa að nokkur læknir hafi verið viðstaddur. Það er hreint ótrúlegt að samfélagið skuli ekki hafa krafist þess að þetta mál væri alveg hreinsað út. 

Og hver trúir svo á réttlætið í landi þar sem sýslumaðurinn þarf ekki standa neinum ábyrgð á mannréttindabroti sínu og hælir sér nánast af framgöngu sinni? Hann sýnir hins vegar brotamönnum í sínu umdæmi líklega enga miskunn.

Þetta er ranglæti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég er alltaf jafn hissa á því hve Íslendingar taka öll brot gegn mannréttindum af léttúð- ég held að það þyrfti að rannsaka þetta- er þetta nýlenduþrælslundin?

María Kristjánsdóttir, 19.10.2007 kl. 19:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband