Hret og kuldaköst í maí

Kuldaköst og hret eru algeng í maí og algengari en hitabylgjur. Þó eru til ýmsir maímánuðir sem voru hretalausir og er maí 1939 þar fremstur í flokki. Þá gerði varla frost á landinu. Það er þó varla hægt að kalla það hret þó geri frost víða á landinu í maí. Það þarf norðanskot til með snjó og kulda fyrir norðan og stundum jafnvel líka á suðurlandi. En hér verður þó ekki reynt að skýrgreina hvað beri að telja hret en vikið að nokkrum frægum og óumdeildum maíhretum og greint frá mesta kulda sem mælst hefur í mánuðinum á Íslandi.

Mesta frost sem komið hefur í maí var 17,4 stig í Möðrudal þ. 1. árið 1977. 

Á Hveravöllum mældust 17,1 stig þ. 4. árið 1968.

Í þeim kalda maí árið 1979 fór frostið svo seint sem þ. 19.  í slétt 17 stig á Brú í Jökuldal. Sama dag mældust -16,4 stig á Grímsstöðum sem er mesta maífrost þar í sögu mælinga frá 1907.

Allt eru þetta staðir sem liggja hátt. Mesta frost á láglendi í maí mældist þ. 16. árið 1955, -16,6 stig á Barkarstöðum. Þeir eru í Miðfirði, inni í dalnum, skammt frá Bjargi þar sem Grettir Ásmundsson fornkappi ólst upp. Dalurinn er mikill kuldapyttur, ekki síst um sumur og eru þaðan kuldametin á landinu bæði í júlí og ágúst. Þetta var í lok óvenju hastarlegs kuldakasts. Á Raufarhöfn mældust -16,0 stig fyrsta maí 1968 og -15,4 stig á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði. Sama dag kom lægsti maíhiti á Akureyri, -10,4 stig. Hafís var við land og slógu fyrstu vikur þessa mánaðar allt út í kulda eftir árstíma á annesjum norðaustanlands. Ekki hlánaði á Raufarhöfn fyrr en þ. 11. og var meðalhitinn þessa daga -6,0 stig! Miklu mildara var þegar dró inn í landið og enn frekar á sunnanverðu landinu.   

Fyrir utan 1979 og að nokkru leyti 1968 voru þessir metkuldar staðbundnir en köldustu maídaga á öllu landinu er að leita í nokkrum miklum kuldaköstum sem yfir landið hafa gengið í þessum mánuði. 

Einna óþyrmilegast var kastið sem kom í maíbyrjun árið 1982. Flæddi þá yfir landið alveg óvenjulega kalt loft og hefur síðan ekki komið öllu kaldara eftir árstíma. Veðrið byrjaði reyndar síðast í apríl. Mikill norðanstrengur var yfir landinu austanverðu þ. 1. en hægara veður vestanlands. Það herti á norðanáttinni næstu tvo daga en þ. 4 kyrrði vestanlands á ný og næstu dagana tvo var hægur vindur um allt land en kuldi mikill. Á norðurlandi snjóaði talsvert og náði snjókoman suður eftir austfjörðum. Lítilsháttar él voru á suðvesturlandi. Á Þingvöllum var talið alhvítt í fimm daga og einn á Hæli í Hreppum. Einnig varð hvít jörð sums staðar á Snæfellsnesi og í Dölunum. Ekki hlánaði í Reykjavík fyrstu þrjá dagana. Fór næturfrostið niður í -7,7 stig þ. 5 sem er mesta frost sem mælst hefur í borginni frá 1892 og allt til þessa dags í maí. Kaldast í þessari hrinu varð -16,0 í Möðrudal þ. 5. en allvíða var það 10-15 stig. Maíkuldamet voru víða sett.  Nefna má Hvanneyri -10,2, Síðumúla í Hvítársíðu -9,8 (mælingar 1937-1985), Hamraenda í Dölum -11,2 (1939-1997), Þórustaði í Önundarfirði -13,2 (1961-1998),  Æðey -9,3 (frá 1954), Strandir -9,9 (frá 1922), Hrútafjörð -12,9 (frá 1923),  Staðarhól í Aðaldal -15,0 (frá 1962) og Þingvelli -12,0 (1937-1983).    

Annað kuldakast, jafnvel enn hastarlegra og það því fremur sem það kom nokkru seinna í mánuðinum, kom árið 1943. Vindur var auðvitað norðanstæður og stundum hvasst. Hæð var yfir Grænlandi en lægðir fyrir austan eða sunnan land. Fyrir norðan snjóaði og var snjódýpt á Horni 110 cm þ. 15. Á Höfn í Bakkafirði var snjódýptin hálfur metri þ. 11. Ekki festi snjó í Reykjavík í þessu hreti en hins vegar sums staðar á suðurlandi, allt frá Kirkjubæjarklaustri til Grindavíkur og einnig í Borgarfirði. Í Reykjavík var komið frost, -0,6 stig kl. 21 þ. 5. og hlánaði ekki fyrr en kl. 8 að morgni þ. 10. Aldrei síðan hefur verið samfellt frost svo lengi jafn seint að vori í höfuðstaðnum, en næturfrost héldu áfram til þess 11. Aldrei hefur hámarkshiti ekki náð yfir frostmark í Reykjavík svo seint í maí sem í þessum mánuði, þ. 9.  Frostið í bænum varð mest -7,2 stig þ. 8. Víða var mikið frost þann dag og daginn eftir: -15,0 á Grímsstöðum og var það þá mesta frost sem mælst hafði á landinu í maí, -13,5 á Bjarnarstöðum í Bárðardal, -12,0 á Núpsdalstungu í Miðfirði, -11,4 á Þingvöllum og -10,7 á Hæli í Hreppum.  Á Fagurhólsmýri mældist lægsti hiti sem þar mældist í maí á árunum  1898-2007, -6,9 stig. Kirkjubæjarklaustur setti líka met (frá 1932) -8,0 stig og einnig Stórhöfði í Vestmannaeyjum (1921) -7,2 stig og Sámsstaðir (1927-1999) -8,4. Hæll í Hreppum, sem hefur mælt frá 1880, mældi hins vegar mesta frost í maí árið 1888, -12,2 stig sem var reyndar mesta frost á landinu í þeim mánuði. 

Mesta frost í maí í Reykjavík mældist þ. 9. 1892,- 8,2 stig. Sama dag mældist mesta frost í Vestmannaeyjum, ótrúleg -9,5 stig og það í kaupstaðnum, en á Eyrarbakka varð frostið -9,2 stig og er það maímet. Á landinu varð kaldast -14,3 á Gilsbakka í Hvítársíðu.      

Síðasti maídagurinn þegar sólarhringsmeðaltalið hefur verið undir frostmarki í Reykjavík var þ.18. 1979, -0,4 stig.

Einstaka maímánuðir mega teljast nánast eitt samfellt kuldahret. Þeirra alræmdastur er maí  1979. Í byrjun mánaðarins geisuðu hörkur sambærilegar við frostakaflana  1943 og 1982. Þann 17.-18. voru kuldar þeir mestu sem gerast svo síðla mánaðarins eins og sést á frostunum á Brú og Grímsstöðum sem áður er getið aðfaranótt þ. 19. Árið 1949 var líka frægur kuldamánuður. Þetta er sá maí sem hefur mest snjólag á landinu í prósentum talið, 48%. Árið 1914 var líka vondur maí og gekk á með útsynningséljum til mánaðarloka en hríðar fyrir norðan fyrri hlutann.  

Ef ég ætti að velja hraklegustu maídaga síðustu áratugi myndi ég velja 3. maí 1982 og þ. 1. 1979 en einna lakasta maídag í síðsta þriðjungi mánaðarins myndi ég telja þ. 23. 2006. Takið samt eftir því hvað mestu kuldar eftir 20. maí eru mildari en fyrstu daga mánaðarins.

Fyrir norðan er auðvitað ekki tiltökumál að snjó festi á jörðu í maí. Ekki er það hins vegar  algengt í Reykjavík. Það hefur gerst í 12  mánuðum frá og með 1924, síðast árið 1993 og voru þá fleiri dagar taldir alhvítir en í nokkrum öðrum mánuði, alls þrír dagar. Oftar er snjór á suðurlandsundirlendi en í Reykjavík í maí og reyndar oftar en maður gæti haldið. Þann snjó tekur þó oftast fljótlega upp. Ekki er lengra síðan en í fyrra að alhvít jörð varð allvíða á suðurlandsundirlendi kringum 25. maí en Reykjavík slapp þá. Enn síðar í maí hefur reyndar snjóað sunnarlega á landinu. Á Kirkjubæjarklaustri var alhvít jörð síðasta daginn í maí 1936.

Hér verður drepið á nokkra hreta- og snjódaga. 

Mjög slæmt norðanhret kom 4. maí árið 1923 og stóð í tvo daga.

Af einhverjum ástæðum var snjór algengari en á flestum öðrum tímum á suðurlandi á síðari hluta þriðja áratugarins. Árið 1926 snjóaði mjög víða 8.-9.  maí og var snjódýpt 5 cm í Reykjavík að morgni þess 9. en 6 cm í Vík í Mýrdal þ. 10. Árið 1929 gerði frægt maíhret þ. 4.-5. Stórhríð skall á mjög skyndilega  á með mikilli veðurhæð. Í Fnjóskadal beið maður þá bana í snjóflóði. Fjárskaðar urðu um allt suðurland og jafnvel á Reykjanesskaga. Í uppsveitum suðurlands stífluðust sumar ár alveg af fannkomunni. Þjórsá varð svo lítil að enginn mundi hana slíka. Alhvítt varð svo að segja um allt land. Að morgni 17. maí 1931 mældist snjódýpt á Fagurhólsmýri 8 cm en snjór var þá líka í Vík í Mýrdal.

Mikla hríð gerði um miðjan maí  1945 á vestfjörðum og þ. 16. mældist snjódýptin á Suðureyri 90 cm.

Árið 1948 snjóaði mikið sums staðar á suðurlandi þ. 2. og mældist snjódýpt að morgni þ. 3. hvorki meira né minna en 65 cm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum sem er einsdæmi. Árið eftir mældist snjódýpt þar reyndar 20 cm þ. 25. maí en um þær mundir var linnulaust hríðarveður á norðurlandi en náði þennan dag suður á land.    

Í þeim óvenjulega hlýja maí 1961 brast þó á norðan hvassvirði með snjókomu um norðanvert landið þ. 23. en stytti til vestan til næsta dag en á norðausturlandi snjóaði fram á kvöld þ. 24. Var þetta slæmt hret ofan í það góðæri sem á undan var komið. 

Árið 1966 var snjódýptin á Hornbjargsvita 100 cm í nokkrar vikur.

Oftar var snjór og kuldatíð á hafísárunum 1967-1971 en unnt er að rekja.

Um snjó og önnur veðursins ótíðindi í maí 1979 má lesa hér.

Fyrsta maí 1987 var snjódýpt in 17 cm í Reykjavík og er það mesta snjódýpt  sem þar hefur mælst í maí. Hafði snjóaði í breytilegri átt á öllu suðvesturlandi um nóttina. Ekki tók upp þennan snjó samdægurs.

Í maí 1989 var snjór fádæma mikill á landinu. Á Nesjavöllum  mældist mesta snjódýpt 140 cm og meðalsnjódýptin var sums staðar á landinu yfir 100 cm. 

Árið eftir mældist svo mesta snjódýpt á landinu í maí, 204 cm þ. 1. á Gjögri á Ströndum.

Í maí 1995 var alhvítt í Kálfsárkoti í Ólafsfirði allan mánuðinn en þar er sérstaklega snjóþungt.              

Af svo miklu er að taka af kuldum og snjó i maí á 19. öld að hér verða nokkrar glefsur að nægja:

Héldust frost  og gróðurleysi. 20.-23. maí 1854 og mikil hríð og fannkynngi á útsveitum, segir Brandsannáll. 

Um hvítasunnuna 1860, 27.-28. maí 1860 var mikið norðanveður og hörkufrost fyrir norðan.

Hinn 5. maí 1863 var ofsalegt dimmvirði á norðurlandi með 12-14 stiga frosti. Enn var rifhjarn á Mosfellsheiði þ. 13. og ekki sást í dökkan díl í byrjun júnímánaðar í Eyjafjallasveit.

Eitthvert mesta harðindaár nítjándu aldar var 1866. Nóttina milli 2. og 3. maí gerði þá gaddbyl af landnorðri í uppsveitum Árnessýslu og Rangárvallasýslu á auða jörð og var fénaður í  haga og urðu miklir fjárskaðar. Nóttina milli 19. og 20. kom annað illvirði og varð þá fannfergi svo mikið að skaflar tóku víða í klyftir í Reykjavík og í Vík í Mýrdal varð svo mikil ófærð að sums staðar voru skaflar jafn háir húsunum. Rétt fyrir lok mánaðarins voru enn norðaustanveður í Reykjavík með 4-7 stiga frosti.

Stórhríð var nánast um allt land 29.-30.  maí 1872 og linnti sums staðar ekki fyrr en í júní.     

Á hinum kalda níunda áratug 19. aldar var oft ótíð í maí:

Svo dimm hríð var um allt norðurland þ. 24. 1882 að kunnugir menn villtust á alfaravegi og í Hrútafirði varð maður úti,.

Norðanhríðir með frostum hófust 5. maí 1883 og var verst í Þingeyjarsýslum út mánuðinn.

Árið 1886 var Hrútafjörður riðinn á lagnaðarís við Þóroddsstaði 20. maí.

Mikið hret kom á uppstigningardag 17. maí 1887 og stóð til 21. og varð  mikið fjártjón.  

Frá átjándu öld eru hér tvö fróðleg dæmi:

Hinn 9. maí 1725 var fjúkhríð mikil af norðaustan og féll þá snjóflóð á bæinn Vatnsenda í Héðinsfirði og dó bóndinn, kona hans og eitt barn þeirra, að sögn Brandsannáls.

Á hvítasunnu 16. maí 1728 gerði sums staðar kviðsnjóa, segir Hvammsannáll.

Heimildir: Nokkrir annálar.

Hér fyrir neðan eru Íslandskort frá verstu maídögunum að mínu áliti eftir 1949 og kort frá kuldunum miklu í háloftunum í maí 1982, en ekki ósvipaður kuldi var þar á köldustu dögunum 1949 og 1979. 

1979-05-01_12

1982-05-03_12

 

2006-05-23_12

Rrea00219820501

Rrea00119820502

 


Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

hjá mér er gróður kominn mun lengra en venjulega á þessum tími.....svo nú bara má ekki koma hret

Hólmdís Hjartardóttir, 27.5.2008 kl. 10:49

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband