Dauðinn

Athyglisverð skoðanaskipti hafa farið fram í Morgunblaðinu um það atvik þegar ungmenni sem vinna í kirkjugörðum Reykjavíkur var leyft að skoða þar lík í líkhúsi.

Kristján Valur Ingólfsson hjá Biskupsstofu er harðorður: "Látinn maður á að njóta sömu virðingar og hann gerir meðan hann er á lífi. Þar af leiðandi getur látinn maður aldrei verið sýningargripur." Og hann bætir við:  

"Þarna er verið að fara með fólk sem á ekkert erindi inn í líkhús í þeim tilgangi að sýna þeim lík [þegar ungmennin skoðuðu lík]. Þegar prestsefni eru þjálfuð fara slíkir nemar í líkhús og það er hluti af þeirra námi. Að mínu viti ætti það ekki að vera leyfilegt að fara með hóp inn í líkhús í þeim tilgangi að sýna látið fólk. Í slíkum tilfellum er verið að sýna persónur og þessar persónur njóta friðhelgi, rétt eins og venjulegt fólk. "

Í blaðinu er einnig vitnað í bloggfærslu Karin Ernu Elmarsdóttir sem skoðaði lík í líkhúsum kirkjugarðanna Þegar hún vann þar sem unglingur. Hún segir:

"Á þessum tíma hafði ég aldrei farið í jarðarför, hvað þá séð látna manneskju og ákvað eftir nokkra umhugsun að fara í ferðina. Kvíðinn magnaðist upp er við komum að líkhúsinu, en ég fór samt inn. Þar sá ég látinn mann í fyrsta skipti. Þetta var allt öðruvísi en í bíómyndunum. Hann var nokkuð fallegur og undarlegur friður yfir manninum. Ég rétt þorði að koma við hann með einum putta. Hann var ískaldur. Mér var kalt á puttanum í langan tíma á eftir. Allir í hópnum sýndu hinum látna mikla virðingu og auðvitað var mér svolítið brugðið við þessa lífsreynslu, enda ung að árum. En með þessari ferð öðlaðist ég nýja sýn á dauðann og virðing mín fyrir þeim látnu og aðstandendum þeirra jókst til muna."

Morgunblaðið skrifar í dag leiðara um þetta mál. Það efast ekki um að starfsmenn kirkjugarðanna og unga fólkið sýni hinum látnu fyllstu virðingu og það held ég líka. En blaðið spyr hvort aðstandendur hinna látnu þurfi ekki að gefa samþykki sitt fyrir svona heimsóknum. 

Þó slík athugasemd sé eðlileg vil ég samt spyrja: Leita hópar presta, sem skoða lík í líkhúsum í námi, slíks samþykkis? Er nokkur munur á þeim heimsóknum og heimsóknum ungmennanna? Er ekki hægt að  rökstyðja heimsóknir þeirra síðarnefndu í líkhúsin með því að þau séu í vinnu sinni hjá kirkjugörðunum að kynnast raunveruleikanum í sambandi við dauðann og lík framliðinna, eins og Karin Erna lýsir einmitt svo fallega?

Nú á dögum er dauðinn sveipaður bannhelgi.  Við sjáum hann næstum því aldrei í raunveruleikanum en erum orðin háð falsmyndum kvikmyndanna. Og við erum hrædd við ásýnd dauðans. En það er ekkert að óttast. Oft er ótrúlegur friður yfir dánu fólki, þess eðlis að hann birtir einmitt þeim sem sjá hann aðra og huggunarríkari mynd af dauðanum en okkur er kannski tamt að halda að óreyndu. 

Mér finnst þetta mál ekki vera þess eðlis að hneykslast beri á því. Þvert á móti finnst mér þetta framtak kirkjugarðanna einföld og falleg leið til að kynna ungdómnum þá ófrávíkjanlegu staðreynd að við eigum öll eftir að verða liðið lík.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

...og til að mismuna nú ekki blessuðu ungmennunum væri þá ekki rétt að allir grunnskólanemar landsins ættu rétt á hópferðum í líkhús til að skoða og pota með puttunum í lík af fólki sem þau þekktu ekkert til í lifanda lífi þeirra

Eva Sólan (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 15:57

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

sammála þér Sigurður.

skil ekki kommentið hér að ofan, enda grunnskólanemar ekki starfsmenn kirkjugarðanna.

Brjánn Guðjónsson, 11.7.2008 kl. 16:18

3 identicon

Lík í líkhúsum eiga ekki að vera sýningargripir. A.m.k. frábið ég mér að ég sé höfð til sýnis dauð og hið sama á við um látna aðstandendur mína. Það má ekki nota varahluti úr dánu fólki nema það hafi samþykkt það, en það má sýna unglingum líkið af manni! Er ekki eitthvað bilað við þetta? 

Ég held að það sé bara klisja að dauðinn sé "sveipaður bannhelgi". Er ekki endalaust verið að velta sér uppúr dauðanum, t.d. í minningargreinum og á allrahanda bloggsíðum svo fátt eitt sé nefnt?

Og svo tek ég undir með Evu: Hafi ég rangt fyrir mér og ef þetta er virkilega svona þroskandi og gott framtak þá er kannski best að setja líkskoðun bara inn í námsskrána svo allir fái að sjá sinn skammt af  ísköldu og rotnandi mannsholdi.

Þórdís (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 16:18

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki athugasemdina um rotnandi manshold, tel að með slíku orðavali sé viðkomandi að sýna afar mikið viðringarleysi gagnvart hinum látnu.

Ég tek að öðru leyti undir færslu Sigurðar. Það getur varla verið slæmt að ungt fólk sem vinnur við að sinna leiðum ástvina okkar fái að sjá og kynnast öðrum hlutum starfsins í kirkjugörðum. Ég er líka sammála því að við höfum gert dauðann að einhverju sem er okkur flestum órafjarri en ekki einhverju sem er eðlilegur hluti af lífinu. Sigurður, takk fyrir færsluna.   

Ég sé slíkar heimsóknir ekki sem vanvirðingu við látinn einstakling ef vel er að verki staðið.  

Kristín Dýrfjörð, 11.7.2008 kl. 16:35

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir færsluna Sigurður. Ég er sammála þér.

Mestu varðar að þeir sem sjá um þessa starfskynningu geri það af tilhlýðlegri virðingu fyrir verkefninu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.7.2008 kl. 16:46

6 identicon

Mér finnst nákvæmlega ekkert að því að tala eða skrifa um að hold rotni eftir að fólk deyr, slíkt er bara staðreynd og ekki vitund óviðeigandi eða skortur á virðingu að tala blákalt um það.

Hins vegar finnst mér skortur á virðingu við látna og aðstandendur þeirra að bjóða ókunnugu fólki í skoðunarferðir í líkhús.

Þórdís (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 16:47

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér er þetta síður en svo eitthvert hjartansmál. Og mér ekki fast í hendi. Ég skil svo ekki almennilega alvöruþungan í athugasemd Evu frænku þó dauðinn sé reyndar alvörumál. Þarna er ekki um að ræða hvaða hópa sem er heldur er þetta unga fólk starfsfólk kirkjugarðanna. Hins vegar er því alls ekki að leyna að ég er svo feiminn og hvumpinn að ef ég lægi svona steindauður (og allsber að auki) á líkbörunum og inn kæmi hópur fólks eða jafnvel presta myndi ég snarlega rísa upp við dogg og spyrja höstulega: Á hvað eruð þér að glápa, þér lifendur?!

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.7.2008 kl. 17:19

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, og Þórdís! Ég var nú bara farinn að halda að þú værir dauð!

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.7.2008 kl. 17:28

9 identicon

...ég verð víst að játa þá þröngsýni að það hefur hreinlega aldrei hvarlað að mér að  ungmenni í sumarvinnu í kirkjugörðunum vinni sín störf innan um líkin.  Hef einhvern veginn gengið útfrá því að þau gróðursetji blóm og fjarlægi illgresi utandyra, eins og önnur ungmenni á skólaaldri í bæjarvinnunni.

Bráðfyndin athugasemd með spéhræðsluna frændi! Það skyldi þó ekki vera rót afstöðu minnar :) 

Eva Sólan (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 18:56

10 identicon

Mér finnst ekkert virðingarleysi að tala um rotnandi mannshold.  Staðreyndin er sú að rotnunarprocess líkamans hefst um leið og manneskjan gefur upp öndina - rétt eins og hjá öllum öðrum lífverum.  Þetta kallast hringrás náttúrunnar.

Hins vegar þá hugnast sjálfri mér lítt að vera nakinn sýningargripur - hvort heldur ég er dauð eða lifandi.  Líklega er það bara feimni og spéhræðsla í mér.  Nú veit ég ekki smáatriðin í atvikinu sem Mbl fjallar um.  Var líkið til sýnis allsnakið eða í fötum - vað aðeins andlit og höfuð sýnt eða allur líkaminn?  Þetta finnst mér skipta máli.

Bestu kveðjur til Mala

Helga (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 21:36

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Kannski er maður soldið rotinn karakter líka!

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.7.2008 kl. 23:15

12 identicon

Við  gætum kannski náð lendingu í þessu líkskoðunarmáli ef séð verður til þess að Alþingi setji lög um um leið og maður gefi upp öndina verði hræið af viðkomandi vafið með sárabindistrafi einsog múmía, frá stórutá og uppúr (og endað í krókfaldi). Þar með verður tryggt að enginn verði rannsakaður steindauður og allsber af garðyrkjuunglingum eða öðrum hópeflislíkskoðunargrúppum.

Þórdís (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 02:02

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En ég get ekki skilið hvers vegna prestsefni fá að skoða líkin. Er það ekki alveg eins brot á friðhelgi? Hrokafullt viðhorf biskupsmannsins æsti mig upp til andstöðu. En heldurðu ekki Þórdís að við verðum falleg lík? Ég tala nú ekki um ef við göngum aftur og fylgjum  áglápendum okkar í ellefta lið. Annars hef ég fyrir löngu gefið þau fyrirmæli að ég verði endurunninn í Sorpu þegar ég verð dauður og gerður að áburði fyrir lífsgróandann.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.7.2008 kl. 11:53

14 identicon

Auðvitað eiga prestsefni ekkert að fá að skoða lík frekar en aðrir. Og ég þarf heldur ekki neinn prest nálægt mér þegar ég er dauð. Ég held að fólk sé dautt þegar það er dautt og enginn möguleiki á afturgöngu. En við verðum örugglega dásamlega fögur lík!  Væri hægt að biðja um að vera heygður einhversstaðar úti í móa alveg án afskipta presta?

Þórdís (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 15:23

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér er alveg sama hvað þú segir Þórdís. Ég ætla að ganga aftur ljósum logum! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.7.2008 kl. 15:47

16 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Það er kannski vissara að tala varlega hérna á blogginu ef þú skyldir ná að standa við hótunina

Finnur Hrafn Jónsson, 12.7.2008 kl. 16:14

17 identicon

Ég skal sættast á múmíuvafninginn frá hvirfli til ilja.  Að því loknu má nota mig sem sýningargrip við öll hugsanleg tækifæri að mér látinni - og jafnvel pota í mig líka ef þurfa þykir .  Prestsefni eru þar ekkert endilega undanskilin.

 til Mala

Helga (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 16:34

18 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Talandi um lík og virðingu fyrir hinum framliðnu: Ég gleymi því aldrei þegar ég sá vindþurrkaða manninn á British Mueseum. Hann var eitthvða um fimm þúsund ára gamall og hafði varðveist svona vel af því að hann var vindþurrkaður og sandblásinn en var ekki múmía. Skrokkurinn heill og glansandi. Nú var hann til sýnis á British Musuem og miljónir manna gláptu á hann á hverju ári. Hann lá á hliðinni og sá upp í rassgatið á honum í bókstaflegri merkingu, það var svona svört hola á þeim stað. Ég hef oft hugsað um einkennileg örlög þessa mans em eflaust var allra bænda prýði í sinni heimasveit. Ekki grunaði hann á velmektardögum sínum að rassgatið á honum ætti eftir að vera til sýnis fyrir gesti og gangandi á sjálfu British Muesem. Deyr fé ... En orðstírr deyr aldregi hveim sér góðan getr. Og ég spyr: Ef Þórdís og Eva Sólan álpuðust nú inn á British Mueseum ætli þær myndu þá loka augunum þegar þær kæmu að þessu rassgatsmanni, ekki kíkja smá? Hvað með friðhelgi þessa mæta fornmanns. Er hún einskis virði? Shit!   

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.7.2008 kl. 17:39

19 identicon

Hó hó, ég hef sko heldur betur komið í British Museum og skoðað mýramenn og múmíur og líka safnið í Silkiborg þar sem hausinn af tollundmanninum er varðveittur rauðbrúnn og skorpinn. Og ég velti því sko alveg fyrir mér hvað mér fyndist um að vera geymd svona dauð í safni (og væri ekki hrifin af því).
En mér finnst að það mætti setja skoðunarmörkin við svona tvö þúsund ára gömul lík. Þá eru örugglega allir búnir að gleyma manni sem persónu og allir nánustu ættingjarnir og afkomendur dauðir líka.

Þórdís (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 19:56

20 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég hef líka séð Siliborgarkallinn. En hann var penn og ekki með rassgatið út í loftið. Svo held ég að þú gleymist aldrei!

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.7.2008 kl. 20:16

21 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, þetta er bloggsíða hinnar djúpu og altæku umræðu!

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.7.2008 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband