2.12.2007 | 12:39
Vandræðagemsinn
Gemsinn er mesta ógnunin við mannleg samskipti nú á dögum.
Hann er alls staðar gjammandi. Á tónleikum, í leikhúsinu, í jarðarförum, á AA-fundum. Það er ekki haldinn svo AA-fundur að svo og svo margir gemsar glymji ekki í miðjum klíðum. Og ekki nóg með það. Flestir standa þá upp og yfirgefa fundinn meðan þeir eru að blaðra í hann.
Sitjir þú með vini þínum á kaffihúsi máttu bóka að samtalið verður rofið og truflað margsinnis af gemsanum. Engin einbeiting né athygli fæst í spjallið. Það verður bara pirringur.
Gamall vinur þinn sem þú hefur ekki séð í nokkur ár kallar á þig úti á götu og það verða fagnaðarfundir. Það er mikið spurt af högum hvors annars og feikna áhugi látinn í ljósi. En viti menn! Hringir ekki óláns gemsinn og þér er samstundis og afsökunarlaust ýtt til hliðar eins og þú sért hver annar skítur á priki.
Annar vinur kemur í heimsókn og býður þér með ofbeldi upp á það að hann svari oft og tíðum í gemsann meðan hann staldrar við. Engu breytir hvert umræðuefnið er, það gæti verið eitthvað hjartnæmt, sorglegt eða viðkvæmt. Þú gætir jafnvel verið að trúa vini þínum fyrir því að nú sé illt í efni því í gær hafi þeir verið að greina krabbamein í endagörninni á þér. En vinur þinn hlustar ekki. Hann valtar algjörlega yfir þig og allt sem þú hefur að segja þegar gemsinn gjallar. Og ég hef ekki enn lifað það að þráðurinn í samtalinu sé tekinn upp þar sem hann var slitinn. Gemsinn tvístrar athyglinni og einbeitingunni og sá sem hringt var í veit ekkert hvað hann sjálfur var að tala um og því um síður viðmælandinn. Það er af sem áður var að vinir komist nærri hverjum öðrum, að hugir þeirra og sálir snertist á viðverustundum og komist þá inn á einhverjar dýpri lendur mannlífsins. Til þess að það gerist þarf næði og alúð.
Þá er það algengt að einhver hringi í annan úr heimasíma sínum og tali lengi með kurt og pí og ekki ógáfulega. En loks glamrar gemsinn og þá breytist hringjarinn þegar í stað í dónalegt fífl og segir: Jæja, ég verð að svara í símann. En hann er í símanum!! Á þennan hátt gefur hann fullkomlega skít í þann sem hann er að tala við, stjakar honum beinlínis í burtu með fyrirlitningu og í gemsaákefðinni gefur hann ekki einu sinni færi á að kveðja. Gemsinn fær hann til að skella bara á.
Ég þekki einn og aðeins einn vin sem kann með gemsann sinn að fara. Hann tekur hann úr sambandi þegar hann situr með mér á kaffihúsi eða kemur í heimsókn. Þetta kalla ég tillitsemi og nærgætni í mannlegum samskiptum. Eðlilega kurteisi.
Allir aðrir vinir mínir eru barbarar í mannlegum samskiptum þegar gemsinn er annars vegar. En þeir eru þó hvorki verri né betri en gengur og gerist með aðra.
Fólk ímyndar sér að það geti ekki án gemsans verið. Ég hef samt enn ekki verið með vinum mínum sem svara kalli gemsans á eins óhagstæðum stað í samtali og hugsast getur að gemsaútkallið hafi verið eitthvað annað og meira en ómerkilegasta blaður.
Og nú mætti segja mér að þeir verði svo reiðir út í mig fyrir sannleikann að þeir tali ekki við mig í fjörtíu daga og fjörtíu nætur. En ég segi: Ágætu vinir! Setjist nú niður og lærið lágmarks samskiptareglur áður en þið farið að setja ykkur á háan hest. Gjörist voldugir herrar yfir gemsunum ykkar í stað þess að vera auðmjúkir þrælar þeirra.
Verðið frjáls og gleðjist yfir frelsi ykkar!
Meginflokkur: Mannlífið | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 18:55 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Athugasemdir
Orð í tíma töluð, Sigurður, vonandi lætur einhver sér þau að kenningu verða.
Greta Björg Úlfsdóttir, 2.12.2007 kl. 12:50
Enginn mun láta sér þetta að kenningu verða!
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.12.2007 kl. 13:06
Góð sunnudagshugvekja Sigurður. Ætti þessi grein ekki að fylgja með öllum gemsum sem Síminn og Voðafónn selja?
Ágúst H Bjarnason, 2.12.2007 kl. 13:24
Fyrst botnhreinsun er lokið hjá þér, gæturðu þá farið í að semja boðorðalista fyrir gemsanotendur t.d. þú skalt ekki girnast gemsa náunga þíns o.s.frv.?
Ásgeir Kristinn Lárusson, 2.12.2007 kl. 13:42
Það sem ég hef að segja um þetta mál er það að ....
...úps smá pása, þarf að svara í símann...
já, hvað vorum við aftur að tala um
--------------
Einhverntíman sá ég athafnir lífsins flokkaðar í fjóra flokka. Fyrsti flokkurinn var það sem var bæði mikilvægt og aðkallandi (important and urgent), þá var einn fyrir athafnir sem voru hvorugt, einn flokkur fyrir það sem var aðkallandi en ekki sérlega mikilvægt (eins og t.d. 95% tilvika þegar síminn hringir), og síðasti flokkurinn voru þær athafnir sem eru mikilvægar, en ekki aðkallandi, þ.e.a.s. tímasetning athafnanna er ekki lykilatriði. Langflestir gera þau mistök að sinna allt of mikið af aðkallandi málum sem eru ekki mikilvæg, á kostnað þeirra mikilvægu sem af einhverjum ástæðum virðast ekki jafn aðkallandi (eins og t.d. spjall við vin í rólegheitum á kaffihúsi).
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 14:39
Af því þjóðin er nú allt í einu orðin svo rík af kristilegu siðgæði - þá er rétt að greina þér frá því að fyrir tveimur árum var ég viðstödd fermingu í Húnavatnssýslu og á því andartaki sem prestur ætlaði að fara að blessa annað fermingarbarnið hringdi gemsinn í buxnavasa hans. Mig minnir að hann hafi ekki beðist fyrirgefningar!En það bjargaði presti að stór hluti kirkjugesta var trúlaus og ríkur af umburðarlyndi gagnvart lúterstrúarmönnum.
María Kristjánsdóttir, 2.12.2007 kl. 15:07
Ég var einu sinni í jarðarför og þegar presturin ætlaði að fara að kasta rekunum yfir kistuna gjammaði gemsinn hans einhvers staðar langt inni í skrúðanum. Þá gall við í presti svo heyrðist um alla kirkju: Andskotans vesen er þetta! Það er hvergi neinn friður!
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.12.2007 kl. 15:32
Já, þessi var góð!
María Kristjánsdóttir, 2.12.2007 kl. 16:41
Umræðuefnið er þarft en nálgunin ekki rétt að mínum dómi. Vandamálið hefur verið til í næstum heila öld og felst í því að síminn er látinn hafa forgang fram yfir þá sem standa manni augliti til auglitis. Þessu þarf að breyta, rétt er það, en það er 80 árum of seint að kenna símanum um þetta.
Þetta er eitt af mörgum dæmum um það hve skammt við Íslendingar erum komnir á ýmsum sviðum hvað snertir almenna kurteisi og tillitssemi.
Vísa að öðru leyti á ítarlegri bloggfærslu mína um málið í dag og þakka fyrir tilefnið. Hef lengi ætlað að taka þetta fyrir.
Ómar Ragnarsson, 2.12.2007 kl. 17:28
svo ad folk vogi ser ad keyra og tala i gemsann thad hefur nu ollid tho nokkrum slysum.
Ásta Björk Solis, 2.12.2007 kl. 17:32
Menn fara nú ekki með gamla símann með sér út um allt, bara gemsann. En auðvitað er það rétt hjá Ómari að vandinn liggur ekki í símanum heldur í skorti landans á kurteisi og tillitssemi.
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.12.2007 kl. 18:11
Ég þoli ekki endalausar símhringingar.
Svava frá Strandbergi , 2.12.2007 kl. 23:28
Einu sinni var ég á AA fundi og við vorum að byrja með mínútu þögn og hugleiðslu. Þá byrjaði tryllingslegur William Tell að spila á hæsta styrk. Ég lét sem ekkert sé, þótt ég dytti algerlega út úr andaktinni. Næsta sem gerist er að símaeigandinn svarar hátt og snjallt: "Halló! Nei ég er á AA fundi. Ég hringi í þig á eftir. Ég er í miðri huleiðslu og má ekki vera að því að tala núna!"
Það þarf ekki að fjölyrða um það að salurinn veltist um af hlátri í langan tíma og viðkomandi símafíkill virtist ekki með nokkru móti skilja húmorinn. Fundurinn varð annars léttur og skemmtilegur fyrir vikið og eftirminnilegur mjög.
Jón Steinar Ragnarsson, 3.12.2007 kl. 01:38
Vinur minn einn var staddur í jarðarför þar sem gemsi byrjaði að hringja hjá líkmanni sem var að bera kistuna fram kirkjuna. Hann náði ekki gemsanum úr vasanum án þess að sleppa kistunni, þannig að síminn hringdi alla leið frá altari og út í bíl !
Auðvitað eiga svona staðir að vera skermaðir gegn þessum ófögnuði. Mér er sagt að það sé tæknilega auðvelt.
Hörður
Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 08:55
Þörf og góð áminning... takk!
Lára Hanna Einarsdóttir, 3.12.2007 kl. 14:48
Enn ein útfararsaga: Ég og frændi minn vorum einu sinni í útför að kveðja gamlan vin. Þá byrjaði gemsi að hringja. Og við heyrðum ekki betur en hringingin bærist úr kistunni.....
Svavar Alfreð Jónsson, 4.12.2007 kl. 10:53
Ætli sá í kistunni hafi ekki verið að tryggja sér vist á Himnum með þessu símtali?
Svava frá Strandbergi , 5.12.2007 kl. 00:42
þarfar hugleiðingar
Fríða Eyland, 7.12.2007 kl. 01:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.