Nauðsyn langtíma veðurathugana

Það dylst engum að veður og veðurfar skiptir landsmenn miklu máli alla daga ársins, ekki aðeins hvað mannvirki og önnur verðmæti varðar heldur beinlínis líf þeirra og limi. Undirstaða góðra veðurspáa eru veðurathuganir. Undirstaða þekkingar á veðurfari landsins og ekki síst skilnings á breytingum á veðurfari, en sá skilningur er nú svo mikilvægur, eru langtíma veðurathuganir á sama stað. Þær veðurstöðvar sem lengst hafa starfað eru því sérlega mikilvægar.

Mönnuðum veðurathugunarstöðvum fer fækkandi. Því valda breyttar þjóðfélagsaðstæður fyrst og fremst. Menn bregða sér oftar af bæ nú en áður var en veðurathuganir eru mjög bindandi. Það er því hægt að skilja það að menn vilji losna við mannaðar veðurathuganir, jafnvel þar sem mælingasagan er mjög löng. Þá hefur oft verið gripið til þess ráðs að setja upp sjálfvirkar athugunarstöðvar á sama stað. Síðan verða veðurmenn að finna út samræmið milli mönnuðu og sjálfvirku athuganna því svona breytingar valda hniki í athuganaröðinni. 

En nú er það nýjasta nýtt að landeigendur jarða þar sem athugað hefur verið í jafnvel meira en heila öld vilja bara losna líka við sjálfvirku stöðvarnar af landareign sinni. Það er illskiljanlegt. Mér finnst það lýsa ótrúlegri skammsýni og skilningsleysi. Athuganirnar hófust löngu áður en núverandi landeigendur fæddust og hafa verið mikilvægar fyrir veðurathuganasögu landsins og rannsóknir á veðurfari. Þetta varðar því beinlínis almannahag og það ættu landeigendur að hugsa út í Þó enginn efist um rétt þeirra til að fokka upp veðurathuganastöðvum. 

Úr því landeigendur eru nú komnir á bragðið má spyrja hvað gerist næst. Má ekki búast við því að allar veðurathuganir verði gerðar útlægar til dæmis af Teigarhorni þar sem athugað hefur verið frá 1872, Grímsey frá 1874 og Grímsstöðum á Fjöllum frá 1907, svo aðeins nokkrar gamlar veðurathuganastöðvar séu nefndar. 

Og getur nokkur sagt eitthvað ef bæjarstjórnin í Stykkishólmi vildi leggja niður elstu veðurathuganastöð landsins sem er þar í bænum?

Er ekki hægt að setja lög um  eins konar friðhelgi veðurathugana á elstu veðurathuganastöðvunum sem hindraði bændur og búalið í að gera viðkomandi stöðvar alveg útlægar af landareign sinni? 

Nú snúa kannski sumir upp á sig og segja: Eignarrétturinn er  heilagur og það má ekki setja kvaðir á landeigendur. (Ýmsar kvaðir á þá eru þó nú þegar fyrir hendi). En ég sný þá enn þá meira upp á mig og spyr á móti:

Eiga landeigendur að komast upp með það að leggja elstu og mikilvægustu veðurfarsrannsóknir í landinu í rúst bara eftir dyntum sínum og duttlungum? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Skýrðu það fyrir mér Sigurður með hvaða hætti sveitarstjórnin í Stykkishólmi hefur reynt að bregða fæti fyrir veðurathuganir í Stykkishólmi ?  Þykja þeta merkileg tíðindi og trúi varla.

Hélt að bæjarfélagið hefði einmitt sérstakan áhuga á þessari merku "iðju" sem hefur verið við lýði allt frá árinu 1845 og ekki síður að halda við minningu fyrsta alvöru veðurathugnarmannsins, honum Árna Thorlacius kaupmanni og útgerðarmanni.

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 12.12.2008 kl. 17:56

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er alls ekki að segja í textanum að sveitarstjórnin í Stykikishólmi hafi reynt að bregða fæti fyrir veðurathuganir en út frá Fagurhólsmýri er ég að bollaleggja um það að EF ef hún vildi það einhvern tíma þá væri bara ekkert hægt að gera. Þetta hélt ég að væri auðskilið í lesmálinu. Reyndar var ég að hugsa um að bæta við að það væri hluti af bæjarstolti og ímynd Stykkishólsmbúa að vera með elstu athugunarstöð landsins en vildi ekki lenga pistlilinn. Hins vegar sýnist mér augljóst og það var ég að hnykkja á að landeigendur geta EF þeir vilja hætt hvaða veðurathugunum sem er. Og það finnst mér illt.

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.12.2008 kl. 19:40

3 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Hlaut að vera Sigurður ! Hafði bara ekki innsæi í að skilja þetta á þennan hátt.  Vona bara að það fari ekki í gang einhver leiðindamisskilningur þess efnis að Stykkishólmursé að leggjast af :)

Kveðja

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 12.12.2008 kl. 21:54

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nei, guð minn góður! En það er eins gott að vera nákvæmur í skrifum en ekki hroðvirknislegur eins og ég kannski var þarna. Hér tekið af öll tvímæli: Stykkishólmsbúar eru stoltir af sinni grand old veðurstöð og mega líka vera það!

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.12.2008 kl. 22:13

5 Smámynd: Sigrún Sigurgeirsdóttir

Sæll Sigurður.

Ég svaraði blogginu þínu sem bar yfirskriftina Aumingja Fagurhólsmýri og þar kom m.a. fram að landeigandi gerði ekki kröfu um að sjálfvirkum mælingum yrði hætt! Fagurhólsmýri verður sjálfvirk stöð;  skv. upplýsingum frá Veðurstofunni hefur það tafist vegna kapals sem ekki var til í landinu (menn þaðan komu hingað í fyrradag til að færa búnaðinn til).  Það er bráðum liðið ár frá því að ég sagði upp sem veðurathugunarmaður og ég treysti mér ekki til að taka ábyrgð á því hvers vegna ekki er búið að tengja sjálfvirku stöðina hér fyrir löngu síðan.  Ég veit þó að hjá Veðurstofunni voru menn ekki ánægðir með valkostina: þeir vildu halda áfram með mannaðar athuganir hér en því miður var enginn fáanlegur í starfið. 

Sigrún Sigurgeirsdóttir, 13.12.2008 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband