Stillt og prútt kuldakast

Kuldakastinu sem staðið hefur allan mánuðinn er nú lokið. Í gærmorgun kl. 9 var víðast hvar orðið frostlaust nema í inni í dölum á norðurlandi og þar hlánaði svo síðdegis. Í Reykjavík er meðalhiti fyrstu 12 daga mánaðarins -3,6 stig eða  3,7 stig undir meðallagi áranna 1961-1990. Frostakaflinn þar, sem hófst að kvöldi fyrsta febrúar, var þó ekki alveg samfelldur því hitinn komst ofurlítið upp fyrir frostmarkið nokkra klukkutíma dagana 7.-9. Annars hefur ekki hlánað. Órofnir frostkaflar í borginni hafa margir verið lengri en nú en þeir voru ekki nema fimm. Lengsti samfelldi frostakaflinn eftir að Veðurstofan tók til starfa 1920 var frá 5. til 25. janúar 1956. Sólarhringsmeðalhitinn var  núna þó undir frostmarki  alla dagana nema þ. 8. þegar hann náði 0,2 stigum í plús. Í innsveitum fyrir norðan og austan, frá Húnaflóa til Fljótsdalshéraðs, hlánaði ekki fyrstu 11 eða 12 dagana. Víða annars staðar fór hitinn þessa daga yfir frostmarkið í aðeins skamma stund eins og í Reykjavík og yfirleitt aðeins rétt yfir það.

Þetta var eiginlega ekki með verstu kuldaköstum. Hitinn komst til dæmis upp fyrir frostmark alla dagana einhvers staðar á landinu. Kaldast var auðvitað inn til landsins.  Hér sést mesta frost á hverjum sólarhring – frá miðnætti til miðnættis vel að merkja - á öllum stöðvum, mönnuðum sem ómönnuðum. Athygli vekur að mestur kuldinn alla dagana nema tvo er í byggð en ekki á fjallastöðvum í óbyggðum og er það reyndar í samræmi við veðurlagið. Allt eru þetta tölur um frost.

  1. 21,1 Möðrudalur         
  2. 24,5 Möðrudalur        
  3. 26,2 Svartárkot
  4. 22,2 Kolka
  5. 22,2, Kolka
  6. 22,4 Mývatn
  7. 27,5 Mývatn
  8. 21,8 Brú á Jökuldal
  9. 20.2 Möðrudalur
  10. 25,2 Svartárkot
  11. 27,1 Svartárkot
  12. 29,0 Svartárkot

Alla dagana mældist mesta frosið á sjálfvirkum stöðvum. Mesti kuldi þennan tíma á mannaðri veðurstöð var -22,7 stig á Grímsstöðum þ. 3. Einu sinni var Brú mönnuð stöð og ég veit ekki betur en að enn séu  mannaðar  stöðvar í Möðrudal og í Reykjahlíð við Mývatn þó upplýsingar frá þeim berist ekki fyrr en síðar.  

Engin allsherjar mánaðarmet í frosti – hvað þá algjör kuldamet yfir árið - voru sleginn í kastinu hvað einstakar veðurstöðvar snertir. Hins vegar kom dagsmet þ. 12. yfir allt landið, þegar miðað er við bæði sjálfvirkar og mannaðar stöðvar, en þá mældust -29,0 stig í Svartárkoti. Þetta met segir hins vegar ekki sérlega mikið því dagsmet eru oft að falla af ástæðum sem hér má lesa um. Og þetta er sjálfvirk stöð.

Metin fyrir dagsmet á mönnuðum stöðvum,  bæði 11. og 12. febrúar,  standa enn með glans. Sjá veðurdagatalið hér á síðunni sem ég var að uppfæra.  

Kuldinn þessa daga, þegar hann varð mestur og þar sem hann var mestur, var fyrst og fremst vegna útgeislunar á stöðum þar sem kalt loft safnast fyrir og kólnar enn meira. Loftþrýstingur var hár yfir landinu og norður undan, hæð yfir Grænlandi. Lofitð yfir landinu var því auðvitað kalt en þó ekki afskaplega kalt eins og best sést á því að aldrei var frost í heilan sólarhring á öllu landinu á öllum stöðvum. Inn til landsins var hins vegar góður tími til að landið kólnaði í hægviðrinu. Mestar  urðu einstakar kuldatölur undir lok kuldakastsins eins og oft vill verða í svona veðurlagi ,en kaldasti dagurinn að meðalhita sólarhringsins á landinu öllu var þó líklega sá 5., en sá 4. var einnig mjög kaldur og þeir 10. og 11.        

Ekki kom dropi úr lofti í Reykjavík nema þ. 2. (þá komu 0,4 mm) og til loka kuldakastsins. Sums staðar á vesturlandi og á suðurlandsundirlendi var alveg þurrt. Mest úrkoma var við norðausturströndina. Hvergi var hún samt mikil  og þó snjór lægi víðast hvar á jörð voru snjóalög ekki stórkostleg miðað við það sem búast má við um hávetur í kuldatíð. Mest snjódýpt var í Svartárkoti í Bárðardal og var 58 cm í byrjun mánaðar og bættist lítið við hana, var orðin 60 cm í lok kuldakastsins. Stórhríðar af norðri voru engar en gekk stundum á með éljum fyrir norðan. Enginn illviðri úr öðrum áttum komu.  

Þó þetta væri ósköp langt og leiðinlegt kuldakast var það eigi að síður góðviðrislegt og eiginlega góðærislegt í fasi. Prútt og stillt en ekki illvígt og óhamið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er nú ekki lengra síðan en í janúar 2007 að við fengum ca. 15 daga samfelldan frostakafla í borginni og snjóþyngsli að auki. Samt var mánuðurinn nálægt meðallagi í hita þegar upp var staðið.

Emil Hannes Valgeirsson, 14.2.2009 kl. 15:39

2 identicon

Alltaf gott að geta talað um veðrið í þessari tíðindalausu gúrkutíð sem hefur verið hérna í vetur...

Malína (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 21:03

3 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

oh, ég verð að viðurkenna að það er yndislegt að þurfa ekki að pakka börnunum í kuldagalla og ullarpeysur og loðhúfur, heldur geta sent litla guttann á stígvélum og úlpunni í skólann - meira að segja á hlaupahjólinu sínu...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 16.2.2009 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband