Áhugaverðar jólabækur

Þá er maður byrjaður á þeim gamla (ó)vana að rölta í bókabúðir til að skoða nýju bækurnar.

Nokkrar bækur langar mig til að eignast.

Ég hef þegar keypt eina, Bókina um biblíuna. Biblían er að vísu ótrúlega leiðinleg og oft ljót bók þó glitti sums staðar í speki. En þó Biblían sé ljót og leiðinleg hefur hún haft geysileg áhrif og eins gott að vita hvað í henni stendur. Já, lesandi góður. Þú átt kollgátuna! Ég hef lesið alla Biblíuna. Hvert einasta andskotans orð.

Kommúnistaávarpið, sem nú er að koma út á ný á íslensku, er ólíkt viðfelldnara að ég tali nú ekki um tímabærara rit en Biblían.

Mest langar mig þó í bók Halldórs Björnssonar um gróðurhúsaáhrifin. Ég efast ekki um að hann geri efninu hlutlaus og fræðileg skil á þann hátt að jafnvel ég geti skilið.

Stóra siðfræðibókin hans Vilhjálms Árnasonar, sem ég man ekki hvað heitir, er líka aldeilis áhugaverð og ekki veitir af að menn fari að gæta að siðferði í mannlegum samskiptum en á útrásartímanum gleymdist allt siðferði nema þá siðferði andskotans.

Ísland utan úr geimnum hefur að geyma myndir af hinu ólánssama landi voru sem teknar hafa verið úr veðurtunglum. Sérlega spennandi. Samt held ég að ég þekki sumar myndirnar. Einar Sveinbjörnsson veðurviti er annar af höfundum bókarinnar.

Ýmsar fleiri fræðibækur eru álitlegar en verða hér ekki taldar upp vegna leti minnar og ómennsku.

Ég missti áhugann fyrir svokölluðum fagurbókmenntum fyrir tíu árum og veit ekki hvers vegna. Kannski hefur stíflast æð í heilanum. Ég hugsa því lítið um þessar skáldsögur og ljóð sem eru að koma út. Og reyfara hef ég aldrei lesið og finnst það tímasóun. Mér finnst ærið nóg að sjá þá í bíó eða á myndbandi. Reyfaraæði undafarna ára er eitt af tilbrigðunum við þá yfirborðsmennsku sem peningahyggjan hefur haft á allt andlegt líf. 

Nú, svo  ég endi samt á jákvæðum nótum játa ég að það er ein skáldsaga sem mig langar til að lesa. Það er bók Hallgríms Helgasonar 10 ráð til að hætta að vaska upp og byrja að drepa fólk eða hvað hún nú eiginlega heitir.

Já, svo er ég ekki frá því að bókin um kynlífsdúkkuna (guð forði oss þó frá klámi og öðrum óþverra) eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttir togi svolítið í mig. En það er nú bara út af því höfundurinn bauð mér vináttu sína á feisbúkkinu í fyrradag. Svona er ég gríðarlega eftirsóttur

Og skáldlega hégómlegur þrátt fyrir heilastífluna.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta er einstaklega sársaukamikil tími hjá mér. vildi að ég gæti  gert það sem föðursystir mín gerði um þetta leiti hún lagðist veik. Til að lesa. Það fyrsta sem ég les er Magga Pála...

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 21:06

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hmmm...  þú ert á fræðilegu nótunum í þessum pælingum.

Leitt að þú skulir ekki lesa skáldsögur, þær eru margar fjári góðar og gaman að gleyma sér með þeim. En þú kannski prófar Hallgrím og/eða Guðrúnu Evu núna. Hver veit nema skáldsögur geri aftur innreið í bókaskápinn hjá þér?

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.11.2008 kl. 23:16

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Bók Hallgríms er skemmtileg finnst mér en um hana eru nokkuð skiptar skoðanir.

Góða skemmtun við lesturinn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.11.2008 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband