Boðsmiði fyrir tvo

Eins og sumir af mínum kæru landsmönnum kannski vita var ég tónlistaragnrýnandi DV siðustu tvö árin í lífi þess  herlega blaðs. Eitt af fríðindum starfsins, fyrir utan það að vera elskaður af fáum en hataður af mörgum, var það að fá ókeypis á alla tónleika. En svo fór DV á hausinn og fall þess var mikið en  fall mitt var þó langmest. Síðan hef ég ekki farið á neina tónleika. Ég er sko ekki að borga mig inn á það dýrum dómum sem  ég get svo ósköp vel án verið.

En í dag fékk ég óvæntan glaðning í póstinum. Það var boðsmiði fyrir tvo á alla tónleika Kammermúsikklúbbsins í vetur. Ég þykist vita að á bak við þennan rausnarskap sé Valdimar Pálsson músikkrítiker í Viðsjá og forstöðumaður tónlistarsafnsins í Hafnarfirði og stjórnarmaður í Kammermúsikklúbbnum.  Hann er líka mikill húmoristi og höfðingi.  Hann man jafnvel eftir þeim föllnu og bersyndugu.

Í gær þegar ég var að æfa mig í blogginum af svo miklum fítonskrafti að blár loginn stóð aftur úr   rassgatinu á mér varð krafturinn svo óviðráðanlegur að ég bloggaði tölvuna af hnjánum á mér og langt út á gólf. Heyrðist þá dynkur undarlegur líkt og þegar bankað er í tóma tunnu.

Síðan hefur tölvan verið meira en lítið vönkuð. Það heyrist í henni eins og bilaðri garðsláttuvél og hún gerir ekkert af því sem hún á að gera en allt af því sem hún á ekki að gera. Og dularfullar glennur og furður birtast og hverfa jafnvel á bloggsíðunni en vonandi mér og mínum aö meinalausu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband