Íslensk tunga á best við í íslenskum tölvum. Hvað menn athugi!

Ég á tvær tölvur og er önnur með ensku á stýrisumhverfinu en hin íslensku. Ekki ber ég það saman hvað íslenskan er viðkunnanlegri og sjálfsagðari. Reyndar líka skiljanlegri.

Samt hef ég heyrt mikla tölvumenn segja að það sé "betra" að hafa þetta á ensku. Engin rök hef ég þó heyrt fyrir því.

Ég held að þessi auðmýkt fyrir enskunni hvað tölvurnar varðar sé sambland af hugsunarleysi, vantrú á íslenskunni og hreinlega undurlægjuhætti gagnvart enskunni. Mönnum finnst fínna að hafa þetta allt á ensku en hálf hallærislegt á íslensku.

Eins og enskt tölvumál er nú leiðinlegt.

Mér finnst líka hvimleitt hve margir birta óþýddar langar tilvitnanir á ensku á bloggsíðum sínum. En auðvitað ekki á dönsku, þýsku eða búlgörsku. Allt skal á ensku vera!

Ég held fram málstað íslenskunnar á öllum sviðum. Það er málið sem við hugsum á og ef við getum ekki orðað hugsanir okkar á móðurmálinu er þess ekki að vænta að við getum orðað þær á nokkru öðru máli.


mbl.is Innan við fimmtungur velur íslensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

Ég hef það að atvinnu að aðstoða notendur gegnum síma, svo og sem að taka við, greina og laga villur í hugbúnaði (svosem Windows).

Megin ástæða þess að ég ráðlegg notendum að hafa stýrikerfið sitt á Ensku er svo að ég eigi auðveldara með að aðstoða þá.

Allt það námsefni sem ég hef farið í gegnum miðar við að stýrikerfið séi á Ensku, þegar ég seti notandanum að fara í Start->Control Panel->Printers and Faxes->File->Add new Printer, sem dæmi þá stenst það sem ég segi og notandinn getur fylgt því. Sé þetta hinsvegar á Íslensku þá þarf hann að koma með tölvuna eða fá mig á staðinn og það er mun dýrara.

 Svo eru það villumeldingar... villumeldingar á Íslensku segja lítið sem EKKERT, þar sem oftast þarf að googla eða fletta upp villum á netinu með einum eða öðrum hætti, það er ekki mikil hjálp í því að leita eftir íslenskum villum þar sem úrtakið þrengist all verulega.

Á stýrikerfum svosem Linux, er auðvelt að skipta á milli Íslensku\Ensku. Það auðveldar hlutina mjög, aftur á móti með Microsoft Windows.. þá er stýrikerfið sett upp á Íslensku og FAST á Íslensku.

Vona að þetta hjálpi þér að sjá hvernig ég sé þetta sem atvinnumaður... :)

Pétur (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 13:44

2 Smámynd: Baldvin Mar Smárason

Ef þú ert að nota windows á íslensku, þá ertu ekki tölvulæs.

Gefum okkur það að einhver hafi Windows á Íslensku, opni Photoshop, þá er þar allt á ensku, fari á netið og allt er á ensku, opni firefox og allt á ensku osfr.

Tölvulæsi...

Það er ekki flóknara en það.

Baldvin Mar Smárason, 1.12.2008 kl. 13:57

3 Smámynd: Úlfhildur Flosadóttir

Sigurður, ég er sammála þér með það að nota íslenskuna á öllum sviðum, þar með á tölvunum okkar.  Ég skipti yfir úr ensku yfir í íslensku í Windows og Office fyrir þó nokkru síðan.  Ég er mjög ánægð með það og hef ekki fundið neitt að íslenskunni.   Ég var að kenna einhverjum að nota "control+t" í vafranum sínum og notaði orðin "opna nýjan flipa" og manneskjan sagði "opna nýtt tab", ég þurfti þá aðeins að hugsa mig um enska orðið.

Pétur, þar sem þú ert atvinnumaður sem hjálpar fólki með tölvur á Íslandi, finnst mér þér beri nokkur skilda til þess að kunna íslensku tölvuhugtökin. Ef fólk er með stýrikerfið sitt á íslensku á Íslandi á það þá ekki að geta fengið viðeigandi aðstoð á 100% íslensku frá atvinnumanni?

Úlfhildur Flosadóttir, 1.12.2008 kl. 14:20

4 identicon

Málið er bara að íslenska sem tölvumál er ógeðslega stirð og óþjál. Það er íslenskt stýrikerfi í vinnuni hjá mér og ég get varla gert copy/paste ("afrita/líma") hvað þá annað.

Hins vegar er enska fullkomið tölvutungumál, þar sem öll þessi stýrikerfi voru jú fyrst búin til á ensku. Af hverju að laga það sem er fullkomið?

Þetta er alveg eins og íslenskar þýðingar á bókum eftir Pratchett eða Douglas Adams og fleiri höfunda, þar sem er mikið af enskum orðaleikjum og bröndurum sem eru algjörlega óþýðanlegir. Íslenska þýðingin verður beinlínis léleg.

Íslenska er fallegt mál á margan hátt, en sums staðar virkar hún bara alls ekki.

Gunnhildur (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 14:35

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Baldvin: Þessi fullyrðing þín um tölvulæsi er út í loftið. Þó ekki sé allt til á íslensku sem nota þarf um tölvur er ekki þar með sagt að ekki sé full ástæða til að nota það sem er þó til á íslensku og kannski mun slíku fjölga. Mér finnst þessi hugsun að það sé sjálfsagt að menn sýsli í daglegu lífi sínu með um heilu málaflokkanna meira og minna á ensku hálf ógnvænleg.  Þegar ég var strákur var allt sem varðaði fótbolta á ensku eða réttara sagt bjagðari ensku með íslensum blæ. Víti var t.d. stroffí. Síðan komu íslensk heiti yfir hugtök knattspyrnunnar og engum dettur í hug að nota önnur hér heima fyrir þó menn haldi áftram að lesa útlendar fótboltafréttir á netinu og í blöðunum þar sem ensku orðin eru auðvitað mikið notuð.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.12.2008 kl. 14:58

6 identicon

Sæll Sigurður,

Helsta vandamálið við að vera með stýrikerfið á íslensku er jú einmitt sú að notkun íslenskra tölvuhugtaka er takmörkuð við Ísland.

Nú af hverju er það slæmt?

Jú, það er slæmt vegna þess að vegna 'smæðar' íslenskrar tungu mun aldrei nema brota-brot erlends hugbúnaðar verða þýddur yfir á íslensku.

Takmörkuð þekking þeirra, er alast upp við íslenskt stýrikerfi, á erlendum tölvuhugtökum mun því verða þeim til trafala í framtíðinni hyggi þeir á frekari tölvunotkun en einfaldlega að opna mbl.is og blogga. Þetta mun hamla þeim í bæði námi og vinnu nema þeir leggi hart að sér við að læra sérstaklega öll erlend tölvuhugtök frá grunni.

Langeinfaldast er að alast upp við þessi tölvuhugtök, að minni reynslu. Eldra fólk, sem ekki ólst upp við tölvur, á oft mun erfiðara með að læra á ný hugtök en þeir sem yngri eru. Tala ég þar bæði af eigin reynslu sem og kynnum mínum af ungum tölvunotendum í dag. Svo virðist vera að því lengur sem fólk bíði með að læra inn á erlend heiti stýrikerfa, því mun meira verða þeir að leggja sig fram við að læra þessi sömu hugtök er þörf krefur.

Þetta leiðir til þess að þeir er kunna þessi hugtök fyrir eru mun samkeppnishæfara bæði í námi og vinnu, þar til restin hefur lagt þá vinnu sem til þarf í að læra nauðsynleg erlend hugtök. Jafnvel þá eru þeir oft bara með grunnþekkingu á þessum hugtökum meðan sömu hugtök eru eðlislæg þeim er upp við þau hafa alist.

Þú gætir bent á að lausnin sé einfaldlega sú að þýða allan hugbúnað yfir á íslensku, en það er óraunhæft af mörgum ástæðum, sumum hverjum ég get stiklað á ef þér finnst þörf krefja.

Ég gæti skrifað mun meira um þetta málefni og nálgast það frá fleiri sjónarhornum, svo sem hvað námsefni á ensku varðar... en rök baðst þú um og rök hef ég fært þér!

... ef þér líkar eigi við þau rök er ég hef lagt fram, þá bið ég um rök á móti, fremur en eitt stórt 'dismissal'. ;)

Þór (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 15:38

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þessi rök þín eru eflaust góð og gild Þór. Mér finnst þú samt ganga nokkuð langt. Má þá ekki segja að hið sama gldi um margt annað. Nauðsynleg væri að læra hugtök viðkomandi fræða frá byrjun á ensku (hvða með t.d. jarðfræði) en íslenskan verði þá að víkja á mörgum sviðum, eins og hún hefur reyndar verið að gera og ég tel það vonda þróun. Ég sé enga mótsögn í því að nota íslensku á hugbúnaði fyrir tölvur þegar hann er til staðar á annað borð þó hann nái ekki yfir allt sviðið en kunna jafnframt skil á útlendu hugtökunum. Mjög margir þeirra sem nota tölvur eru reyndar einmitt bara í einhverju ekki flóknu, t.d. á mbl. is og heimilisbókhaldi og slíku. Íslenskan hentar þeim allavega vel. Mér finnst það ekki ganga, hvað þýðingar á stýrikerfum varðar, að miða bara við þá sem lengst ganga í námi varðandi tölvur og að EKKI sé aðgengilegt grunnstýrikerfi á móðurmáli okkar. Það leysir kannski ekki allan vanda. En er samt eitthvað sem ekki er hægt að ganga framhjá. Orð Valdimars finnst mér hér líka hafa vigt.    

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.12.2008 kl. 16:08

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Varðandi komment Gunnhildar: Mér finnst afrita/líma miklu eðlilegra fyrir mig sem Íslending heldur en copy/past. Enska tölvumálið er ekki fullkomið fyrir aðra en þá sem drukkið hafa í sig ensku sem móðurmál. Fyrir aðra er þetta bara framandi fyrirbæri sem menn þurfa að læra, sumir vel, aðrir ekki eins vel. Ef út í það er farið virkar íslenskan virkar á öllum sviðum. Hún er ekkert annars flokks tungumál sem bara er hægt að nota við sumt. En stundum þarf tíma og áreynslu fyrir hvaða tungu sem er að innbyrða nýja hugsun sem á uppsrettu sína í öðrum tungumálum. Ef Helga Hálddanarsyni tókst að þýða leikrirt Shakespeare á unaðslega íslensku þá stendur íslenskan enskunni ekki að baki sem tjáningartæki hugsunarinnar í einu eða neinu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.12.2008 kl. 16:26

9 identicon

Þótt svo mjög margir þeirra sem nota tölvur séu bara á mbl.is, í heimilisbókhaldi og slíku þá hefur leitnin undanfarin á verið í þá átt að breiðari og breiðari hópar samfélagsins byrji að notast við tölvur á fleiri og fleiri sviðum.

Þegar ég var ungur þá var ég einn fárra sem átti tölvu í mínum bekk... ef ekki öllum skólanum. Tíu árum síðar voru tölvuver farin að verða algeng í skólum landsins og nú í dag er sjaldgæft að ekki sé að minnsta kosti ein tölva á hverju heimili.

Ég er ekki að sjá að þessi þróun sé neitt að snúast við á næstu árum. Tel ég að Íslendingar muni halda áfram að tileinka sér tölvur og hugbúnað næstu ár og áratugi í meira og meira mæli.

Þeir Íslendingar sem ólæsir eru á ensk hugtök munu þurfa að búa við mun færri valmöguleika en aðrir hvað hugbúnað varðar. Jafnvel þó íslensk hugbúnaðarfyritæki færu að auka þróun sérstaklega miðaða að íslenskum markaði þá mun sú þróun aldrei bjóða upp á sama fjölbreytileika og erlend þróun ofan á þá íslensku.

Þar hef ég nú nálgast rök mín að ofan frá öðru sjónarhorni. Niðurstaðan er þó sú sama, það að kunna einungis íslensk hugtök er mjög takmarkandi. Það getur bæði orðið til trafala í námi og starfi auk þess sem það takmarkar það úrval hugbúnaðar sem þú gefur sjálfum þér kost á að kaupa, nota og vinna með.

Hvað jarðfræðina varðar, þegar ég var að læra verkfræði í Háskóla Íslands voru svo til allar bækur á ensku. Þrátt fyrir það þá voru íslensk heiti kennd samhliða þeim ensku, hvað helstu hugtök varðar. Þætti mér helst við hæfi að tölvukennsla á grunnskólastigi lyti sömu reglum. Þetta kemur einfaldlega til móts þau vandamál sem að okkur steðja vegna smæðar þjóðarinnar.

Við getum ekki litið fram hjá því að við erum dvergþjóð sem að verður að sætta sig við það að algjör íslenskuvæðing væri einfaldlega til trafala.

Ef ég hefði ekki verið með mínar námsbækur og námsefni á ensku uppi í Háskóla Íslands þá hefði ég verið mjög, mjög smeykur við að skrá mig í framhaldsnám erlendis.

Af hverju er það slæmt?

Jú, af svipuðum ástæðum og áður hafa verið nefndar. Ísland er dvergríki, það námsúrval sem mér býðst í Háskóla Íslands, eins gott og það nám nú er, er einfaldlega mjög takmarkað miðað við ýmsa erlenda háskóla. Hér á Íslandi er mun erfiðara að sníða námið að nákvæmlega því sem þú vilt, að minnsta kosti hvað verkfræði og raunvísindi varðar. Það að hafa lært ensku hugtökin opnaði mér mun fleiri möguleika og jók úrval þess náms sem ég hafði úr að velja til muna.

Ef íslensk heiti á að kenna, hvað tölvutengd hugtök og valda háskólakennslu varðar, þá finnst mér að það ætti að vera samhliða kennslu enskra hugtaka. Það tel ég einfaldlega hentugt fyrir bæði land og þjóð. Við verðum einfaldlega að sætta okkur við smæð okkar þjóðar og taka þeim kostnaði sem hann hefur í för með sér.

Þetta er að í það minnsta mín skoðun og hef ég reynt að rökstyðja hana eins vel og ég get í svo fáum orðum.

Algjör íslenskuvæðing og útskúfun erlendra tungumála, í því samhengi sem um er rætt í þessum þræði, er eitthvað sem ég hef miklar áhyggjur af.

Þór (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 17:23

10 Smámynd: Einar Steinsson

Íslendingar verða að vera tvítyngdir, það er að mínu áliti eina leiðin fyrir íslensku til að lifa af í nútímanum. Með íslenskuna eina einangrumst við og höfum talsvert minni möguleika heldur en annars. Án þess að vera vel fær í ensku væri ég allavega annarstaðar heldur en ég er í dag.

Hvað varðar íslensku þýðinguna á Windows er hún bara einfaldlega mjög léleg og það er að mínu álit vegna þess að sú leið er farin að búa til endalausa runu af fáránlegum nýyrðum í stað þess að aðlaga meira orð sem eru ekki til í íslensku að íslenskunni. Ég hef talsvert umgengist þýsku útgáfuna af Windows, tók meðal annars Microsoft próf með þýskumælandi hóp og það er mun einfaldara að umgangast þýsku útgáfuna heldur en þá íslensku meðal annars vegna þess að þeir þýða það sem þeir eiga orð yfir sem passa en aðlaga síðan orð og hugtök sem erfitt er að þýða einfaldlega þýskunni. Íslenska útgáfan er hins vega full af fáránlegum illa unnum nýyrðum sem engum koma að gagni.

Einar Steinsson, 1.12.2008 kl. 19:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband