Kuldar og snjóar í september

Mesta frost sem mælst hefur á Íslandi í september eru hrollvekjandi -19,6 stig sem komu á Möðrudal á Fjöllum þ. 27. 1954.  Gríðarlegt kuldakast gekk þá yfir landið með einhverju kaldasta lofti í háloftunum sem vitað er um í september. Kuldamet mánaðarins voru all-víða slegin svo sem í Borgarfirði, -10,2 stig í Síðumúla, Dölunum, í Strandahreppi, Hrútafirði, Blönduósi, Skagafirði, Akureyri, Húsavík, Hallormsstað, Stórhöfða í Vestmannaeyjum, Hæli í Hreppum og Þingvöllum. Síðustu sex daga mánaðarins var meðalhitinn undir frostmarki hvern dag á flestum veðurstöðvum.  Víða festi snjó í þessu kuldakasti, t.d. í Reykjavík en þar var skódjúpur snjór að morgni þ. 26.

Árið 1943 mældist frostið -16,1 stig þ. 26. í Reykjahlíð við Mývatn  og hefur aldrei mælst þar eins mikið frost í september. Mánaðarmet voru einnig sett á Úthéraði, á einni stöð á Vestfjörðum og í Hornafirði. Víða varð alhvítt í þessu kasti, sem stóð í nokkra daga með snjókomu nyrðra og hvassviðri um land alt og sums staðar festi einnig snjó á suðurlandi, t.d. á Eyrarbakka og í Fljótshlíð.

Á Möðrudal komst frostið í -15,0 í þeim afar kalda september 1918. Þá mældist mesta frost sem komið hefur í Reykjavík, -4,6 stig þ. 29.

Miklir kuldar voru á norðausturlandi í september 1975, allt niður í 13,3 stig þ. 30. á Vöglum og 13,1 á Grímsstöðum sem er septembermet þar.  

Í september 1995, mældust -13,2 stig í Möðrudal þ. 29.  

Þetta eru mestu einstöku frostin á Íslandi í september.

Enginn september hefur verið alveg frostlaus á landinu frá því mælingar hófust á fleiri en einni stöð. Árið 1881 hefur hæsta landslágmark, -0,1 stig. Þess ber að gæta að mælt var þá á mjög fáum stöðvum en í það minnsta er víst að ekki var alveg frostlaust á landinu þó líklega hafi enn meira frost orðið einhvers staðar, en frostlaust var reyndar á Grímsstöðum á Fjöllum og þetta var mjög hlýr september.   

Meðaltal snjólagsprósentu á veðurstöðvum 1924-2002 er 2% en í ágúst nær hún ekki upp fyrir núllið að meðaltali þó snjó hafi fest í einstaka tilfellum með margra ára millibili. Snjóþyngsti september var 1954 með 13 % snjóhulu. Næstir honum koma september 1924, 11%, 1943, 10% en svo eru  1963, 1974 og 1979 allir með 8% snjóhulu. Snjór í september er auðvitað algengastur  á stöðum sem liggja hátt yfir sjávarmáli, en á láglendi má helst búast við snjó á Vestfjörðum, inni í dölum í Skagafirði, á útskögum fyrir norðan og austan, en sjaldnar festir snjó á suður- og vesturlandi þó það gerist stundum og enginn staður á landinu er alveg óhultur fyrir snjó í september. 

Dæmi eru um það að hvergi sé getið um að snjó nái að festa í september á veðurstöðvum sem hafa að vísu verið mjög mismunandi margar gegnum árin. Frá og með 1924 til 2007 hefur enginn snjór verið talin á veðurstöðvum í byggð árin 1925, 1928, 1930, 1933, 1938, 1939, 1941, 1953, 1957-1961, 1966, 1973, 1976, 1986, 1993, 1996, 1998, 2001, 2002.

Fyrsta dagsetning á alhvítri jörð að morgni í Reykjavík er 9. september 1926 en snjódýptin var aðeins 0,2 cm. Þessi snjór kom í suðvestanátt og var snjórinn aðallega vestanlands og á Vestfjörðum.  Frá 1924 hefur verið alhvít jörð í september í Reykjavík árin 1924, tvo daga, snjódýpt 1 cm þ. 28. og 29., (flekkótt einn dag 1929), (flekkótt tvo daga 1943), 1954, einn dag, snjódýpt 6 cm  þ. 26. (og flekkótt einn annan dag), 1969, einn dag, þá mældist mesta snjódýptin í Reykjavík, (flekkótt einn dag 1979), (flekkótt einn dag 2000).

Mesta snjódýpt sem mælst hefur á landinu er 55 cm sem mældist á Sandhaugum í Bárðardal þ. 24. 1975.  Mesta snjódýpt í Reykjavík er 8 cm þ. 30. 1969.

Mjög sjaldan verður jörð alhvít á suðurlandi, frá Hornafirði til Reykjavíkur. Eftir Veðráttunni að dæma hefur það gerst í þessum tilvikum. Á Kirkjubæjarklaustri 1940 þ. 11,  Á Hólum í Hornafirði  þ. 29. 1947 og Þingvöllum  1963 og Hólmi við Reykjavík.  Og heldur betur árið 1969!

Álíka kalt loft flæddi yfir landið í lok september það ár og kom 1954. Mánuðurinn var allur kaldur en tók steininn úr síðustu tvo dagana. Þá kom eftirminnilegt snjóakast síðustu tvo dagana ofan í kaldan mánuð þar sem jörð hafði þegar orðið alhvít á stöku stað á suðurlandi. Þá var alhvítt mest fjóra daga þar, í Vegatungu, en víðast hvar þó aðeins í 1-2 daga, allt frá Hornafirði upp á Snæfellsnes en þó ekki í Borgarfirði.

Þann 28. var hæg norðanátt og kuldi með éljum norðanlands. Daginn eftir var komin austanátt en grunn lægð þokaðist þá austur með suðurströndinni. Henni fylgdi snjókoma og sums staðar þrumuveðrur. Um nóttina, þegar lægðin var komin suðaustur fyrir landið, kom aftur norðaustanátt og birti til syðra, en fór að snjóa norðanlands og austan. Síðasta dag mánaðarins var því mjög víða alhvít jörð og mikill kuldi. Meðalhiti tvo síðustu sólarhringana var á flestum stöðum undir frostmarki, þar með talið í Reykjavík, -0,1 og -1-0 stig. Eru það einu septemberdagarnir frá og með 1935 a.m.k. þar sem meðalhiti hefur verið  undir frostmarki þar ásamt 23. september 1974, -0,2 stig, en það er fyrsta dagsetning að hausti sem sólarhringsmeðaltal í höfuðborginni er undir frostmarki. En þá var enginn snjór. Miklir kuldar fylgdu snjónum 1969, þó ekki mettölur, en hins vegar komst hitinn víða varla upp fyrir frostmarkið um hádaginn, jafnvel þó sólin skini, en snjór var yfir öllu.

Eftir 1969 hefur orðið alhvítt einhvers staðar á suðurland  (langt oftast aðeins á einni stöð) 1974, 1979, 1988, 1990, 1994, nokkrum stöðvum frá Kvískerjum í Öræfum til Fljótshlíðar 1995, 1997, 1999, Kirkjubæjarklaustri, Snæbýli, Hæli í Hreppum og Lækjarbakka 2005.  Í fyrra festi snjó á suðurlandi með allra fyrsta móti, 15. og 16. Seinni daginn var snjódýptin 3 cm á Kvískerjum, 5 á Kirkjubæjarklaustri og 2 cm á Hæli í Hreppum, en 10 cm á Snæbýli við Skaftártungu. 

Hér fyrir neðan sést á kortum sýnishorn af kuldanum 1954 og tvo síðustu dagana í september 1969 og fyrsta deginum að hausti í Reykjavík sem meðalhitinn hefur verið undir frostmarki.   

1954-09-27_12

Rrea00119540926

Rrea00219540926

1969-09-29_12

1969-09-30_12

Rrea00119690929

Rrea00119690930

Rrea00219690930

1974-09-23_12


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband