Ekki er árvisst að komi júníhret en það er samt talsvert algengara en ekki. Yfirleitt er það á stöðum sem hátt liggja, svo sem á Hólsfjöllum, Mývatnssveit, Möðrudal eða í ofanverðum Bárðardal og svo á annesjum alveg frá Ströndum til austfjarða en einnig getur orðið hvítt á Vestfjörðum. Það getur þó snjóað í betri sveitum og það jafnvel syðst á landinu. Næturfrost eru svo algeng í júní að frá 1880 er einungis getið um fjóra mánuði þar sem ekki fraus einhvers staðar á landinu: 1880, 1909, 1933 og í fyrra, 2007. Hæsti lágmarkshiti landsins varð 1933, 1,0 stig.
Hér verður greint frá mestu frostum sem mælst hafa á Íslandi í júní og sagt frá nokkrum vondum hretum.
Mesta frostið er sagt vera -11,0 stig í Möðrudal árið 1917. Þetta er svo mikið frost að maður getur alveg efast um þessa tölu. Ekki veit ég nákvæma dagsetningu, en mjög líklega var þetta allra fyrstu daga mánaðarins. Og ekki þekki ég heldur bakgrunn þessa mikla kulda. Þennan mánuð þurfti nú endilega að vanta hitamælingar á Grímsstöðum en næst mesti kuldi sem mældist í mánuðinum var -3,8 stig í Grímsey.
Næst mesta frost í júní kom árið 1973, -6,9 stig á Hveravöllum þ. 11. en daginn áður mældist mesti kuldi sem mælst hefur í júní í byggð eftir 1917, -6,7 á Vöglum II í Vaglaskógi, en -6,3 á Staðarhóli í Aðaladal. Þetta gerðist í mögnuðu kuldakasti sem gekk yfir landið dagana 10.-11. Snjókoma var þá allvíða og snjóaði jafnvel á suðurlandi þó ekki væri þar talin alhvít jörð að morgni á veðurstöðvum. Alhvítt varð hins vegar 3-4 daga til fjalla norðaustanlands og einn dag á Sauðárkróki og á nokkrum stöðvum norðaustanlands við sjóinn. Þann 12. mældist lægsti hámarkshiti á landinu af öllum júnídögum frá 1949, 8,6 stig á Vatnsskarðshólum í Mýrdal, en sá 10. var sá næst kaldasti að þessu leyti, en þá mældust hæst 9,0 stig, einnig á Vatnsskarðshólum.
Þriðja mesta frostið í júní mældist í Möðrudal þ. 7. 2001, -6,6 stig. Í þessu hreti teppti snjór fjallvegi á austurlandi og norðaustanlands spilltist varp og þar urðu allmiklir fjárskaðar. Snjór var á jörð allt frá Skagafirði til Austfjarða. Seinna í mánuðinum kom annað hret svo snjóaði niður að 100 metra hæð yfir sjávarmáli þ. 16. í Hornafirði
Fyrstu dagarnir í júní 1975 eru köldustu dagar að meðaltali sem komið hafa í júní á landinu frá 1949 og eflaust lengi þar á undan. Á Akureyri var meðalhitinn 1.-3. júní 0,1, -0,6 og 0,0 stig, en á Hallormsstað -0,7, -0,7 og -0,2 stig. Fyrir sunnan var miklu skárra en mjög kalt eigi að síður. Júníkuldamet voru sett á mjög mörgum stöðum. Hæð var yfir Grænlandi fyrstu fimm daga mánaðarins og vindur milli norðurs og austurs og hitinn var 6-7 stigi undir meðallagi á öllu landinu. Nokkur snjókoma eða éljagangur var fyrir norðan og austan en talsverð sól á suðurlandi með næturfrostum, allt niður í 4,5 stig á Þingvöllum. Það var reyndar mesta furða hvað lítill snjór fylgdi þessu kuldakasti. Jörð varð alhvít víðast hvar einungis í einn dag en reyndar þrjá daga á Vopnafirði og við Bakkaflóa. Íshrafl var fyrir norðurlandi. Þann 4. mældist næst lægsti hámarkshiti á öllu landinu á nokkrum júnídegi frá 1949 (ásamt þ. 10. 1973) 9,0 stig á Mógilsá í Kollafirði.
En mesta frostið mælist ekki endilega í verstu júníhretunum sem mestur snjór fylgir. Hér verður sagt frá nokkrum öðrum vondum hretum þó ekki hafi fylgt þeim metfrost.
Svipmesta kuldakastið var það sem skall á aðfaranótt 4. júní 1997 þegar kólnaði norðanlands á tólf tímum frá vel yfir 20 stiga hita niður undir frostmark. Sagt var nokkuð frá þessu kasti í færslunni Hitabylgjur í júní þar sem hitabreytingin milli daga í kringum 1400 m hæð sést á kortum og hér fyrir neðan eru fleiri kort af þessum atburði. Fyrir norðan gekk á með éljum en sunnanlands létti til og voru þar talsverð næturfrost. Lægsti meðalhiti sólarhringsins í Reykjavík í júní, a.m.k. eftir 1935 og líklega miklu lengur mældist þ. 7. 1,7 stig. Þann dag var fór hitinn ekki hærra en 4 stig í borginni og lágmarkið var -0,7, sá lægsti í júní síðan Veðurstofan tók til starfa 1920. Minnir þetta á 3. júní 1890 þegar hámarkshitinn í Reykjavík var 3,5 stig en lágmarkið -1,8. Í Vestmannaeyjum mældist þ. 7. 1997 frost í fyrsta skipti síðan 1890, -1,4 stig er þetta reyndar mesta frost sem mælst hefur í Eyjum í júní frá upphafi mælinga 1878. Næsta morgun var jörð alhvít sums staðar á suðurlandsundirlendi, svo sem á Lækjarbakka, Hellu og í Þykkvabæ. Og líka á Neðri-Hóli á sunnanverðu Snæfellsnesi. Um nóttina varð alhvítt í Mýrdal en sá snjór var að mestu horfin kl. 9 að morgni þegar venjan er að meta snjóhulu á veðurstöðvum. Á hádegi þennan dag snjóaði í Reykjavík í tveggja stiga hita eins og sjá má á korti hér fyrir neðan. Ekki hafði fest snjó á suðurlandi í júní síðan 1952. Þann kalda júní mátti heita vetrarríki framan af fyrir norðan og að morgni þ. 2 var snjódýpt mæld 2 cm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Éljagangur var þá um allt land. Um sama leyti komu júníkuldamet á Hólum í Hornafirði og Fagurhólsmýri, -1,5 á fyrri staðnum, mælingar frá 1924, en -0,6 á þeim síðari, lágmarksmælingar 1903-2008 með nokkurra ára hléi.
Fyrsta júní árið 2000 var snjódýpt 1 cm að morgni á Kirkjubæjarklaustri en hvergi annars staðar nema á Möðrudal var þá snjór. Ekki hefur áður eða síðar verið hvít jörð á júnímorgni á Klaustri en hins vegar 31. maí 1936.
Mesta snjódýpt á Íslandi í júní var mæld hvorki meiri né minni en 96 cm þ. 1 árið 1995 á Kálfshamarskoti í Ólafsfirði. Næst mest snjódýpt var þ. 1. 1949 á Siglunesi, 70 cm. Í báðum tilvikum voru þetta eftirstöðvar af eldri snjóalögum.
Árið 1992 kom leiðinlegt Jónsmessuhret og snjóaði þá um allt norðurland og jafnvel í uppsveitum suðurlands. Alhvítt varð m.a. í Skagafirði og á Siglufirði. Meira að segja snjóaði efst í Breiðholti og Árbæjarhverfinu í Reykjavík um blánóttina þó sá snjór hafi horfið fljótlega eftir að sólin kom upp. Við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum var snjódýpt 14. cm þ. 24.
Mikið hret kom þ. 9. árið 1986. Lægð sem hafði verið milli Íslands og Noregs kom þá inn á austurland og snjóaði á norðurlandi en él náðu allt til suðvesturlands. Næstu nótt varð jörð í Reykjavík alhvít í þrjá tíma frá kl. 3 til 6. Á Eyvindará við Egilsstaði var snjódýpt 7 cm klukkan níu þ. 10. Kuldinn í þessu hreti var kominn frá Kanadaeyjunum en ekki beint að norðan.
Eitthvert frægasta júníhret sem um getur kom á þjóðhátíðardaginn árið 1959. Lægð dýpkaði fyrir austan land þ. 16 og ollu mjög snörpu norðanáhlaupi, Um kvöldið og á 17. júní var norðanstormur og hríð um norðanvert landið en slydda eða rigning á austurlandi. Daginn eftir gekk veðrið niður. Fjárskaðar urðu allvíða fyrir norðan og fuglar drápust unnvörpum. Skip og báta tók upp í höfninni á Ólafsvík og bátur sökk út af Siglufirði. Símabilanir urðu fyrir norðan vegna símastaura sem brotnuðu. En ógurlegasta tjónið varð þegar varnargarður brast við Sogið og feiknarmikill vatnsflaumur sem barst gegnum jarðgöngin olli stórtjóni. Mest snjódýpt á landinu að morgni þess 17. var 20 cm á Hólum í Hjaltadal. Þetta var reyndar annað snjóahretið í þessum mánuði og hvítt varð í honum víða á Vestfjörðum og austur um norðurland allt að Dalatanga við Seyðisfjörð.
Árið 1951 kom mikið hret dagana 11. og 12. júní og snjóaði þá frá austfjörðum norður um land og allt suður í Borgarfjörð. Varð jörð þá alhvít víða fyrir norðan og í Síðumúla í Hvítársíðu var alhvítt einn dag. Það er eina skiptið sem jörð í Borgarfirði á veðurstöð er alhvít á júnímorgni frá því veðurathuganir þar hófust árið 1924. En í júní 1910 snjóaði þó í Borgarfirði framan af júní, síðast þ. 13.
Annað frægt snjóakast kom í júní árið 1946. Þann 6. var stórhríð á Siglufirði með hvassvirði af norðaustri og varð þar ökladjúpur snjór. A Mælifelli í Skagafirði var snjódýpt 15 cm þ. 9, sem var á hvítasunnudag. Fyrir austan land hafði þá verið einhver rosalegasta júnílægð sem komið hefur og olli fárviðri á hafinu. Hún olli hér norðaustanátt ásamt hæð sem var yfir Grænlandi.
Fyrstu dagana í júní 1943 voru kuldar miklir en þurrvirði. Þá mældist mesta frost sem komið hefur í júní á Akureyri, -3,0 stig þ. 5. Á nokkrum öðrum stöðum, sem lengi hafa mælt, hefur heldur ekki orðið kaldara í júní: -5,5 stig í Miðfirði, -4,3 í Skagafirði, -5,1 við Mývatn, -5,3 á Úthéraði og -5,0 á Þingvöllum.
Árið 1932, sem þó var hlýr júní þegar upp var staðið, komu þó tvö alvarleg snjóahret. Þann 10.-11. hvítnaði ofan að snjó víða norðanlands og sunnanlands hvítnaði í fjöll og svo seint sem þ. 27.-29. snjóaði víða fyrir norðan í hvassvirði svo hvítt varð sums staðar.
Í júní 1930 gerði illviðri af norðri um allt land þ. 10.-11. Fuku þá yfir þúsund tjöld á Þingvöllum þar sem menn undirbjuggu Alþingishátíðina og setti niður allmikinn snjó norðanlands svo fjárskaði hlaust af. Síðar í mánuðinum, þ. 26. kom annað norðankast og snjóaði þá í fjöll og var krapahríð í byggð á stöku stað vestanlands en ekki festi þann snjó.
Það fræga ár 1918 komu hret í júní bæði um miðjan mánuðinn og í lok hans.
Þann fyrsta júní 1890 kom ákaft íhlaup um land allt með fannkomu og norðanveðrum. Hnédjúpur snjór kom jafnvel við sjóinn á norður- og austurlandi og fé fennti á afréttum. Hret þetta stóð í heila viku.
Kalda sumarið 1882 voru hrímþokur algengar fyrir norðan fram í síðustu viku júní með fannkomu og á vesturlandi héldust hríðar fram í miðjan mánuð. Frost voru viðvarandi, jafnvel um hábjartan dag þar sem kaldast var.
Um miðjan júní 1879 gerði stórhret og króknuðu þá kindur jafnvel milli bæja úti við sjó.
Síðari hluta mánaðarins árið 1874 voru kuldahret við og við fyrir vestan, norðan og austan með snjó niður í byggð.
Harðindi voru fram eftir sumri árið 1869 í Þingeyjarsýslum og 12. júní kom hríð svo fé fennti.
Á suðurlandi voru skaflar sums staðar enn á túnum í byrjun júní harðindaárið mikla 1859 og ekki var stunguþýtt í görðum um Jónsmessu.
Eftir Jónsmessu árið 1853 gerði norðankast mikið norðanlands og vestan með snjó.
Norðanhreti með kulda, sem hófst með ofsaveðri og fannkomu í maí 1851 linnti ekki fyrr en um miðjan júní.
Svo illa voraði árið 1835 að hestum ferðamanna var gefið fóður í jafn veðursælli sveit og Eyjafjöllum í fyrri hluta júní. Snjóaði í fjöll á suðurlandi framundir Jónsmessu og þá gengu frost til fjalla svo fatnaður ferðamanna stórgaddaði á Hellisheiði 17.-18. júní.
Hríð mikla gerði á norðurlandi 12. júní 1830 og varð grasafólk að flýja til byggða.
Árið 1773 komu stóráföll eftir þing með snjó og fjúki svo lá við að þingmenn að norðan yrðu úti á fjöllum. Hríð þess stóð í sex daga.
Frá enn fyrri öldum er lítið um heimildir um kulda í júní en þó er þess getið að fáir komu til þings árið 1648 vegna mikillar ófærðar og var þá hallæri á landinu.
Áður en veðurfar tók að hlýna almennilega upp úr 1920, en áður hafði hlýnað nokkuð frá því um 1890, var hafís svo algengur við landið í júní og raunar allt sumarið á nítjándu, átjándu og sautjándu öld að það verður steint upptalið. Fylgdi ísnum oft kuldar miklir og hríðar fyrir norðan og austan.
Heimildir: Veðráttan; Þorvaldur Thoroddsen: Árferði á Íslandi í þúsund ár; Trausti Jónsson: Veður á Íslandi í 100 ár, Morgunblaðið í júní 1946.
Hér fyrir neðan má sjá Íslandskort frá hádegi nokkra þeirra köldu júnídaga sem minnst er á og háloftkort frá því kringum 1400 m hæð eða 5000 m. Á þeim síðartöldu má líka sjá loftþrýsting við sjávarmál.
Flokkur: Bloggar | 28.6.2008 | 15:10 (breytt 28.10.2008 kl. 22:27) | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Athugasemdir
Rosalega er gaman að þessari samantekt og fróðleg er hún líka. Með beztu kveðju.
Bumba, 28.6.2008 kl. 19:12