Farsælt líf

Nú er ég að lesa bókina Farsælt líf, réttlátt samfélag eftir Vilhjálm Árnason heimspeking. Bókin fjallar um helstu siðfræðikenningar í sögu vesturlanda og er rökræða um þær. Hún er vel og skýrlega rituð og efnið er sannarlega áhugavert.

Það er hvíld fyrir hugann frá öllu kreppufárinu að lesa þessa bók sem beinir athyglinni inn á við. Þar á siðferðið upptök sín undir áhrifum frá samfélaginu og þaðan kemur gæfan og hamingjan. Hver einstaklingur verður að hirða um sinn innri mann hvernig sem allt veltist í umhverfinu.

Ég var svo að ljúka við að lesa Skáldsögu Íslands eftir Pétur Gunnarsson. Þetta er þriggja binda saga og mér finnst hún það besta sem Pétur hefur  gert. Hún er nokkurs konar saga þjóðarinnar og líka annarra landa í margar aldir. Sagan er listavel rituð og ótrúlega fræðandi að auki. Hún bregður  upp mjög sterkum myndum sem sýna mannlífið, kvikuna í því, á öllum tímum.

Með aldrinum minnkar hrifnæmið. Þegar ég var ungur gerðu sumar bækur mig svo glaðan  og manni fannst lífið meira virði á eftir. En þetta gerist sjaldan núorðið. Það gerðist samt við lestur þessarar sögu  hans Péturs.

Hún gerir mig glaðan og mér finnst lífið ofurlítið dýpra og betra en áður. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Er Skáldsögutrílógía Péturs komin út í kilju?

Lára Hanna Einarsdóttir, 9.2.2009 kl. 22:47

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég veit það ekki en ég fékk hana á bókasafninu með spjöldum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.2.2009 kl. 22:49

3 identicon

Besta hvíldin frá kreppuþrasinu er að tala við katteskjurnar sínar.  Það er góð uppskrift að innri friði og ró.

Mjá, stundum er lífið bara nokkuð notalegt og næs.

Malína (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 00:58

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Verst að sumar katteskjur eru svo malicious.

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.2.2009 kl. 01:04

5 identicon

... en róast vonandi með aldrinum eins og við.

Malína (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 01:09

6 identicon

Mjá.  

Kisi-kis (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 07:31

7 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ég veit ekki hvort það sé alls kostar rétt að hrifnæmið hverfi með aldrinum. Það er amk. talsvert einstaklingsbundið. Eftir því sem árin líða hrífst ég meir af nútímatónslist en áður. Það gerir þjálfun eyrans. Vinur minn á mínum aldri hrífst af engu meir nú orðið en Pervo Art. Það er hans Ella.

Með aldrinum festast í okkur alls konar fyrirframskoðanir, ástæðulaus gagnrýni, úrtölur, krossfarakomplexar og hömlur geðbrigðanna, sem meina okkur að hrífast. Því verður lífið daprara en ástæða er til. Að dást og hrífast er grundvallaratriði - eins og að draga lífsandann.

Hann hefur sagt okkur það hann Sigurður Nordal. 

Sigurbjörn Sveinsson, 10.2.2009 kl. 11:11

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvað mig varðar hefur áhugi minn og nautn af skádskap einfaldlega mnnkað en ekki á tónlist þó ég hlusti minna á hana. Ég hlusta bara á tónlist þegar ég er virkilega að hlusta en læt hana aldrei vera yfir mér þegar ég er að gera eitthvað annað, nema þá kannski þægilega poppmúsik. Hins vegar hefur áhugi minn á heimspeki og hvers kyns fræðum aukist um allan helming. Þessi fyrirbrigði finns mér núorðið segja mér meira um lífið en skáldskapur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.2.2009 kl. 11:31

9 Smámynd: Skarpi

Þessi saga Péturs er stórgóð - ég er alltaf að vona að það bætist fleiri bækur við. Ég las þær um tvítugt og verandi heimskur unglingur lærði ég mikið af þeim, fínt skáldlegt auga Péturs færði mann auðveldlega inní sögu Íslands og vakti áhuga minn, amk hjá mér. 

Mér finnst raunar að þessum bókum hans ætti að halda að unglingum. 

Einhverjar bókanna hef ég séð í kilju, amk þá fyrstu, en veit ekki hvort allar hafi komið út í því formi. 

Skarpi, 10.2.2009 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband