5.3.2008 | 13:02
Skoðanir um blogg
Guðmundur Andri Thorsson skrifar ágætan pistil í Fréttablaðið á mánudaginn um bloggið. Hann bergmálar nokkrar þær skoðanir sem ég hef heyrt frá menntamönnum um það. Menntamenn og listamenn virðast hafa sterka tilhneigingu til að líta niður á bloggið. Í sjónvarpsviðtali fyrir skömmu við Ármann Jakobsson, mikinn bloggara, lét hann þess til dæmis getið að bloggið nyti lítillar virðingar. Hann er sjálfur menntamaður og er eflaust að miða við sinn hóp. Fyrir ekki löngu síðan sagði Þröstur Helgason frá gagnrýnandaþingi að þar hefði verið litið niður á bloggið. En hann kom því til varnar og sagði að svipað neikvætt viðhorf hefði verið til flestra nýjunga, svo sem símans.
Guðmundur Andri segir að bloggurum hætti til að gleyma að bloggið sé fjölmiðill. En samt ekki alveg. Bloggið sé bæði opinber og einkavettvangur.
''Þetta er eins og eintal sálarinnar í hátalara. Það er eins og prívatboð í bás í Laugardalshöllinni. Það er eins og játning í kallkerfi. Við getum líka snúið þessu við og sagt að það sé eins og ræðuhöld yfir kettinum heima í eldhúsi eða viðtal í baðspeglinum.´´
Guðmundur Andri segir líka að bloggarinn sé einn með sjálfum sér og sjái aldrei orð sín í samhengi eins og þegar menn sjá skrif sinn í dagblaði innan um skrif annars fólks. Kringumstæðurnar á bloggsíðu séu einkalegar þó utanaðkomandi fólk geti lesið það. Honum finnist samt stundum að þó utanaðkomandi fók sé velkomið að skoða séu pistlarnir fyrst og fremst skrifaðir fyrir tiltekið samfélag. ´´Það hvarflar ekki að manni að skilja sjálfur eftir athugasemd, þá er eins og maður sé staðinn að verki.''
Loks gerir Guðmundur Andri talsvert með það að á bloggi sé ekki raunveruleg nánd heldur aðeins gervisnerting líkt og Guðbjörg Hildur Kolbeins hefur verið að halda fram. Og þegar þetta er sagt er það nú ekki hrós um bloggið. Það er litið á það sem gerviveröld.
Það er heldur varla hægt að segja að stórkarlalegar lýsingar Guðmundar Andra á blogginu lýsi mikilli virðingu í þess garðs. Játningar í kallkerfi eru auðvitað ósköp hjákátlegar.
Hvað má annars segja um starf rithöfundar? Hann skrifar bók sína aleinn og þegar hún kemur út er hún orðinn að opinberum vettvangi sem menn lesa nánast alltaf í einrúmi. Það er svona eins og rithöfundurinn sé að berhátta sig í einrúmi fyrir allra augum. Blogg les hver og einn yfirleitt í einrúmi þó bloggsíðan sem hann er að lesa sé opinber vettvangur. Alveg eins og bókin. Það sem er ólíkt með bók og bloggi er það að menn geta ekki látið rithöfundinn vita hvernig lesandanum finnst bókin - fyrr en bloggið kom til sögunnar en þar geta menn rakkað niður höfundinn eða hafið hann upp til skýjanna eins og hverjum og einum lystir.
Bók og blogg eru náskyld fyrirbæri: einkavettvangur sem gerður er að almannarými.
Það er rétt að kringum hvern bloggara myndast ákveðið samfélag skyldra sálna alveg eins og í mannlífinu. Við rottum okkur saman eftir því hvernig okkur líkar viðkomandi manneskja eða þá viðkomandi bloggari. En á þessu eru ýmis afbrigði af því að blogg er lifandi miðill. Þegar ég blogga um eitthvað sem gerist í samfélaginu og vekur mikla athygli fæ ég kannski yfir 2000 lesendur á einum degi. Það segir að margir eru að koma inn á síðuna sem ekki eru að öllu jöfnu í mínu bloggsamfélagi. Þegar ég blogga bara um hann Mala lesa mig miklu færri og líklega bara mínir föstu hysterísku aðdáendur en þegar ég blogga um veðrið koma bara þeir sem eitthvað vit er í! Og þeir eru nú ekki margir! Það er því mála sannast að bloggarinn getur að nokkru leyti valið sér samfélag.
Það myndast líka samfélag um rithöfunda. Það kemur bara ekki eins vel í ljós og á blogginu. Ég held að samfélagið um t.d. Gyrði Elíasson sé einsleitt og sérviskulegt og æði fámennt.
Það er einna mest sjarmerandi við bloggið er einmitt að það er sambland af einkaveröld og opinberum vettvangi. Sams konar fyrirbæri hefur aldrei áður verið til og það býður upp á marga möguleika sem óþarfi er að tala niðrandi um. Það gerir til dæmis fólki fært að koma ýmsum upplýsingum á framfæri sem ella væri ómögulegt. Nærtækt er að benda á veðurfarsupplýsingar mínar. Þær eru að vísu ekki mikið lesnar en þær eru þarna samt og menn geta leitað í þær ef þeir vilja og þær eru reyndar ástæðan fyrir því að ég blogga yfirleitt.
Alltof mikið er gert úr því hvað tengslin á blogginu eru yfirboðsleg. Þau eru samt miklu nánari en tengsl greinahöfunda í blöðum og lesenda. Þar eru engin tengsl. En það er eitt af því einkennilegasta og skemmtilegasta við bloggið að þar skapast stundum raunveruleg tengsl sem menn færu ella á mis við. Í fyrra sumar heimsótti ég til að mynda konu á Krít sem ég hafði aldrei séð en bara þekkt gegnum bloggið. Þegar til kom reyndust kynnin á blogginu nákvæmur fyrirboði um það hvernig kynnin urðu í raunveruleikanum. Á blogginu geta skyldar sálir fundið hverjar aðrar í raun og veru. Það eru ekki endilega gervitengsl. Það þykir bara fínt og menntamannslegt að segja svoleiðis.
Kvartað er yfir því að bloggið sé sjálfhverft. Auðvitað! Af því að við erum öll sjálfhverf. Sú sjálfhverfa hefur bara ekki fundið sér jafn kjörinn opinberan vettvang og bloggið. Sjálfhverfan þar er þó ekkert verri en gengur og gerist annars staðar í lífinu.
Bloggið býður upp á marga möguleika. Þar er hægt að skrifa pistla í hefðbundnum blaðagreinastíl um almenn málefni. Jafnvel fræðigreinar er hægt að setja á blogg. En þar er líka hægt að gera að gammi sínu á opnari og persónulegri hátt en á öðrum fjölmiðlum. Ennþá er bloggið frjálsasti og skemmtilegasti fjölmiðillinn og ástæða til að berjast með kjafti og klóm fyrir því að svo verði áfram. Skárra er að einhverjir fari þar offari heldur en að á bloggið verði komið eins þéttum böndum og á aðra fjölmiðla. Þessi þróun er þó að miklu leyti kominn undir bloggurunum sjálfum.
Það er rétt hjá Guðmundi Andra að blogg líkist nokkuð því þegar menn áður fyrr voru að líta við hjá kunningjum sínum. Slíku atferli er vel lýst í bók Péturs Gunnarssonar ÞÞ í fátæktarlandi. En nú eru breyttir tímar. Menn eru að mestu hættir að líta við hjá hverjum öðrum enda er margt annað í boði til skemmtunar. En bloggið er í raun og veru að endurskapa þessi skemmtilegu kunningjaboð með þeirri breytingu þó að engum er í raunini úthýst eins og er í flestum vinaboðum. Guðmundur Andri þarf því ekki halda að hann sé boðflenna þó hann geri athugasemdir hjá mér eða öðrum bloggurum. Þá fyrst færi nú að færast fjör í leikinn!
Það merkilegasta við bloggið er samt það að það hefur gefið mörgu fólki tækifæri til að láta rödd sína heyrast sem ella hefði aldrei heyrst. Það er heilmikið mál að skrifa t.d. blaðagrein og brjótast í að fá hana birta eftir dúk og disk. Það er aðallega viss manntegund sem stendur í slíku. Fólk sem heldur að skoðanir þeirra séu svo afskaplega mikilvægar að halda að samfélagið geti ekki án þeirra verið. Höfundar þessara greina eru oft áberandi og þekktar persónur, þær sömu aftur og aftur, oft í áhrifastöðum eða þrautþjálfaðir pennar, stjórnálamenn af ýmsu tagi, menntamenn og aðrir sem lengi hafa verið að móta skoðanaheiminn eins og heimaríkir hundar. Þeir eru líka algengir í útvarps-og sjóvarpsþáttum
Og hér komum við að því hvers vegna svo virðist sem menntamenn ýmis konar og listamenn líti niður á bloggið. Sönnunin fyrir því að þeir geri það kemur ekki síst fram í því hve fáir þeirra blogga þó einstakir þeirra geri það vitaskuld. Þessir menn hafa haft opinbera vettvanginn fyrir sig í blöðunum, útvarpinu og sjónvarpinu. Nú nenna menn varla að lesa hefðbundna blaðagreinar af því að hin viðurkenndi og hefðbundni blaðagreinastíll er svo fjandi leiðinlegur. En margir ómenntaðir og iðulega nánast óskrifandi bloggarar eru lesnir upp til agna af því að þeir hafa samt ýmislegt að segja. Valdahlutföllum í opinberum skoðanaheimi hefur þannig verið raskað. Þeir sem eru að missa völd sín fyllast eðlilega andúð og fyrirlitningu í garð þeirra sem eru að sölsa völdin undir sig.
Skylt þessu er sú óvild sem andar til Moggabloggsins frá ýmsum þeim sem utan við það standa. Áður en Moggabloggið byrjaði voru all margir að blogga. Það var samt fremur svona menntað lið, oft mjög þjóðfélagslega sinnað og fannst það vera í grasrótinni og allt hvað þetta hefur. Það myndaði mörg og ótrúlega sjálfumglöð skjallabandalög sín á milli. Þetta var furðulega lokaður heimur þó hann væri samt á opinberum vettvangi. Maður hafði líka sterklega á tilfinningunni að hann væri mikið mengaður af vímuefnarugli. Þetta voru bar-rónar mestan part og ölþambarar en samt af fínni sortinni.
Moggabloggið hefur hins vegar opnað allt upp á gátt og gert bloggið sýnilegra en nokkru sinni fyrr. Gömlu bloggararnir í skjallabandalögunum finnst sem þeir hafi verið sviknir. Sú þróun hefur þó orðið ofan á að Moggabloggið hefur æ meira þróast í það að verða alþýðublogg, eða plebbablogg vilja sumir meina. Mörg þekkt andlit af gömlu tegund skoðanaálitsgjafa hafa yfirgefið Moggabloggið og byrjað að blogga annars staðar. Moggabloggið er orðið blogg fyrir alþýðuna, pöpulinn, plebbana eða hvað við viljum kalla það.
Auðvitað eru þetta miklar alhæfingar hjá mér en ég held að ég hafi samt nokkuð til míns máls.
Sjálfum hefur mér boðist að flytja mig á tvö önnur bloggsetur. En ég hika við. Ég er vís með að lenda í vandræðum með veðurbloggið og ritkerfið hjá Mogganum er mjög einfalt og gott þó það mætti batna. En síðast en ekki síst þá sómi ég mér bara skrambi vel með alþýðunni og pöplinum eða bara helvítis plebbunum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Blogg | Breytt 6.12.2008 kl. 17:59 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Athugasemdir
Láttu drýldnina ekki fara í taugarnar á þér. Bloggið er besta og menningarlegasta skemmtun sem þjóðinni hefur staðið til boða síðan kvöldvökur á baðstofuloftum voru aflagðar. Menning lifir ekki á því að taka sig vel út í sparifötum, heldur lifir hún hvar sem maður er manns gaman.
Þráinn Bertelsson (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 13:30
"Þegar ég held að þú getir ekki skrifað betur, tekurðu þig til og toppar sjálfan þig, hvað eftir annað. Geri aðrir betur!" sagði aðdáandi númer eitt með stjörnur í augum.
Þessi pistill er tær snilld, ekkert minna. Fullur af sannleika og innsæi. Hvergi orði ofaukið, hvergi skortir á. Stíllinn passar við innihaldið og út kemur himneskur pistill sem verðskuldar athygli allra.
Takk fyrir.
Lára Hanna Einarsdóttir, 5.3.2008 kl. 13:32
Þessi langloka hjá ;)þér er hin skemmtilegasta lesning ;)
Heiða B. Heiðars, 5.3.2008 kl. 13:32
Hysterískir aðdáendur mínir eru samir við sig!
Sigurður Þór Guðjónsson, 5.3.2008 kl. 13:51
Fastur hysterískur aðdáandi kvittar og þakkar fyrir sig. Frábær skrif og svo mikið satt. Mörgum finnst óþægilegt að alþýðan sjáist of mikið, hún á jú að vera downstairs það vitum við ;)
Marta B Helgadóttir, 5.3.2008 kl. 13:51
Mikið andskoti skrifar þú skemmtilega.
Jenný Anna Baldursdóttir, 5.3.2008 kl. 14:25
Plús á plús ofan plús knús frá einni hysterískri. Lifi pöpullinn!
Greta Björg Úlfsdóttir, 5.3.2008 kl. 14:30
Moggabloggið líður fyrir kapphlaup fólks um það að segja skoðanir sínar á fréttum. Skoðanir sem oftast eru hverri annarri lík. Og bæta engu við.
Ég skil vel að þetta fari í taugarnar á ,,menntamönnum" sem vilja að blogg séu dagbókarskrif djúpvitra spekinga sem enginn les.
Þú mátt þó eiga það Sigurður að geta talist til betri bloggar því að þú ferð þínar eigin leiðir, ert með sjálfstæða og sérviskulega rödd. Og hefur sýnt í sumum færslum í gegnum tíðina að blogg geta líka verið bókmenntaverk.
En ekki bara dægurþras í leiðum húsmæðrum.
Kreppumaður, 5.3.2008 kl. 14:41
Hvers eiga leiðar húsmæður að gjalda, kreppukall? Getur verið að það sé kreppa í þínu eigin sálarlífi sem fær þig til að stimpla húsmæður sem skrifa á Moggablogginu með fordómastimplinum?
Greta Björg Úlfsdóttir, 5.3.2008 kl. 14:56
Þú hefur heilmikið til þíns máls. Og hafi ég gefið það til kynna að ég sé neikvæður í garð bloggara eða jafnvel hreinlega drýldinn eins og Þráni finnst - þá vil ég gjöra iðrun og yfirbót.
Mér þykir í raun og sannleika afar leitt ef hugleiðingar mínar hafa skilið eftir þá hugmynd hjá þér að ég líti niður á bloggara því að þú ert einmitt höfundur sem ég hef litið upp til frá því að ég var unglingur.
Og hvort sem þú skrifar um hinn stórmerka Mala, veðrið, Schubert eða byrstir þig við fáfengilega valdsmenn þá les ég það áfjáður.
Upphaflega var ég að velta fyrir mér þrasköllunum Ómari og Gauki og fór í framhaldi að hugleiða hvernig á því standi að fólki hætti til að setja á bloggsíður sínar lítt grundaðan skæting um annað fólk sem það myndi varla segja beint framan í það eða hafa í frammi á öðrum vettvangi. Þetta hef ég sjálfur fengið að reyna. Í framhaldi af því gleymdi ég mér kannski svolítið í vangaveltum um þann samslátt opinbers vettvang og einkavettvangs sem bloggið er og var með ýmsar hæpnar líkingar til að reyna að átta mig á því.
En svo mundi ég einmitt eftir brosköllunum - og því jákvæða og góða við bloggið. Það er iðulega vettvangur fyrir skynsamlega og þarfa þjóðfélagsumræðu og þar er maður manns gaman eins og Þráinn bendir á, þar er samvera og hlýja.
Íslendingar hafa löngum verið skrifóð þjóð og fyrir lesóðan mann eins og mig sem get gleymt mér tímunum saman yfir alls kyns lesefni er bloggið vissulega mikill hvalreki...
Og tímaþjófur...
Bestu kveðjur
Guðmundur Andri Thorsson (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 15:31
Fleir gerast nú hysterískir en ég ætlaði og vertu ævinlega velkominn í heimsókn!
Sigurður Þór Guðjónsson, 5.3.2008 kl. 15:52
Vel ígrunduð yfirbót hjá Guðmundi Andra. Ég hélt kannski að örlaði á smá abbó hjá vinsælum höfundum og víðlesnum pistla skíbentum.
Mesti kostur bloggsins er auðvitað hve framfærið er auðvelt. Þú kemur þínu á framfæri með einu "enter".
Mesti gallin eru hinir huglitlu nafnleysingjar. Þeir geta auðvitað verið stílistar og jafnvel skemmtilegir en margir ausa samt forinni fullmikið með sína svörtu lokuðu lambhúshettu.
Góður pistill Sigurði Þór. (Hvernig endar þessi hystería?)
Valdimar Guðjónsson (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 15:55
Já þetta er frábær pistill hjá þér
Margrét St Hafsteinsdóttir, 5.3.2008 kl. 16:02
Þetta er frábær pistill hjá þér Sigurður. Ég held að ég verði bara að lesa hann aftur, gott ef ekki að eiga hann útprentaðan. Margt í sambandi við bloggið er mér einmitt mjög hugstætt og líkist þínum pælingum þó ég komi eflaust ekki eins vel orðum að því.
Sæmundur Bjarnason, 5.3.2008 kl. 16:22
kattabloggin eru best!
halkatla, 5.3.2008 kl. 16:57
Takk fyrir þennan pistil.
Yngvi Högnason, 5.3.2008 kl. 20:18
Nú líkar mér, Siggi, skrifin þín! Þetta er almennilegur pistill!. Las hann x 2 til að stimpla hann inn. Líklega er þetta besta bloggfærsla sem ég hef lesið á þessu ári og líklega besta blogg um blogg sem ég hef séð.
Maður getur þó alltaf tekið smá Haldól við hysteríunni (þorði ekki að skrifa Truntusól). Meira! Meira!
Júlíus Valsson, 5.3.2008 kl. 20:42
Innlitskvitt og FRÁBÆR LESNING. Hefurðu nokkuð verki með þessum gáfum? Þú ert algerlega sér á parti Sigurður minn og kærar þakkir. Með beztu kveðju.
bumba (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 00:06
Gat ekki stillt mig um að kíkja inn til þín þó áliðið væri. Sé ekki að ég geti nokkru bætt við allt þetta hrós. Og gaman að - Guðmundur Andri hafi brotið blað -og skrifað sína fyrstu athugasemd. Bið að heilsa Mala.
María Kristjánsdóttir, 6.3.2008 kl. 01:31
Mér fannst við lesturinn að ég væri eins og lítið barn sem horfir hrifið á eitthvað og segir öðru hverju upp úr eins manns hljóði; já! Ég er ekki viss hvort ég sagði það upphátt. Hló samt upphátt þegar þú sorterar veðurbloggslesarana frá. Áttu annars veðurbókina hans Friðjóns frá Sandi?
Ella (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 08:08
Það er heilmikill sannleikur í því sem þú segir þarna. Ég get tekið undir margt af því sem þar er sagt. Ég til dæmis skrifaði mikið í blöð, einmitt af því að réttlæti mínu var misboðið, og mér fanns að rödd mín ætti að heyrast, Ég hef reyndar fengið mína skólun á Málefnunum.com, sem er heldur óvægnari en hér, samt skrifa þar allar stéttir, allt frá því að vera ómenntaðir einstaklingar að skúra gólf einhversstaðar og í að vera professorar við Háskólan, þar grínast þetta fólk og nær saman, en um leið gefur það hvert öðru innsýn í heim hins, þetta hef ég fengið staðfest.
Það sama gildir hér, við erum ólík og höfum ólikan bakgrunn, og með því að lesa og skilja hvort annað, þá breikkar sjóndeildarhringurinn, án þess að við tökum eftir því jafnvel.
Það að líta niður á þessa alþýðuíþrótt, er kjánalegt, og sýnir bara þann hroka sem fylgir vanþroska sálarinnar, þó andinn sé stútfullur af innfluttum fróðleik, þá mættur þeir hinir sömu hugsa um tilfinningagreind, og að enginn er eyland.
Ég er líka sammála þér í því að valdahlutföll séu að breytast vegna auðveldara aðgengis okkar allra að fjölmiðlum gegnum bloggið.
Mér hefur til dæmis verið neitað birting greinar í Mogganum, vegna þess að ég viðhafði orð um tvo þekkta menn. Það var Styrmir sjálfur sem hringdi í mig og sagðist ekki birta greinina nema ég tæki ummælin um þessa tvo menn út. Þó ég segið honum að ég væri undir nafni og stæði við orð mín, þá dugði það ekki. Greinin var ekki birt fyrr en ég samþykkti að taka þau orð út.
Hér er maður einn með sjálfum sér, en samt meðvituð um að það sem ég skrifa birtist fyrir sjónir þeirra sem leggja það á sig að lesa. Ég er afskaplega ánægð með bloggheiminn og allt það góða fólk sem þar skrifar. Auðvitað gleður það mann alltaf mest að lesa skoðanabræður, en það er líka þroskandi að lesa eftir fólk sem er á öndverðum meiði. Því sannleikurinn er ekki algildur, heldur liggur hann einhversstaðar eins og gullin þráður í meðalveginum.
Ég vil þakka þér góða grein, og nú er þetta orðið allof langt. Bestu kveðjur.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.3.2008 kl. 09:33
Stórgott og gaman að lesa þennan pistil. Ég hef sjálf verið að hugsa hvað ég sé nú lummó að standa í svona bloggþjarki, skrifa bara eintóma vitleysu ..en....nú held ég bara áfram og hef engar áhyggjur þó maður hafi ekkert merkilegt að segja nema vangaveltur um daglegt líf og eigin hugaróra!
Kveðjur og heilsanir!
Rúna Guðfinnsdóttir, 6.3.2008 kl. 09:54
Get ekki staðist þetta lengur og lýsi því yfir hér opinberlega sem mér hefur lengi fundist: Snillingur!
Er þá líklega búin að ná mér í snert af hysteríu.
kveðja
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 10:51
Þessi umræða í athugasemdakerfinu, í kjölfar góðs pistils úr góðum penna, dregur einmitt fram einkenni og sjarma bloggsins. Takk öll (líka hysterísku húsmæðurnar af báðum kynjum, ómissandi)!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.3.2008 kl. 11:23
Ég vill byrja á því að segja:
Fyrir mig er bloggið frábær æfing í íslenskunni. Ég skrifa ekki 100% rétt en ég veit að villurnar voru mikið fleiri fyrir ári síðan.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 6.3.2008 kl. 12:00
Ég þekki marga afar góða menntaða menn sem blogga út & suður yfir og undir og allt um kring
Þessir menn sem kalla sig menntamenn og horfa niður á aðra eru ekkert annað en vesælir páfagaukar(Sorry páfagaukar að líkja ykkur við sjálfskipuð undraséni).
Keep on trucking, dont mind the loosers
DoctorE (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 14:04
flott samantekt :)
Kjartan Pétur Sigurðsson, 6.3.2008 kl. 15:38
Heyr, heyr! Kærar þakkir Sigurður fyrir þennan pistil. Ég man nú eftir mörgu skemmtilegu kaffihúsaspjallinu við þig hérna í gamla daga og svo náttúrulega bókinni þinni, Truntusól. Sú bók hafði mikil áhrif á mig svo vægt sé til orða tekið, frábær bók, eiginlega skyldulesning! Þessi snilldargreining þín á blogginu kemur því ekkert á óvart, ætti eiginlega líka að vera skyldulesning t.d. fyrir fólk sem haldið er fordómum um blogg. Og mikið svakalega hafði ég líka gaman af þessari lesningu.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 16:02
Kærar þakkir fyrir mjög góðan pistil Sigurður.
Ágúst H Bjarnason, 6.3.2008 kl. 20:08
Mér féllust hendur þegar ég sá lengd pistilsins. Ég var næstum hættur við að hella mér út í svona mikinn lestur. En sem betur fer hóf ég lesturinn - og gatt ekki hætt.
Jens Guð, 6.3.2008 kl. 20:55
Ekki vissi ég að hysterískir aðdáendur mínir væru SVONA hysterískir!
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.3.2008 kl. 23:59
Erum við svona hysterísk... eða ert þú svona góður? Nema hvort tveggja sé!
Lára Hanna Einarsdóttir, 7.3.2008 kl. 00:03
Mér er meinilla við að segja það, hafandi illar bifur á Moggablogginu (með fáeinum heiðarlegum undantekningum) en þetta er fjandi fínn pistill.
bestu kveðjur,
ölþambari af fínni sortinni
Ásgeir H (IP-tala skráð) 7.3.2008 kl. 01:05
Heyr, heyr.
Ég nýti mér orð Hallgerðar P og játa það að hafa verið á barmi 'andlegrar fullnægingar' við lestur pistilsins.
Kveðjur frá meðalmanni með yfirþyrmandi tjáningarþörf,
Haukurinn
Haukurinn, 7.3.2008 kl. 08:44
Takk fyrir þetta Sigurður Þór, þú ert nú alveg frábær. Kíki á þig reglulega, án þess að kvitta pffff....
alva kristín (IP-tala skráð) 7.3.2008 kl. 09:55
Jámm, góður pistill.
Ég játa fúslega að hafa stundum andskotast út í Moggabloggið, en veistu, það er vegna þess að mér finnst það svo hrikalega sjálfhverft innávið, væntanlega vegna þeirra eiginleika blog.is að búa til rss lista inn á við (bloggvinadeildin). Um daginn var á síðum tveggja moggabloggvina minna talað um hvaða blogg fólk myndi lesa ef það þyrfti að takmarka sig við 3 á dag. Fullt af fólki kommentaði og enginn (ef ég man rétt) nefndi síður fyrir utan blog.is heiminn. Fyrr en ég, sem bæði af skepnuskap mínum og líka vegna þess að það var hreina satt, nefndi nær eingöngu blogg utan moggabloggs.
Ég er með rúmlega 140 síður á rss listanum mínum, (um 20 blog.is, þar af) les þær allar, og trúið mér, þó það séu til fínir skríbentar og bloggarar hér á moblo - tja, þá er heimurinn bara svolítið stærri. Og þar af leiðandi skemmtilegri.
Upphaf pirrings út í moggablogg má rekja til þess að fólki í upphafi var gert nær ómögulegt að kommenta nema vera með eigin moggaaðgang. Eins og viljandi væri verið að búa til lokaðan heim. Sem tókst bara nokkuð vel. Flest ef ekki öll önnur bloggkerfi voru talsvert opnari, gerðu fólki kleift að talast við milli kerfa og yfirleitt var maður ekkert að spá í hvort fólk væri með blogspotsíðu, wordpress síðu, eða einhverjar af íslensku síðunum - fyrr en allt í einu kemur upp viðmót sem vill bara ekkert vera með hinum. Það kom nefnilega moggabloggs megin, ekki frá okkur hinum gömlu og merkilegu með okkur...
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 10.3.2008 kl. 08:54
Því er ekki að leyna að bloggheimurinn er klofinn og einmitt vegna Moggabloggsins. Það þyrfti að leita leiða til að sameina bloggheiminn. Hann ER í reynd tvískiptur, lítil samskipti en því meiri kritur. Ég vil nú hins vegar fyrst og fremst sjá einstaklingana en ekki hvar viðkomandi boggari bloggar. En því miður hafa skapast hópar sem helst umgangast ekki aðra hópa. Allt Moggabloggi að kenna!
Sigurður Þór Guðjónsson, 10.3.2008 kl. 09:23
Þrjú blogg les ég reglulega og aðeins eitt á Moggabloggi!
Sigurður Þór Guðjónsson, 10.3.2008 kl. 09:26
Sigurður, nákvæmlega!
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 10.3.2008 kl. 20:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.