Opið bréf til umsjónarmanna Moggabloggsins

Ég blogga ekki undir dulnefni heldur einmitt mínu rétta nafni. Eigi að síður hefur mér hefur borist eftirfarandi tilkynning inn á stjórnborðið á bloggsíðu minni.

''Nafnið sem þú gefur upp á blogginu þínu er ekki það sem sama og skráð er í Þjóðskrá. Í henni er skráð nafnið Sigurður Guðjónsson. Vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru um áramótin á blog.is getur þú því ekki bloggað um fréttir mbl.is nema að þetta nafn sé birt sem nafn ábyrgðarmanns á blogginu þínu. Auk þess birtast bloggfærslur ekki á forsíðu blog.is nema nafnið sér birt.

Ef ábyrgðarmaður er birtur, má sjá hann með því að smella á mynd af höfundi, sem alla jafna má finna í dálkinum Um höfundinn á bloggi viðkomandi.

Ábyrgðarmann má einnig birta og fela að vild efst á síðunni Stjórnborð --> Stillingar --> Um höfund.''

Hér finnst mér reglufesta umsjónarmanna Moggabloggsins verða einum of einstrengileg. Um mig er fjallað eins og ég skrifi undir dulnefni og reyni að skirrast við því að bera ábyrgð á bloggfærslum mínum.

Ég var skírður Sigurður Þórarinn Guðjónsson og í einu uppflettiriti um þekkta Íslendinga má sjá það nafn í þessu formi Sigurður Þórarinn Guðjónsson og það er það nafn sem ég hef notað frá 1980 í virðingarskyni við Þórönnu ömmu mína þaðan sem Þórs-nafnið er komið, en áður nefndi ég mig aðeins Sigurð eins og mér var innrætt frá barnæsku. Tölvukerfi Þjóðskrárinnar rúmar hins vegar ekki, að minnsta kosti fram á síðustu tíma, svona langt nafn. Þess vegna var það stytt í opinberri útgáfu Þjóðskrárinnar. Fullt nafn mitt er þó skráð hjá Þjóðskránni og myndi koma fram á skírnarvottorði.

Ég hef kosið að stytta millinafn mitt eins og alvanalegt er og skrifa mig þess vegna Sigurð Þór sem fer reyndar einkar vel og er orðið mér -  og öðrum - alveg ingróið, hluti af sjálfsmynd minni. Það er ekki dulnefni heldur stytting á skírnarnafni mínu og ég hef löglegan rétt  að skrifa það alveg eins og ef ég skrifaði mig t.d. Sigurð Þ. Guðjónsson. Þjóðskráin rúmaði ekki  eini sinni Þórs nafnið en bauð mér upp á eitt Þ. en ég valdi að sleppa því. Ég læt hins vegar ekki tölvutakmarkanir Þjóðskrár og blog is. í sameiningu þröngva mér til að nota ekki löglegt skírnarnafn mitt í lítið eitt styttri mynd. Þetta mál er sem sagt stærra en svo að það snerti einungis blog.is. Það er almenns eðlis og snertir í raun og veru alla landsmenn hvað nafnréttindi þeirra varðar.

Ég hef verið þekktur undir nafninu Sigurður Þór Guðjónsson í áratugi meðal þjóðarinnar. Kennitala sú sem ég hef gefið upp til Morgunblaðsins vegna bloggsins ber saman við kennitölu Sigurðar Guðjónssonar á Þjóðskrá, sem ekki fékk fullt nafn sitt birt þar.

Ég vænti þess að forsjármenn Moggablaðsins taki tillit til þessara staðreynda og svipti mig ekki þeim rétti mínum að geta bloggað við fréttir og birtast á forsíðu blog is. fyrir það eitt að villa EKKI á mér heimildir.

En ég læt ekki þröngva mér til að láta aðeins nafnið Sigurð Guðjónsson birtast með þessari ágætu mynd sem er af mér á bloggsíðu minni. Enginn blogglesandi kannst við það nafn á mér. Þá væri ég sannarlega farinn að villa á mér heimildir.  

Tilkynningin frá Moggablogginu barst mér í dag, daginn fyrir gamlársdag. Það er því nær ekkert svigrúm til viðbragða fyrir hátíðarnar en aðgerðir Moggabloggsins gegn þeim sem skrifa undir dulnefni koma til framkvæmda á nýjársdag. Mér finnst þetta mjög tillitslaust að gefa svona litinn frest. Ég reyndi að hringja í Árna Matthíasson en  hann er ekki við á blaðinu í dag. Vegna tímahraksins gríp ég því til þess ráðs að skrifa umsjónarmönnum blog. is þetta bréf.

Ég vona að þeir hjá Morgunblaðinu átti sig á eðli þessa máls og meðhöndli mig ekki eins og ég riti undir dulnefni og svipti mig ekki þeim rétti að geta bloggað við fréttir og birtast á forsíðu blog.is.

Þess má geta að ég er eini maðurinn á landinu sem ber nafnið Sigurður Þór Guðjónsson svo ég fæ ekki dulist en nokkrir heita Sigurður Guðjónsson.

Ég hef alltaf borið fulla ábyrgð á skrifum mínum og skrifa undir réttu og löglegu nafni.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Mogginn er að stunda persónunjósnir og ritskoðun af verstu sort. Sérstaklega af því að hér skrifa allir undir kennitölu og IP-tölur eru skráðar. En kannski Árvakur verði auðseljanlegri fyrir vikið?

Björgvin R. Leifsson, 30.12.2008 kl. 13:58

2 identicon

Vonandi verða nýjir eigendur mbl betri en þeir gömlu Siggi minn :)

DoctorE (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 14:18

3 identicon

Ekkert kemur manni að óvörum þegar blog.is er annars vegar.

Skúli Skúlason (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 14:39

4 identicon

Þetta er væntanlega stöðluð tilkynning sem þú hefur fengið, ágæti Sigurður Þór. Mannagreyin á Moggabloggi eru bara að vinna sitt starf af fyllstu nákvæmni og hafa naumast aðgengilegar upplýsingar sem ættu að vera öllu traustari en tölvulisti Þjóðskrár. Ekki er ég í nokkrum vafa um að þetta verður í besta lagi hjá þér þegar menn hafa fengið staðreyndir málsins í hendur. Hætt er við að Sigurmundur Níeljohníus Breiðfjörð Sigurmundsson hefði einnig lent í þrengingum í stakki tölvukerfis Þjóðskrár sem mér skilst að sé óbreytt frá dögum Babbages. En - ætli Halldór Kiljan Laxness hefði verið skyldaður til að blogga undir nafninu Halldór Guðjónsson?

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 14:50

5 identicon

Hver á Morgunblaðið?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 14:55

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Manni finnst eins og maður sé kominn í gamla sovét.  Ástæðan fyrir því að banna nafnlausum bloggurum (sem þó eru skráðir ábyrgðamenn undir fullu nafni og kennitölu, hjá blog.is) að blogga við fréttir umfram aðra sem blogga um fréttir er ekki uppgefin og að mér sýnist algerlega rakalaus. Þetta misbíður réttlætisvitund minni verulega og ég er 100% sjúr á því að þeir eru að brjóta lög.

Maður bíður eftir því hvað nýjir eigendur gera, annars slaufar maður þessu hér. Ég legg ekki nafn mitt við mannréttindaböðla.

Jón Steinar Ragnarsson, 30.12.2008 kl. 15:11

7 identicon

Ekkert getur réttlætt þetta... akkúrat ekkert.
Ég mun hætta 1. jan og halda áfram hjá einhverjum sem styður við frelsi... ekki neitt kjaftæði og aumingjaskap eins og mbl stundar.

DoctorE (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 15:29

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í þessu sambandi er það aðalatriðið að ég er EKKI nafnlaus bloggari heldur blogga undir því nafni sem ég þekktur fyrir og er ekki dulnefni. Best væri auðvitað að Þjóðskráin geti nú skráð mig sem Sigurð Þór eins og ég vildi fyrir allmörgum árum en það var ekki hægt vegna tölvutakmarkana. En kannski er það núna hægt. En ekki kemur það í ljós fyrr en eftir helgi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 15:31

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég lýsi yfir fullum stuðningi við málstað míns míns hjartkæra Doktors og allra sem blogga undir dulnefni. En þetta dulnefnisatriði út af fyrir sig nær þó  ekki til mín eins og ljóst ætti að vera.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 15:37

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég heiti reyndar meira en Sæmundur Bjarnason og lenti í hremmingum útaf því einu sinni. Fékk samskonar bréf og þú Siggi en það var útaf því að þegar ég skráði mig upphaflega mistókst eitthvað en ég skráði samt rétta kennitölu. Þegar ég reyndi aftur mátti ég alls ekki nota eigin kennitölu því búið var að nota hana (ég sjálfur í fyrri tilraun) Ég greip því til þess ráðs að nota kennitölu konunnar minnar því hana kunni ég. Þá gekk allt vel og því er ég búinn að blogga lengi á hennar ábyrgð. Nú kemur þetta í hausinn á mér vegna hreinleikaáráttu Moggabloggsguðanna og ég er eiginlega orðinn marklaus með öllu.

Sæmundur Bjarnason, 30.12.2008 kl. 15:56

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sæmundur! Þú ert greinilega kennitöluflakkari allmikill!

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 16:09

12 Smámynd: Ólafur Örn Nielsen

Sæll Sigurður,

Það er ekker til fyrirstöðu að þú notir Sigurður Þór Guðjónsson áfram eða hvaða nafn sem er ef því er að skipta.

Það eina sem er kveðið á um í nýju reglunum er að nafn skv. þjóðskrá birtist á höfundarsíðunni. Ég sé að þú hefur virkjað þennan möguleika þar.

http://nimbus.blog.is/blog/nimbus/about/

Ólafur Örn Nielsen, 30.12.2008 kl. 16:24

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég setti Ekki nafn mitt þannig á höfundarsíðuna og var einmitt að furða mig á því hvers vegna það er þar í þessu formi. Hélt að kerfið hefði sett það. En þetta er ekki fullt nafn mitt. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 16:44

14 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og einmitt af þessari ástæðu hélt ég nafn mitt myndi átómatískt breytast á bloggsíðunni sjálfri á nýjársdag. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 17:02

15 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ertu viss um að þú heitir ekki eitthvað annað

En tölvur hugsa ekki kannski er það málið

Hólmdís Hjartardóttir, 30.12.2008 kl. 17:05

16 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ekki nóg með að þessi breyting á blog.is sé fáránleg, heldur er hún klúðursleg í framkvæmd. eins og Hlynur spyr, undir hvaða nafni Halldór Kiljan Laxness yrði að skrifa undir, þá velti ég fyrir mér undir hvaða nafni rithöfundurinn Sjón yrði að skrifa. ég man ekki einu sinni hans fullt nafn. þekki hann bara sem Sjón.

ég spái dauðdaga Moggabloggsins. hversu hraður hann verður mun skýrast fjótlega eftir áramót.

Brjánn Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 18:01

17 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Það er jafnvægi (harmóní) í nafninu þínu Sigurður Þór. Lögfestu það, áður en óprúttnir náungar, sem blogga hér á blog.is stela því. Copyright og kvikmyndaréttindi eru svo næsta skref.

Sæmundur Bjarnason, þú ert nú of góður til að vera til. Mig grunaði oft að þú væri tilbúningur stórskálds.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 30.12.2008 kl. 18:28

18 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Villtu þá ekki verða umboðsmaður minn í vondum heimi Vilhjálmur Örn þegar heimsfrægðin tekur við!

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 19:36

19 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

You can bet on me Siggi

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 30.12.2008 kl. 20:33

20 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Svona kemur þetta út á stjórnkerfinu mínu, fast uppsett af kerfismönnum:

Birting blogg færslna á mbl.is
Til að blogg færslur birtist á ýmsum síðum mbl.is, í fréttum og á forsíðu blog.is þarf að birta fullt nafn ábyrgðarmanns samkvæmt þjóðskrá. 
Birta fullt nafn Sigurður Guðjónsson

Spurningin er þá sú hvort bloggið mitt birtist ekki á forsíðu mbl.is og ég megi ekki tengja við fréttir ef ég haka ekki við nafnið Sigurður Guðjónsson. Jafnvel hvort ég verði að fjarlægja Þórs nafnið úr höfundarboxinu á  forsíðu minnar bloggsíðu. Þetta kemur í ljós á nýjárssag en ég mun ekki sætta mig við að mbl. is svipti mig nafni mínu upp á sitt eindæmi.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 20:49

21 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það sést hér ekki reiturinn sem ég á að haka í og gefur víst til kynna að að ég samþykki nafnið Sigurður Guðjónsson í stað Sigurður Þór Guðjónsson.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 20:51

22 identicon

Í tilefni af umræðunni hérna vísa ég í ágætan bloggpistil sem fjallar um nafnleysi bloggara:

http://www.baldurmcqueen.com/2008/1267-lifi-nafnleysie

Malína (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 20:54

23 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er sammála þessari umfjöllun Baldurs út af fyrir sig. En menn verða samt að átta sig á inntakinu í umkvörtunum mínum. Hún er ekki um afstöðu blog.is til dulnefna á bloggum heldur um rétt mitt til að halda áfram að blogga undir því nafni sem ég þekktur fyrir og er skírnarnafn mitt lítillega stytt en bréfið til mín frá blog. is sem ég birti efst á færslunni  sýnist mér ógna þessum rétti mínum. Hvort á að neyða mig til að hafa aðeins nafnið Sigurður Guðjónsson sem höfundarnafn eingöngu vegna tölvutakmarkana Þjóðskrárinnar. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 21:22

24 identicon

Sigurður:  Núverandi vandamál þitt með mbl.is er einn angi af fasismanum sem á að fara að taka upp hérna í íslenska bloggheiminum.

Malína (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 21:32

25 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta mun víst vera þannig að ef ég haka ekki við nafnið birtist að vísu nafnið Sigurður Þór Guðjónsson í höfundarboxinu en ég mun ekki geta bloggað við fréttir og ekki birtast á forsíðu, þar sem ég hef verið tíður gestur og líklega ekki koma fram í neinum öðrum blogglistum blog.is. Ég verð í reynd ósýnilegur sem bloggari. Og þetta er gert ekki vegna þess að ég bloggi undir dulnefni heldur vegna þess að ég vil bera ábyrgð á skrifum mínum undir fullu nafni en ekki því nafni sem Þjóðskráin neyðir upp á mig. Er ekki eitthvað bogið við þessar aðfarir?

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 22:21

26 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég tek það fram að það væri mér sönn ánægja að birta nafn mitt ''samkvæmt Þjóðskrá'' á bloggsíðunni ef nafn mitt kæmi þar rétt fram. Um þetta snýst málið:hvort Moggabloggið geti þröngvað mönnum til að nota rangt nafn og refsað þeim á einhvern hátt fyrir að gera það ekki! Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að slíkt verði ofan á.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 22:38

27 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Varðandi ábendingu Brjáns um SJÓN er eðlismunur á því og mínu dæmi. SJÓN er skáldanafn en á bak við það er persóna sem ber ákveðið nafn. Sama er að segja um Laxnes. Það er ekki hægt að segja neitt við því að sú persóna komi fram við vissar aðstæður undir fullu nafni. Í mínu tilfelli er hins vegar um það að ræða að þess er krafist að ég sem ábyrgðarmaður síðunnar komi fram EKKI undir mínu rétta nafni heldur nafni sem tövluvankantar Þjóðskrárinnar hafa útlhutað mér. Undir því nafni neita ég algjörlega að koma nokkurs staðar fram. Nafn mitt er ekki skáldanafn heldur hluti af sjálfum mér sem ég læt ekki svipta mig. Allra síst þar sem ábyrgð liggur við. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 23:57

28 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þó ég sé ekki sammála stefnu blog. is um dulnefni viðurkenni ég rétt þess til að ráða þeim málum eins og það vill. En mitt mál  er annars eðlis. Enginn hefur siðferðilegan og líklega heldur ekki lagalegan rétt til að svipta menn réttindum sem aðrir hafa fyrir það eitt að nafn manns er ekki rétt skráð í þjóðskrá. Slíkt flokkast ekki undir raunverulegan rétt fjölmiðla til að ráða sjálfir hvað þeir birta heldur er þar ráðist inn á persónulegt svið viðkomandi, nokkurs konar friðhelgi hans. Réttur manna um raunverulegt nafn sitt hlýtur að vega þyngra en tölvuvankantar í Þjóðskrá. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.12.2008 kl. 00:48

29 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er farið að minna mig svolítið á baráttu Þorgeirs Þorgeirsonar fyrir því að fá að skrifa föðurnafnið sitt með einu s-i en ekki tveimur... Hann vann málið fyrir mannréttindadómstólnum í Strassburg.

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.12.2008 kl. 01:01

30 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst þetta afleitt að standa í svona þrefi. Mig langar bara til að ábyrgjast bloggsíðuna mína undir mínu harmóníska nafni í fullkomnu jafnvægi eins og ég hef alltaf gert án þess að það kosti mig nokkurs konar útlegð af kynningarsíðum Moggabloggsins sem ég hef þó aldrei beðið um einu orði að komast á en komist á samt.  Þetta er spurning um einhvers konar réttlæti og auðvitað heilbrigða skynsemi, að blindar reglur taki ekki af mönnum völdin. En asni var svo gaman að sjá þig í  sjónvarpinu svona kvöld eftir kvöld!  

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.12.2008 kl. 01:12

31 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Já, ég skil mætavel angur þitt vegna nafnsins. Ég hef þekkt þig í hvað... 35 ár eða svo og aldrei undir öðru nafni en þú bloggar hér. Hafði enda ekki hugmynd um að þú hétir Þórarinn að millinafni!

Mér fannst ekkert gaman að sjá mig, stökk inn á bað og leit í spegil og sjá... ég er ekki svona rúnnuð og með undirhöku! Hvernig þeir fóru að þessu hjá Kastljósi veit ég ekki.

Svo var annað mál hvað ég sagði - gaman væri að heyra hvað þér fannst um það. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.12.2008 kl. 01:13

32 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það sem þú sagðir var heilbrigð skynsemi eins og hún verður best og svo varstu líka voða sæt!

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.12.2008 kl. 01:19

33 Smámynd: Sævar Einarsson

Ég skrifaði færslu um þessa ritskoðun hérna og síðan sendi persónuvernd bréf um fyrirætlanir mbl.is. Það sem mér finnst stórkostlega undarlegt er að Morgunblaðið er stórskuldugt fyrirtæki og þarf á auglýsingartekjum að halda, fréttabloggið er STÓR partur af vinsældum mbl.is og þaðan hafa þeir tekjur af ýmiskonar auglýsingum, það er engu líkara en að stjórnendur Árvakurs vilji setja fyrirtækið á hausinn með þessum kjánalegum aðgerðum því þetta mun minnka vinsældir síðunnar til muna og leiða af sér minnkandi auglýsingartekjur.

Sævar Einarsson, 31.12.2008 kl. 13:26

34 identicon

Sæll Sigurður.

Ég lenti í þessu sama,en ég á skírnarvottorði mitt,og ég ætla að labba með það niður í þjóðskrá,ef að þeir geta ekki haft þetta rétt.

Gangi þér vel og gleðilegt nýtt ár.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 01:34

35 identicon

Jón Valur og Svavar sóknarprestur ásamt fleirum sem telja að hlekkir séu það eina sem dugar á frelsið sigruðu þessa lotu.
Málfrelsið = 0
Höft = 1

Það hafa margir skálað við ímyndaða einræðisguðinn sinn í nótt, takk Ironmaster fyrir að hefta frelsið og koma illmenninu DoctorE í burtu af blogginu :)

Gleðilegt ár.

DoctorE (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 11:46

36 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

til stuðnings mínum kæra Doctor, einhverjum hjartahreinasta og ærlegasta bloggara sem fyrirfinnst. En þetta er bara fyrsta lotan. Spyrjum að leikslokum. Gleðilegt ár!

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.1.2009 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband