Eins og við manninn mælt

Þegar ég hafði bloggað í gær um viðbrögðin við grein Árna Tryggvasonar leikara í Morgunblaðinu sagði ég við sjálfan mig: Á morgun skrifar svo Morgunblaðið leiðara um hana og hrósar Árna fyrir hugrekki.

Og það var eins og við manninn mælt. Í dag skrifar Morgunblaðið einmitt leiðara um málið og segir í lokin um ritun greinarinnar:  

"Til þess þurfti kjark".

Hvað sem segja má um grein Árna þá þarf hreint út sagt lítinn kjark til að skrifa svona grein nú á dögum. En kannski fyrir mörgum árum. En Morgunblaðið lifir í sífelldri nútíð og er gleymir því jafnharðan að menn hafa verið að ræða um geðsjúkdóma á ýmsa vegu í meira 30 ár. En alltaf rýkur Mogginn fram eins og séu að gerast fáheyrð tíðindi í hvert skipti sem einhver merktarpersóna nefnir geðræn vandræði.

Annars fer blaðið í  leiðaranum í dag fram úr sjálfu sér í lágkúru. Eftir að það hefur rakið orð Árna um að vondan aðbúnað sjúklinga á gedeild Landsspítalans segir blaðið með þeim æðstráðsþunga sem það hefur tamið sér í leiðaraskrifum:

"Hér lýsir þjóðkunnur leikari reynslu sinni sem sjúklings á geðdeild ... 0rð hans hljóta að vega þungt."

Ekki verður annað séð en að Morgunblaðið telji að orð Árna vegi þungt einungis af því að hann er þjóðkunnur leikari. Hann er reyndar ekki bara þekktur heldur er hann ein af eftirlætispersónum þjóðarinnar, Lilli klifurmús og allt það. Ef einhver óþekktur vitfirringur hefði verið skrifaður fyrir greininni hefði blaðið ekki tekið við sér. Þyngd orða í skilningi Moggans fer ekki eftir efnisinnihaldi þeirri heldur eftir því hver segir þau. 

Nú tek ég það fram að ég ber mikla virðingu fyrir Árna bæði sem manni og listamanni. Gagnrýni minni er alls ekki beint gegn honum heldur yfirdrifnum viðbrögðum sem orðið hafa við grein hans sem stafa augljóslega af hneigð manna til að hóa í lætin með fræga fólkinu fremur en raunverulegum áhuga á aðstöðu sjúklinga á geðdeildum.  Ég bloggaði líka um þetta í gær. Þar benti ég á það að menn hafa verið að gagnrýna aðbúnað sjúklinga á geðdeildum árum árum saman án þess að nokkur hafi tekið við sér. Svo kemur eftirlætispersóna og þá fer allt af stað.

Það er hætt við því að áhugi og viðbrögð á slíkum forsendum risti ekki djúpt og verði fljótlega að engu í flaumi nýs fjölmiðlaefnis.

Það er sárt fyrir þá sem hafa verið að reyna að vekja athygli á stöðu geðveiks fólks áratugum saman, yfirleitt fyrir daufum eyrum, að horfa upp á þá sýndarmennsku sem farið hefur í gang út af grein Árna Tryggvasonar.

Svo verður það að segjast eins og er að geðveikislega þunnir leiðarar Morgunblaðsins um geðheilbrigðismál, sem koma tugir saman á hverju ári, eru orðnir einhver erfiðasti Þrándur í götu fyrir skynsamlega umræðu í landinu um þennan málaflokk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Virkilega tharfur og vel athugadur pistill, Sigurdur.

Magnús (IP-tala skráð) 19.4.2008 kl. 18:02

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kjark?! Það þarf nú ekki mikinn kjark til að skrifa um geðveiki Íslendinga, ekki síst ef maður er sjálfur Íslendingur, og þaðan af síður ef maður er sjálfur geðveikur Íslendingur. Og hvaða Íslendingur er ekki geðveikur? Ég bara spyr.

Hver ætlar að stíga fram og kasta fyrsta steininum, halda því blákalt fram, eins og ekkert sé, að hann sé ekki geðveikur. Hann verður þá að leggja fram eitthvert bevís um slíkt, ef hann ætlar ekki að vera dæmdur og léttvægur fundinn um það atriði.

Þorsteinn Briem, 19.4.2008 kl. 18:06

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það er ekki sama Jón og Séra Jón. Annars er hægt að nota þessa athygli sem málið fær núna til að hamra járnið meðan það er heitt og taka þátt í umræðunni. En það er rétt athugað hjá þér, það ætti ekki að þurfa að vera svo, að þjóðkunnir einstaklingar ljái þessu máls til að eftir sé tekið.

Bestu kveðjur

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.4.2008 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband