Það er nú ekki lengra síðan en í fyrra að mældist mesti hiti á landinu í apríl. Á mannaðri stöð mældist hann þ. 29. á Staðarhóli í Aðaldal 21,9 stig en á sjálfvirku stöðinni í Ásbyrgi fór hann í 23,0 stig. Daginn eftir fór hitinn á Staðarhóli í 20,1 stig en á sjálfvirku stöðinni á Végeirsstöðum í Fnjóskadal í 21,6. Hitamet voru slegin á fjölmörgum stöðum, þar á meðal í Stykkishólmi þar sem mælingar ná um 150 ár aftur í tímann. Þessi hitabylgja stóð til 2. maí. Og ég bloggaði um hana á sínum tíma. Sjá hér og hér. Þessa daga var hæð austan- og suðaustan við landið en lægðir suðvestur í hafi.
En þetta var ekki eina hitabylgjan í mánuðinum. Mjög hlýtt var fyrstu dagana og þ. 3 komst hitinn á sjálfvirku stöðinni í Neskaupsstað í 21,2 stig og hefur 20 stiga hiti aldrei mælst á Íslandi svo snemma árs. Daginn eftir fór hitinn á Kvískerjum í Öræfum í 19,8 stig.
Hiti hefur komist í 20 stig á Íslandi í tveimur öðrum aprílmánuðum. Árið 2003 fór hitinn á Suðanesi við Þistilfjörð í 21,1 stig þ. 18. og daginn eftir mældust 21,4 á sjálfvirku stöðinni á Hallormsstað. Hvort tveggja var þá met. Í þessum mánuði mældist 20 stiga hiti á 11 veðurstöðvum. Lægð var á Grænlandshafi en hæð yfir Norðurlöndum.
Apríl 1984 var fyrsti aprílmánuðurinn sem yfir 20 stiga hiti var mældur. Þá komst hitinn í 21,0 stig þ. 26. á Seyðisfirði og sama dag mældust 20,4 stig á Vopnafirði og 20,1 á Neskaupsstað. Þetta voru allt mælingar á kvikasilfursmæla. Hæð var fyrir austan land en lægð suðvestur í hafi.
Á sumardaginn fyrsta 1976, þ. 22. munaði litlu að 20 stiga hiti mældist en þá fór hitinn á Akureyri í 19,8 stig. Það var þá landsmet.
Á Grímsstöðum á Fjöllum mældist hitinn 19,1 stig þ. 29. apríl 1921. Það var þá Íslandsmet og stendur enn sem met í apríl á Grímsstöðum. Líklegt er að þennan dag hefði mælst 20 stiga hiti á landinu ef veðurstöðvar hefðu verið eins margar og nú er en þær voru þá mjög fáar. Þennan dag mældust 18,1 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal og 14,6 í Reykjavík og er það þriðji mesti hiti sem þar hefur mælst í apríl. Veðurkerfin þennan dag virðast hafa verið nokkuð svipuð og í hitabylgjunni miklu í apríllok í fyrra.
Mesti hiti í Reykjavík í apríl eru 15.2 stig sem mæld voru þ. 29. árið 1942. Á rafmagnsstöðinni við Elliðaár fór hitinn þ. 30. árið 1965 í 15,6 stig og 14,7 í Reykjavík, sem er næst mesti hiti þar í apríl. Sama dag fór hitinn á Reykhólum í Barðastrandarsýslu í 17,5 stig sem er vægast sagt óvenjulegt. Hæð var yfir landinu og austan við það.
Miklir hitar í apríl mælast oftast nær á svæðinu frá Eyjafirði til Fljótsdalshéraðs og á Austfjörðum. Árið 1939 mældist þó 18,4 stig þ. 27. í vestanátt á Fagurhólsmýri sem er enn aprílmet þar.
Í apríl 1926, mældust 18,8 stig á Lækjamóti í Víðidal í Húnavatnssýslu en ég er fremur vantrúaður á trúverðugleika þeirrar mælingar.
Á Loftssölum í Mýrdal gerðust þau undur og stórmerki að hitinn fór í 16,0 stig þ. 3. árið 1975 og sama dag í 15,8 í Vík í Mýrdal. Og það var glaðasólskin og hæg vestanátt. Þetta er afbrigðilegasta hitastig upp á við á suðurlandi svo snemma árs.
Aðeins einu sinni hefur mælst þrjátíu stiga frost á Íslandi í apríl. Það var þ. 1. árið 1881 sem beint framhald af hinum ótrúlega kalda mars það ár. Frostið fór þá í 30,2 stig á Siglufirði. Þetta er svo lág tala að manni dettur í hug að eitthvað hafi verið að mælinum og kannski var það einmitt svo. En víst er að mikill kuldi var þennan dag.
Næstu þrjár mestu frostmælingar í apríl koma allar frá Möðrudal. Árið 1961, þ. 4. mædust -28,3 stig og er það mesta frost í apríl á íslenskri veðurstöð í nútímaskýli. Það var í lok norðanáttar þegar háþrýstisvæði var yfir landinu. Árið 1898 mældust -28,2 stig og slétt 28 árið 1912. Mesta frost á síðustu áratugum er -27,5 stig í Möðrudal þ. 4. árið 1990.
Látum þetta gott heita um stakar mælingar á veðurstöðvum. Alræmdasta kuldakast um allt landið síðan 1881 í apríl var árið 1968. Þessi dagur var fjórði kaldasti dagur yfir allt árið á landinu eftir 1949 og er eini apríldagurinn sem nær að komast inn á lista yfir 30 köldustu daga yfir árið.
Hæð var yfir Grænlandi og Grænlandshafi en lægð við Noreg. Óvenjulega kalt loft hafði byrjað að streyma yfir landið síðasta dag marsmánaðar. Mikill hafís var norður undan sem nú rak að landi. Víða var stormur eða rok og snjókoma á norður- og austurlandi. Hvassast var á austfjörðum og suðausturlandi. Á Höfn í Hornafirði komst vindhraðinn í 49 m/s (frostið þar fór í 19 stig) en léttskýjað var sunnanlands en hvasst. Kuldinn var ótrúlegur. Ekki voru gerðar mælingar í Möðrudal en á Hveravöllum mældust -27,9 stig og -26,0 á Grímsstöðum. Kuldamet í apríl féllu nánast alls staðar og standa enn. Í Reykjavík fór frostið í 16,4 stig en 21,2 á Hólmi við Rauðhóla. Tuttugu stiga frost mældist á um það bil þriðjungi allra veðurstöðva á landinu, á suðurlandsundirlendi, Borgarfirði, á stöku stað á Vestfjörðum, víða á norðvestanverðu landinu og nánast alls staðar til sveita á austanverðu norðurlandi og austurlandi og jafnvel á Teigarhorni við Berufjörð mældist frostið 23 stig, það mesta í sögu mælinga í apríl frá 1873. Á Hveravöllum var meðalhiti sólarhringsins -20,8 stig og er það lægsti meðalhiti nokkurs dags á veðurstöð á Íslandi í apríl. Á suðausturlandi, t.d. Kirkjubæjarklaustri og syðst á landinu, í Mýrdal og Vestmannaeyjum, var tiltölulega afar kalt. Meðalhitinn á Kirkjubæjarklaustri var -14,0 stig (-11,5 í Reykjavík) og lágmarkshiti í Vík í Mýrdal og Stórhöfða í Vestmannaeyjum var -16,9 og -16,7 á Loftsölum í Dyrhólahreppi. Stundum hefur verið talað um þennan dag sem hámark hafísáranna 1965-1971. Enginn sem man kuldann og illvirðin þennan dag getur gleymt því súrrealíska andrúmslofti sem þá ríkti. Það mátti jafnvel finna lyktina af hafísnum!
Annað kuldakast og enn frægara kom um páskana 1963. Mars hafði verið sá hlýjasti í áratugi og héldu hlýindin áfram framan af apríl svo gróður var mjög farin að taka við sér, tún að grænka og trjágróður byrjaður að bruma sunnanlands. Mánudaginn þ. 8 fyrir páska var hægviðri og um hádegið var léttskýjað á norðulandi og hiti 1-5 stig en sunnanlands var skýjað og yfir 5 stiga hiti. En skjótt skipaðist veður í lofti í alveg bókstaflegri merkingu. Aðfaranótt þriðjudagsins myndaðist smálægð við Tóbinhöfða á Norðaustur-Grænlands. Hún dýpkaði ört og fór hratt í suðaustur um daginn og dró á eftir sér óvenjulega kalt heimskaupaloft. Það hvessti eins og hendi væri veifað að morgni hins 9. af norðaustri á Vestfjörðum. Og veðrið fór hratt yfir. Klukkan níu var blíðskaparveður um land allt en þremur tímum síðar var óveðrið komið suður fyrir Vestfirði og að Langanesi. Fyrir norðan var mikil snjókoma en léttskýjað syðra. Um hádegi þ. 10 var norðaustan hríðarveður á norðurlandi með 10-12 stiga frosti en syðra var léttskýjað og frostið 6-10 stig. Sólarhringshitinn var 10-12 stig undir meðallagi þ. 10. og 11. Fyrri daginn var meðalhitinn -9,7 stig í Reykjavík en -11,0 á Akureyri. Í 1500 m hæð kólnaði um 22,5 stig á 18 klukkustundum og annað eins í 1000 metra hæð. Við jörð var kólnunin nokkru minni en samt gríðarleg, 15 stig á einum sólarhring.
Það lyngdi að kvöldi þess 11. en næsta dag snjóaði víða vegna smálægðar sem fór yfir landið. Veðrið olli miklum mannskaða og fórust 18 manns við landið á sjó. Frostið fór mest niður í 19 stig í Möðrudal en mjög víða var 12 til 15 stiga frost. Gífurlegar skemnmdir urðu á trágróðri. Mörg tré kól alveg og skógur var mörg ár að jafna sig. Veður þetta var lengi og er jafnvel enn talið vera fyrirmynd allra páskahreta þó ekki hafi sem betur fer komið annað eins. Enn eimir eftir af ótta manna við snemmkomin vorhlýindi vegna þessa óvægna kuldakasts og þeirra gróðurskemmda sem það olli.
Hér fyrir neðan má sjá kort frá hádegi af Íslandi og 500 hPa kort sem sýna þrýstifar við jörð og hita í kringum 5 km hæð (1.4.1968, 9.-11.4. 1963), þar sem sjá má ferð lægðarinnar, merkt T, og 850 hPa kort sem sýna hitann í kringum 1400 metra hæð (1.4. 1968, 9.-10.4. 1963). Einnig veðurkort yfir landið, innrauð gerfitugnlamynd og veðurkort af Íslandi kl. 15 hitadaginn mikla 29. apríl 2007.
Flokkur: Veðurfar | 14.4.2008 | 22:30 (breytt 29.10.2008 kl. 14:51) | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006