23.7.2008 | 14:40
Hryllileg hryllingssaga af honum Mala
Hér kemur hreint alveg svakaleg hryllingssaga af honum Mala.
Eins og ég hef sagt áður er hann harðskeyttur köttur. Hann er oft að glefsa í mig og læsa í mig klónum en mér hefur þó ekki verið bráður bani búinn.
En hvað haldiði! Í gær eftir að ég var kominn upp í rúm kom hann upp í rúmið og var allur hinn ískyggilegasti, grimmdarlegur mjög og með eyrun aftur eins og fjúkandi vondir kettir eru vanir að vera. Hann lagðist samt niður á sængina en ég var að lesa - veðurfræði, hvað annað. En allt í einu vissi ég ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar Mali stökk á beran handlegginn á mér með kjafti og klóm og læsti tönnunum djúpt í mitt veika hold. Ég var bara góða stund að hrista af mér kvikyndið. Ég er með þrjú djúp bitsár og átta klórrispur. Ein rispan er beint yfir púlsinum. Ég hef mjóa handleggi, hálfgerða spóaleggi, og ef hann hefði náð að bíta á lífpúlsinn væri þessi saga blogguð að handan.
Dýralæknar segja að kattabit geti verið hættuleg og maður eigi að fara á slysavarðstofuna ef maður verður fyrir biti bandóðra katta og fá sprautu við stífkrampa. En ég fór samt ekki enda var komin niðdimm nótt og margt óhreint á sveimi. Ég lagði sem sagt mitt litla líf að veði fyrir hann Mala.
Mér er mjög brugðið yfir þessu. Nú skil ég hvers vegna hún Tóta pönkína sagði um mynd af Mala að hún yrði hrædd um að þetta villidýr biði færis um að bita mann á hálsslagæðina. Hvað ef Mali gerir nú einmitt það? Þá yrði nú aldeilis blóðbað. Ég messaði náttúrlega yfir Malanum og sýndi honum mínar blæðandi benjar en hann lét sér hvergi bregða og var hinn forhertasti. Ég lokaði hann svo úti frá svefnherberginu það sem eftir var nætur. Í dag er hann með allra kelnasta móti og einstaklega fleðulegur en býður eflaust færis á að bíta mig á barkann.
En ég spyr: Hvað er eiginlega um að vera og hvað á ég nú að gjöra? Monsjör Mali var ekki að leika sér heldur var þetta fyrirvaralaus og grimmileg hryðjuverkaárás. Hann læsti alveg í mig hvössum klónum og þessum líka forynjulegu vígtönnunum og ég var lengi að losa mig við þær í dauðans angist og sárri neyð.
Hvað segja aðdáendur Mala um þessa skammarlegu og villimannslegu framkomu- villidýrslegu framkomu vildi ég sagt hafa. Svona gera dýr bara ekki nema örgustu siðleysingjar, hermdarverkadýr og síkópatar.
Hér er svo mynd af bévítans óargadýrinu í lymskulegum árásarham.
Meginflokkur: Mali | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 6.12.2008 kl. 20:29 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Athugasemdir
Þú hefur ugglaust verið að lesa um slagviðri og djúpar lægðir í rúminu. Svoleiðis veður hleypir alltaf illu blóði í ketti. Mundu það framvegis að lesa einvörðungu um veðurblíðu þegar Mali er nálægur. Annars gæti illa farið.
K.S. (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 15:37
Er hann ekki bara að leika sér litla Malaskinnið? Litli prinsinn er ennþá mjög ungur og lítt lífsreyndur og hefur ekki enn lært hvað hann má (ekki) ganga langt í leiknum. Kisan mín gerði þetta stöku sinnum þegar hún var yngri og ég var lengi alltaf útklóruð á báðum handleggjum - hún er löngu hætt þessu núna. Hún beit nú reyndar aldrei svona djúpt eins og þú lýsir þessu - það var meira eins og nart. Ég held að litli prinsinn eigi eftir að vaxa uppúr þessu. Þetta er ungt og leikur sér eins og einhver sagði.
En ég held þú ættir að fá þér stífkrampasprautu við þessu - og það nú þegar! Ég er ekki viss um að það sé orðið of seint. Það skaðar allavega ekki að hringja á Slysó og tékka á því. STRAX!!
Helga (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 16:01
Mér líst ekkert á þetta! Hlýddu Helgu og farðu strax í sprautu - svo skaltu íhuga hvað olli upphlaupi Mala og hvort þetta sé alvarlegt.
Lára Hanna Einarsdóttir, 23.7.2008 kl. 16:04
Er líkt með Mala og því að vera borgarstjóri?:
Dagblaðið Vísir fjallar árið 1927 um borgarstjórann í Reykjavík á þennan veg:
Borgarstjórastaðan er vafalaust einhver örðugasta og argasamasta staða hér á landi, og má einatt búast við, að sá sem í henni situr, verði fyrir fjandsamlegum árásum og hörðum dómum. Knud Zimsen hefur og ekki farið varhluta af árásunum. En hann hefur tekið öllu slíku með karlmennsku, gengið glaður og reifur til orustu við andstæðinga sína, en verið sáttfús og glaður sem fyrr að fengnum sigri eða töpuðu máli.- Hann hefur þótt örðugur mótstöðumaður, vel máli farinn, kappsamur við hóf, fundvís á rökvillur andstæðinganna, hverjum manni kunnugri högum bæjarfélagsins og hefur greið svör jafnan á höndum.- Hefur hann á stundum átt allmjög í vök að verjast í bæjarstjórninni, er jafnaðarmönnum hefur þótt hann þungur fyrir og íhaldsamur, en ekki trútt um, að hinum hafi þótt hann sveigjast um of í frjálslynda átt.- Mun og sönnu næst, að hann hafi hin síðari árin viljað standa á milli öfganna og reynt að nýta hið besta úr tillögum beggja flokka.
Knud Zimsen lést í Reykjavík 15. apríl 1953.
PS. Álitið er að greinarhöfundur hafi hitt naglann á höfuðið er hann skrifaði ofangreindan kafla í Vísir 1927.
Árni Kr Þorsteinsson, 23.7.2008 kl. 16:09
Þú verður að láta gelda dýrið. Fresskettir geta orðið mjög grimmir ef þeir eru ógeltir. Að sama skapi breytast þeir í rólynd og óáreitin letidýr um leið og kúlurnar eru farnar. Nú er þitt að vega og meta hvernig kött þú kýst að hafa fyrir félaga.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.7.2008 kl. 17:14
Það er búið að gelda hann Mala. Við hysterísku aðdáendur hans þekkjum alla hans stuttu kattasögu frá upphafi.
Helga (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 17:42
Eins og ég sagði vð þig Siggi, fyrir löngu síðan er Mali mjög líklega, af bengal kattakyni, þó nokkuð blandaður sé. En bengalkettir eru villtir kettir úti í náttúrunni og lifa flestir sínu villta lífi í sínu náttúrulega umhverfi.
En doppurnar á´þeim þóttu svo fallegar að farið var blanda þeim saman við vissar aðrar tegundur tamdra og hreinræktaðra katta
Útkoman varð sú að fram komu margskonar litbrigði af doppóttum köttum og einnig önnur mynstur, eins og t.d. hið flotta marmaramunstur.
Doppóttu afbrigðin geta verið bæði hvítir kettir með svörtum doppum og einnig rauðir með svörtum doppum, en þannig rauðdoppóttan kött, gaf Fjölnir hinn frægi, sinni heittelskuðu Mel B., fyrrverandi kryddpíu á sínum tíma.
Og þetta eru sko rándýrir og fínir kettir, já, það held ég nú.
En gallinn við þessa ketti er aftur á móti sá, sagði mér nafnkunnur dýralæknir sem ég hef mikil samskipti við vegna veikinda Títós míns, að grimmdareðli hinna upphaflegu villtu forfeðra bengalkattarins, geta komið fram í sumum tömdum afkomendum þeirra.
Vona samt að þetta sé bara einstakt tilfelli og þetta eldist af hinum maliciousa Mala. En ekki myndi ég þora að hafa hann inni í svefnherbergi framvegis.
En það væri ráð þó dýrt sé að kaupa handa Mala veglega risastóra kattaklóru á tveimur hæðum og með ótal pöllum, hengirúmi og kössum með gati til að skríða inn í. þær fást t.d. í Garðheimum og örugglega hægt að borga þær með raðgreiðslum, eða afborgunum.
Tító og Gosi eiga svona svipaða tveggja hæða kattaklóru út á yfirbyggðu svölunum og þeir elska að leika sér í henni og sitja á efsta pallinum og spá þar og spekúlera, meðan þeir virða fyrir sér útsýnið.
Kettir vilja vera hátt uppi og hafa góða yfirsýn yfir ríki sitt og þeir þurfa að hafa eitthvað til þess að leika sér í og klifra í þegar þeir komast ekki út.
Mali getur einfaldlega verið orðinn hálfbrjálaður úr leiðindum, því hann er svo ungur og þarf eitthvað meira til að dreifa huganum, en að leika ser stundum við þig, Siggi minn.
Farðu svo og láttu sprauta þig gegn stífkrampa og ekki gleyma, að til er það sem kallst, 'scratching fever', sem er viðvarandi, frekar llágur, sótthiti sem getur lagst á fólk sem er oft klórað af köttum. Kettir bera nefnilega bakteríur t.d. úr kattasandinum, undir klónum á sér.
Svo ætla ég ekki að hræða þig meira og vona bara, að ykkur Mala semji vel framvegis.
Svava frá Strandbergi , 23.7.2008 kl. 17:50
Ég á góðan vin (högna) sem heitir Bjartur. Eigandi hans hefur dekrað hann á allan máta, hleypur út í fiskbúð þrisvar á dag og svona ef Bjartur mjálmar sárt. Hann launar ofeldið stundum með svona hegðun, bítur og klórar upp úr þurru, sérstaklega ef nýbúið er að klappa honum mikið. Bjartur er reyndar útiköttur sem fær næga hreyfingu og hellings tilbreytingu. Þú brást hárrétt við með því að loka hann frammi, þá veit hann að þú samþykkir ekki þessa hegðun. Gangi ykkur vel.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 23.7.2008 kl. 18:30
Ég er bara alveg skelfingu lostin. Í stífkrampasprautu strax! Aldrei hagaði Skúli skræfa minn sér svona nema í eitt sinn. Við fórum í ferðalag og góð vinkona mín gaf honum meðan við vorum í burtu. Þessi góða kona heimsótti okkur svo eitt kvöld er við vorum komin til baka. Skúli skræfa hafði verið á kvöldgöngu er hún kom. Þar sem við sitjum í friðsemd í stofu, drekkandi kaffi, skýst hann inn um gluggann og hoppar niður á stofugólfið, sér konuna stekkur á hana og bítur illilega í fótlegginn. Þetta voru nú allar þakkirnar! Kannski hefurðu bara verið of góður við Mala.
María Kristjánsdóttir, 23.7.2008 kl. 18:36
Hvað með að láta stoppa Mala upp? Ég á tvo ketti hérna sem ég er að spá í að láta stoppa upp vegna ofnæmis yngri sonarins. Við fáum kannski magnafslátt hjá hamskera.
Þórdís (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 18:37
Nú er ég búinn að láta sprauta mig fyrir stífkrampa og fékk auk þess ekstra sprautur fyrir ginklofa, geðklofa, litla-klofa og stóra klofa. Líka pensilín. Mali ætti því að geta rifið mig á hol með góðri samvisku án þess að eiga mikið á hættu. Mér finnst hann hins vegar alveg nógu hátt uppi svo að ég fari nú ekki að kaupa handa honum risaklóru til að dekstra hann. Ég ól hann upp með kristilegu hugarfari og guðsótta og þetta er árangurinn. Ég held að spankreyririnn sé úr þessu það eina sem mun kenna honum sína lexíu. Mál Mala the malicious er nú komið til meðferðar hjá Barnaverndarnefnd sem sér um málefni unglinga á refilstigum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 23.7.2008 kl. 18:41
Jæja, gott að heyra, ég anda léttar. Þá er að skella sér í atferlisfræði katta og komast að einhverri niðurstöðu. Ekki get ég hjálpað þér, því miður - ég kann ekkert á ketti. En þér ætti ekki að verða skotaskuld úr því að fá góð ráð með allt þetta kattafólk ýmis í kringum þig.
Lára Hanna Einarsdóttir, 23.7.2008 kl. 19:13
Er hann ekki bara að reyna að lifa upp til nafnsins (svo maður sletti nú smá dönsku hér)? Þýðir ekki mal vondur á frönsku?
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 23.7.2008 kl. 19:17
Svo er líka til grand mal og petit mal. Mali er nátúrlega grand mal þegar hann fær köstin sín.
Sigurður Þór Guðjónsson, 23.7.2008 kl. 19:23
Fínt mál. Allar .....klofasprauturnar búnar. Þá er bara fuglaflensusprautan eftir!
Hann Grand-Mali er kannski bara með unglingaveikina - hún getur víst tímabundið breytt hinu blíðasta ljúfketti í brjálað mótþróaketti.
Helga (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 19:44
Hvort verður Mali, kallaður, Grand Mal, eða Mali Malicious, eftir þetta?
Mér finnst bæði nöfnin jafngóð. Má ég spyrja hvað öðrum hysterískum aðdáendum Mala finnst?
Svava frá Strandbergi , 23.7.2008 kl. 20:22
Ég er ekki hýsterískur aðdáandi Mala Mislynda akkúrat núna eftir þennan skelfilega lestur. Kötturinn er ofbeldis.
Láttann ekki drepa þig Sigurður.
Nefndin
Jenný Anna Baldursdóttir, 23.7.2008 kl. 21:32
Halló, Sigurður Þór, ertu ekki örugglega þarna? það hefur ekki heyrst frá þér hósti eða stuna síðan 19:23. Nú er ég orðinn áhyggjufullur. Getur ekki einhver bankað uppá hjá honum til öryggis? HALLÓ? HALLÓ?!
Friðrik Þór Guðmundsson, 23.7.2008 kl. 22:59
Ætli Grand-Mali sé endanlega búinn að ganga frá föður sínum?
Halló! Halló!
Helga (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 23:22
Þegar ég les þessa lýsingu á árásinni betur - og í ljósi þess sem fram hefur komið að kötturinn er geltur - þá dettur mér helst í hug að hann finni einhversstaðar til. Lýsingin á yfirbragði hans þegar hann kom upp í rúmið gæti bent til þess að hann væri þjáður.
Láttu dýralækni líta á hann. Ég mæli með dýralæknastofu Dagfinns á Skólavörðustíg
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.7.2008 kl. 23:27
Dagfinnur dýralæknir er mjög fínn mæli með frænku minni þar.
Held samt að Mali sé að reyna að hafa af þér húsbóndavaldið. Hann ætlar að komast í konungsstólinn.
eða
Hann er kannski ofdekraður og orðin frekur á þig
Lilja Kjerúlf, 23.7.2008 kl. 23:52
Var þetta ekki bara stundar brjálæði hjá greyinu, láttu gelda hann og þá verður allt í gúddí.
Ásdís Sigurðardóttir, 24.7.2008 kl. 00:12
Mali er nýbúinn að fá heilbrigðisvottorð frá Dagfinni dýralækni og Dýraspítalanum líka fyrir annað álit. (Ég hugsa sem sagt vel um heilsu hans). Ég hallast að stundarbrjálæði eins og gerist stundum í Ameríku. Svo er líka hugsanlegt að hann sé Hornstrandarísbjörninn í dulargervi. Nú er ég að fara að sofa og skyldi ég nú lifa til morguns.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.7.2008 kl. 00:12
Ég er á sama máli og Ólína og held að það sé eitthvað að honum Mala. Vonandi er það eitthvað líkamlegt lítilræði sem má laga með góðu móti.
Því ekki get ég hugsað þá hugsun til enda, að Mali sé kannski búinn að missa vitð og sé orðinn geðveikur.
Og það búandi í þjóðfélagi þar sem geðfatlaðir standa svo höllum fæti, að samþykkt var með þegjandi þögninni, að þeir séu óhæfir til þess að taka þátt í Olympíuleikunum í Kína, eins og þú minntist svo réttilega á um daginn.
Svava frá Strandbergi , 24.7.2008 kl. 00:33
Mali hefur verið mjög sprækur og góður undanfarið og ekkert verið athugavert við hann. Ekki heldur í dag. Held að Helga hafi hitt naglann á höfuðið. Leikurinn fór úr böndunum. Hann er alltaf æstastur þegar ég fer í rúmið og stundum vaðið uppi en aldrei samt eins og í gær. Sé samt til með hann á næstunni. Kannski þarf að skola úr honum óþekekktarorminn. En annars hef ég nú mesta trú á spanskreyrnum ásamt völdum bænaversum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.7.2008 kl. 00:41
Fáðu þér hund til að koma skikki á köttinn. Ég hef hund í mínu svefnherbergi og kettirnir sofa í þvottahúsinu. Þannig haldast allir í prýðilegu jafnvægi í minni sveit. Vona að þið Mali sofið rótt í nótt.
Guðrún Markúsdóttir, 24.7.2008 kl. 00:43
Það verður enginn spanskreyr notaður á eðalköttinn Grand-Mala! Ég banna það hér með - og hananú!
Helga (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 00:58
Skondið að ég skyldi detta inná þetta blogg þar sem umræðan eru geðillir kettir, nákvæmlega það sem allt hefur snúist um á mínum bæ í kvöld. Hér búa nefnilega mæðgin. Frú Kattafatti og sonur hennar Stormur litli. Á hverju kvöldi stekkur Stormur uppí rúmið mitt þegar hann sér að ég er að búa mig fyrir nóttina til að vera viðbúin að geta glefsað í handlegg minn og spólað með afturfótunum þegar leikar fara að æsast. Oftast hvessi ég á hann og segi hátt og hvellt "Nei, ekki bíta". Stundum hefur það áhrif og leggst hann þá niður eins og lúpa þar ef hann ætlar ekki að láta úthýsa sér úr svefnherberginu.
Nema hvað Frú Kattifatti hefur gerst æ þunglyndari og geðillri í sumar. Hún urrar stöðugt og hvæsir á afkvæmið sitt. Honum má vart bregða fyrir þá er urrað og hvæst, svo mikið fer hann í taugarnar á henni.
í dag kom hún urrandi inn með svöðusár á eyra urrandi geðvond (hún eldar greinilega grátt silfur við fleiri ketti, Kannski allt kattarsamfélagið í nágreninu). Ég gerði að eyranu eins og mögulegt var. Auðvitað var mikið urrað og hvæst þar til litla frúin dirfðist að glefsa í handlegg minn. Betur fer var ég enn í flísinu. Svo hér í kvöld hefur stöðugt verið urrað, hvæst, slegist og einnig malað í kvöld og stundum allt í senn. Það er greinilegt að hér ríkið alvarlegur heimilisófriður og heimilisofbeld. Svo nú er að hætta að "kóa" með köttunum og á morgun mun frú Kattifatti fá tíma hjá Doktor dýra og viti menn nema ég reyni ekki að hafa uppá geðdýralækni. Gæti þetta ekki verið fæðingarþunglyndi á háu stigi? En ég held í fullri alvöru að eitthvað líkamlegt er að hrjá kisur sem eru pirraðir og geðillir á köflum. Hvernig erum við mannfólkið þegar við erum pirruð og geðill. Munurinn er að við hugsum öðrum þegjandi þörfina en kisurnar bara framkvæma.
(Þetta átti ekki að vera svona langt
Jóhanna Garðarsdóttir, 24.7.2008 kl. 01:42
uss bara unglingaveikin á háu stigi...setja hann í skammarkrókinn...
alva (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 02:31
Helga: Þá er það bara guðsorðið. Það gerir sama gagn. Guðsótti, agi og undirgefni. Þrenning helg og ein. Jæja, best að segja sem minnst um guð svo fjandinn verði ekki laus.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.7.2008 kl. 09:54
Hvað ertu að gera með snaróðan kött Sigurður? Þú verður bara að prufa að ráðast á hann og bíta hann fast í skottið!
Heiða B. Heiðars, 24.7.2008 kl. 11:07
Mali hefur einmitt verið alveg sérstaklega góður og fínn köttur þar til hann tók þetta æðiskast. En hann er enn móðgðaur út í mig fyrir að hafa hent honum út úr svefnherberginu.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.7.2008 kl. 11:13
þú þarft enga sprautu - en það er gott að hann sé móðgaður, kannski skammast hann sín?
Kassí og Karí biðja ekki að heilsa Mala fyrren hann hefur iðrast... en við erum allar vongóðar um að það gerist fyrr en seinna. Cats will be cats
p.s ég hef aldrei heyrt það áður að fólk þurfi stífkrampasprautu ef kettir bíti það (nema kannski hugsanlega ef bítarinn væri skítugur villiköttur..) eru það ekki bara borgarbúar sem eru með dýralækna á hverju horni sem láta sér detta það í hug??? ég veit svosem af eðlisávísun að kattabit geta verið hættuleg en öll þau sem ég hef orðið vitni að eða heyrt um hafa sem betur fer endað vel. Ég er ekki að segja að það borgi sig ekki að fara varlega en Mali er þar að auki inniköttur, hvaða pestir gæti hann borið?
halkatla, 24.7.2008 kl. 13:52
Ég segi það nú Anna Karen. Ég lét bara sprauta mig í rassgatið vegna fjölda áskorana bloggvinanna. Mali er enn móðgaður. Nema hann sé í rauninni umskiptingur.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.7.2008 kl. 15:03
Þegar kisustrákurinn minn var í kringum 2-3 mánaða var rosa mikill leikur í honum og alltaf lang skemmtilegast að leika á kvöldin og á nóttunum, sérstaklega fannst honum gaman að ráðast á tærnar manns ef maður hreyfði lappirnar eða tærnar gægðust undan sænginni..... ráðið sem ég brá á var að fara í peysu, setja hana yfir hnúann og vefja utan um hendina trefil og leika við hann áður en ég fór að sofa og lék við hann þangað til hann var búinn á því af þreytu. Ég leyfði honum að bíta og klóra eins og hann mögulega nennti og gat. Það gaf honum mikla útrás! Það er bara svona með þessa litlu kettlinga og þá sérstaklega högnana að þeir eru með svo mikið veiðieðli í sér og verða að fá einhverja útrás, þá líta þeir mjög mikið fyrir að vera grimmir og andstyggilegir.
Þegar hann varð aðeins eldri lét ég gelda hann og hann varð ljúfur eins og lamb eftir það og nennir varla að leika sér en það kemur alveg stundum fyrir að hann fái einhverja þörf fyrir að bíta mann og naga en hann ræðst ekki á mann bara allt í einu. Svo er eitt sem mér finnst vera algjör nauðsyn fyrir ketti það eru svona háar kisuklórur sem eru búnar til úr teppi og kaðalspottum... vitiði hvað ég meina? þetta er rosa gott fyrir kettina til að klóra í og það hjálpar þeim að endurnýja klærnar....... kötturinn minn hætti alveg að klóra í sófann, rúmið og teppin hjá mér og ég finn það að eftir að kötturinn minn fékk svona apparat þá líður honum miklu betur. líka er gott að gefa köttum harðfisk kisunammi, 2-3 stk á dag, þá verða þeir alveg extra elskulegir við mann ;)
Díana (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 15:33
Uss finnst mér nú Mali hálf brjálæðislegur á þessari mynd er hún tekin fyrir eða eftir árás ?
Ég á högna sem verður 1 árs í næsta mánuði, hann á til villidýrið að gera skyndiárás á tærnar á heimilisfólkinu þannig að oft má sjá hoppandi og argandi fjölskyldumeðlimi með hann hangandi á tánum, en ég verða að segja það að árásin sem þú varðst fyrir er doldið skrítin og þar sem að Mali er nú soddann öðlingur gerir málið enn dularfyllra
Didda, 24.7.2008 kl. 16:19
Nú held ég að Mali sé loksins orðinn afmóðgaður og er í megaæðiskasti og klifrar upp í loft eftir dyrakörmunum. Svo lætur hann skína í vígtennurnar til að minna mig á að hann sé stolt villidýr sem best sé að vara sig á. Ég læt sem ég sjái hann ekki en þá er hann vís með að verða bara aftur móðgaður.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.7.2008 kl. 18:08
Ég kannast við þessa lýsingu á megaæðiskastinu! - það hafa óteljandi slík átt sér stað hérna á heimilinu í gegnum árin. Krílið fer í villidýraleikinn til að láta mig halda að hún sé skelfilegt og ógnandi veiðidýr - en flýr svo undir rúm í ofboði með skottið á milli lappanna ef hún sér svo mikið sem eina kónguló á svæðinu! Mega hryllilega rándýrið mitt!
Eru það ekki þessi litlu, hversdagslegu atvik í kringum þessi kríli sem gefa lífinu gildi? Það held ég nú.
Helga (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 19:04
Það er nú líkast til.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.7.2008 kl. 19:35
Hér eru margar gervilegarmýs sem hann lítur ekki lengur við. Hann vill bara veiða mig. Ég er alltaf að klappa honum og segja hvað hann sé grimmur og vasklegur köttur og mikill föðurbetringur. En kannski hefur hann tekið hrós mitt og uppörvun helst til bókstaflega.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.7.2008 kl. 22:29
http://www.flickr.com/photos/dallaportfolio/2671256434/
hér er líka mynd af tveimur villtum kisum þeim Gunna Óla og Sigga Óla
María Kristjánsdóttir, 25.7.2008 kl. 01:01
Ert þú kannski svolítið músalegur? rottan þín!
Beturvitringur, 25.7.2008 kl. 01:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.