Líf án ástarinnar

Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að um það bil 3% fullorðins fóllks, af báðum kynjum, hefur aldrei átt í ástasambandi eða jafnvel kynferðissambandi þrátt fyrir vilja til þess.

Ástæðurnar eru taldar ýmsar eins og hér má lesa. Ekki veit ég til að þessi mál hafi nokkurn tíma verið rædd hér á landi enda er umræða um þau ekki heldur hávær annars staðar. Þetta er einhvers konar feimnismál. Það stígur engin fram og segir: Hæ, ég kemst aldrei á sjens.

Hver yrðu þá viðbrögð annarra? Þau yrðu örugglega í flestum tilfellum aðhlátur og skens.

Mannfólkið er illyrmislegar verur. 

Sumt af þessu einlífis fólki er samt jafnvel mjög aðlaðandi í útliti og hefur sjarmerandi persónuleika. Að öllu leyti virkar það flest eðlilega og eins og aðrir. En það er eitthvað sem hindrar það að komast í kynni við hitt kynið að þessu leyti.

Það þarf ekki að spyrja að því að þetta hefur mikil áhrif á allt líf viðkomandi og það til hins verra. Eins og lesa má í því sem vísað er til er einmanaleiki t.d. algengur. Um það eru þó ekki gerðar rómantískar - eða kannski fremur órómantískar - bíómyndir eða skrifaðar bækur. 

Ýmsir heimsfrægir menn hafa verið með þessu marki brenndir. Má þar nefna Beethoven og H. C. Andersen.  Sá síðarnefndi er ef til vill frægasta dæmið. Ekki er ég vel að mér í H. C. Andersenfræðum en það sem ég hef lesið hefur hvergi verið reynt að skýra út vanhæfni hans að þessu leyti. Í hæsta lagi er sagt að hann hafi verið svo ljótur! En margir ljótir menn vefja konum um fingur sér. Og ekki þarf að spyrja um það að þessi maður, sem bjó yfir öðru eins innra lífi, hlýtur að hafa átt mikinn sjarma til að bera. En hvaða blokkering var í honum varðandi konur?

Færri sögur fara af konum í þessum efnum enda hafa þær verið til hliðar í mannkynssögunni yfirleitt þar til á síðustu árum. Ein er þó nefnd: Florence Nightingale.

Nú á dögum þykir frjálst val með það að lifa einhleypur eða einhleyp vera fínt og bera vott um nútímalegt sjálfstæði. Ég tel þó víst að ýmsir dylji einlífi gegn vilja sínum einmitt á bak við þetta. Fyrir vikið fær fólkið eins konar virðingu í stað þess að vera talið eitthvað skrýtið.  Mér verður hugsað til Kristjáns heitins Albertssonar sem varð næstum því hundrað ára en var alla tíð einhleypur. Hann var mikill gáfumaður og heimsborgari og mannkostamaður. Hann skrifaði af miklum hita gegn því sem hann kallaði klám og sora í bókmenntunum. Skyldi hann hafa valið einveru sina alveg af eigin ráðum eða var þar eitthvað sem hann réði ekki við?

Menn mega vel vera meðvitaðir um þessa hlið mannlífsins þegar þeir fá gæsahúð yfir öllum ástaljóðunum og hefja það sem kallað er ást upp á stall.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

Það eru fordómar í samfélaginu fyrir fólki sem er svona, þ.e.a.s mjög margir halda að það eigi eitthvað bágt og sé svona gegn vilja sínum (reyna jafnvel að hjálpa þeim), aðrir eru líklega (dulvitað)öfundsjúkir af því að þeir sjálfir ráða ekkert við hvatir sínar. Hvort ætli sé nú meira vesen?

Svona fólk er að sameinast erlendis undir merkjum þess að vera asexual - og þau munu verða mjög hávær og stolt í sinni réttindabaráttu  

halkatla, 5.8.2008 kl. 12:49

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Margt af þessu fólki, líkllega langflest er svona einmitt gegn vilja sínum eins og ég var að segja, ég var að tala um einveru gegn vilja sínum en ekki sjálfvalda einveru. En það á engu að breyta með fordómana sem aðallega koma fram í háðsglósum og aulafyndni. Ég  vissi af þessum samtökum en fann ekki vísun á þau en gott að hún kom hér. Hins vegar er víst búið að gelda aumingja Mala og taka Kassöndru og Karítas úr sambandi. Mér er spurn: Hafa dýrin engin kynlífsréttindi? Hvurslags er þeta eigiinlega!!

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.8.2008 kl. 13:02

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Um orsakir þessa má nefna eitt sem hefur komið í ljós á seinni árum sem skýring a sumum tilvikum: kynferðisleg misnotkun i bernsku. Með öllum öðrum áhrifum sínum  lokar hún sumum fórnarlömbunum hvað kynlíf og ástalíf varðar og reyndar oft og tíðum öll dýpri   mannleg samskipti. Það sýnir með öðru hvað barnaníð er ólýsanlegur glæpur.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.8.2008 kl. 13:10

4 Smámynd: halkatla

já þetta eru ekkert smá alvarlegir hlutir því ástin og skyld mál eru með því umfangsmesta sem gerist á mannsævi - hjá flestum fer þetta í nokkurnvegin sama farveg (mismunandi útgáfur samt) og frávik hljóta að upplifa eitthvað mjög öðruvísi líf, svo eru það hinir sem ég minntist á sem ráða ekkert við þetta og fæðast bara svona "leiðinlegir", því fólki líður vel en samfélagið bíður virkilega ekki uppá neinn skilning. Það er ekki nema 1% sem er talið vera svona "af því bara". Enn fleiri eru því svona gegn vilja sínum. Fólk sem eignast aldrei börn fær oft slatta af fyrirlitningu eða vorkunn frá vissum hluta þeirra sem aldrei hafa kynnst neinum ástarhömlum.

halkatla, 5.8.2008 kl. 13:22

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það má heldur ekki halda að þetta fólk hafi daufari kynhvatir en aðrir, að það sé náttúrulaust. það er bara eins og aðrir að því. Hins vegar á það í erfiðleikum, sem eiga sér ýmsar orsakir, að komast í samband við aðra. Auðvitað hlýtur það að valda sársauka, það er blekking og föslun að neita því. Þetta fólk er EKKI ánægt með hlutskipti sitt, það er grundvölurinn fyrir skilhreiningu á því. Fólk sem er ánægt með kynfeðrislega og ástasambanslegu einsemd sína er annars konar fólk, önnur kategoría.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.8.2008 kl. 13:27

6 identicon

Sæll Sigurður, gott hjá þér að vekja máls á þessu órædda tabúi. Öl er vissulega böl og allt það. En er það ekki staðeynd að sumir einstaklingar geta komist yfir einhvern annars erfiðan þröskuld í samskiptum við hitt kynið, með smá áfengi í kroppnum. Sumir segi ég. Það er ekki endilega til góðs að þegar fólk ákveður að smakka aldrei vín, ég leyfi mér að fullyrða það.

Eyrún (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 13:43

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég ólst upp hjá ömmu minni og syni hennar en hann var bæði barnlaus og kvenmannslaus svo ég best veit.

Annan þekkti ég sem ég vann með í Eymundsson, Steinar Þórðarson, hann var aldrei við konu kenndur.

Bömmer?  Ég veit það ekki.

Jenný Anna Baldursdóttir, 5.8.2008 kl. 14:13

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta kemur áfengisdrykkju lítið eða ekkert við. Heldur ekki bindindi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.8.2008 kl. 15:25

9 identicon

Þetta eru orðnar svo háfleygar umræður hérna!  Það er einn ljóður á þessari skemmtilegu bloggsíðu - maður festist alltaf hérna inni og kemst ekkert áfram með bloggskannið sitt!  Þetta eru orðin andsk... vandræði!

H. C. Andersen var fallega ljótur.  Ég þori að fullyrða að það var ekki útlit hans sem útskýrir kvenmannsleysið - ástæðan hefur verið allt önnur.  Átti hann ekki fremur harðneskjulega bernsku?  Sem kynni að útskýra eitthvað.  Eða kannski hefur hann bara ekki haft tíma fyrir ástarlíf vegna anna á öðrum sviðum?  Það liggur nú talsvert mikið eftir hann.

Einvera er ekki endilega það sama og einvera.  Manneskja getur verið einfari í eðli sínu og kosið að búa ein og vera ein mörgum stundum, en vilja jafnframt eiga þess kost að vera í góðu ástarsambandi annað veifið (ástarsamband hér er ekki endilega í merkingunni líkamlegt samband).  Fjarbúð er það víst kallað og er að verða æ algengara.  Sumir eru hreinlega ekki hæfir í sambúð af ýmsum ástæðum, nenna því jafnvel ekki, en ágætlega hæfir í fjarbúð.

Þetta er nú mín mikla speki inn í daginn!

Malína (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 15:33

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér datt í hug að vekja athygli á þessum hópi í framhaldi af hinum ógurlega ástarsorgarpislti. Margir eiga auðvitað við ýmiss konar annan vanda að stríða svo sem kynlífsfíkn sem ekki er víst það besta. Vandræðin í mannheimum eiga sér engan endi. En það sem hér er til umræðu er EKKI það að búa einn en vera samt í ástasambandi í fjarbúð heldur það að vera ALDREI í ástasambandi eða jafnvel  kynferðissambandi. Þetta tvennt er alls ekki það sama. Það fylgir líka með í skilgreiningunni fyrir asexual (reyndar vont orð sem auðvelt er að missklija) fólkið að fjarvera þess frá ástarsambandi er EKKI sjálfvalin heldur hefur hún bara orðið af einhverjum ástæðum. Bach var eitthvert afkastamesta tónskáld í heimi og var tvígiftur og átti 21 barn. Mozart var ótrúlega afkastamikill en lifði ástalífi. Það er enginn svo upptekinn að hann geti ekki lifað ástalífi. Að einhver geri það ekki á sér aðrar ástæður en það að vera önnum kafinn.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.8.2008 kl. 16:02

11 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Þetta er athyglisvert.

Ég hef reyndar mikla trú á hagkvæmni þess að velja fjarbúð frekar en annað fyrirkomulag einmitt vegna þess hve nútímamaðurinn og konan eru sjálfhverf /sjálfupptekin.

Marta B Helgadóttir, 5.8.2008 kl. 16:38

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er ekki að tala um fjarbúð sem mér skilst að sé ástarsamband þó fólk búi ekki saman en er samt í sambandi annað veifið. Pirrandi þegar fólk ítrekað nær ekki því sem maður er að segja. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.8.2008 kl. 16:57

13 identicon

Svona svona.  Við skiljum alveg hvað þú ert að segja - við viljum greinilega bara ræða eitthvað allt annað en þú vilt ræða!  Margfaldlega sorrý!

Svona er nú nútímamaðurinn/konan orðin sjálfhverf! 

Malína (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 17:23

14 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég skil alveg hvað þú ert að segja minn kæri Nimbus. Vildi bara taka þessa umræðu aðeins útfyrir þennan afmarkaða hóp fólks sem þú ert að fjalla um þarna. 

Marta B Helgadóttir, 5.8.2008 kl. 17:55

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En ég var að tala um þetta fólk ÞARNA en ekki eitthvað annað fólk. Það er umræðan sem boðið er upp á. En auðvitað veit ég að þið skiljið allt, umberið allt og elskið allt! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.8.2008 kl. 19:14

16 identicon

Skáldið sagði: Verfehlte Liebe, verfehltes Leben

Trausti Jónsson (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 19:21

17 Smámynd: Marta Gunnarsdóttir

Ég veit um þrjár ástæður;

1. Gömul kona sem lá fyrir dauðanum á spítala ca 1974, sagðist alltaf sjá eftir að hafa aldrei verið með karlmanni og ástæðan var að það hefði verið svo mikil skömm fyrir fjölskylduna ef það hefði fréttst, því hún giftist aldrei.

2. Kona sem ég þekki og er tæplega sextug hefur aldrei verið með karlmanni því hún er svo sannfærð um að hún sé svo ljót að það vilji sig enginn maður. Þessi kona er bókstafstrúar og myndi aldrei prófa eitthvað sem væri ekki viðurkennt innan kirkjunnar...... (? hvað er það)

3. Ég þekki líka fólk sem hefur orðið fyrir kynferðislegum misþyrmingum og getur ekki hugsað sér að taka þátt í kynferðislegu sambandi. Samt þráir þetta fólk ást og velur sér frekar vinskap en nánara samband.

Marta Gunnarsdóttir, 5.8.2008 kl. 19:39

18 identicon

Ég er einn af þessum 3% sem þrátt fyrir það að hafa vilja til að deita konu  hafa ekki þor til þess þó ekki væri nema í eitt skipti bara til að prufa hverni það væri.

Ég bý einn eins og flestir aðrir í minni stöðu og mun aldrei viðurkenna þetta undir nafni af skiljanlegum ástæðum. 

Taka skal það fram að ég hugsa um kynlíf 20-30sinnum á dag stundum mun oftar og er búinn að finna fullt af ráðum til að deyfa hana og halda henni í skefjum sem gengur misvel.

Nafnlaus (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 20:13

19 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Sigurður. Skemmtileg lesning eins og við var að búast... Ég veit ekki hvað skal segja um þetta. 3 % er ekki svo há tala þegar allt kemur til alls og ég held að ef fólk legði sig fram þá gæti það vel komist í einhverskonar ástarsamband hvort sem það er sambúð, fjarbúð eða bara lúllabúð. En auðvitað verða menn að vilja það af alvöru.. ekkert gagn að hugsa um kynlíf í öðru hverju skrefi .  Ég held að þessi sérviska ágerist með aldrinum þannig að það er bara óttaleg vitleysa að vera með of miklar siðapredikanir við unga fólkið. En svo er það önnur saga hvort tímafrekt ástarsamband er það sem allir þurfa að upplifa til að vera hamingjusamir.  Ég held að eitt til tvö hvítvínsglös væru bara til bóta fyrir þessa feimnu. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 6.8.2008 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband