Hlý maíbyrjun

Fyrstu dagarnir í maí að þessu sinni eru einhverjir þeir hlýjustu sem um getur í Reykjavík. Meðalhitinn er 7,8 stig en meðaltalið 1961-1990 er 4,8 en 5,1 árin 1931-1960. Spáð er sæmilegum hlýindum fram til a.m.k. 10. maí. Fyrstu dagarnir í maí eru oft æði svalir svo það er gott forskot á meðalhitann ef fyrstu dagarnir spjara sig vel. Kannski fáum við nú almennilega hlýjan maí, með meðalhita yfir 8 stig (meðaltal alls mánaðarins 1961-1990 er 6,3) en það hefur ekki gerst í Reykjavík síðan 1974.

Maí hefur verið afskiptur meðal mánaða hvað hlýindi síðustu ára varðar. Síðustu maímánuði hafa líka komið leiðinleg kuldaköst. Og menn eru strax farnir að tala um að slík köst séu árviss í maí í þeim skilningi að þannig sé íslenskt veðurfar. Það sé regla að seint í maí komi kuldaköst. Menn eru fljótir að hrapa að ályktunum þegar veðurfarsvaríantar eru annars vegar.

Já, Það er alveg kominn tími á 8 stiga maí í Reykjavík og við fylgjumst spennt með því hvernig þessi mánuður plummar sig.

Engin næturskeyti berast nú frá Höfn í Hornafirði og sjálfvirka stöðin hefur verið óvirk síðan 15. apríl. Hvað er eiginlega að gerast á suðausturhorninu í veðurmálunum? Það er galli sjálfvirku stöðvanna að þær detta oft út svo vikum skiptir.

Annars var það ólán að flytja veðurstöðina frá Akurnesi inn í þorpið á Höfn sem er svona á nesi út í sjó sem um leika leiðinda vindar og hlýindi forðast eins og pestina. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sigurður; ég er að drepast úr kulda.  Hverju má það sæta ef þetta er hlý byrjun á maí?  Hm.. ég er örugglega svona gleymin.

Takk fyrir pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.5.2008 kl. 15:54

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þú ert bara svona kúl kona!

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.5.2008 kl. 17:33

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já það er merkilegt að hitinn hafi ekki náð átta stigum í maí í öllum þeim hlýindum sem hafa verið undanfarin ár. Ég fæ það út að hitinn í Reykjavík hafi ellefu sinnum náð 8 stigum á tímabilinu 1930-1974 og síðan ekki söguna meir.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.5.2008 kl. 20:25

4 Smámynd: halkatla

varstu semsagt ekkert að grínast með að ætla bara að blogga um veðrið....

þú vilt ekki vita hvaða áhrif þetta hefur á hysteríuna!

halkatla, 7.5.2008 kl. 20:51

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Eins og allir vita grínast ég aldrei. Og ekki Mali heldur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.5.2008 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband