Bókakaffi í Eymundsson

Í dag brölti ég í bæinn eftir miklar innisetur, veikindi og vesaldóm í hálfan mánuð. Ég kom í Eymundsson þar sem verið var að opna bókakaffi eitt herlegt. Það er fjandi flott. Þarna eru einnig miklar útisvalir þar sem alltaf  mun verða sól og blíða í sumar. Reyndar er útsýnið á svölunum fremur subbulegt. Bara bakhliðar Hótel Borgar og einhverra verslanna. En skjólið er líklega ekkert smáræði.   

Engan sá ég með viti í bókabúðinni eða kaffisjoppunni nema Svanborgu sem einu sinni var afgreiðslupía á loftinu og afgreiddi útlendu bækurrnar þannig að manni fannst þær skipta óvenjulega miklu máli.

Ég er að ljúka við að lesa 4. bindi íslensku bókmenntasögunnar nýju. Þar ber Dagný Kristjánsdóttir af fyrir skýran og skemmtilegan stíl og feminíska ósvífni. Lýsingar hennar á efnisþræðinum í bókum Elínborgar Lárusdóttur og Guðrúnar frá Lundi eru yndislega tvíræðar og virka eiginlega sem háð um hin gömlu kvenlegu gildi sem nú eru horfin. En það er skrambi vel af sér vikið af Guðrúnu frá Lundi, þessarar ómenntuðu bóndakonu sem fór að skrifa metsölubækur í ellinni og var fyrirlitin fyrir sínar “kerlingarbækur” af allri bókmenntaelítunni, að  fá um sig langt mál og undurfurðulegt eins og hver annar stórhöfundur í þessari bókmenntasögu sem er svona eins og opinbert vottorð sjálfrar bókmenntastofnunarinnar um það sem á að hafa skipt máli í bókmenntum 20. aldarinnar.

Ég hugsa annars að þetta verði síðasta bókmenntasagan. Gróðurhúsáhrifin munu áreiðanlega grilla siðmenninguna á þessari öld. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband